017-Kynni mín af UMFS

Mér hefur boðist að senda í afmælisrit U.M.F. Stokkseyrar, 50 ára, örstutta grein um sjálfvalið efni.

Á þessum merku tímamótum í sögu félagsins, hlýt ég að velja „U.M.F. Stokkseyrar og kynni mín af því”. Í fyrsta lagi sökum þess, að kynni mín af því hafa verið þau, að umfram allan annan félagaskap, sem ég hefi kynnst og starfað í fyrr og síðar, finnst mér það vera fyrst og fremst mitt félag, og ber þar margt til. Þegar frá barnsárum mínum, minnist ég hollra og hrífandi áhrifa, anda frá þessum samstillta, friðhelga reit unga fólksins í félaginu, sem óefað gerði æskuár mín auðugri af lífsgleði og lífsfegurð. Þannig var fyrsti sjónleikurinn, sem ég sá, leikinn og sýndur af þessu félagi, fyrsta leikfimis- og glímusýningin, sundsýningin, skautaferðir farnar af flokkum ungs fólks, og þar voru fyrstu ættjarðarljóðin sungin. Svo mætti lengi telja.

Má vera að þar valdi einnig nokkru um að þetta félag er það fyrsta, sem ég gerðist formlega félagi í. Verður sú stund í huga mínum ætíð helg. Minnist ég þess ætíð með virðingu hve handtak formannsins, Sigurðar Eyjólfssonar, var þrungið félagslegum góðvilja, þegar hann bauð okkur systkinin þrjú velkomin í félagið. Það var eins og allt það bezta í sál allra þeirra ungmenna sem fundinn sátu, mætti manni? Jafnvel sál hins virðulega gests, sem á fundinum var mættur, hins þekkta æskulýðsvinar, Aðalsteins Sigmundssonar. Síðar komst ég í enn nánari snertingu við félagið og fjölmargs æskufólks minnist ég með ánægju, örfandi handa þess, og þá ekki síður þætti stofnenda og eldri félaganna, sem ég hika ekki við að fullyrða að voru alla þá stund, meðan ég hafði veruleg kynni af félaginu, næst lögum og stefnuskrá félagsins, bjargið, sem byggt var á.

Get ég ekki stillt mig um að nefna hér í þessu sambandi nöfn eins og Ásgeirs Eiríkssonar, Bjarna Sigurðssonar, Sigurðar Sigurðssonar, Margrétar Júníusdóttur, Sæmundar Friðrikssonar, Guðjóns Jónssonar og síðast en ekki síst, mannvinarins og bindindishetjunnar Gísla Pálssonar, sem þreyttist aldrei á að leika lag á hljóðfæri og berjast gegn áfengisbölinu.

Frá félagsstarfinu í þessu félagi á ég án efa mínar fegurstu endurminningar, frá fundarlífinu, flokkastarfinu, skemmtanastarfinu, skemmtiferðunum og félagsblaðinu „Þór“.

Og á 50 ára afmælisdegi félagsins á ég þá beztu afmælisósk til þess að því takist sem lengst að varðveita á hugarhimni sínum birtuna og heiðríkjuna af þeim hugsjóna og frelsiskyndli, sem ungmennafélögin voru upphaflega stofnuð af, sem miðast við þá félagshyggju að alheimta ei daglaun að kvöldi. Því á meðan börn fæðast á landi hér og afa þarf upp heilbrigða, hrausta æsku, er þörf á þessum þjóðholla félagsskap, sem setti sér að markmiði, þegar í upphafi, ræktun lands og lýðs og valdi sér kjörorðið: Ísland allt.

Jón Ingvarsson

Leave a Reply

Close Menu