018-Brot úr gamalli ferðasögu

Frá ferð U.M.F. Stokkseyrar til Klausturs.

Það var lagt upp í ferð hinn 8. júlí 1951. Farkosturinn var snotur bifreið frá K.Á., með dauðadæma vél.

Fólk var almennt í sólskinsskapi, eins og vera ber við slík tækifæri. Menn göspruðu og gerðu að gamni sínu, meðan þeir völdu sér sæti og reyndu auðvitað að ná í þau beztu.

Svo var brunað af stað, með Snorra Þór við stýrið. Ekið var sem vegir liggja austur Flóa og ekki numið staðar, fyrr en á Rauðalæk. Þar hugðust okkar beztu meyjar bæta úr gleymsku sinni, er þær höfðu tekið myndavélar sínar með, en gleymt því sem við á að éta, filmunum.

Ekki fengu þær hag sinn betraðan þarna og ekki heldur á Hellu, þar sem næst var numið staðar.

Á Hellu fór flokkurinn um sem innrásarher og lagði undir sig öll opinber og óopinber náðhús staðarins. Hernámið stóð ekki lengi, því áfram var ekið, unz komið var að Skógarfossi.

Fólk var þegar hér var komið, orðið mjög matarþurfi og tók nú hver sinn mal og bjó til snæðings úti í Guðs skrúðgrænni náttúru. Mátti í nestinu margra grasa kenna, allt frá amerísku jórturtogleðri til rammíslenzks matar. Snæddu nú menn með ánægju og varð gott af. Síðan var fossinn skoðaður. Ekki var laust við að fjallaþrá gripi suma, og gekk ekki sem bezt að hóa saman, enda erfitt að þreyta rómkeppni við fossinn.

Loks komust við þó að Skógaskóla og skoðuðum hann innst sem yzt. Mikið þótti mönnum til þess koma að sjá byggðasafnið og gaman að virða fyrir sér ullarkamba þá hina fornu, sem eru samkynja þeim er Grettir notaði forðum á hrygg föður síns. Einnig dvaldist nokkrum við að skoða forn staup, og stóð ég mig að því að þefa af þeim, ef vera kynni að enn væri ilmur hestaskálarinnar ekki rokinn. Hugurinn var sveimandi aftur í grárri forneskju, þegar við komum upp úr safnherberginu, en þar kom nútíðin blaðskellandi á móti augunum, í mynd tveggja feiknmikilla abstrakt málverka og forðuðum við okkur af stað hið bráðasta.

Ekki varð neitt til tíðinda, fyrr en komið var að Vík. Að vísu ætlaði bílgarmurinn ekki að geta skreiðst upp heiðina og leit það illa út í bili, en hafðist þó.

Í Vík kom nokkurt los á hópinn og kurr kom upp í liðinu, þegar fréttist að Víkarar ættu von á sprellfjörugum Vestmannaeyingum á dansleik er þar skyldi háður um kvöldið. Tókst þó fyrir tilstilli góðra manna og nokkurrar lævísi, að sannfæra meyjar vorar um að bezt væri að halda áfram, ef lengra ætti að fara. Var enda gefið fyrirheit um fangbrögð við Rangæinga í bakaleið, því dansa átti þá að Strönd.

Bar nú fátt til tíðinda, nema hvað eitthvað virtust þeir er nærri meyjum sátu, óstöðugir í sessi á beygjum, en þær voru margar á Höfðabrekkuheiði.

Einhver óp voru framleidd er farið var um níðþröngar brýrnar þar austurfrá, auðvitað til áréttingar kvenlegum eiginleikum. Að vísu var stundum tæpt að bíllinn kæmist yfir, vegna þrengsla, en Snorri sigraði allar hindranir.

Brúin á Hólmsá reyndist erfiðust, því ekki náði Snorri beygjunni, nema með því að láta brúarkantinn snúa bílnum á rétta leið. Kaffið fór nú að segja til sín og var því áð undir Krossafelli og þar tóku svo menn á ný til matar.

Eldhraunið var seinfarið, því sandur hafði setzt í skafla á veginum. Lét þá bíllinn öllum illum látum, svo allt lenti í einni bendu í aftursætinu. Ultu þar menn og meyjar úr sætum, á víxl.

Fékk þá margur meyju í fang, sem annars hefði ekki orðið þeirrar gæfu aðnjótandi.

Þegar loks var komið að Skaftá, var bíllinn, jafnvel tómur, of þungur fyrir brúna, en Snorri lét það ekki á sig fá, og klakklaust komst hann yfir. Við vorum kornin í fyrirheitna landið.

Tjaldstaður var valinn og búist til náða. Gætti þar siðsemi í hvívetna, en ekki gekk hljóðlaust að komast í værð. Höfðu þar ýmsir betur hávaðaframleiðsluna.

Þegar íbúar eins tjaldsins voru lausir við allan hávaða úr sínum búk, tóku aðrir við og gekk á ýmsu, áður en allir höfðu talað nægju sína.

Óskar Magnússon

Leave a Reply

Close Menu