Kotleysa var hjáleiga frá Traðarholti og er getið fyrst í bændatali 1681, en í Jarðabók ÁM. 1708 er sagt, að hún sé byggð fyrir manna minni. Svo er að sjá sem Kotleysa hafi verið byggð úr landi tveggja jarða, Traðarholts og Stokkseyrar, því að Kotleysubær stóð í sjálfri markalínunni milli þessara jarða. Bendir það til þess, að einn og sami eigandi hafi verið að báðum jörðunum, þá er byggð var upp tekin á Kotleysu, en svo var bæði á landnáms- og söguöld og aftur á tímum Stokkseyrarættarinnar á 16. og 17. öld.
Í þessu sambandi er rétt að minnast á nafn hjáleigunnar. Um það er gamall ágreiningur, sem kemur þegar fram í Jarðabók ÁM. 1708. Í elztu heimildunum er ritað Kotleysa (Bændatal 1681, manntal 1703 og Jarðabók ÁM. 1708 sem aðalnafn). En í jarðabókinni er bætt við: ,,nokkrir kalla Kostleysa.“Á síðari tímum hafa og sumir ritað nafnið þannig, enda verður þá merking þess ljós og auðskilin. Þess má og geta, að í ritgerð sinni, Bæjanöfn á Íslandi, telur Finnur Jónsson, að Kostleysa sé eflaust hið rétta nafn ( Safn IV, 570). En þessu mun þó annan veg farið. Í elztu heimildunum, sem áður voru nefndar, er alls staðar ritað Kotleysa, enda ætlum vér það vera rétta og upphaflega nafnið. Skýringin á því er sú, að nafnið sé gefið annaðhvort í gamni af þeim, er þar byggði, eða í lítilsvirðingar skyni af öðrum. Má til samanburðar minna á bæjanöfn eins og Látalæti, Bráðræði, Vitleysa og Ráðleysa, sem eru öll þannig til komin. Þegar frá leið, fóru menn að leita að ýmsum skýringum á Kotleysu-nafninu. Ein skýringin verður þá sú, að rétta nafnið sé Kostleysa og það sé dregið af landskostunum. Enn önnur skýring og þó yngri er sú, að rétta nafnið sé Kotsleysa, og svo hafa ýmsir ritað á síðari tímum. Teljum vér, að þetta séu aðeins skýringartilraunir, sem algerlega beri að hafna.
Kotleysa fylgdi Traðarholtstorfunni á fyrri tíð, en um síðustu aldamót var Pétur Guðmundsson bóndi á Kotleysu eigandi að öðrum helmingi hennar. Eftir hans daga gekk hálf jörðin kaupum og sölum um hríð. Bjarni Grímsson á Stokkseyri keypti hana 1918 af Boga Brynjólfssyni, en seldi aftur 1920 Guðna Guðmundssyni í Eystri-Móhúsum. Vilhjálmur Gíslason í Vestri-Móhúsum keypti 1922 af dánarbúi Guðna, en seldi hana aftur 1926 Sæmundi Sveinssyni í Vestri-Móhúsum. Árið 1930 fluttist Sæmundur til Keflavíkur og seldi þá helming sinn í Kotleysu Markúsi Þórðarsyni í Grímsfjósum, sem hefir átt hann síðan. Hinn helmingurinn gekk til erfingja Þórðar Pálssonar í Brattsholti. Af þeim parti er Guðrún Þórðardóttir í Hoftúni, ekkja Gísla Pálssonar, eigandi að 5/6 hlutum, en Sigurður í Aðalsteini, sonur Páls Þórðarsonar í Brattsholti, að 1/6 hluta. Yrkir Sigurður þessa eign sína sjálfur, Bjarnþór í Hoftúni eign Guðrúnar og Andrés í Grímsfjósum helming föður síns. Nýbýlið Grund var byggt úr landi Kotleysu árið 1939. Á fyrri tímum bjuggu á Kotleysu ýmsir góðir bændur og vel efnum búnir.