Jörð þessi er fyrst nefnd í sambandi við atburði, sem gerðust um 1477 og síra Jón Egilsson segir frá í Biskupaannálum sínum. Óaldarseggir nokkrir, er taldir voru danskir, höfðu vetursetu á Stokkseyri. ,,Einn þeirra átti frillu upp á Kekki, og þann drápu þeir.“ Eftir það unnu þeir ýmis hermdarverk og sigldu síðan óáreittir af landi burt (Safn til sögu Íslands I, 39). Hér er talað um Kökk sem ein jörð væri, eins og hún var að fornu. Einhvern tíma á miðöldum var henni hins vegar skipt í þrjú býli, og er sú skipting um götur gengin fyrir 1681 og sennilega löngu fyrr. Úr Kekki, sem var 20 hndr. að dýrleika, urðu þessi þrjú býli: Efri-Kökkur, síðar nefndur Mið-Kökkur, þar sem bærinn á Kekki var upphaflega, Syðri-Kökkur, síðar nefndur Syðsti-Kökkur, hvor jörðin um sig 7 hndr. að dýrleika, og Kakkarhjáleiga, 6 hndr. Skiptingin hefir farið þannig fram, að fyrst hefir Kakkarhjáleiga verið byggð úr jörðinni, en síðan hefir heimajörðinni, sem þá var eftir, verið skipt í tvo jafna hluta. Hið nána samband, sem hélzt lengi milli jarðanna tveggja, sýnir þetta meðal annars. Í manntali 1703 er tekið fram, að Efri-Kökkur og SyðriKökkur séu sagðir ein jörð að fornu og sé því einn niðursetningur hjá báðum bændunum, og í Jarðabók ÁM. 1708 er talað um Kökk sem eina jörð með tveimur ábúendum. Í báðum þessum heimildum er Kakkarhjáleiga talin alveg sér á parti og sögð byggð úr heimalandi fyrir manna minni. Lengi eimdi eftir af því að tala um Kökk eða Kekki sem eina jörð, því að í skýrslum hreppstjóra um jarðir og búendur hreppsins um 1845 er t. d. aðeins nefndur Kökkur með þremur ábúendum, og er þá Kakkarhjáleiga talin þar með (Jarðatal 1847, 61). Það varð og til þess að tengja jarðir þessar meir saman, að fram undir lok 18. aldar var sami eigandi að þeim öllum. Voru þær lengi í eigu Stokkseyrarættarinnar, unz mad. Þórdís Jónsdóttir í Dvergasteinum seldi þær í þrennu lagi um og eftir 1790, og hefir hver þeirra um sig verið séreign síðan.
Til er þjóðsaga ein um skiptingu jarðarinnar og nafnbreytingu í sambandi við hana. Sú saga er þannig: Kekkirnir voru upphaflega ein jörð og hét þá Árkvörn. Við hana er kenndur Árkvarnarlækur, sem er landamerki milli Stokkseyrar og Kakkanna. Bóndinn í Árkvörn var eigandi jarðarinnar. Hann var orðinn gamall og blindur. Þrjá sonu átti hann, og vildu þeir allir fá jörðina til ábúðar eftir föður sinn. Gamli maðurinn ákvað þá að skipta jörðinni á milli þeirra, og féllust þeir á það. Hann skipti jörðinni í þrjá hluta, lét svo stinga upp þrjá kekki og varpaði hlutkesti um, hvaða jarðarhluti skyldi fylgja hverjum þeirra. Eftir það sparn hann fæti við og lét syni sína kjósa um, hvern kökk þeir vildu. Létu þeir sér þessar málalyktir vel líka, en upp frá því var jörðin nefnd Kökkur eða Kekkir. (Sögn Þórðar Jónssonar frá Stokkseyri, sbr. Árbók Forni. 1905, bls. 10).
Árið 1930 voru allar þrjár jarðirnar, sem úr Kekki voru byggðar, skírðar upp með stjórnarráðsleyfi. Nefnist Mið-Kökkur síðan Svanavatn, SyðstiKökkur Brautartunga og Kakkarhjáleiga Hoftún, sjá um þær undir þessum nöfnum. Í þessu riti eru þó hin gömlu nöfn notuð af sögulegum ástæðum, svo lengi sem þau eiga við.