Í Stokkseyrarhreppi hinum forna hefir að vísu lengstum verið ein kirkja, en kunnugt er þó um kirkjur eða bænahús á 5 stöðum alls í hreppnum. Sum þessara guðshúsa áttu sér raunar skamma ævi, en þó er rétt að geta þeirra hér allra, og skulu þau talin eftir aldri, eftir því sem heimildir nefna þau.
Á Stokkseyri hefir verið sóknarkirkja meginhluta hreppsins frá ómuna tíð, og var þar Maríukirkja í kaþólskum sið. Engar heimildir eru til um það, hvenær fyrst hafi verið reist kirkja á Stokkseyri, en um aldamótin 1200 lét Páll biskup Jónsson gera skrá um allar kirkjur í Skálholtsbiskupsdæmi, sem presta þurfti til að fá, og reyndust þær vera 220 að tölu. Í skrá þessari, sem enn er til, að vísu ekki alveg í upphaflegri mynd, er Stokkseyrarkirkju getið í fyrsta sinn í heimildum.[note]Ísl. fornbrs. XII, 8, sbr. Bisk s. I, 278 (Páls saga, 11. kap.). [/note] Þar sem hún er prestskyldarkirkja svo snemma á tímum og því án efa einnig alkirkja og sóknarkirkja, verður að teljast líklegt, að hún hafi verið reist þegar á 11. öld eða í frumkristni hér á landi. Stokkseyrarkirkja hefir staðið af sér alla storma tímans í 9 aldir, siðabyltingar í landi og breytingar á kirkjuskipun og kirkjulögum, þó að hagur hennar og aðbúnaður hafi oltið á ýmsu í aldanna rás. Saga hennar er því orðin löng og allviðburðarík, og verður hún nánara rakin hér á eftir.
Á Háeyri var kirkja um 1300 samkvæmt því, er segir í Jartegnabók Þorláks biskups hinni yngstu. En svo bar til á Drepstokki um vetur, að ferærðan bát tók út um flóð í stormi og sjógangi með öllu, sem í bátnum var, selanótum vel fertugum, árum, austkeri og þiljum. En er maður sá, sem gæta átti bátsins og Jörundur hét, saknaði hans, reið hann út til Óss, en fann ekki bátinn. Hét hann þá á hinn allsvaldanda guð og hinn sæla Þorlák biskup til þess, að báturinn með öllu, sem í var, fyndist: að ljá hest upp í Skálholt undir klyfjar staðarins og gefa raft til kirkjunnar á Háeyri og skipta með fátækum mönnum þeim sel, sem fyrstur veiddist í nótunum. Þess þarf varla að geta, að heilagur Þorlákur varð miskunnsamlega við þessu áheiti.[note]Bisk. s. I, 256-257. [/note] Þessi er hin eina heimild, sem getur um kirkju á Háeyri í kaþólskum sið, enda mun þar hafa verið um hálfkirkju að ræða. Hins vegar var þar bænahús um nokkurn tíma á dögum Rannveigar Jónsdóttur, er þar bjó um miðja 17. öld (d. 1654). Um það segir svo í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns árið 1708: ,,Bænhús var hér byggt fyrir meir en 60 árum, og voru tíðir veittar, þegar heimafólk meðtók sacramente, um 6 eður 8 ár, og var þetta sérdeilis gjört fyrir bæn ábúandans, sem var háöldruð kvenpersóna, Rannveig Jónsdóttir. En síðan hún andaðist, vita menn ei, að hér hafi tíðir veittar verið.“[note]Jarðab. Á. M. II, 72. [/note]
Á Hæringsstoðum er getið um kirkju í aðeins einni heimild, Vilkinsmáldaga frá 1397.[note] Ísl. fornbrs. IV, 58. [/note] Átti kirkjan þar 11 hndr. í heimalandi, 3 kýr og 3 ær, auk allmargra kirkjugripa. Kirkjan var helguð Þorláki biskupi og getur því ekki verið eldri en frá 13. öld. Þar hefir aldrei verið prestskyld, sóknarfólk naumast verið annað en heimamenn og tíðir veittar frá Gaulverjabæ gegn ákveðnu gjaldi til prests. Hér hefir því verið um hálfkirkju að ræða til heimilisnota. Ókunnugt er að sjálfsögðu, hvenær kirkjan lagðist niður, en hafi hún þraukað fram að siðaskiptum, hefir hún verið meðal þeirra hálfkirkna og bænahúsa, sem af voru tekin með Bessastaðasamþykkt 1555.[note]Ísl. fornbrs. XIII, 55. [/note] Hennar er að minnsta kosti ekki getið í máldagasafni Gísla biskups Jónssonar frá því um 1570.
Á Skúmsstöðum er getið um kirkju í Nýjaannál árið 1412 með svofelldum hætti: ,, Víg Einars Herjólfssonar; var hann stunginn í hel með knífi upp á uppstigningardag í kirkjugarðinum á Skúmsstöðum.“[note]Isl. Annaler ved G. Storm, 209; Ísl. annálar, útg. Bókmenntaíél., I, 17; Annálar (og nafnaskrár), Rvík 1948, 146; Um Einar Herjólfsson, Vísir 23. okt. 1932; Skúmstaðakirkja o. fl., Vísir, 29. okt. 1932. [/note] Ekkert er frekara kunnugt um tildrög þessa voveiflega atburðar, en þessi sami Einar Herjólfsson var einum áratug áður viðriðinn mikla ógæfu, því að með skipi hans, sem kom út í Hvalfirði 1402, barst svartidauði hingað til lands. Einar mun hafa verið norskur kaupmaður, því að báðir þeir örlagaatburðir, sem nafn hans er tengt við og nú voru nefndir, gerast á fjölsóttum verzlunarstöðum þeirra tíma, Hvalfirði og Eyrarbakka. Kirkjan á Skúmsstöðum er hvergi nefnd í máldögum. Eru allar líkur til þess, að hún hafi fyrst og fremst verið útlendingakirkja. Hún var enn til á dögum Ögmundar biskups Pálssonar (1521-1541) að sögn síra Jóns Egilssonar í Hrepphólum, en frásögn hans er á þessa leið: ,,Þar var og kapella, stór nokkuð, hvar inni að bæði var sungið og messað, og þar sér enn merki til hennar, lítið hólkorn til austurs undan húsunum, þar í sandinum, svo sem af veggnum eða gaflhlaðinu.“ [note]Safn til sögu Íslands I, 80. [/note]Auðsætt virðist af orðum síra Jóns, að hann hafi séð með eigin augum leifar hinnar fornu Skúmsstaðakirkju.
Á Eyrarbakka var loks reist kirkja, sem enn stendur, og var hún fullger og vígð 14. des. 1890. Verður hennar nánara getið hér síðar.