118-Kirkjugripir

Kirkjugripir

Í Þjóðminjasafni er til nákvæm lýsing á kirkjugripum Stokkseyrarkirkju, skráð af Matthíasi Þórðarsyni þjóðminjaverði 19. ágúst 1909 og endurskoðuð 7. sept. 1916. Þykir vel við eiga að birta lýsingu hans hér, en hún er á þessa leið:

„Altaristaflan. ekki gömul; allstór og allgott málverk, himnaförin, ekki merkt. Umgjörðin er með íslenzkri áletrun neðst, ritningargreininni Luc. 24, 51. Útlent verk. Þarf endurbótar, einkum umgjörðin. -Altarisdúkur úr hvítu lérefti með miklum útsaumi, gerður og gefinn af frú Margréti Bjarnadóttur frá Reykhólum (nú frú Rasmus í Reykjavík, forstöðukonu málleysingjaskólans). – Altarisklæði úr rauðu flujeli, með gullvírsleggingum og kögri. – Altarisstjakar stórir og alllaglegir, vel grafnir, áttstrendir, og er stéttin með tungum, 18. 7 cm. að þvermáli; hæðin er 50.5 cm.; þeir eru úr látúni og þunngerðir; nýlegir. Plata er fest neðan á stéttina með nafni verksmiðjunnar (eða útsölumannsins): F. F. JUNCKER. KJ0BENHAVN. – Koparstjakar gamlir og góðir, einkennilegir; 28 cm. að hæð; stéttin 18 cm. að þvermáli. – Hjálmar 3; einn er yngstur og innstur, stór mjög, úr messing, með 2 krönzum og eru 5 ljósaliljur í hvorum; eru þær tvöfaldar í neðri kranzinum, svo ljósin verða 15 alls. Næsti er úr gleri allur og hefir verið prýðilegur. Yzti er úr látúni, var mjög spanskgrænugur 1909, en ný-,,bronzeraður“ 1916; hefir verið með 8 ljósaliljum, en 2 þeirra hafa verið brotnar af. Hann er helzt í „empire“-stíl. – Ljósarmur úr gleri er við annan kórstafinn, líklega úr öðrum glerhjálmi eins og hinum. Við hinn kórstafinn er tvöfaldur armur, nýlegur, úr vír, ómerkur. – Veggstjakar 2, gamallegir, íslenzkir, úr kopar, eða ljósaliljur, líklega af hjálmi, eru hjá prédikunarstólnum. Leggur er og til úr gömlum koparhjálmi; hann er útlendur að sjá; ef til vill eru þó armarnir eða liljurnar hjá prédikunarstólnum úr þeim sama hjálmi. – Yfir söngloftinu er stór olíulampi; búðarlampi, nýlegur. -Tveir litlir messingararmar eru þar á stoðum, gamallegir, útlendir. – Skarbítur gamallegur úr járni, með broddi, fótalaus. – Annar úr kopar, með skemmdri fjöður, fótum og hefir verið með broddi, sem nú er brotinn af. – Silfurkaleikur með tilheyrandi patinu, allstór, 23.5 cm. að hæð, skálin 13 cm. að þvermáli efst og stéttin 10.5 cm. að þvermáli neðst. Frá Michelsen gullsmið í Khöfn með stimpli hans, ártalsstimpli: 57, merki Khafnar með sama ártali og með stimpli silfurvarðar R-1. Hnúður og stétt laglega grafin. Patínan er 15 cm. að þvermáli og er með sömu stimplum. – Vínkönnur 2 og einar oblátuöskjur úr svörtu postulíni, danskar og venjulegar, nýlegar og víðar til hér í kirkjum ( frá því í tíð Hallgríms biskups). – Patínudúkar 3; 2 eru ferhyrndir, og er annar þeirra úr rauðu flujeli, 18.3 cm. á hvorn veg með lítilfjörlegum gullvírsútsaumi og mjóum kniplingum umhverfis; I I N (þ. e. Í Jesú nafni) á miðju; – annar úr rósofnu og bekkjóttu silki, 19.5 cm. að þvermáli, skrautlaus; þriðji er kringlóttur, úr rauðu flujeli, með silfurvírssnúrum og kögri; þvermál auk kögurs 16.5 cm.; er þessi nýjastur. – Þjónustukaleikur og patina úr silfri, gyllt innan, íslenzk, gamalleg; víravirki á hnúð. Hæð 7.5 cm.; þvermál skálar 5.3 cm., stéttar 6.1 cm., patínu 6.2 cm. Saman í rendu, látúnsbúnu tréhylki. – Skírnarfat nýlegt úr látúni, silfrað(?). Hið gamla kvað vera hjá Magnúsi Stephensen, fv. landshöfðingja; sagt vera marghyrnt. – Höklar 2; hinn eldri, sem enn er nýlegur, er úr sams konar rauðu flujeli eins og altarisklæðið; með gullborðakrossi og -leggingum. Hinn er nýfenginn frá „Dansk Paramenthandel“ í Khöfn; einnig með gullborðakrossi og -leggingum. – Einn gamall hökull, sem kirkjan átti 1909, var keyptur til Þjóðminjasafnsins 1914, er þar nr. 6696. – Rykkilín 2 nýleg, einkum annað; vitanlega bæði úr hvítu lérefti. – Púltklæði úr rauðu flujeli af prédikunarstól, ómerkilegt. – Fjórir undirdúkar úr „floneli“, hafðir undir stjakana á altarinu; nýlegir. – Rósþrykktur sirshjúpur er yfir altarinu til þess að hlífa altarisklæðinu og nýja höklinum, sem breiddur er yfir og framan á altarið. – Harmonium nýlegt, ameríkanskt. – Söngtafla með lausum spjöldum, dönsk áletrun. – Kirkjuklukkur tvær, steyptar úr kopar og báðar góðar; önnur er 33 cm. að þvermáli neðst, leturlaus; hin er 36.5 cm. að þvermáli og er með áletrun: ME FVDIT M. C. TROSCHELL Aö 1762. SOLI DEO GLORIA; [note]Það er: Mig steypti M. C. Troschell árið 1762. Einum guði dýrð. [/note] og neðar B. S. S.“

Allir meiri háttar gripir, sem Matthías Þórðarson lýsir hér að framan, eru enn í dag í kirkjunni, en nokkrir hinna ómerkari eru gengnir úr sér eða týndir. Þannig er um ljósarminn, veggstjakana, olíulampann, messingararmana, skarbítinn, annað rykkilínið, púltklæðið og undirdúkana. Glerhjálmurinn brotnaði í jarðskjálftakipp, og altarisdúkurinn er ekki notaður nú. Dúkurinn, sem nú er á altarinu, er frá 1955 og er gjöf frá Óskari Jónssyni frá Túnprýði (d. 1958). Að öðru leyti hefir kirkjan ekki eignazt neina mikils verða muni síðan 1916 nema orgelið. Það var keypt árið 1942, en hitt, sem Matthías nefnir, er nú í Gaulverjabæjarkirkju.

Á stærri kirkjuklukkunni, sem ber áletrun þá, sem að ofan er til færð, eru letraðir stafirnir B. S. S. Þess er varla að vænta, að menn átti sig á því nú eftir tvær aldir, hvað stafir þessir eiga að þýða. En á því getur enginn vafi leikið, að þeir eru fangamark Brynjólfs Sigurðssonar sýslumanns í Hjálmholti. Eins og áður er sagt, var hann eigandi Stokkseyrarkirkju og lét endurbyggja hana árið 1752. Hann hefir látið gera klukkuna og gefið kirkjunni hana. Mun hún nú vera ein af fáum sýnilegum minjum um þann ríkiláta höfðingsmann.

Leave a Reply