You are currently viewing Hóll

Hóll

Hóll var hjáleiga frá Stokkseyri og er fyrst getið í bændatali 1681 og í manntali 1703 (misprentað þar Höll). Á 19. öld var býlið stundum kallað Stokkseyrar-Hóll til aðgreiningar frá Hól í Gaulverjabæjarhreppi (Vorsabæjar-Hól). Hóllinn var hluti af Stokkseyrareigninni, unz mad. Þórdís Jónsdóttir í Dvergasteinum seldi hann skömmu fyrir aldamótin 1800 Jóni skipasmið Snorrasyni. Þegar búi Jóns var skipt eftir lát konu hans (Skiptab. Árn. 11. jan. 1819), hefir Hóllinn komið í hlut Sigríðar, dóttur þeirra, konu Jóns Jónssonar í Hellukoti og síðar í Dvergasteinum, því að 6. júní 1820 seldu þau Hólinn Jóni hreppstjóra Þórðarsyni í Móhúsum. Kom hann síðan í erfðahlut Sigríðar yngstu, konu Adólfs Petersens á Stokkseyri, en sonur þeirra, Adólf á Stokkseyri, erfði hann eftir þau. Hinn 17. okt. 1904 seldi Adólf Jóni Pálssyni bankagjaldkera, tengdasyni sínum, hálfan Hólinn, en síðar erfði Anna Adólfsdóttir, kona Jóns, hinn helminginn. Var hann síðan í eigu þeirra hjóna, unz Anna seldi hann eftir lát manns síns (1946) Jarðakaupasjóði ríkisins.

Leave a Reply