Hoftún var upphaflega hjáleiga frá Kekki, eins og gamla nafnið bendir til, byggð úr þeirri jörð, áður en henni var skipt í tvennt, sjá Kökk. Jarðarinnar er getið fyrst í manntali 1703, og í Jarðabók ÁM. 1708 segir, að hún sé byggð af heimalandi fyrir manna minni. Árið 1930 var jörðin skírð upp og nefnist síðan Hoftún. Gömul örnefni þar í túninu réðu vali hins nýja nafns. Þar er tóft ein, sem kölluð er Hoftóft og hjá henni lítill bali, sem kallaður er Hofhóll. Er það ætlun manna, að þar hafi verið hof Stokkseyringa hinna fornu (sbr. Árbók Forni. 1905, bls. 10-11).
Á fyrri öldum voru Kekkirnir ásamt Kakkarhjáleigu jafnan sameign og munu snemma hafa komizt í eigu Stokkseyrarættarinnar. Um og eftir 1700 átti Þórdís Markúsdóttir á Stokkseyri þessar jarðir, og hafa þær verið erfðagóz hennar, en undir lok 18. aldar seldi dótturdóttir hennar, mad. Þórdís Jónsdóttir í Dvergasteinum, þær hverja í sínu lagi, og hafa þær verið aðskildar síðan. Hinn 3. des. 1793 keypti Guðlaug Jónsdóttir í Vestri-Móhúsum Kakkarhjáleiguna, 6 hndr. að dýrleika, fyrir 70 ríkisdali. Raunar mun sonur hennar, Jón Þórðarson síðar hreppstjóri, hafa verið hinn eiginlegi kaupandi, enda segir Brynjólfur frá Minna-Núpi, að fyrsta jörðin, sem Jón keypti, hafi verið Kakkarhjáleiga (Kambsránssaga I, 4. kap., í athugasemd). Jón í Móhúsum átti síðan jörðina, meðan hann lifði, en eftir hans dag kom hún í hlut Sigríðar yngstu, konu Adólfs Petersens á Stokkseyri. Eftir því, sem næst verður komizt, erfði Guðríður, dóttir þeirra, kona Hinriks í Ranakoti, Kakkarhjáleiguna, og seldi hún hana, eftir að hún var orðin ekkja, Páli Jónssyni á Syðra-Seli. Síðan eignaðist Gísli bóndi i Hoftúni, sonur Páls, tvo þriðjunga jarðarinnar, og er Guðrún, ekkja Gísla, nú eigandi að þeim. En einn þriðjung úr jörðinni eignuðust erfingjar Bjarna Pálssonar í Götu, en þeir seldu núverandi eiganda hans, Bjarnþóri í Hoftúni.