Hið fyrsta, sem eg hefi fundið um félag þetta, er eftirfarandi bókun í fundargerð Bárufélagsins 19. jan. 1907: ,,Samþykkt að leyfa Kjartani Guðmundssyni búfræðing að bera upp á fundi málefni, sem plássið varðaði. Málefnið var að mynda axíufélag til [að] byggja sjógarð, sem næði út að Hraunsá, og taka svo hið afgirta svæði innan garðsins til ræktunar fyrir kartöflur. Axíuhluturinn, gerði hann ráð fyrir, að hljóðaði upp á 50 kr., og dagsláttan, gerði hann ráð fyrir, að myndi gefa af sér 50 tunnur, og hverja tunnu reiknaði hann á 6 kr., og með þeirri áætlun gæfi dagsláttan af sér 300 kr. og í kostnað gengju ca. 200 kr. Þá yrði nettó ágóði af dagsláttunni 100 kr.“
Félag það, sem hér er vikið að með bjartsýni á öruggan gróða, var stofnað á þessu sama ári og hlaut nafnið „Njörður”. Aðalhvatamaður þess er talinn Kjartan Guðmundsson búfræðingur frá Hörgsholti, en hann var búsettur á Stokkseyri um þessar mundir og vann þar að jarðræktarstörfum, ljósmyndagerð o. fl., enda var hann áhugamaður um margt. Hlutabréf í „Nirði“ voru minnst á 25 kr., og urðu hluthafar 45 að tölu, en stofnfé alls um 3000 kr. Á fyrsta aðalfundi félagsins 22. jan. 1908 voru kosnir í stjórn Bjarni Grímsson og Jón Jónasson, þáverandi eigendur Stokkseyrartorfunnar, og Guðni Árnason á Strönd. Um aðra stjórnendur félagsins er mér ekki kunnugt.
Félagið hóf starfsemi sína á því að tryggja sér land fyrir kartöfluræktun sína. Keypti það stóra spildu, um 80 dagsláttur að stærð, úr landi Stokkseyrar á sjávarbakkanum skammt austur frá Hraunsmörkum fyrir austan og norðan Bjarnavörðu, allt að þjóðvegi. Land þetta var þá lítt gróið og óvarið með öllu, opið fyrir sjávarflóðum og uppblæstri. Til þess að geta hafið kartöfluræktina varð félagið að byrja á því að leggja sjógarð fyrir vestanverðu Stokkseyrarlandi, alls um 1440 m. langan. Lagði félagið því fram krafta sína og fjármuni í það að koma upp sjógarðinum og lauk því verki að fullu á árunum 1907- 1910.
Meðan á þessu verki stóð, var unnið nokkuð að því að brjóta landið. Meðal annars plægði Kjartan 14 dagsláttur af því á árunum 1907-1908 og lauslegri girðingu var komið upp umhverfis nokkurn hluta þess. En er til sjálfrar kartöfluræktarinnar kom, sem var hið eiginlega markmið félagsins, þá var sem ólánið elti fyrirtækið. Í blaðinu Suðurlandi seint í ágúst 1910 er vinsamleg smágrein um félagið, og segir þar um kartöfluræktina: ,,Eitthvað mun hafa verið átt við að sá í þetta svæði, og nú í vor mun hafa verið sáð í eitthvað um dagsláttu. En lítil reynsla er víst fengin enn, hvernig félaginu heppnast. Þetta umgirta svæði mun vera 30-40 dagsláttur, og vonandi kemur sá dagur, að það verður einn óslitinn jarðeplaakur.” Því miður kom sá dagur aldrei. Um haustið var alger uppskerubrestur í hinum stóra garði „Njarðar”. Hætti félagið þá störfum og leystist upp af sjálfu sér. Vestri hluti kálgarðsins var síðan gerður að túni, sem Jón Eiríkur Jóhannsson, Lénharður Sæmundsson og fleiri ræktuðu upp og nytjuðu. En spildan norðan undir Bjarnavörðu allt að veginum ber síðan nafn félagsins og heitir ,Njörður’.
Hlutafélagið „Njörður“ varð ekki langlíft og náði ekki tilgangi sínum um kartöfluræktina. Tvennt hefir það þó látið eftir sig, sem geymir minningu þess: sjógarðinn og örnefnið.
(Heimildir: Freyr IV (1907), 40; V (1908), 24; VI (1909), 42. – Búnaðarrit XXIII (1909), 87; XXIV (1910), 68; XXV (1911), 84; XXVI (1912), 88. – Suðurland 18. ágúst 1910. Einnig munnlegar heimildir. Ekki hefir tekist að hafa upp á gjörðabók „Njarðar“ félagsins).