128-Fræðsluhérað Stokkseyrarhrepps

Samkvæmt fræðslulögunum frá 1907 skyldi farkennslu haldið uppi í sveitum, þar sem ekki var til neitt fast skólasetur eða svo langt til þess að sækja, að börnunum væri ekki heimangöngu auðið af þeim sökum. Í Stokkseyrarhreppi hagaði svo til, að margir bæir uppi í sveitinni gátu ekki, eins og samgöngum var þá háttað, sent börn sín í skólann á Stokkseyri sökum vegalengdar, og mynduðu þessir bæir því sérstakt skólahverfi eða fræðsluhérað. Hófst kennsla þar haustið 1909, og var henni haldið uppi til 1944 að undanteknum árunum 1922-24 og 1925-33, en börn voru mjög fá (2-3) á þeim árum, og sóttu þau skólann á Stokkseyri. Eftir að Brattsholtsvegur var fullgerður, auðvelduðust mjög samgöngur í hreppnum, og var þá hægt að flytja börnin af uppbæjunum í bíl niður á Stokkseyri. Lagðist fræðsluhéraðið þá niður og var sameinað Stokkseyrar skólahéraði.

Kennslan í fræðsluhéraðinu fór fram á ýmsum stöðum, helzt á þeim bæjum. þar sem flest voru börnin. Kennt var í Holti 1909-15 og 1935-41, á Baugsstöðum 1909-22, 1924-25 og 1941-44, á Leiðólfsstöðum 1915-22, Traðarholti 1933-35, í Stokkseyrarseli 1933-38 og á Tóftum 1933-44.

Kennarar í fræðsluhéraðinu voru þessir:

Jón Sigurðsson, Aldarminni 1909-15
Sigurgrímur Jónsson, Holti 1915-16
Jarþrúður Einarsdóttir, Tóftum 1916-18
Bjarni M. Jónsson, Stokkseyri 1918-20
Dagbjartur Jónsson, Stokkseyri 1920-21
Sigurgrímur Jónsson aftur 1921-22
Jarþrúður Einarsdóttir aftur 1924-25
Kristín Skúladóttir frá Keldum 1933-36
Bjarni Kolbeinsson frá Unaðsdal kenndi fyrir Kristínu í 3 mánuði í ársbyrjun 1936
Unnur Benediktsdóttir frá Moldhaugum 1936-38
Ármann Kr.Einarsson rithöfundur 1938-39
Guðmundur Þórarinsson, Hafnarfirði 1939-41

Kristján Eldjárn Þorgeirsson, Hæringsstöðum 1941-44

Framan af var sérstök fræðslunefnd fyrir fræðsluhéraðið, og áttu sæti í henni Jón Jónsson í Holti, Einar Gíslason í Borgarholti og Einar Sigurðsson á Tóftum. En eftir hlé það, sem varð á kennslunni um nokkurra ára bil, var fræðsluhéraðið lagt undir skólanefnd barnaskólans á Stokkseyri.

(Aðalheimildarmenn: Sigurgrímur Jónsson, Holti, og Jarþrúður Einarsdóttir frá Tóftum. Enn fremur spjaldskrá fræðslumálaskrifstofunnar um kennara, sem er þó ekki alls kostar nákvæm um fræðsluhéraðið. Um æviatriði kennara vísast hér einnig til Kennaratals á Íslandi).

Leave a Reply