021-Frá sjónarhóli áhorfanda

Ég gekk aldrei í Ungmennafélag Stokkseyrar – þótti ekki hafa aldur eða þroska til að stíga svo örlagaríkt spor. Hins vegar fylgdist ég álengdar með félaginu og störfum þess. Mér eru til dæmis enn í minni ferðir Jóns á Skipum út á Stokkseyri, þegar hann var formaður félagsins. Ég held, að hann hafi verið daglega á ferðinni, þegar mest var um að vera, og stundum tvisvar, og mér var sagt, að hann ætti svona annríkt í starfi sínu fyrir ungmennafélagið. Fannst mér þá mikið til um vanda þess og trúnað að vera forystumaður í félagi, þó að síðar hafi ég komizt upp á lag með að láta fjölina fljóta. Tímarnir breytast og mennirnir með. En þetta ætti að vera örstutt hugvekja um kynni mín af Ungmennafélagi Stokkseyrar, og ég vík aftur að því efni. Mér skildist fljótt, að félagið hefði miklu og góðu hlutverki að gegna. Þar lærðu menn að hugsa og koma fyrir sig orði. Margir félagarnir stunduðu íþróttir og kepptu í þeim heima og heiman við ærin orðstír. Leiksýningar félagsins voru löngum eftirminnilegir viðburðir, sem breyttu hversdagsleikanum í hátíð. Síðan held ég alltaf, að leiklistin á sviðinu í Gimli hafi verið vænn moli af bergi íslenzkrar og nánar tiltekið sunnlenzkrar alþýðumenningar. Þar var unnið fórnfúst starf af einlægum áhuga og sannri gleði. En mest var þó kannski um hitt vert, að félagið kenndi Stokkseyringum að starfa saman og gera sér dagamun á góðra vina fundum. Það var eins og salt út á graut og olli því, að byggðarlagið varð betra og mannlífið fegurra.

Mér leið vel í nábýlinu við Ungmennafélag Stokkseyrar, og auðvitað myndi ég hafa skipað mér í fylkingu þess, ef flutningurinn til Vestmanneyja hefði ekki komið til sögunnar, þegar ég var fimmtán ára, og leið mín síðan legið þaðan til Reykjavíkur í stað þess að ég ætti afturkvæmt heim á upprunans slóðir. En áhrif Ungmennafélags Stokkseyrar urðu slík á ungan svein, sem utan þess stóð, að ég á því mikið að þakka. Það stækkaði sjóndeildarhring bernsku minnar og kom gleði og fegurð lífsins á framfæri við mig. Þess vegna sendi ég Ungmennafélagi Stokkseyrar kveðju og þökk og árna ungum og gömlum Stokkseyringum gæfu og gengis um leið og ég óska þeim til hamingju með ungmennafélagið. Og megi það ávallt verða átthögunum góðu til sæmdar og heilla.

Helgi Sæmundsson

Leave a Reply