011-Bjartar minningar

Ég var orðinn 15 ára þegar ég gerðist félagi í U. M. F. Stokkseyrar. Ekki var þessi dráttur af minni hendi allskostar sjálfráður. Heldur ekki vegna þess, að mér væri með öllu ókunn starfsemi félagsins. Ég reyndi eftir því sem efni og aðstæður leyfðu, að fylgjast með því sem félagið hafðist að á þessum árum. Mest bar þar á íþróttaiðkunum; glíman og leikfimi skipuðu öndvegið.

Fyrstu samkomur félagsins er ég sótti fóru fram í Góðtemplarahúsinu gamla, er stóð skammt frá Vinaminni. Þar sá ég fyrstu íþróttasýninguna er ég sá á ævinni. Það var glæsileg sýning. Um 20 glímumenn komu þar fram auk fimleikamanna er einnig sýndu. Eftir að ég var orðinn félagi fékk ég enn betri tækifæri en áður, til að fylgjast með. Manni óx fiskur um hrygg á þessum árum, eignaðist fremur aura til þess að geta keypt sig inn á samkomur félagsins, sem oftast voru glæsilegar.

Frá öndverðu hafði félagið haft með höndum leiksýningar, og voru þar að verki margir ágætir kraftar, konur og karlar. Ekki var það þó leikur hjá U. M. F. Stokkseyrar er ég sá fyrst á ævinni.

Nei, það var: ,,Eitt kvöld í klúbbnum” eftir Bjarna: Pálsson frá Götu.

Þá var ég hrifinn. Þeim fækkar óðum er léku í þessum sjónleik. Aðeins eru nú eftir á lífi: Nikulás Torfason frá Söndu, og Páll Ísólfsson, tónskáld.

Mikið óskaði ég nú að ég gæti leikið eins og Olgeir og Einar í Götuhúsum. Að sá draumur rættist, að ég fengi að leika, stafaði af karlmannsleysi hjá kvenfélaginu. Þá var ég 18 ára. Starfsfélagarnir í þessu fyrsta „stykki“ voru hjónin Anna Helgadóttir og Sigurður Ingimundarson; konu mína lék frú Málfríður Halldórsdóttir, kona Þórðar Jónssonar. Það fór ekki sérlega mikið fyrir kjarkinum er ég átti að fara inn á leiksviðið í fyrsta sinn. Allt gekk þetta þó stórslysalaust, og mig minnir að þessi leikur væri sýndur fimm eða sex sinnum í gamla-Bjarna, áður Templarahúsið frá Vinaminni, síðar búð Andrésar Jónssonar, og nú stendur á þessum stað verzlunarhús K. Á. á Stokkseyri.

Þegar U. M. F. réðist í að byggja samkomuhúsið í félagi við hreppinn þótti í mikið ráðist. Enda mátti segja að svo væri, því lítill var sjóðurinn. En áhuginn og viljinn var meiri. Gjafadagsverk og nokkrir voru færir um að láta nokkurt fé af höndum. Eftir að húsið var komið upp, og tekið í notkun, þótti sýnt að félagið yrði að standa vel saman, ef þess hlutur ætti ekki að verða fyrir borð borinn. Þá var það ég, ásamt öðrum félögum, sem tóku saman höndum um að æfa og sýna sjónleiki. Þetta varð fastur liður í starfi félagsins næstu árin, og hefur vonandi átt sinn þátt í því að félaginu tókst að halda sínum 1uta nokkurn veginn sómasamlega. Félagsandinn á þessum árum var frábær og allir fúsir til hvers eins er þeir voru færir um. Vel var þessum leikjum tekið og þótti menningarauki í þorpinu. Því sýnt var einnig á Eyrarbakka þegar svo bar undir.

Oft hef ég undrast það síðari árin hve góðum árangri við náðum oft og einatt, við jafnfrumstæð skilyrði. Enginn tilsögn, hver sagði öðrum til, brjóstvitið varð að ráða. Hjálpartæki voru fá; enginn andlitsfarði, utan korktappinn, blýantur og ef til vill „rótarbréf”. En það sannaðist hér sem oftar áður: ,,Að sigursæll er góður vilji.“

Ekki var til einskis barizt, maður var að vinna fyrir félagið sitt sem manni þótti vænt um. Og fleira var einnig sem fært hefur mér heim sanninn um að þessi leikstarfsemi skildi eftir sólskinsbletti í hugum samferðamannanna.

Tuttugu árum eftir að ég var farinn frá æskustöðvunum, heimsótti ég einn góðan vin minn, er þá lá banaleguna. Er ég kom í dyrnar á herberginu og bauð „góðan dag“ hló hinn þjáði maður, og hafði yfir heila setningu úr einum þeirra leikja er við höfðum sýnt í gamla daga. Þetta gladdi mig. Eg sá, að ég hafði sannarlega ekki til einskis starfað. Minningarnar frá starfsemi þessari eru vissulega bjartar. Oft vorum við þreytt. Stundum var maður kallaður til þess að róa, án þess að hafa nokkuð sofið. En maður horfði ekki í það í þá daga. Eg er þess fullviss eftir að hafa síðari árin kynnzt dálítið leikstarfsemi, að í gamla daga hafa verið að verki á Stokkseyri mjög efnilegir leikarar, ef þeir hefðu búið við skilyrði er þarf til þess að geta virkilega sýnt hvaða efni voru fyrir hendi. Öllu þessu fólki lífs og liðnu vil ég þakka ógleymanlegar ánægjustundir.

Um alla starfsemi U. M. F. Stokkseyrar frá þessum árum má sama segja. Íþróttastarfsemin náði langt og átti félagið í mörg ár afreksmenn á því sviði. Fundastarfið var frjótt og fjölbreytilegt. Þar var skóli er mörgum hefur dregið drjúgt í önn daganna.

Hvar sem maður hittir gömlu félagana er eins og maður hitti bræður og systur. Fyrir margt vil ég þakka U. M. F. Stokkseyrar á þessum tímamótum í ævi félagsins. Áfram merkið hærra og hærra hefjið þið til starfis og dáða.

Guðmundur Jónsson frá Bjargi

Leave a Reply

Close Menu