Nú á dögum þurfa hreppsfélög á miklum tekjum að halda til þess að standa straum af þeim kostnaði, sem af margháttaðri starfsemi þeirra leiðir, og er í því efni mikil breyting orðin frá því, sem forðum var. Samkvæmt Grágás og Jónsbók höfðu hreppar engar tekjur aðrar en þær, sem var árlega varið til styrktar fátækum mönnum. Er þar fyrst að telja svokallað manneldi, sem ætlað var ómögum og var í því fólgið, að hver þingskyldur hreppsbúi var skyldur til að ala á heimili sínu eða kosta einn eða fleiri hreppsómaga um tiltekinn tíma og í réttu hlutfalli við aðra hreppsbændur. Manneldið var fellt niður með hreppstjórareglugerðinni 1809. f öðru lagi var fátækratíundin, sem var fjórði hluti hinnar almennu tíundar, sem Gizur biskup kom á 1097. Hún var lögð þurfamönnum, þ. e. fátækum bændum, til þess að halda þeim við bú og koma í veg fyrir, að þeir flosnuðu upp. Fátækratíundin var afnumin með lögum nr. 46, 1914, eftir að hún hafði staðið í gildi í 817 ár. Í þriðja lagi tíðkuðust svonefndar matgjafir, sem voru í því fólgnar, að hver þingskyldur bóndi átti að gefa þurfamönnum þrisvar á ári náttverð heimamanna sinna, þeirra sem skyldir voru að fasta að kirkjulögum. Það, sem bóndi sparaði þannig í mat vegna föstunnar, féll í hlut þurfamanna. Matgjafir þessar voru teknar í lög með Kristinrétti hinum forna, er biskuparnir Þorlákur og Ketill settu um 1123, en þær voru felldar niður með hreppstjórareglugerðinni 1809. Afgjafir af helgidagaveiðum, sem runnu einnig til þurfamanna og lögteknar voru í Kristinrétti hinum forna, voru numdar úr gildi með lögum nr. 74, 1907. Ekki var ótítt að fátækum væru gefnar svokallaðar sálugjafir, stundum jafnvel jarðir, sem ætlaðar voru ákveðinni tölu fátæklinga til framfæris. Þær nefndust kristfjárjarðir, og höfðu hreppstjórar umsjón með þeim. Að öðru leyti áttu hreppar engar eignir. Tekjurnar miðuðust við árlega þörf, en ekki söfnun.
Með hreppstjórareglugerðinni 1809, sem oftlega er á minnzt, var fundinn upp nýr tekjuliður hreppa, er koma skyldi í stað hinnar fornu tilhögunar um manneldi og matgjafir. Þessi nýi tekjuliður voru aukaútsvör, – líklega nefnd svo, af því að þau skyldi greiða auk fátækratíundarinnar. Svo telja fróðir menn, að ákvæðið um álagningu útsvara hafi ekki haft neina stoð í lögum á sinni tíð, en samt sem áður kom það þegar til framkvæmda og var síðar staðfest í fátækrareglugerðinni 8. jan. 1834. Áttu hreppstjórar og sóknarprestur að jafna útsvarinu niður á hreppsmenn eftir efnum og ástæðum, og skyldi niðurjöfnunin vera rífleg í góðæri, svo að sveitarsjóður gæti myndazt. Páll sýslumaður Melsteð segir í sýslulýsingu Árnessýslu 1843, að fyrst hafi verið byrjað að safna í hreppssjóði þar í sýslu árið 1824 og skömmu síðar verið farið að ávaxta peninga sveitarsjóðanna í fjárhirzlu konungs.Á þessum árum var Jón Þórðarson ríki í Vestri-Móhúsum annar af hreppstjórum Stokks. eyrarhrepps, og hefir hann verið byrjaður á að safna sjóði fyrir sveitina fyrr en Páll Melsteð telur, því að þegar á árinu 1823 fær hann mikið lof hjá Þórði sýslumanni Sveinbjörnssyni fyrir dugnað sinn að safna í sveitarsjóðinn. Á næstu árum fór hinu sama fram, og 1827 segir sýslumaður, að sjóðurinn sé orðinn 669 ríkisd., en 1832 627 ríkisd. og 90 skild. Þar af hafði Jón þá varið 348 ríkisd. og 92 skild. til að kaupa jörð handa sjóðnum. Þessi jörð var Galtarvík ytri í Skilmannahreppi í Borgarfjarðarsýslu, 16 hndr. að dýrleika með 2 kúgildum. Mun Jón hafa keypt hana um eða litlu fyrir 1830, og var hún í eigu hreppsins yfir 70 ár, eða þar til hún var seld ábúandanum árið 1904 fyrir 900 krónur. Eftirgjaldið af henni var lengi 180 fiskar eða 25 ríkisd. 68 sk. Eftir að sveitarstjórnarlögin frá 1872 gengu í gildi, varð það hlutverk hreppsnefnda að jafna niður útsvörum. Eru þau langsamlega veigamesti tekjustofn bæjar- og sveitarfélaga nú á dögum.
Af öðrum núverandi tekjustofnum hreppsins er hundaskatturinn næstur að aldri. Hann var lagður á með lögum nr. 18, 1890 og nam 2 kr. á hund. Það er sögulegast um þennan skatt, að hann stóð af sér alla sviptibylji fjármálaveðranna í tveimur heimsstyrjöldum, unz hann var loks hækkaður upp í 15 kr. með lögum nr. 7, 1953. Næst ber að telja hreppsvegagjaldið, sem stofnað var til með lögum nr. 57, 1907. Gjald þetta er lagt á alla verkfæra menn í hreppnum á aldrinum 20-60 ára. Gagnstætt hundaskattinum hefir það breytzt mjög að krónutali. Upphaflega var það 1 kr. 25 aurar á mann, en hækkaði stig af stigi, fyrst hægt og sígandi, en svo með hröðum skrefum, unz það varð sextíuogfjórfaldað árið 1951. Þá komst það upp í 80 kr. á mann og hefir verið það síðan. Loks hafa bætzt við tveir nýlegir tekjustofnar, sem um munar. Það eru fasteignaskattur og.tillag úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, hvort tveggja samkvæmt lögum nr. 69; 1937.
Hér fer á eftir yfirlit yfir helztu tekjuliði hreppsins á síðustu áratugum.
Upphæðir eru taldar í heilum krónum.
Tekjur, gjöld og eignir
Ár | Útsvör | Gjaldendur | Hreppsvegagjöld | Fasteinaskattar | Jöfnunarsjóður |
---|---|---|---|---|---|
1916 | 8.634 | 251 | 354 | ||
1920 | 15.181 | 252 | 552 | ||
1925 | 23.986 | 298 | 860 | ||
1930 | 20.465 | 286 | 660 | ||
1935 | 16.765 | 266 | 645 | ||
1940 | 15.450 | 261 | 410 | 2.890 | 8.069 |
1945 | 125.740 | 258 | 6.240 | 3.418 | 9.660 |
1950 | 264.830 | 224 | 8.905 | 3.568 | 16.322 |
1955 | 463.005 | 195 | 9.600 | 5.317 | 33.988 |
1958 | 596.595 | 192 | 9.680 | 4.073 | 56.060 |
Engan mun undra það, þótt krónutölur hafi hækkað, svo að um munar, áþeim fjórum áratugum, sem yfirlitið nær til, en þó hefst hækkunin ekkí að verulegu marki fyrr en í lok síðustu heimsstyrjaldar. Þannig eru útsvörin nú um það bil 69 sinnum hærri að krónutölu en þau voru árið 1916. Eins og nærri má geta, hafa útgjöld hreppsins vaxið að sama skapi sem tekjurnar, enda fleiri verkefnum að sinna en áður var. Hér fer á eftir yfirlit yfir nokkra gamla, fasta gjaldaliði, og eru upphæðir taldar í heilum krónum:
Tekjur, gjöld og eignir - framh.
Ár | Sveitarstjórn | Framfærsla | Fræðslumál | Vegamál | Sýslusjóðsgjald |
---|---|---|---|---|---|
1916 | 208 | 4.099 | 2.024 | 304 | 1.563 |
1920 | 681 | 6.136 | 3.512 | 288 | 2.811 |
1925 | 843 | 14.068 | 2.977 | 159 | 5.023 |
1930 | 1.104 | 5.024 | 2.513 | 566 | 6.505 |
1935 | 1.048 | 6.188 | 2.940 | 3.797 | 4.884 |
1940 | 1.063 | 10.771 | 3.821 | 68 | 2.700 |
1945 | 4.113 | 25.993 | 14.711 | 937 | 5.501 |
1950 | 13.566 | 49.358 | 19.901 | 21.404 | |
1955 | 38.055 | 112.813 | 61.013 | 7.891 | 30.460 |
1958 | 63.777 | 85.656 | 109.839 | 4.063 | 41.602 |
Í dálkinum um framfærslu eru aðeins þær upphæðir, sem hreppurinn leggur til framfærslumála umfram tryggingar. Þar við bætast ellilaun og örorkubætur á árunum 1937-1946, en þær námu fyrsta árið 4.045 kr., en síðasta árið 22.973 kr., almannatryggingar síðan 1947, sem námu fyrsta árið 33.000 kr., en 1958 125.933 kr., og sjúkrasamlag síðan 1942, sem nam fyrsta árið 1.400 kr., en 1958 43.112 kr. Um sýslusjóðsgjaldið er þess að geta, að því er jafnað niður á hreppana eftir manntali, samanlögðum tekjum í hreppnum og skuldlausum eignum; meðtalið er gjald til sýsluvega, meðan það var talið sérstakt. Af föstum gjöldum má einnig nefna tillag hreppsins til bjargráðasjóðs, sem stofnaður var með lögum 1913; sjóður þessi var afnuminn um hríð, og hefir hreppurinn greitt í hann til 1931, en svo var sjóðurinn lífgaður við aftur, og hefir hreppurinn greitt í hann á ný síðan 1942. Gjaldið var 25 aurar á mann gegn sömu upphæð frá ríkinu, en var hækkað upp í 2 kr. frá hvorum aðilja 1948. Sjóðurinn var stofnaður til þess að grípa til í hallærum, og hafa á síðari árum verið veitt úr honum hin svonefndu óþurrkalán[note]Um sjóð þennan er fróðleg grein í Sveitarstjórnarmálum 1953 eftir Jónas Guðmundsson stjórnanda sjóðsins.[/note] til bænda. Auk þess, sem nú var talið, greiðir hreppurinn árlega nokkurt fé til búnaðarmála, brunamála, heilbrigðismála o. fl. Framlög hans til verklegra framkvæmda, svo sem hafnar- og lendingarbóta, skolpræsa og holræsagerðar, jarðborana o. s. frv., fara eftir því sem efni leyfa á hverjum tíma. Hafa þau framlög stundum numið allverulegum upphæðum. Eftirtaldar stofnanir á vegum hreppsins hafa sérstakt reikningshald: hafnarsjóður, rafveita Stokkseyrar og vélbáturinn Hásteinn Il ÁR 8, sem hreppurinn á að þriðjungi.
Á kreppuárunum milli 1930 og 1940 var hagur Stokkseyrarhrepps mjög þröngur eins og flestra annarra sveitarfélaga. En síðustu áratugina hefir hagur hans farið batnandi, svo að unnt hefir verið að sinna ýmsum nauðsynlegum framkvæmdum fyrir sveitarfélagið meira en áður. Í árslok 1958 voru eignir hreppsins í sjóðum, skuldabréfum, hlutabréfum, fasteignum, lausafjármunum o. fl. taldar alls kr. 1.560.532,77, en skuldir kr. 765.179,87. Hrein eign hreppsfélagsins nam því kr. 795.352,90.