Margra félagssamtaka á Stokkseyri hefir áður verið getið í riti þessu, einkum í sambandi við atvinnuvegina, landbúnað, sjávarútveg og verzlun. Hafa þau samtök beinzt að eflingu atvinnulífsins eða einstakra þátta þess og unnið margvíslegt gagn hvert á sínu sviði. En auk þess hafa starfað eða eru starfandi mörg félög, sem hafa fyrst og fremst menningarmál í ýmsum myndum á stefnuskrá sinni. Oft er þetta tvennt, hið hagnýta og hið menningarlega, saman ofið. Þessi félög eiga sum hver meira en hálfrar aldar sögu að baki og hafa unnið byggðarlaginu ómetanlegt gagn, verið aflvaki menningar og mannúðar, reynzt ungum og öldnum þroskandi skóli í félagslegum dyggðum og haldið uppi heilbrigðu skemmtanalífi, sem eigi má án vera. Allt starf slíkra félaga er þegnskaparstarf, sem unnið er í þeirri trú, að unnt sé að bæta og fegra mannlífið. Er nú næst fyrir höndum að gera þessum félagssamtökum nokkur skil.