084-Eyrarbakkaverslun

Í fornritum vorum er getið um tvær skipahafnir eða verzlunarstaði á því svæði, sem Stokkseyrarhreppur hinn forni náði yfir. Þessir staðir voru Einarshöfn og Grímsárós eða Knarrarsund. Eftir söguöld er Grímsáróss ekki getið sem hafnar, en Einarshöfn varð hins vegar snemma aðalhöfnin á þessu svæði og staðurinn venjulega nefndur á Eyrum. Hélzt svo fram á síðara hluta 14. aldar, en upp frá því er verzlunarstaðurinn ævinlega nefndur Eyrarbakki. Gerðist hann þegar á miðöldum aðalverzlunarstaður á Suðurlandi og síðar meir eini verzlunarstaðurinn þar auk Vestmannaeyja. Olli þessu fyrst og fremst hafnleysi við gervalla ströndina. Á dögum einokunarverzlunarinnar 1602-1787) tók Eyrarbakkakaupsvið yfir þrjár sýslur, Vestur-Skaftafellssýslu, Rangárvallasýslu og Árnessýslu eða austan frá Skeiðará og vestur fyrir Selvog og var þá víðáttumest og fjölmennast allra kaupsvæða á landinu. Árið 1703 áttu rúmir 1500 búendur og yfir 11000 manns verzlunarsókn til Eyrarbakka. Þó var jafnan nokkur ágreiningur um vestursveitirnar, Ölfus, Grafning og Selvog, og sóttu þær annað veifið til Grindavíkur eða Hafnarfjarðar.[note]J. J. Aðils, Einokunarverzlun Dana á Íslandi, 262-63.[/note]Um einokunarverzlunina gömlu verður hér fátt ritað. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að aldrei hefir verzlunin verið landsmönnum jafnóhagstæð sem þá. Kaupmenn voru útlendir, fyrirlitu Íslendinga og hugsuðu um það eitt að raka sem mestum gróða af verzluninni án þess að láta sig hagi landsmanna nokkru skipta. Útlendar vörur voru dýrar, en innlendar í lágu gengi. Skortur á nauðsynjavörum var algengur, en sjaldan kom fyrir, að munaðarvörur, einkum tóbak og brennivín, þrytu í verzluninni. Þess ber þó að geta, að ekki áttu allir kaupmenn óskorað mál að þessu leyti. Þannig segir Brynjólfur sýslumaður Sigurðsson um kaupmennina Niels Knudsen og Thomas Windekilde, sem höfðu Eyrarbakkaverzlun fyrir og eftir miðja 18. öld, að þeir „seldu sem minnst en lánuðu almúga ekkert af tóbaki, brennivíni eður krami, en forsýnuðu almúgann með nauðsynlegri og gagnlegri vöru.“Í kæruskjali bænda í Stokkseyrarhreppi til sýslumanns í marsmánuði 1767 um framferði Jens Lassens kaupmanns á Eyrarbakka segir hins vegar svo: ,,Svo ríkulega sem Eyrarbakkahöfn er útreidd af ónauðsynlegri vöru,[note]J. J. Aðils, Einokunarverzlun Dana á Íslandi, 328.[/note] tóbaki margslags í mottum, stórum 19 punda rullum og presstóbaki, brennivíni, kramvöru, klútum, silkjum, dúkum, borðum og isenkrami, svo stór skortur er á nauðsynlegri vöru, sem mjöli, timbri og veiðarfærum, því ekkert af þessu fær almúginn til ánægju, sem með þarf eður begerir fyrir fullan betaling.“[note] Sama rit, 323.[/note] Sést af þessum dæmum, að miklu veldur, hver á heldur, en því miður voru þeir kaupmenn miklu fleiri, sem líktust Jens Lassen, heldur en hinum fyrrnefndu stéttarbræðrum hans.

Árið 1787 var hin illræmda einokunarverzlun afnumin að nokkru leyti, þannig að ekki aðeins Dönum einum, heldur öllum þegnum Danakonungs og þar á meðal auðvitað Íslendingum sjálfum, var heimilt að reka verzlun hér á landi með vissum skilyrðum. Þetta kom landsmönnum þó lengi vel að litlu haldi. Íslendinga skorti þekkingu, fjármagn og aðra aðstöðu til að koma verzlunum á fót, samtök voru engin og hinir dönsku selstöðukaupmenn, sem urðu arftakar konungsverzlunarinnar, voru jafnan á verði og brugðu fæti fyrir sérhverja tilraun íslenzkra manna til samkeppni. Eyrarbakkakaupmenn voru engir eftirbátar annarra að þessu leyti, eins og skýrt mun frá hér síðar. Í meira en heila öld var verzlunin á Eyrarbakka rekin af dönskum selstöðukaupmönnum í anda hinnar gömlu einokunar og verzlunarástandið með svipuðum hætti sem þá tíðkaðist. Meðal þessara dönsku kaupmanna á Eyrarbakka má nefna Diðrik Chr. Petersen, sem keypti konungsverzlunina þar, Johan Chr. Sunckenberg, sem rak einnig mikla verzlun í Reykjavík fyrir og eftir aldamótin 1800, Lambertsensfeðga á fyrri hluta 19. aldar og loks Lefolii-feðga, sem flestir kannast við og voru eigendur Eyrarbakkaverzlunar í full 60 ár (1849-1910). Þessir verzlunarhöldar voru að nokkru eða öllu búsettir í Kaupmannahöfn, en dvöldust venjulega á Eyrarbakka á sumrin í kauptíðinni, tignaðir nær sem konungar. Að öðru leyti önnuðust verzlunarstjórar um rekstur hinnar miklu verzlunar hér á landi og fóru með mikil völd í ríkinu. Tveir hinir síðustu þeirra, þeir Guðmundur Thorgrímsen og Peter Nielsen, tengdasonur hans, höfðu á hendi stjórn verzlunarinnar alla tíð Lefolii-feðganna. Voru þeir báðir merkir menn og ágætir menningarfrömuðir í byggðarlaginu, en verzlunina ráku þeir, þrátt fyrir ýmsar innri umbætur, í hinu gamla selstöðuformi og freistuðu eftir mætti að tryggja henni hina fornu einokunaraðstöðu.

Til staðfestingar því, sem nú var sagt, og til þess að gefa skýrari hugmynd um málið viljum vér tilgreina hér álit og ummæli nokkurra kunnugra manna um Eyrarbakkaverzlun á umræddu tímabili.

Hinn 19. okt. 1795 ritaði Vigfús Thorarensen sýslumaður í Rangárvallasýslu stiftamtmanni bréf um verzlunina á Eyrarbakka, og er efni bréfsins í stuttu máli þetta: Síðan verzlunin var gefin frjáls, hefir verzlunin á Eyrarbakka átt við þau örlög að stríða að hafa þann kaupmann, Petersen, sem hefir haft mikla ástríðu til þess að fá sem mesta peninga upp úr verzluninni, og vegna þess hafa vantað brýnustu nauðsynjar fólksins, svo sem járn, kol, salt og timbur þráfaldlega. Yfir þessu hafa héraðsbúar kvartað árlega og yfir þeim viðjum einokunar, sem enn eru óleystar af verzluninni. Kærur þessar fyrir sýslubúa mína, sem mér er trúað fyrir, hefi eg í undirgefni borið fram fyrir hið háa konunglega rentukammer, hefi þó ekki enn orðið var við árangur af því. Að vísu er verzlun þessi nú laus við Petersen, en í stað endurbóta urðu skiptin til alls hins verra.[note]Vigf. Guðm., Saga Eyrarbakka I, 314.[/note]Fátækur bóndi á Skeiðum, Lafranz Jónsson á Minni-Ólafsvöllum, ritar sýslumanni svofellt kvörtunarbréf hinn 18. ágúst 1826, og lýsir það svo hörmulega bágbornu verzlunarástandi, að allar skýringar eru óþarfar: ,,Fyrir yður, mitt góða yfirvald, er eg af nauðsyn tilknúður að kvarta yfir mínu vandræða ástandi, hverju svo er varið: Í mörg undanfarin ár hefi eg gjört alla mína kauphöndlan á Eyrarbakka, orðið þar á stundum skuldugur á vetrum, meir og minna, en altíð borgað gjald mitt á hverri kauptíð og fengið svo aftur það, sem um hefi beðið. Eftir næstliðinn vetur stóð eg þar, að eg meina, í hér um 11 ríkisbankadala skuld, (þó ekki hafi eg afreikning), og tilbauð svo í sumar þann 13. júlí að borga hana með þeirri einustu gjaldgengu vöru eg þá til hafði, nefnilega vel verkuðum, hörðum fiski. Vildi líka láta þar inn meiri fisk til að útvega mér helztu lífsnauðsynjar, (því eg átti góða hluti eftir mig í Þorlákshöfn), en tókst hvorugt, af því eg hafði ekki þær landvörur, sem höndlarar áskildu, hvar af það leiddi, að eg ekkert hefi úr kaupstað fengið af mat né öðrum ómissanlegum nauðsynjum. Því er mín auðmjúkust bón til yðar veleðlaheita, að þér vilduð leggja inn með mér yðar góðu tillögur við kaupmanninn á Eyrarbakka, að fengið gæti hjá hönum til láns helztu bjargræðisnauðsynjar, svo sem svarar upp á 12 ríkisdali í vörum, sér í lagi eina tunnu af rúgi, þá eg að næsta sumri, (l ( ofi) g ( uð)), skal prettalaust borga þá skuld, ásamt hinni gömlu, með hörðum fiski, líka vel létta á henni með að innláta fisk, (ef guð gefur hann úr sjónum), í salt, ef fiskur verður tekinn í Þorlákshöfn frá Eyrarbakka næstkomandi vertíð, eins og eg hefði með því borgað mína gömlu skuld að innláta blautan fisk í áminnztri veiðistöðu næstliðna vertíð, hefði honum af þeim höndlandi verið þá viðtaka veitt. Eg bið um og fulltreysti yðar veleðlaheita beztu og sanngjörnustu tillögum í áminnztri stórri nauðsyn minni.“[note]Blanda VII, 261-262.[/note]

Hinn mikli framfaramaður og ættjarðarvinur, síra Tómas Sæmundsson,  kemst svo að orði í fréttapistli frá Íslandi, sem birtist í Fjölni árið 1835: ,,Eg þekki að sönnu ekki nema til lítils hluta af landinu, en það veit eg, að frá því eg man til, allt þar til fyrir 4 eða 5 árum að kaupmannaskipti urðu, var í Vestmannaeyjum og eins á Eyrarbakka matur að jafnaði ekki fáanlegur lengur en tvo eða þrjá mánuði á ári hverju og stundum skemur, og eiga þó 4 sýslur landsins mest og bezt að búa að þessum kaupstöðum.“[note]Fjölnir I, 77-78. [/note] Og nokkrum árum síðar segir síra Tómas: ,,Á Eyrarbakka hefir ekki í manna minni komið það ár, að ekki þryti flestallar nauðsynjar, og hafa þó hvurgi á landinu verið boðin önnur eins kaup til jafnaðar.“ Og hann bætir við: ,,Nefndin, sem kvödd var til að gefa álit sitt um verzlunarefni vor núna seinast, var, eins og menn vita, mótfallin því, að verzlun væri leyfð í Þorlákshöfn, – taldi það hvurki alls kostar nauðsynlegt né gagnlegt. Það er bágt að skilja, á hvaða rökum nefndin hefir byggt þetta álit sitt, þar sem þó er kunnugt, að Eyrarbakkaverzlun hefir varla nokkru sinni enzt til, mánuði lengur frá því skipið hefir komið, að láta af hendi þarfavöru og aldrei nema af skornum skammti; að óþarfavaran hefir flogið út, þó hún væri oft þriðjungi dýrari en í næstu kaupstöðunum; að menn hafa sætzt við að bíða þar eftir afgreiðslunni, so að vikum skipti, heldur en að þurfa að leggja suður yfir heiðina.“[note]Þrjár ritgjörðir, Khöfn 1841, bls. 14.[/note]

Árið 1891 gaf Bogi Th. Melsteð sagnfræðingur í Kaupmannahöfn út dálítinn bækling, sem fjallar að mestu leyti um verzlunina á Eyrarbakka. Þar segir hann m. a.: ,,Eg man eftir því sem barn frá árunum um 1870 og síðar, að menn sögðu upp í Grímsnesið, að þar (þ. e. á Eyrarbakka) væri engan mat að fá. Eg man eftir því frá skólaárum mínum kringum 1880, að Einar Jónsson, sem oft hefir komið að góðu liði með því að hann fór að verzla á Eyrarbakka, sendi stórar lestir um háveturinn s~ður í Reykjavík til þess að sækja matvörur; var þá matarlaust á Eyrarbakka. Ein vara var það þó, sem ávallt fekkst á Eyrarbakka, en það var brennivín. Eyrarbakkaverzlun hefir jafnan verið ótæmandi brennivínslind, og það er eins og hún hafi verið það með lífi og sál og gjört sér meira far um að vanda brennivínið til verzlunarinnar en aðra, vörur, því á þessa vöru eina þaðan hafa allir lokið lofsyrði.[note]Framtíðarmál. Verzlunarfrelsi eða einokun á Eyrarbakka. Fréttaþráður til Íslands, Khöfn 1891, 34- 35.[/note] “Merkisbóndinn Ágúst Helgason í Birtingaholti kemst m. a. svo að orði um verzlunina í Endurminningum sínum: ,,Verzlun á Suðurlandi var eins og víðar á landinu mjög óhagstæð lengi eftir að verzlunin var gefin frjáls. Á öllu hafnleysusvæðinu sunnanlands, austan frá Djúpavogi og vestur að Reykjanesi, var aðeins einn verzlunarstaður, Eyrarbakki. Þar var ein dönsk selstöðuverzlun. Var hún einráð um verð á öllum vörum, innlendum og erlendum, um langt skeið. Meðan allar ár voru óbrúaðar, mátti heita, að allir Sunnlendingar austan Ölfusár væru bundnir við þá verzlun með viðskipti sín.“[note]Endurminningar, Ak. 1951, bls. 149. [/note] Í umræðum á alþingi 1883 um löggildingu Stokkseyrar sem verzlunarstaðar færðu þingmenn Árnesinga og Rangæinga fram því máli til stuðnings meðal annars ástandið í verzlunarmálum Sunnlendinga. Sighvatur Árnason í Eyvindarholti sagði m. a.: ,,Að öðru leyti er þess að geta, að ár eftir ár rekur að því, að vörubirgðir eru ónógar á Eyrarbakka sökum hinnar miklu aðsóknar þangað, og í fyrra var þar orðið alveg nauðsynjavörulaust hjá öðrum kaupmanninum fyrir veturnætur. Þegar svo er, hafa allir þeir, er austanfjalls búa. ekki annað að flýja en á kaupstaðina við Faxaflóa, því bæði að haustinu til, en þó einkum allan veturinn, skammtar af að flýja til Vestmannaeyja, þó á liggi. Þess skal getið, að það var aðalverzlunin á Eyrarbakka, sem í fyrra varð kornlaus. Hinn kaupmaðurinn hafði að vísu nokkrar birgðir lengur eða fram á veturinn, en hvergi nærri nóg handa öllum þeim sæg, er verzlun rekur á Eyrarbakka. Meðan ekki er verzlun í Þorlákshöfn, get eg ekki annað en mælt með löggildingu Stokkseyrar, sérstaklega af því, að svo oft vantar nauðsynjar á Eyrarbakka, sem án efa mundi ráðast nokkur bót á, ef hinn þriðji verzlunarstaður kæmist á þar í grendinni.“[note]Alþingistíðindi 1883, A, 378-79.[/note] Þorlákur Guðmundsson í Fífuhvammi mælti m. a. á þessa leið: ,,Það er satt, að Stokkseyri liggur ekki langt frá Eyrarbakka. En það væri miklu haganlegra fyrir austurbúa Árnessýslu og Rangvellinga að sækja þangað verzlun en á Eyrarbakka, enda mundi það og auka samkeppnina að fá verzlunarstað svo nærri, því síðan annar kaupmaður settist að á Eyrarbakka og hóf að verzla þar, hefir hann bætt mjög verðlag þar og það svo margra hundraða, enda jafnvel þúsunda ágóða nemur fyrir héraðsbúa, sem þangað eiga verzlun að sækja, og sýnir það, að samkeppnin er nauðsynleg og getur haft heillaríkar afleiðingar fyrir landsbúa í för með sér.“[note]Sama rit, 1883, B, 286.[/note] Hér skal að lokum skýrt frá einu atriði, sem sýnir vel hina hrokafullu afstöðu hinnar gömlu selstöðuverzlunar á Eyrarbakka til viðskiptamannanna. Á reikninga verzlunarinnar var um langan aldur prentuð svofelld klausa: ,,Það, sem eg kynni að hafa ástæðu til að bæta upp í þessum reikningi, verður einungis tekið til greina, þegar hann verður framvísaður (svo!) í viðskiptum við Eyrarbakka verzlun í næstu kauptíð. Það, sem stendur inni, borgast einungis í vörum og eftir hentugleikum verzlunarinnar.“ Þannig hljóðaði textinn um 1870-80 og vafalaust lengur.[note]Bogi Th. Melsteð, Framtíðarmál o. s. frv., bls. 38, sbr. Ágúst Helgason, Endurminningar, 149-150.[/note] En á viðskiptamannsreikningi frá 1891, sem vér höfum séð, er öll fyrri málsgreinin felld niður, og eftir stendur aðeins: ,,Það, sem stendur inni, verður borgað í vörum og eftir hentugleikum verzlunarinnar.“ En eftir sem áður eru hentugleikarnir aðeins á aðra hlið. Hér talaði sá, sem valdið hafði. Klausan á reikningunum var bergmál af rödd hinna gömlu einokunarkaupmanna.

Þrátt fyrir það, sem nú hefir sagt verið, var margt vel um Lefoliisverzlun, einkum á síðustu áratugum, sem hún starfaði. Hún var þá sennilega stærsta verzlun landsins, hafði um 4000 fasta viðskiptamenn í reikningi,[note] Jón Pálsson, Austantórur II, 51.[/note]og innra skipulag þessa mikla fyrirtækis var á ýmsan hátt til fyrirmyndar. Vörur voru yfirleitt vandaðar og furðu fjölbreyttar og vöruskortur var fátíðari en áður, enda var þessi verzlun þá ekki orðin ein um hituna; hún varð að taka tillit til fleiri og fleiri keppinauta og einnig „hentugleika“ viðskiptamanna. Á fyrstu áratugum þessarar aldar hrundi þetta gamla stórveldi í rústir, og verzlunargróðinn hætti að streyma frá Eyrarbakka til Eyrarsunds. Það var eitt af táknum hins nýja tíma á Íslandi.

Leave a Reply