Efra-Sel er hálflenda hinnar fornu jarðar Sels, sjá það. Í bændatali 1681 er hálflendu þessarar fyrst getið, og nefnist hún þar Sel efra, en jafnan síðan Efra-Sel. Stokkseyrarkirkja var eigandi jarðarinnar allrar frá því á 15. öld og allt fram yfir síðustu aldamót, og var eigendum Stokkseyrar, sem jafnframt voru kirkjubændur, goldin landskuld og leigur af jörðinni. Þann 4. sept. 1909 seldu sóknarnefndir Stokkseyrar og Eyrarbakka jörðina Efra-Sel þeim Júníusí og Pálmari Pálssonum og Sigurði Hinrikssyni í Ranakoti, en árið 1919 seldi Pálmar sinn þriðjung Páli Júníussyni á Syðra-Seli. Þann part erfði Páll, sonur hans, og seldi hann 1931 þáverandi ábúanda, Ásmundi Hannessyni. Sama ár seldu þeir Júníus og Sigurður í Ranakoti sína hluta úr jörðinni, og keypti Ásmundur þá einnig. Var hann síðan eigandi jarðarinnar, unz hann seldi hana vorið 1952 Guðmundi Eggertssyni, núverandi bónda þar. Tvíbýli var lengstum á Efra-Seli á 18. öld allt fram um móðuharðindi og aftur lengi á 19. öld eða frá því um 1820-1891. Eftir það var þar aðeins einn ábúandi í senn, unz jörðin fór í eyði árið 1909. En árið 1931 fluttist Ásmundur Hannesson að Efra-Seli, keypti jörðina og reisti þar byggð að nýju.