You are currently viewing Breiðamýrarholt

Breiðamýrarholt

Breiðamýrarholt var hjáleiga frá Holti, byggð fyrst í þann tíma, sem Bjarni Sigurðsson á Stokkseyri var ráðsmaður Skálholtsstóls, að sögn Jarðabókar ÁM. 1708. Bjarni var ráðsmaður á árunum 1631-1638, og hefir Breiðamýrarholt eftir því byggzt á þeim árum, en annars höfum vér fyrst séð þess getið í bændatali 1681. Á 18. öld fór Breiðamýrarholt tvívegis í eyði, fá ár hvort sinn. Að öðru leyti var byggð þar nokkurn veginn óslitin, unz það lagðist að fullu og öllu í eyði 1946, en hús voru rifin nokkru síðar. Ekki hafa fundizt heimildir fyrir því, hvenær Breiðamýrarholt varð sérstök eign, aðskilin frá heimajörðinni Holti. Þann 7. nóv. 1881 er talið, að Grímur í Nesi hafi keypt Breiðamýrarholt af Valgerði Gísladóttur. En um síðustu aldamót keypti Jón hreppstjóri Einarsson í Mundakoti jörðina og átti hana til dauðadags (1936). Hinn 11. nóv. 1938 seldu erfingjar Jóns hana Jarðakaupasjóði ríkisins, sem hefir átt hana síðan.

Leave a Reply