You are currently viewing Lölukot

Lölukot

Lölukot var upphaflega fjárhús frá Hæringsstöðum, sem tekin voru í byggð um 1765 af frumbýlingshjónum, Rögnvaldi Filippussyni og Evlalíu Einarsdóttur, og er mælt, að Hæringsstaðabóndi hafi sett þau þar til varnar fyrir ágangi fénaðar sunnan úr Hólavelli. Í Þingb. Árn. 9. marz 1770 eru þau hjón talin til heimilis í Hæringsstaðafjárhúsi, og er það í fyrsta sinn, sem getið er um býli þetta með nafni.

Bráðlega var þó farið að kenna kotið við ábúendurna, sem reistu þar fyrst byggð. Í skrá sýslumanns um tjón af landskjálftunum 1784 er býlið nefnt Rögnvaldskot (Bréf til stiftamtmanns, dags. 22. des. 1785), og í ættartölubókum höfum vér séð talað um Arnór í Rögnvaldskoti, þ. e. Arnór Erlendsson, er þar bjó á árunum 1803-1821. Jafnframt var farið að kalla býlið Lölukot og kenna það við Evlalíu (,,Lölu”), konu Rögnvalds, en eigi höfum vér rekizt á það nafn skráð fyrr en í Mín. Gaulv. 1808, í dánarbálki þar. Í manntali 1801 er kotið kallað Suðurhjáleiga, og einnig var það nefnt Suðurkot, svo sem sjá má af orðalaginu „Suður- eður Lölukot“í Min. Gaulv. 1824, hvorttveggja til aðgreiningar frá Hæringsstaðahjáleigu hinni gömlu, sem um þær mundir var oft kölluð Norðurhjáleiga eða Norðurkot. Eins og sjá má af þessu, hefir nafn býlisins verið mjög á reiki fyrst í stað, en að lyktum bar Lölukotsnafnið sigur af hólmi. Það er notað í manntali 1818 og jafnan síðan.

Lölukot fylgdi heimajörðinni lengi vel, eins og líklegt var, og svo hefir jafnan verið um þann helming þess, sem er eign Þorleifsgjafarsjóðsins. Hinn helmingurinn gekk til erfingja Gunnars bónda Ingimundarsonar á Hæringsstöðum, og kom hann í hlut sonar hans, Sigurðar bónda í Lölukoti. Helming þennan seldi Sigurður árið 1913, og gekk hann síðan kaupum og sölum um nokkurt skeið, unz Páll bóndi Guðmundsson á Baugsstöðum keypti hann um 1920 og hefir nytjað hann til slægna.

Byggð var nokkurn veginn óslitin í Lölukoti frá því um 1765-1914 eða því sem næst í hálfa aðra öld. En árið 1914 lagðist það í eyði, og er ekki líklegt, að byggð verði þar aftur upp tekin.

Leave a Reply