Kumbaravogur var hjáleiga frá Stokkseyri og er getið fyrst í manntali 1703. Á síðari tímum er nafnið stundum ritað Kumbravogur, en því ber að hafna. Nafn þessa býlis er merkilegt í sögulegu tilliti. Orðið kumbari merkir eitt af tvennu: maður frá Cumberland á Norðvestur-Englandi eða skip af sérstakri gerð, einkum til vöruflutninga, og vafalaust upphaflega kennt við áðurnefnt hérað á Englandi. Hvor merkingin sem í orðið er lögð, bendir nafnið Kumbaravogur ákveðið til þess tímabils á miðöldum, er Englendingar höfðu mest verzlunarviðskipti hér á landi, þ. e. til 15. og 16. aldar. Örnefni þetta er til að minnsta kosti á fjórum stöðum hér á landi:
1) á Stokkseyri,
2) á Snæfellsnesi,
3) á Skarðsströnd í Dalasýslu og
4) á Skálmarnesi í Barðastrandarsýslu.
Í fornritum vorum fyrir 1300 kemur örnefnið Kumbaravogur aldrei fyrir. Styður það þá skoðun, að nafnið komi ekki upp fyrr en á miðöldum og í sambandi við verzlun Kumbara hér á landi. Þess skal getið, að árið 1930 skírði eigandi Kumbaravogs býlið upp og nefndi Sólheima. Við eigandaskipti árið 1942 var hið gamla sögulega nafn réttilega tekið upp aftur.
Kumbaravogur var ein af fyrstu Stokkseyrarhjáleigunum, sem urðu séreign. Hinn 19. marz 1790 seldi Jón Jónsson Thorlacius hann Jóni Gamalíelssyni yngra fyrir 30 ríkisdali. Ekki finnast neinar heimildir um það, hvernig Jón Thorlacius eignaðist Kumbaravoginn, en ekki er um það að efast, að mad. Þórdís Jónsdóttir í Dvergasteinum hafi selt honum hann. Næsti eigandi Kumbaravogs, sem kunnugt er um, var Karen Hansdóttir, er þar bjó um eitt skeið. Hún komst um síðir á Stokkseyrarhrepp, og var hjáleigan þá boðin upp samkvæmt kröfu hreppstjóranna. Á uppboðinu, sem haldið var 9. júní 1838, var hjáleigan slegin hæstbjóðanda, Jóni hreppstjóra í Móhúsum, fyrir 43 ríkisdali. Eftir að Jón í Móhúsum hafði keypt hálfa Stokkseyrina 1848, sameinaðist Kumbaravogur aftur heimajörðinni. Stóð svo til 1930, er eigandi Stokkseyrar, Hjálmtýr Sigurðsson, gerði Kumbaravog að sérstöku býli, er hann kallaði Sólheima. Hinn 4. jan. 1936 seldi Hjálmtýr býli þetta Búnaðarbanka Íslands, en árið eftir, 20. sept. 1937, seldi bankinn það aftur Jóni Guðjónssyni bónda þar, nú á Vestri-Grund. Hinn 24. marz 1942 seldi Jón jörðina góðtemplarareglunni, umdæmisstúku nr. 1, sem hefir átt hana síðan. Nefnist jörðin síðan aftur sínu gamla, sögulega nafni.