Ísólfur Pálsson tónskáld

Ísólfur Pálsson tónskáld

 

 


Þann 11. mars ssl. [1971] voru 100 ár liðin frá fæðingu Ísólfs Pálssonar organista og tónskálds, en hann fæddist á Syðra-Seli í Stokkseyrarhreppi 11. mars 1871, sonur hjónanna Margrétar Gísladóttur og Páls Jónssonar bónda og hreppstjóra á Syðra-Seli.

Meðal annars þess, er Ísólfur sökkti sér niður í, var sönglistin, og samdi hann, einkum eftir 25 ára aldur sinn, fjölda laga en mörg þeirra eru eins og kunnugt er á hvers manns vörm, sef svo mætti segja, og lifa þannig með þessari þjóð. Flest lögin lýsa geðslagi Ísólfs, glöðu, björtu , en þó innilega viðkvæmu. Trúmaður mun hanna hafa verið, betri og meiri en aðrir höfðu hugmynd um, og orðvarari maður eða friðsamari mun hafa verið vandfundinn.

Jón Pálsson, bróðir Ísólfs hefur sagt um bróður sinn: „Ísólfur var þó, þrátt fyrir það, hversu dulur hann var og fáskiptinn, alls enginn þumbari, né vanstillingamaður, hann var glaðlegur, fróður um fjölmargt það, er aðrir vissu lítil deili á, því hann las mikið og mundi vel.“

Ísólfur varð organisti við stokkseyrarkirkju 1893 og var það til ársins 1912, en þá fluttist hann til Reykjavíkur með fjölskyldu sína. Ísólfur hafði alla jafnan söngflokka á Stokkseyri, einn eða fleiri. Fyrir aldamót hafði hann æfðan kirkjukór og lét drengi úr barnastúkunni syngja millirödd, áður en þeir fóru í mútur.Úr kirkjukórnum myndaði hann auk þess annan kór með sama fóli að nokkru leyti. Var það blandaður kór og starfaði í mörg ár, hélt söngskemmtanir, og kom fram við ýmis tækifæri. Skömmu eftir aldamótin [1900] stofnaði Ísólfur karlakvartett, sem starfaði óslitið, þangað til Ísólfur fór, kvartett þessi þótti mjög góður, enda skipaður úrvals söngmönnum, sungu þeir margsinnis á Stokkseyri og víðar, kynntu þeir þannig fjölda sönglaga bæði erlendra og innlendra, þar á meðal eftir Ísólf sjálfan, er þeir lögðu sérstaka rækt við, enda samdi Ísólfur mörg af sínum karlakórslögum fyrir þennan kvartett sinn. Einnig mætti geta þess, að þegar Ísólfur var organisti í Stokkseyrarkirkju, lét hann kirkjukórinn frumflytja mörg af sínum sálmalögum, þar á meðal „Í birkilaut hvíldi ég bakkanum á“ sem upphaflega var sálmalag (Þín miskunn, ó Guð), en var fljótlega sungið við ljóð Steingríms. Ísólfi hafði mislíkað það, í fyrstu, en síðar meir mun hann þó hafa sætt sig við það.

Dr. Páll organleikari og tónskáld, sonur Ísólfs hefur sagt svo um föður sinn: „Mesta yndi hafði ég af að hlusta á föður minn leika á orgelharmoníum í rökkurbyrjun. Hann gat ekki helgað sig tónlistinni nema stutta stund á degi hverjum, því hann hafði skyldum að gegna við stóra fjölskyldu. Foreldrar mínir áttu tólf börn sitt á hverju ári og var oft erfitt að sjá svo stórum hópi farborða, enda þröngt í búi hjá flestum á þeim árum. Faðir minn vann alla algenga vinnu til að afla sér tekna, stundaði sjóróðra, sveitabúskap og ýmislegt annað sem til féll, var auk þess læknir í forföllum og eftirsóttur af nærsveitamönnum. En honum græddist ekki fé, hefur líklega verið of mikill listamaður í sér til þess. Hann var þunglyndur að eðlisfari, hló sjaldan, en hafði viðkvæma lund undir harðri skel og brosti fallega.

Mér er hann minnisstæður, þar sem hann sat í húminu og lék á orgel af fingrum fram, fantaseraði og samdi lög. Þá var ég allur ein hlust, ekki sízt þegar „Í birkilaut hvíldi ég bakkanum á“ kom á móti okkur út úr orgelinu eins og nýfætt lamb, fagnandi sól og vori. Venjulega var hann þó eina eða tvær vikur að fullsemja lögin, áður en hann skrifaði þau.“

Eins og áður hefur verið getið, lét Ísólfur sig miklu skipta flest menningarmál á Stokkseyri, vann mikið að bindindismálum, leikstarfsemi og einkum tónlistarmálum. Hann var maður mjög fjölhæfur, fékkst m.a. við uppfinningar, og læknir þótti hann góður, og virtist flest leika í höndum hans.

Eftir að hann fluttist til Reykjavíkur, hafði hann með höndum stillingu, viðgerðir og smíði hljóðfæra. Kona Ísólfs var Þuríður Bjarnadóttir frá Símonarhúsum, frábær kona og áreiðanlega mörgum minnisstæð vegna sinna góðu mannkosta.Tónlistargáfa ættarinnar hefur gengið ríkulega að erfðum til barna Þuríðar og Ísólfs, meðal þeirra eru dr. Páll tónskáld og fyrrv. organleikari við dómkirkjuna í Reykjavík, og Sigurður organleikari við Fríkirkjuna í Reykjavík.

Það hefur verið sagt um þá menn, sem verið hafa á undan sinni samtíð, eins og Ísólfur Pálsson var, að þjóðin hafi varla verið tilbúin að taka á móti slíkum mönnum, það má vel vera, en þeim mun sættir er þeirra hlutur með því að gjörast merkisberar íslenzkrar menningar. Með tónum sínum hefur Ísólfur Pálsson áreiðanlega sungið sig inn í hug og hjarta þjóðarinnar, og munu lögin hans varðveita nafn hans frá gleymsku um ókomna tíð. Ísólfur lézt í Reykjavík 17. febrúar 1941, tæplega sjötugur að aldir.

Hundrað ára minning. Pálmar Þ. Eyjólfsson. Organistablaðið. 1. október 1971, bls. 13.

Leave a Reply

Close Menu