You are currently viewing Eystri-Rauðarhóll

Eystri-Rauðarhóll

Hann var hjáleiga frá Stokkseyri og nefndist fyrrum Rauðarhóll án frekari aðgreiningar og er getið fyrst með því nafni í manntali 1703 og Jarðab. ÁM. 1708. Eftir að nýtt býli var byggt úr Rauðarhólnum einhvern tíma fyrir 1600, þurfti að aðgreina býlin nánara. Var nýja býlið þá í fyrstu nefnt LitliRauðarhóll, en smám saman var farið að aðgreina þau með orðunum eystri og vestri, eins og tíðkaðist um aðrar hjáleigur í Stokkseyrarhverfi, sem líkt stóð á um. Festist þannig nafnið Eystri-Rauðarhóll við gamla býlið, og höfum vér séð það fyrst notað í manntali 1801, en hefir þá eflaust verið orðin föst málvenja í hreppnum. Um þetta vísast að öðru leyti til kaflans um Rauðarhól.

Hjáleiga þessi fylgdi Stokkseyrareigninni þar til í byrjun 19. aldar. Hinn des. 1806 seldi Jón Ingimundarson á Stokkseyri Eystri-Rauðarhólinn Jóni skipasmið Snorrasyni fyrir 45 rd. En Elín á Baugsstöðum, dóttir Jóns Ingimundarsonar, brigðaði kaup þessi, og afhenti Jón Snorrason henni jörðina fyrir sama verð 25. apríl 1808. Þau Elín og maður hennar, Hannes Árnason á Baugsstöðum, seldu Rauðarhólinn Sigurði stúdent Sigurðssyni á Eyrarbakka, síðar á Stóra-Hrauni, en Sigurður seldi hann aftur 1837 Bjarna Hannessyni á Baugsstöðum, síðar í Óseyrarnesi, fyrir 144 rd. Ekki verður nú séð, hvort Bjarni hefir átt Rauðarhólinn til æviloka og hann þá gengið í arf til einkadóttur hans, Elínar, konu Gríms í Nesi, eða Bjarni hefir selt hann, en hitt er víst, að Jón Stefánsson í Götu var orðinn eigandi hans árið 1901. Nokkru síðar seldi Jón hann eigendum Stokkseyrar, þeim Bjarna Grímssyni og Jóni Jónassyni. Sameinaðist Rauðarhóllinn þá aftur Stokkseyrareigninni og er nú síðan 1935 eign ríkissjóðs ásamt henni.

Leave a Reply