Hóla höfum vér fyrst séð getið í áreiðarbréfi milli Gegnishólanna 13. ágúst 1574 og í sams konar bréfi milli Gaulverjabæjar og Gegnishóla sama dag (Alþb. Ísl. I, 257 og 259). Í bréfum þessum koma fyrir mörg örnefni á mörkum þessara jarða. Aftur er Hóla getið í sambandi við Baugsstaðamál, því að annar þeirra bænda, er þar kemur mest við sögu, var sonur Gunnars bónda í Hólum (Alþb. Ísl. V, 264 og 338). Eftir það er alloft minnzt á Hóla í bréfabókum biskupa, svo sem nánara verður getið hér síðar.
Hólar voru stólsjörð á fyrri öldum, en ókunnugt er, hvenær stóllinn eignaðist jörðina. Á stólsjarðauppboðinu 9. ágúst 1788 voru Hólar, 42 hndr. 80 álnir að dýrleika með 180 álna landskuld og 4 kúgildum, seldir fyrir 273 ríkisdali. Hálfa jörðina keypti Arnór Erlendsson þáverandi bóndi í Hólum, en hinn helminginn Bjarni Sigurðsson á Bjarnastöðum í Selvogi, síðar kaupmaður og riddari í Hafnarfirði. Arnóri hélzt ekki lengi á sínum hluta og hefir selt hann Hannesi biskupi Finnssyni, því að 2. sept. 1805 seldi frú Valgerður Jónsdóttir, ekkja hans, þennan helming jarðarinnar Jóni hreppstjóra Þórðarsyni í Vestri-Móhúsum. Hinn 11. október sama ár keypti Jón hreppstjóri einnig helming Bjarna Sigurðssonar og var þar með orðinn eigandi allrar jarðarinnar. Kaupverð hennar allrar var þá 460 ríkisdalir. Eftir daga Jóns í Móhúsum ( 1849) komu Hólar í erfðahlut Sigríðar elztu, konu Jóns Jónssonar á Vestri-Loftsstöðum. Hér greinir ekki frá því, hvernig jörðin skiptist með börnum þeirra, en dóttir þeirra ein var Guðlaug, móðir Hannesar bónda í Hólum, föður Magnúsar í Hólum, núverandi eiganda og ábúanda jarðarinnar. Landamerki Hóla eru tilgreind þannig eftir byggingarbréfi Brynjólfs biskups til handa Ormi Indriðasyni fyrir jörðinni, dags. í Skálholti 2. maí 1640, og endurtekin í byggingarbréfi Þórðar biskups Þorlákssonar til handa Þuríði Snorradóttur í Hólum, dags. 10. maí 1687:
Að austan millum Loftsstaða og Hóla lækur sá, er rennur fyrir austan túnið á Hólum. Að sunnan millum Tungu og Hóla garðslitur nokkur og að dælu nokkri, kallaðri Golu, hvor eð þrýtur þar, sem Loftsstaðamenn brúka og Tungumenn taka við; úr garðslitrunum sjónhending, þar eð kemur í móts við þúfu nokkra fyrir vestan lækinn, og vestur í Grjóttjörn eftir þeim líkendum, sem þar kunna í milli sýnast og Baukstaðir eiga á aðra hlið. Úr Grjóttjörn til norðurs í stein þann, sem stendur framan til í Blástrargróf; úr steininum í garð nokkurn, sem liggur sunnarlega í Hrísmýri. Úr þeim garði mót austri sjónhending í Hæringsstaðalæk; úr Hæringsstaðalæk suður í Þakvatn; úr Þakvatni í Arnarhólskeldu, með henni, þar til hún kemur í lækjartjörn þá, sem fyrst var getið, millum Loftsstaða og Hóla. (Bréfab. Þórðar biskups Þorlákssonar 10. maí 1687).
Árið 1773 kom upp landaþrætumál milli Hólabænda, Ingimundar Bergssonar og Jóns Jónssonar annars vegar, og Arnarhólsbóndans hins vegar, en þar bjó þá Símon Eyjólfsson sterka. Var réttur settur í þrætulandinu við Hólavatn hinn 15. júní, og voru þar mörg vitni leidd, einkum um rétta staðsetning örnefna. Talsmaður Arnarhólsbónda krafðist þess, að mörk milli jarðanna skyldu teljast réttlínis úr Þakvatni í Arnarhólskeldu, þar sem hún fellur í Lækjartjörn. En talsmaður Hólabænda krafðist þess, að Hólar skyldu halda því landi, sem þeir hefðu hingað til haft og notað, það er að Arnarhólskeldu, eftir hefð og samkvæmt byggingarbréfi Þórðar biskups Þorlákssonar til handa Þuríði Snorradóttur í Hólum 10. maí 1687. Dómi var frestað til 28. júní, og var réttur þá aftur settur á sama stað. Urðu þá sættir í málinu á þá leið, ,,að haldast skyldu mörk á milli Hóla- og Arnarhólslanda ævinlega upp héðan: Að sunnanverðu beina stefnu úr þeim stóra grásteini, sem stendur nálægt Áladæl, norðarlega í austurenda á svokölluðum Markarima og vestur í þúfu á Lambatanga, sem sumir hingað til hafa kallað Arnarhólstanga, úr þeirri þúfu beint á Skammalæk. Þessa sátt lofa viðkomendur að halda óbrigðanlega hver fyrir sinn part.“ (Þingb. Ám. 28. júní 1773).
Hólar voru 42 hndr. 80 áln. að fornu mati og þriðja hæst metna jörðin í Stokkseyrarhreppi hinum forna, næst á eftir Stokkseyri og Hrauni. Afbýli af jörðinni var Hólahjáleiga, gamalt hjáleigubýli, er fór í eyði 1748 og hefir ekki verið byggt síðan. Í manntali 1703 og einungis þar er nefnd önnur Hólahjáleiga, sem hefir verið þurrabúð og í byggð fáein ár. Loks er þar lítil rúst suður á túninu, sem Lokabær nefnist, og fylgir henni sú saga, að þar hafi einsetumaður nokkur hafzt við í þurrabúð fyrir alllöngu. Líklegt er, að það sé sama kot sem hin síðarnefnda Hólahjáleiga.
Landskostum í Hólum er svo lýst í Jarðabók ÁM. 1708: ,,Fóðrast kann 9 kýr, 2 geldnaut, 20 ær, 15 lömb, 4 hestar. Geldfjár og geldnauta upprekstur og afrétt á þessi jörð ásamt Flóa og Eyrarbakkamönnum norður á fjöllum fyrir ofan Eystrihrepp, þar sem heitir Flómannaafréttur, og þetta tollfrí. En fyrir það naut skuli ekki í ótíma hverfa í byggðir aftur, gefa þeir, sem naut eiga á afréttinum, hinum, er við fjallið búa, á Skriðufelli og Ásólfsstöðum, einhvern góðvilja, meiri eður minni, eftir því sem nautafjöldi er til. Torfrista og stunga lök, en þó nýtandi. Silungsveiði hefir áður verið í smálækjum við túnið, brúkast enn nú og hefir jafnan að litlu gagni verið. Eggver er í tveimur smáhólmum, sem þessi ábúandi hefir fyrir meir en 15 árum upp hlaðið, verpur þar nú síðan æðarfugl. Eru þó lítil hlunnindi að þessu eggvarpi eður dúntekju. Skógarhögg hefir jörðin frí til kolgjörðar í stólsins skógi, þar sem heitir Almenningur á fjöllunum fyrir ofan Eystrihrepp. Þessi skógur er nú mjög eyddur, en brúkast þó árlega. Heklubruni hinn síðasti fordjarfaði þennan skóg mest, svo hann hefir síðan mjög lítt blómgazt nema ungviði eitt í næstu 2 ár. Engjum grandar ofvatn í votárum, en vatnsleysi þá þerrar ganga, og verður árlega með stíflum engið að vökva og kostar árlega stórerfiði. Hagaskortur er hinn mesti á vetur, því svell bólgna yfir landið mestallt. Hætt er bæði mönnum og kvikfé á vetur yfir læki þá að sækja, sem girða jörðina, og hefir það í voru minni að manna og fjárskaða orðið. Hér þarf og að brúa með stórerfiði, ef njóta skal haga sumar eður vetur. Eldiviðartak ekkert nema tað alleina.“ (J arðab. ÁM. Il, 41-42).
Á fyrri tímum eða að minnsta kosti á 17. öld var einbýli í Hólum, og byggðu biskupar þá sjálfir jörðina efnabændum. Eftir daga Jóns smiðs Guðmundssonar verður þar tvíbýli, er stóð um langan aldur ( 1725-1912). Á því tímabili verða ábúendur taldir á hvoru býli fyrir sig.