Þegar ég sá fjölda ungra manna vikum saman aðgerðalausa í landlegunum að öðru leyti en að fást við áflog, spilamennsku og einskis nýtar skemmtiiðkanir aðrar, blöskraði mér svo, að ég stofnaði skóla nokkurn, er hlaut nafnið „Sjómannaskóli Árnessýslu“. Starfaði hann í öllum veiðistöðum sýslunnar: Loftsstöðum, Stokkseyri, Eyrarbakka og Þorlákshöfn, Kennslugreinar voru einkum reikningur, réttritun, landafræði og íslenzka.
Sýslunefnd Árnessýslu styrkti skóla þennan með, 100 króna framlagi, er skiptist milli allra veiðistöðvanna til áhaldakaupa og húsaleigukostnaðar, þar sem þess þurfti við.
Kennsla öll var ókeypis og kennarar allir sjálfboðaliðar án nokkurra launa, en prófdómendur voru þeir oftast séra Ólafur Ólafsson í Arnarbæli, séra Ólafur Helgason á Stóra-Hrauni og Ísólfur Pálsson. Kennsla fór fram á hverjum degi, oft myrkranna á milli á landlegudögum og sunnudögum, og hélt hún áfram frá vertíðarbyrjun til loka. Ég á aðeins eina prófskýrslu frá Stokkseyri frá árinu 1894, en nemendur skiptu mörgum tugum á ári hverju og alls mörgum hundruðum.
Frá Stokkseyri man ég einkum eftir þessum áhugasömu, ungu mönnum, er aldrei létu sig vanta, hvenær sem kennt var:
Jón Ólafsson, síðar alþingismaður og bankastjóri, Einar Jónsson frá Geldingalæk, síðar alþingismaður, Páll Lýðsson frá. Hlíð, Matthías Jónsson frá Skarði, Jón Jónsson frá Minna-Núpi, Jón Adólfsson á Stokkseyri, Sigurður Kr. Adólfsson ( d. 3. maí 1942 í Seattle í Bandaríkjunum), Árni Sigurðsson frá Hafnarfirði, Jóhann Jónsson frá Hafnarfirði, Jón Guðnason, síðar fisksali í Reykjavík, Bogi Ólafsson, síðar Menntaskólakennari í Reykjavík, Ísleifur Jónsson frá Jórvíkurhryggjum í Álftaveri, Gísli Magnússon frá sama stað, Ólafur Gíslason frá Sigluvík, síðar í Grimsby, Jónas Pálsson frá Breiðabólstað í Reykholtsdal, síðar í Ameríku, Lúðvík Símonarson frá Holti undir Eyjafjöllum, Ögmundur Guðmundsson síðar verkstjóri í Reykjavík og margir fleiri.
Síðar sögðu margir þessara manna, að þetta nám hefði orðið þeim til mikils gagns og verið eina nám þeirra utan heimilis síns, því fæstir þeirra, einkum sveitapiltarnir höfðu átt kost á skólalærdómi.
Fyrir hina, sem verið höfðu einn vetur eða tvo í barnaskóla, var þetta góður viðbætir að rifja það upp, sem þeir höfðu áður lært. Hafa margir þeirra síðar látið svo um mælt, að á þeim dögum hafi þá eigi dreymt um að verða skipstjórar, alþingismenn, hreppsnefndaroddvitar eða hreppstjórar og því síður kennarar við æðri skóla. Þessi litli vísir hefði aukið þeim áhuga og áræði til þess að komast lengra. Og þeir létu ekki sitja við orðin tóm.
Ég hef ástæðu til þess að vera hreykinn af að hafa komið skóla þessum á stofn, enda hef ég séð gleðilegan árangur af þeirri viðleitni minni að efla og aðstoða unglinga til þess að hjálpa sér sjálfir.
Kennari á Eyrarbakka var Pétur Guðmundsson, í Þorlákshöfn Sigurður Þorsteinsson frá Flóagafli, faðir séra Árna Sigurðssonar fríkirkjuprests, en á Loftsstöðum Jón Jónsson hinn yngri.
Af framanskráðu má sjá, að oft getur lítil stund orðið til góðs, sé hún rétt notuð. Piltar þeir, er skólann sóttu á Stokkseyri, notuðu hverja stund svo vel, að þeir höfðu þangað með sér skinnklæði sín, til þess að eigi stæði á þeim til sjóróðranna, ef þeir væru „kallaðir“ án nokkurs fyrirvara. Kom það oft fyrir, að þeir voru kallaðir þangað upp úr hádeginu án minnstu viðvörunar.
Ég hygg, að óhætt sé að fullyrða, að Bakkinn hafi verið eitt hið lífvænlegasta og liðtækasta hreppsfélag á Suðurlandi til ýmissa nytsamra fyrirtækja, enda sáust þess mörg merki og góð.
Flokkadráttur var þar enginn né fáránlegar vangaveltur um stjórnmál eða annað dægurþras. Áhugi manna beindist einkum að vinnunni og því að láta sem mest gott af sér leiða, jafnt fyrir aðra sem sjálfa sig. Því var félagsanda þar að finna meðal svo margra, en þó einkum meðal hinna ungu.