Nokkrar minningar
Árið 1875 kom fyrsta harmoníið í kirkju austanfjalls, í Arnarbæliskirkju, og var það kona prestsins, séra Jens Pálssonar, frú Guðrún, dóttir Péturs Guðjohnsen dómkirkjuorganista, sem á það lék. Faðir prestsins, séra Páll Jónsson Matthiesen ( d. 9. febrúar 1880) hafði verið sóknarprestur Stokkseyrarprestakalls um 5-6 ára skeið og búið á Ásgautsstöðum, sem þá var prestssetur, og hann því nánasti nágranni foreldra minna, er bjuggu að Syðra-Seli, og liggja löndin saman; aðeins 10 mínútna gangur á milli bæjanna. Séra Jens vígðist 2. nóvember 1873 sem aðstoðarprestur föður síns, en 1874 kom þangað séra Gísli Thorarensen frá Felli í Mýrdal. Naut hans skamma stund við, því að hann andaðist á jóladaginn, 25. desember, sama árið, er hann var albúinn þess að ganga í kirkju til messugjörðar.
Séra Páll Ingimundarson í Gaulverjabæ þjónaði svo Stokkseyrarprestakalli, unz þangað kom svo Jón Björnsson frá Hítarnesþingum ( d. 2. maí 1892)
Bréf nokkurt, dags. 27. janúar 1876, á ég í fórum mínum. Er það beiðni sóknarnefndarinnar í Stokkseyrarprestakalli til safnaðarins um það að kaupa harmoníum í Stokkseyrarkirkju, og er sóknarnefndin öll útgefandi bréfsins, en í henni voru þeir Guðm. Thorgrimsen (hann hafði samið bréfið, og er það með hinni fögru rithönd hans), Þorleifur Kolbeinsson, Grímur Gíslason .(móðurbróðir minn) í Óseyrarnesi, Páll Eyjólfsson í Íragerði (ömmubróðir Páls Ísólfssonar) og svili hans, Páll Jónsson á Syðra-Seli (faðir minn).
Samskotalistar lágu frammi hér og þar í sókninni og þess getið á listunum og í bréfinu, að hljóðfærið eigi að kosta 400 kr. Samskotin urðu 399 kr. 98 aurar! Þá var og þess getið í bréfinu, að ungfrú Sylvía (síðar frú Ljunge) dóttir Thorgrimsens hefði boðizt til að kenna ungum manni þar í sókninni, þá aðeins 18 ára að aldri, Bjarna Pálssyni í Götu (bróður mínum) að leika á kirkjuhljóðfærið; kennslan skyldi vera ókeypis, enda varð hún það.
Ég verð að skjóta því hér inn í, að hinn 14, október 1875, en þá var hljóðfærið komið til landsins, bauð Bjarni mér að fara með sér út á Eyrarbakka, en þangað fór hann tvisvar í viku, og er það rúmlega einnar stundar leið fyrir fótgangandi mann hvora leið. Sat ég svo við hlið Bjarna allan daginn, meðan hann var að æfa léttustu æfingar sínar. Vissi ég þá hvorki í þennan heim né annan af aðdáun og undrun yfir fegurð og tign hinna undursamlegu tóna, er ég heyrði í fyrsta sinni frá nokkru hljóðfæri. Þegar svo samskotalistinn kom inn á heimili foreldra minna, þótti mér það hæð; ljúft og skylt, að leggja einnig minn „pening í guðskistuna“, en það var 1 mark eða 33 aurar í hinni nýju mynt. Upphæð þessi var og sá skerfur, sem flest börn létu af hendi rakna þar í sókninni. Ég var þá aðeins 10 ára að aldri og harla mjór og stuttur máttarstólpi mannfélagsins. En „kornið fyllir mælirinn“, enda gáfu nokkrir menn stærstu upphæðirnar, 20 krónur. Þótti það ærið fé, en áhuginn var bæði mikill og almennur. Síðan var orgelið vígt af sóknarprestinum séra Jóni Björnssyni á hvítasunnudag, 4. júní 1876, og lék Bjarni Pálsson á það alla tíð, meðan honum entist aldur til.
Veturinn 1877-78 var ég í barnaskólanum á Eyrarbakka um 4 mánaða skeið. Hafði skólinn verið stofnaður 1852 fyrir atbeina þeirra Thorgrimsens og Þorleifs á Háeyri. Skólinn var því 25 ára þetta haust. Fyrsti kennari við hann var séra Jón Bjarnason, faðir Bjarna frá Vogi. Afmæliskólans var hátíðlegt mjög, og voru það einkum skipasmiðir héðan að sunnan, sem þá voru við skipasmíði á Eyrarbakka, sem mest sungu og bezt héldu uppi veizlufagnaðinum, Þórður frá Gróttu, Guðmundur, sonur hans, og Jón ,,lóðs“. Heyrði ég þá í fyrsta sinni sungna ýmsa „brandara“ héðan að sunnan, og þótti mér það nýjung mikil og nógleg skemmtun.
Veturinn næsta þar á eftir kom ungur maður að Syðra-Seli, Einar Einarsson frá Laxárdal í Hrunamannahreppi; hafði hann með sér ofurlítið hljóðfæriskríli til að æfa sig á, og var Bjarni í Götu kennari hans. Tónsvið hljóðfæris þessa var fjórar áttundir með einni rödd. Aldrei hef ég séð stórvaxnari hendur en á þessum manni, en hann var söngvinn vel, áhugasamur og iðinn við lærdóm sinn. Síðar varð hann um langt skeið organisti í Hafnarfjarðarkirkju. Hann var faðir Sigurðar Hlíðar, yfirdýralæknis hér í Reykjavík, ágætismaður hinn mesti og söngmaður góður. Einar dvaldist um veturinn þarna við nám sitt fram að vetrarvertíð, og átti ég þá kost á að kynnast helztu undirstöðum sönglistarinnar, þekkja nóturnar á bókinni og tónfletinum, en enga löngun fann ég þá til þess að gefa mig að því, þangað til um jólaleytið þá um veturinn, að þeir Bjarni og Einar fóru fótgangandi og á rifahjarni út að Arnarbæliskirkju. Fékk ég að vera í fylgd með þeim. Heyrði ég þá tala saman um ýmislegt sönglistinni viðkomandi, og var það allt eintóm hebreska fyrir mig. Þeir nefndu tótal tónanna, sveiflur þeirra á sekúndu hverri, tónbilin terz, kvart og kvint, jafnvel undecímur og subcontra-áttundir! Þótt þetta færi þá fyrir ofan garð og neðan skilnings míns og sköpunarafls, varð það þó til þess, að mér fannst það ómaksins vert að kynnast því nánar og reyna að glíma við það. Ég lærði því að þekkja nóturnar hjá Einari. Það virtist mér auðvelt verk og létt, enda óx nú löngun mín til þess að læra meira. Bað ég þá móður mína „að fara á fjörurnar“ við föður minn, að ég mætti ,,læra á orgel“ og við Bjarna, að hann vildi kenna mér. En nú var Einar farinn með hljóðfærið sitt og var því eigi í annað hús að venda en að fara fram að Stokkseyri, 15-20 mínútna leið, og æfa mig á kirkjuhljóðfærið. Sóknarnefndin leyfði mér afnot hljóðfærisins, faðir minn leyfði, að ég mætti fara tvisvar í viku frá gegningunum og öðru umstangi heima fyrir að liðnu hádegi þá dagana, er ég þyrfti að fara til æfinganna og loks tók Bjarni vel í það og góðfúslega að kenna mér, þótt hann væri þá og um það leyti dags, tímabundinn við kennsluna í barnaskólanum á Stokkseyri, en hann var á stofn settur veturinn 1879-80. Aldrei á ævi minni hef ég orðið að þola annan eins kulda, sem þann, er ég varð að sætta mig við suma dagana við æfingar mínar í Stokkseyrarkirkju, en ég hugsaði þá eins og karlinn, sem komst svo kynduglega að orði: Í það skal mig!
Bjarni hafði haldið því fram í málaleitan sinni við sóknarnefndina, þótt enn væri hann sjálfur svo ungur sem hann var; aðeins rúmlega tvítugur, þá gæti svo farið, að hans missti við og þá væri enginn til þess að taka við organistastarfinu. Það kom líka að þessu, þegar hann drukknaði með föður mínum í Þorlákshöfn 24. febrúar 1887, með tveim bræðrungum mínum og öðrum tveim á líkum aldri. Næsta sunnudag, 27. febrúar, tókst ég svo þann mikla vanda á hendur að spila á orgelið í Stokkseyrarkirkju. Séra Jón Björnsson leyfði mér, eins og hann hafði ávallt leyft Bjarna bróður mínum, að velja sálmana, og valdi ég sem messuupphafssálm nr. 371 í sálmabókinni: ,,Gegnum hættur, gegnum neyð“. Söknuðurinn að þeim, sem fórust 24. febrúar 1887, var almennur mjög og átakanlegur, eigi síður fyrir mig en aðra.
Bjarni hafði sjálfur valið sálmana, sem sungnir voru sunnudaginn næstan á undan (20. febrúar), og valið sem útgöngusálm nr. 97: ,,Það er svo oft í dauðans skuggadölum“, undir laginu í Bergreenskóralbók nr. 31, gullfallegt lag, sem því miður hefur ekki komizt í hinar nýjustu kirkjusöngsbækur vorar.
Séra Valdemar Briem orti minningarljóð um atburð þennan og menn þá, er þarna fórust, og voru þau prentuð ásamt nokkrum orðum um sérhvern þeirra. Minningarljóðin um föður minn eru undir lagi því, er Bjarni hafði samið, „Hin mæta morgunstundin“ og byrja þannig: ,,Nú hýr er horfinn dagur í hafsins dimma skaut“.
Hún var eigi fyrirferðarmikil né umfangsrík þekking mín á skólamálum eða kennslu, þegar ég varð að taka að mér barnaskólakennarastarfið á Stokkseyri veturinn næstan á eftir.
Búfræði mín var þá eigi heldur á marga fiska, er ég varð einnig að taka forstöðu heimilis ekkju Bjarna, bróður míns, á hendur og barna þeirra, en hjá þeim hafði ég verið vinnumaður áður um tveggja ára skeið, og næstu tvö árin hafði ég öll störf þessi á hendi, organistastörfin við kirkjuna, barnaskólakennsluna og bústjórnina. Börnin voru 4 á lífi þá, hið elzta 7 ára og hið yngsta á 1. ári og efni af mjög skornum skammti. Fengi ég vinnu hjá öðrum og utan heimilisins, var kaupið 2 krónur á dag og 20 aurar um klukkutímann, ef um tímakaup var að ræða. Þannig var þetta hæsta kaup, er ég og aðrir fengu, meðan ég var þar eystra til 1902, og í kaupavinnu var kaupið á þessum árum hæst um 12 krónur um vikuna. Þótt kaupgjald manna væri svona lágt og lægra, áttu þeir jafnvel helming árskaups síns óeyddan í lok ársins. En nauðþyrftir þeirra flestar voru og þá að sama skapi ódýrar og í samræmi við kaupið. – Menn þekktu þá ekki til neinna verkfalla eða vinnustöðvana, og hafi menn verið óánægðir með kjör sín þá, en til þess vissi ég engin dæmi eða fá, þá var það sérstaklega sameiginlegt flestum mönnum að vinna húsbændum sínum og þeim, er vinnunnar nutu, sem allra mest gagn sem þeir máttu, og sjálfir að fá að njóta vinnugleðinnar og góðs árangurs af störfum þeirra, eigi fyrir sjálfa sig, heldur aðra. ,,Tímarnir breytast og mennirnir með“. Hvað segja síðustu 50 ár um það?
Hinn 14. desember 1890 var Eyrarbakkakirkja vígð af herra Hallgrími biskupi Sveinssyni. Sungnir voru 13 sálmar. Messu-upphafssálmurinn var númer 595, ,,Ó, maður, hvar er hlífðarskjól á heimsins köldu strönd“, eftir Matthías Jochumsson og undir hinu gullfagra og tignarlega lagi, „Hvar mundi vera hjartað mitt?“, sem tvímælalaust er eitt hið áhrifamesta sálmalag vort, þrungið eldlegum guðmóði og hátignarlegum viðhafnarblæ. Er mér enn í minni hin gullfagra söngrödd prófastsins, séra Sæmundar Jónssonar í Hraungerði, er hann þjónaði fyrir altari eftir prédikun þenna dag; það voru „flageolet“-tónar (flasjólet-), mjúkir og undra-þýðir. Ég hafði oft áður heyrt þessa tóna frá munni séra Sæmundar, og nú heyrði ég þá í hinzta sinni. Þeir voru ávallt fagrir, en aldrei sem nú, en þeim mátti líkja við svanasönginn, sem sagður er fegurstur undir andlát söngvarans. Séra Sæmundur andaðist 8. nóvember 1896, rúmra 64 ára að aldri (f. 19. maí 1832).
Ástæða væri til að minnast ýmissa góðra söngmanna fyrr og síðar austur þar og hér syðra, en rúmið leyfir það eigi, enda hef ég gjört það á öðrum stað. En að þessu sinni vildi ég aðeins minnast tveggja ágætustu söngmanna, er ég hef komizt í kynni við og einkum frá þessum kirkjuvígsludegi á Eyrarbakka. Eru það bassasöngvararnir Guðmundur Oddgeirsson og Sigurður Eiríksson regluboði, faðir herra Sigurgeirs biskups. Söngur þeirra var eins og djúpur hafbylgjuniður (unda marís) undir hinum mjúku og hreinu tónum séra Sæmundar þennan dag. Bassatónar þeirra hvors um sig náðu niður á as í stóru áttund, og er það óvenjulegt að heyra svo djúpa tóna úr nokkurs manns barka, svo hreina og slétta, en um leið mjúka og fyllandi.
Kirkjuvígsluathöfn þessi og guðsþjónusta öll voru áhrifamiklar mjög, söngurinn vel æfður, og mun þetta verða minnisstætt mörgum þeim, er viðstaddir voru. Það var 38 manna blandaður kór frá Stokkseyri og Eyrarbakka, sem þarna lét til sín heyra. Mér er sem ég heyri enn „bolflautuna frá Hraungerði“, er við nefndum svo, óma í eyrum mínum og yfirgnæfa hinar mörgu og magnþrungnu raddir kórsins, orgels og safnaðar. Annars voru söngkraftarnir austur þar hinir ágætustu, og lét Steingrímur sál. Johnsen þess sérstaklega getið, hversu kirkjusöngurinn væri góður, svo og þess, að þar voru menn tveim árum á undan öllum öðrum hér á landi, sem lært höfðu og æft hverja einustu nótu í hátíðasöngvum séra Bjarna Þorsteinssonar. Séra Jón sál. Björnsson hafði lagt mikið erfiði á sig við það að koma Eyrarbakkakirkju upp og fá hana byggða. Hann andaðist 2. maí 1892, aðeins tæpra 63 ára að aldri (f. 16. ágúst 1829).
Áhugi hans fyrir þessu göfuga málefni mun hafa orðið honum ofraun, sem heilsa hans þoldi eigi. Hann var framúrskarandi góður klerkur og ljúfmenni hið mesta.
Það varð nú hlutverk mitt um skeið að hafa organistastörfin á Stokkseyri á hendi, en 1893 tók Ísólfur, bróðir minn, við þeim af mér á Stokkseyri og gegndi þeim til ársins 1910, að hann fluttist hingað. Eftir hann tók svo Gísli, bróðir okkar, við þeim um 30 ára skeið, og nú er það Margrét, dóttir hans, sem annast þau.
Þau voru nokkuð mörg, járnin, sem ég hafði í eldinum þar eystra um þessar mundir og þangað til ég fór þaðan alfari hingað suður – og í skyndi – 1902; auk barnaskólakennslunnar, orgelkennslu og skrifstofustarfa kvölds og morgna hafði ég árlega svo mikla orgelsölu á hendi, að hún nam mörgum tugum hljóðfæra (sum árin um 30 píanó og 50 harmoníum), er ég útvegaði í fjölda kirkna (harmoníin) um land allt. Var það allt umboðssala með verksmiðjuverði og án eins eyris álagningar af minni hálfu, enda fékk ég hundraðsgjald hjá verksmiðjunum fyrir „minn snúð“.
Ég komst í það að verða hreppsnefndaroddviti Eyrarbakkahrepps, þegar hann var aðskilinn frá Stokkseyrarhreppi hinum forna árið 1897, en starf þetta losnaði ég við með óvenjulegum hætti, en þó samkvæmt lögum og hét því fyrir mig, að nærri slíkum málum skyldi ég aldrei koma framar, enda hafði ég verið neyddur til þess, þrátt fyrir hörðustu mótmæli mín. Það var alls eigi vegna verðskuldaðra hæfileika, að mér var troðið inn í trúnaðarstöðu þessa. Því réði óvildin ein og hefnigirni fyrir það, að ég hafði verið ,,óþægur ljár í þúfu“ einum andstæðingi bindindismálsins. Endurtók það sig svo síðar og á aðra lund oftar en einu sinni. – Það er nú allt gleymt, en geymt.
Félagslífið þar eystra var bæði fjölþætt og fjörugt: Söngfélög, leikfélag, lestrarfélag og bindindismálið voru aðaláhugamálin, borin uppi og studd af fjölda ungra karla og kvenna og einkum „fólkinu í Húsinu“, frú Eugeníu Nielsen o. fl. Þótt verzlunarstjórarnir, Guðm. Thorgrimsen og Nielsen, tengdafaðir hans, gæti eigi talizt meðal þeirra, er bezt og mest unnu bindindismálinu til frama og farsældar, voru þeir hvor um sig svo góðir menn og vitrir, að þeir lögðu aldrei stein í götu þess, heldur jafnvel styrktu það og studdu á ýmsa lund; svo var og um öll önnur mál, er þeir sáu, að til góðs gæti verið þar í héruðunum. I. R. B. Lefolii gaf t. d. vandað harmoníum í kirkjuna og setti stundaklukku í turn hennar. Nielsenshjónin stóðu fyrir ýmsum bjargráðum og slysavörnum, sjúkrasjóðum o. fl., er segja mátti um, að væri á undan tímanum, og prestarnir létu sjaldan á sér standa með ýmiss konar þátttöku í góðu og göfgandi félagslífi ungra manna og kvenna. Séra Jón sál. Björnsson hóf brátt samvinnu við Bjarna í Götu um að halda fræðandi og skemmtandi fyrirlestra, er hann (B. P.) hélt í rökkrinu á hverju kvöldi um margra ára skeið. Þar var leikið, lesið upp og sungið, ræðuhöld æfð og fundarstjórn kennd, en aldrei dansað. Leikir þeir, er æfðir voru og oft sýndir, voru allir bráðskemmtilegir og vel valdir og gagnstæðir leikjum þeim flestum, sem sýndir eru við óhemju aðsókn hér í höfuðstaðnum, t. d. eins og „Stundum og stundum ekki“ eða ,,Allt í lagi, lagsi“, og fleiri þess konar skrípaleikir. Börnunum var ekki gætt á Grýlu, Gilitrutt, ,,steiktu barnakjöti“ eða mannætum eða þau hrædd með forynjum og fyrirferðarmiklum og „stórum körlum“, er kæmi á leið þeirra, dræpu þau og æti sem hvert annað lostæti. Það var áreiðanlega einhver annar hugsanagangur í höfði þessara góðvina barnanna en sá, sem nú ber mest á meðal hinna svonefndu leiðandi manna nú á tímum.
Börnin voru aldrei látin koma opinberlega fram með neitt það, er þau höfðu með höndum, nema í söng, vel þjálfuð og æfð. Það kom víst engum til hugar, að það væri heppilegt fyrir 8-12 ára gömul börn, að hinir eldri væri að terra þau fram fyrir almenningi, láta hann vita um aldur þeirra, nöfn og það, hversu miklir menn þau væri og hve mikið þau gæti afrekað – svona ung – á sviði listar og leikaraskapar, svo sem nú er gert. Á þá lund er börnunum gefið undir fótinn með montið og mikilmennskubraginn.
Þá var og séra Ólafur Helgason hrókur alls fagnaðar meðal ungra manna á Eyrarbakka, en einkum þó séra Ólafur Ólafsson í Amarbæli og síðar fríkirkjuprestur. Beri menn nú saman bækur þær, er hann samdi, t. d. ,,Foreldrar og börn“, ,,Hjálpaðu þér sjálfur“ o. s. frv. eða þá ritgjörðir hans, m. a. ,,Þarfasta þjóninn“. við bækur nútímans og þá einkum barnabækur þær, sem jafnvel eru löghelgaðar til náms, mætti ef til vill segja: ,,Veldur hver á heldur“. Eða segjum „Alþýðubókina“ hans séra Þórarins Böðvarssonar í Görðum. – Hún var kölluð „Alþýðubókin“, en hét „Lestrarbók handa alþýðu“, gefin út 1874 og eru nú 70 ár liðin frá því. En eigi býst ég við, að þar sé mikið af hégómlegu eða ómerkilegu masi um neitt.· Þetta var bezta barnabókin þá.
Þá hafði P. Nielsen gamli leikfimisæfingar með drengjum, kona hans, frú Eugenía Nielsen, og Sól veig, systir hennar, saumakennslu með ungum stúlkum ásamt söngkennslu. Og allt var þetta ókeypis.
Ég átti því láni að fagna, og það var mikið lán og gott, að lifa á þessum tímum, taka þátt í flestu því, er þar fór fram og læra af því, þótt segja megi, að það hafi ekki borið mikinn árangur, og vildi ég nú í fæstum greinum skipta á þessu við æskulýð þann, sem nú er að vaxa upp, eða kjör þau, er honum hlotnazt, og alls ekki í heimilisháttum þeim og hollu samlífi við mína nánustu og fjölda góðra vina, er ég hef verið svo lánsamur að mega njóta öll þau ár, nærri 80, er ég hef fengið að lifa.
Það var föst og viðtekin venja, að húslestrar færi fram á hverju kvöldi frá haustnóttum til páska og sums staðar til hvítasunnu. Svo var það í foreldra heimili mínu. Var þá sungið úr Hugvekjusálmum, Fæðingarsálmum, Passíusálmum og loks Sigurljóðum eða yfirleitt úr Flokkabókinni svonefndu. Á sunnudögum voru sungnir sálmar úr Grallaranum og Píslarþankar lesnir á föstunni eða þá úr Sjöorðabókinni. Voru það gömlu lögin, er þá voru sungin, og því er það að þakka, að ég kann sum þeirra, en því miður ekki öll. Meðal laga þeirra, er sungin voru og mér tókst að vernda frá gleymsku og glötun, er lagið „Víst ertu Jesús, kóngur klár“ og fleiri, enda á ég nú flest á hljóðrita, sungin af Guðm. Ingimundarsyni frá Bóndhól í Borgarfirði, er var forsöngvari í Borgarkirkju um 30 ára skeið eða fram að 1870. Guðm. kom hér árlega og stundum oftar frá 1903 til ] 912 beina leið og ávallt gangandi þaðan ofan að, beinlínis til þess að syngja lög þessi fyrir mig. Hann andaðist 1917, 84 ára að aldri (sjá Óðin það ár og mynd hans þar). Rímnalögin (stemmurnar) söng Hjálmar Lárusson hinn skurðhagi á sömu lund fyrir mig inn á hljóðritann. Eiga þau því öll að vera til og vel geymd í Þjóðminjasafninu, eftirkomendum og núlifandi kynslóð til athugunar og afnota, ef hún æskir þess.
Þá var það og föst venja, að allir þeir er vildu, færi til kirkju á hverjum sunnudegi og á hátíðum öllum og til altaris einu sinni á ári, auk þess sem sjálfsagt var að fara til altaris með fermingarbörnunum. Á sumardaginn fyrsta og á kóngsbænadag (hann var felldur niður úr helgidagatölu 1896) voru og lesnir húslestrar eða ræður, sem til þess voru gerðar og við áttu þessa daga.
Jólin byrjuðu með aftansöng, og árið var kvatt með sama hætti og hinu nýja fagnað á gamlárskvöld. Síðar eða 1897 komust svo hátíðasöngvar séra Bjarna Þorsteinssonar í notkun, og vorum við þar eystra tveim árum fyrri til að æfa og syngja hverja einustu nótu í þeim með öllum röddum, en nokkrir aðrir hér á landi. (Sjá ritið „Verði ljós“ um aldamótin og e. t. v. ,,Kirkjublaðið“ um það leyti).
Um áramótin voru stórfelldar brennur haldnar á Stokkseyri og Eyrarbakka. Var ég þá ávallt í broddi fylkingar sem álfadrottning og Stóri-Guðni sem álfakóngur. Ég held, að ég sé rámur í hálsi og kverkum frá þeim tímum, því að þá var sungið af fullum hálsi, löng kvæði og hljóðin lítt spöruð.
Þegar gott var veður, var farið í útreiðir, ýmist upp á Kaldaðarnesvelli eða austur að Skiphólum eða Loftsstöðum. Sást þá eigi vín á neinum, en allir skemmtu sér prýðilega.
Um réttaferðirnar, sumardagsveizlurnar, erfisdrykkjurnar, brúðkaupsveizlurnar og siði þá, er viðhafðir voru við þau tækifæri, hef ég skrifað sérstaklega, svo og um ferðalögin á sjó og landi.
Tvö söngfélög hafði ég á Eyrarbakka, Söngfélagið „Báru“ og karlakór, auk söngfélags 30 barna. Á Stokkseyri hafði Ísólfur einnig söngfélög, eitt eða fleiri, eftir að Bjarni í Götu, bróðir okkar, féll frá, en hann hafði haft góða og mikla starfsemi á þessa lund, auk fræðslustarfsemi sinnar og fyrirlestra, sem áður er að vikið. Fyrir hans atbeina og undir leiðsögn hans voru mörg leikrit leikin, bæði á Stokkseyri og Eyrarbakka. Samdi hann þau flest sjálfur, m. a. „Eitt kvöld í klúbbnum“, er gerist í Hafnarfirði, og lék ég þar aðalhetjuna Manga á Mölinni (Magnús Geirsson formann), ómengaðan fylliraft, og fékk ég mikið hrós fyrir það, hvað mér hefði tekizt það vel „að vera fullur“! (Thorgrimsen hafði meðal annars orð á þessu). Þá voru og leikirnir „Fundurinn á Dunki“, sprenghlægilegur, og „Greftrunardagurinn“ einnig. Voru þeir oft leiknir, einkum hinn fyrstnefndi, og aðsóknin mikil. Aðgöngumiðar kostuðu þá bæði á samsöngva og leiki 35 aura fyrir fullorðna og 15 aura fyrir börn. Þá var þar og leikinn fjöldi annarra leika: Narfi, Andbýlingarnir, Skugga-Sveinn, Ævintýri á gönguför og fjöldi annarra erlendra leikrita, er þýdd voru, einkum úr sænsku eða þá úr dönsku, svo sem Holberg o. fl.
Samsöngva þá, er haldnir voru, sóttu menn mjög, enda voru söngkraftar óvenjulega góðir, og oft mætti þar sem einsöngvari Geir Sæmundsson frá Hraungerði. Þar söng og um mörg ár Sigfús Einarsson; lengst af söng hann millirödd, meðan hann hafði óspillta barnsrödd sína og ekki kominn í mútur. Eftir það fór hann í skóla og síðan til Kaupmannahafnar, unz hann kom aftur 1905.
L’hombre var spilaður á hverju laugardagskvöldi heima í „Húsinu“, því að Nielsen gamli var mikill spilamaður, svo og Bach bakari, Guðmundur bóksali og Guðmundur Ögmundsson. Aldrei var lengur spilað en til kl. 12, og enginn maður, er að spilunum sat, drakk meira en 1 eða 2 toddy-glös, meðan á spilamennskunni stóð.
Heima í „Húsinu“ voru jafnan ein eða tvær stúlkur og stundum fleiri, er þangað var komið um tíma og oft árlangt eða allan veturinn til þess að læra hannyrðir og húshald. Var kennsla þessi jafnan ókeypis, og naut kona mín m. a. hennar með góðum árangri.
Það hefur oft verið á orði haft, að Bakkamenn hafi verið drykkjumenn hinir mestu, og víst var vínið nóg. En sannleikurinn er nú sá, að þeir voru ekki drykkjumenn. Þeir drukku margir að vísu daglega, en ég sá aldrei dauðadrukkinn mann eða neinn, sem væri ósjálfbjarga, þeir voru aðeins sætkenndir. En á þeim dögum kom G.T.-reglan til sögunnar fyrir atbeina Bjarna í Götu, sem varð til þess, að bindindi og reglusemi voru brátt í hávegum höfð. Margir gamlir vínneytendur gengu í stúku og urðu þar hinir beztu stuðningsmenn bindindismálsins. Gæti ég nefnt marga þeirra, en þess er engin þörf.
Stórt og mikið lestrarfélag var á Bakkanum, Lestrarfélag Árnessýslu, og stjórnaði því lengstum Kristján Jóhannesson. Þar var og Sparisjóður Árnessýslu. Var ég í stjórn hans með Kristjáni og Guðjóni Ólafssyni í Hólmsbæ frá 1892 til 1902, en þá fór ég þaðan.
Meðal þess annars, er ungir og gamlir, a. m. k. menn um þrítugt og jafnvel eldri, höfðu sér til skemmtunar á vetrum, þegar ísar voru nógir, var það, að renna sér á skautum. Undanfærið var nóg: Öll Breiðamýri, allar ár og lækir meðfram sjávarströndinni, alla leið vestan frá Hrauni í Ölfusi og austur að Seljalandsmúla undir Eyjafjöllum, en sú leið mun vera um eða yfir 80 kílómetra. Þegar ár og lækir eða önnur vötn eru svo ísi lögð, að komast má hættulaust, og það er oft, þarf ekki að leysa af sér skautana alla þessa leið. Það er samfellt og venjulega gott skautafæri og hvergi yfir óísilagða jörð að fara; leiðin er næstum bein, aðeins nokkrir krókar á henni hér og þar.
Hvar er farið?
Yfir Ölfusá fyrir norðan Óseyrarnes, norðan við Eyrarbakka, sunnan við Hraunshverfið, hjá Gamla-Hrauni, austur á Hafliðakotsvatn og að Syðra-Seli, yfir Ásgautsstaðavatn, hjá Kotleysu austur á Traðarholtsvatn, um Skipavötn og Hólavatn, fyrir neðan Tungu og þaðan yfir Miklavatnsmýri að Fljótshólum, yfir Þjórsá, um Þykkvabæjarvötn, Landeyjar, Markarfljót, og láglendið þar austur af, að Seljalandsfossi. Sennilega má þó komast lengra, t. d. austur á Holtsós og því langt austur með Eyjafjöllum, en þá er vegalengdin orðin sýnu lengri eða allt að 100 kílómetrum.
Þetta var oft notað. Og eigi einungis til að renna sér á skautum, heldur og að draga þunga sleða. Það mun hafa verið 1874-75, sem þá var dreginn legsteinn utan af Bakka austur að Odda eða að Stórólfshvoli, og var hann settur á gröf Skúla læknis Thorarensen, sem grafinn var að öðrum hvorum þessum stað, en hann andaðist 1. apríl 1872.
Ég man enn vel eftir því – ég var þá 8 ára -, er þeir Jón Árnason í Garðsauka og synir Skúla læknis, Grímur í Kirkjubæ og Þorsteinn á Móeiðarhvoli, komu að Syðra-Seli síðla dags og í hellirigningu með þennan stóra og þunga sleða á leið sinni austur. Asahláka var að byrja, og óttuðust þeir, að færið mundi spillast svo, að þeir kæmist eigi alla leið, og héldu þeir því áfram um nóttina. Síðar fréttum við, að þeir hefði komizt heilu og höldnu alla leið með sleðann og það, sem á honum var, morguninn á eftir.
Sérstaklega voru skautaferðirnar tíðkaðar, ef langt var að fara, t. d. upp að Hraungerði, upp í Grímsnes eða austur í Holt, en annars voru þær notaðar mjög í rökkrinu ýmist austur í Löngudæl eða Litlahraunsvötnum eða þá á Steinskotshópum nálægt Steinskoti og Fælu. Mátti þá sjá marga unga og vaska drengi bruna fram og aftur yfir ísana og taka sem lengst skautaförin. Þar voru oft ungir menn frá Óseyrarnesi, úr Hraunshverfi, austan úr Stokkseyrarhverfi og frá Seljunum. Einn staður á þessari leið eða tveir voru þó hættulegir: Hrakvaðalækirnir norður af Bjarnavörðu og Skerflóð, því að á báðum stöðum voru jafnan opnar vakir af leirkenndu árennsli, og því fór Skerflóðs-Móri sér þar að grandi 1755, og eftir síðustu aldamót fórst drengur frá Hæringsstöðum í Hrakvaðalæknum eystri. Vakirnar sjást ekki á lygnu veðri, þótt albjart sé, fyrr en að þeim er komið eða ofan í þær, og þar er hyldýpi mikið og háir bakkar báðum megin, svo að ómögulegt er að bjarga sér, án annarra hjálpar, sérstaklega úr Hrakvaðalæknum.
Hjálpsemi manna á Bakkanum – Stokkseyri og Eyrarbakka – var almenn mjög og oft mikilvæg. Einhvers staðar á ég í fórum mínum nokkra samskotalista, er sýna þetta. Þegar t. d. Páll missti einu kúna sína, sem hann átti, en mörg börn í ómegð, þurfti hann hjálpar við til þess að fá sér aðra, eða þegar Pétur missti meira en helming fjárstofns síns við það, að 16 kindur hans flæddi uppi á útskeri, án þess að þeim yrði bjargað, en hann átti 25 kindur alls, og þær allar vel fóðraðar og hirtar, en hann lét þær út og runnu þær þá þangað út í fjöruna, sem flæðigjarnast var. Báðir fengu þeir, Páll og Pétur skaða sína bætta með almennum samskotum. Kæmi veikindi upp á einhverju heimilinu, var það fastur siður þeirra Thorgrimsens sáluga og Sylvíu, konu hans, og síðar dóttur þeirra, frú Eugenie Nielsen, að eitthvert þeirra fór heim á heimili hins sjúka manns, konu hans og barna með meðöl og matgjafir. Síðan fengu þau svo aðra menn þar í grenndinni til þess að halda þessu áfram, meðan þess þurfti við. Stundum og eigi sjaldan sendu þau mann með hesta til þess að vitja læknis eða sækja hann til sjúklinga, en læknir var þá fram að 1872 eigi nær en austur á Móeiðarhvoli. Aldrei munu viðkomendur hafa þurft að kosta ferðir þessar. Sjósókn Bakkamanna var viðbrugðið, og er hún fyrir löngu kunn almenningi. Bar þá oft við, að formenn lánuðu einn eða fleiri háseta sína öðrum formanni, sem vantaði menn vegna veikinda eða þess, að þeir voru ekki komnir til vers.
En hitt er mönnum síður kunnugt, hversu duglegir, atorkusamir og iðnir Bakkamenn voru við alla aðra vinnu, t. d. vegagjörðir o. s. frv., enda sagði Erlendur Zakaríasson það oft, að betri menn og duglegri hefði hann aldrei haft í vegavinnu hjá sér en Bakkamenn, hvaðan sem var af öllu landinu. Erlendur var, eins og kunnugt er, um margra ára skeið einn hinn þekktasti verkstjóri við vegalagningar víðs vegar um landið og hafði því næga reynslu fyrir þessu. Var hann aldrei myrkur í máli, er hann ræddi um þessa hluti. Betri verkstjóra er naumast hægt að hugsa sér: aðsætinn við vinnuna, árvakur og strangur við sjálfan sig og aðra, en þó ávallt góðgjarn og réttsýnn í garð þeirra, er hann hafði yfir að sjá. Hann var auk þessa glaður í viðmóti og uppörvandi án þess að finna mjög að því, sem miður var gjört. Þar komu leiðbeiningar hans þess í stað. En hann „stakk því hjá sér“ í kyrrþey, hverir unnu vel og hverir illa, hina síðarnefndu sniðgekk hann með öllu við næstu ráðningar. Menn sóttu mjög eftir því að komast í vinnu hjá Erlendi, eigi einungis vegna dagkaupsins, sem var 2,75 til 3 krónur, heldur hins, hve flestum þótti gott að vinna hjá honum og undir hans stjórn.
Ég vil skjóta því hér inn í, þótt það snerti mig sjálfan að nokkru, að ég hafði vinnumann minn, Þórð Þórðarson frá Brennu, í vegavinnu í 3 sumur hjá Erlendi Zakaríassyni. Um Þórð sagði Erlendur þetta:
„Þeir eru margir kræfir til vinnu karlarnir frá Stokkseyri og Eyrarbakka, og marga menn aðra hef ég haft undir hendi öll þessi ár, er vel hafa reynzt, en enginn eins og hann Þórður frá Brennu. Hann vinnur á við 2, eða 3, og svo er hann svo laginn og iðinn við vinnuna, að ég þekki engan jafningja hans“. Hið sama sögðu formenn Þórðar um sjómennsku hans í Þorlákshöfn og á Bakkanum. Þórður á börn hér í bænum, og bróðir hans er Guðmundur Þórðarson, Auðarstræti 7, annar vinnuvíkingurinn frá.
Meðal almennra skemmtana Bakkamanna, einkum hinna yngri, var að „ríða í réttirnar“. Þær voru þá að Reykjum á Skeiðum, en kvöldið fyrir réttadaginn var safninu, þ. e. fénu, er smalað var af fjalli og úr nálægustu sveitum, lagt á Murneyri og hringi slegið utan um það alla nóttina með ótal mörgum tjöldum og verði milli tjaldanna. Sáust þá og heyrðust menn syngja við raust hér og þar í smærri og stærri hópum, en menn skiptust á um að vera þar, sem þeim virtist í það og það skiptið bezt sungið, einkum ef það voru ný lög eða fleirrödduð. Aldrei þurfti neinnar lögregluverndar við samkomur þessar. ,,Fjallmennirnir“ sváfu rólega í tjöldum sínum og dreymdi vært um einhvern englasöng og undu sér hið bezta við, eins og væri það í ætt við brimhljóðið á Olnboganum eða Tröllalendum á Stokkseyri, er þeim heyrðist berast til eyrna sinna upp yfir allan Svartaflóa, Orrustudali, Merkurhraun og Skeið, en það er löng leið. Þátttakendur í réttaferðum þessum og allri þeirri gleði, er þar fór fram án allra ærsla eða öfga og afhermis, gleyma þeim aldrei, en minnast þeirra oft með ánægju og gleði. Aldrei varð þess vart þar eystra, að börn eða unglingar væri við neina hrekki riðin, stuldi eða aðra óknytti og allra sízt siðspillandi kynferðismál. Kennarar barnaskólans höfðu jafnan gott taumhald á þeim, létu þau hlýða boði sínu og banni og vöndu þau á reglusemi.