09-Loftið og sjórinn

Sólfarsvindur á vorum og fram eftir sumri, en norðankul á nóttum. Um miðjan morgun lygnir, og um dagmálabilið er kominn breyskjuhiti með andvara af suðri. Fer svo fram allt að hádegi, og andvarinn færist æ meir í aukana, þokast vestur á við, þangað til hann er kominn í miðmundastað og síðar í nónstað, en jafnframt dragast smáskýflókar upp á Hlíðartána, Selvogsheiði og Heiðina-há, norður eftir Bláfjöllum, að Vífilsfelli og á Hengil. Því lengra sem þeir þokast norður á við, því meira stækka þeir, einkum í stórstreymi. Eru ský þessi nefnd útrænuský og vindáttin útræna. Sé hún hörð, er hún kölluð bræla. Fer þá sjór að skjóta í fuglsbringum, skýin að hnyklast og herða á ferðinni, unz þau hafa tekið sér aðsetur á Hengli og skúrir komnar í Kamba. Er þess þá eigi lengi að bíða, að hvítu snjóbólstrarnir, sem Eyjafjallajökull var jafnframt að tosa upp yfir höfuð sér, og farið var að sáldra úr niður í Fljótshlíð og Þórsmörk, mæti Kambaskúrunum á miðri leið í Flóanum, og þegar þeim lendir saman, hrista þau hvort um sig úr pokum sínum, svo að hellidemba dynur yfir allar Landeyjar og Flóann neðanverðan, en þó sjaldan lengra til norðurs en upp að Ásum, Hróarsholti og Önundarholti að Ingólfsfjalli. Að austanverðu frá er þetta þó aðeins hornriðabróðir, því að sjálfur er hornriðinn enn svæsnari, einkum á öðrum tímum árs, en að vestanverðu mætir útrænan hafgolunni af vestri og norðri á Reykjanesfjallgarðinum og fer eigi lengra í þá átt. Sé útrænan væg, en það er hún oft í smástreymi, verða útrænuskýin aðeins sem slæður á vesturfjöllunum, og er þá oftast von um, að hann komi ekki á, enda ‘er þá og um minni viðbúnað að ræða á austurfjöllunum. Verður þá góður þerrir allan daginn, áfall á nóttum, og getur veðurfar þetta haldizt allt að viku tíma.

Stundum getur svo farið, ef útrænan er ekki því harðari, að hvítir skýjabólstrar sjáist vera komnir á Esjuna og á Botnssúlur, en fjöll þessi sjást ekki þarna neðan að, heldur aðeins bólstrarnir á þeim. Hefur þá norðanvindurinn yfirhöndina, svo að skýin á Selvogsheiði, Bláfjöllum og Hengli hörfa undan eða eyðast að mestu, enda dregur þá úr brælunni fyrir miðaftan, logn og áfall kornið um náttmálabil og norðankulið horfið eins og nóttina áður. Rakin norðanátt og langvarandi þurrkur er kominn. Þá er það einnig á sumrum í landnyrðingsgolu og aðgerðalitlu veðri, að menn taka eftir því, hvort hann setur norðan í eða sunnan í Kerlingarfjöll, Heklu og Eyjafjallajökul, en þetta, að setja norðan í eða sunnan í fjöll þessi, er það, að þá stendur hár strókur norðan úr eða sunnan úr fjöllum þessum. Kembi þau sér svo, að strókinn leggi norður úr þeim, er þurrkur í vændum, en rigning ella. Beri þetta til að vetri eða ef kalt er í veðri, er snjór í vændum með sunnanstróknum, en kuldaþræsingur ella, enda veitir þá brimið, brimhljóðið, straumurinn í lónum og ósum, svo og fuglarnir, ýmsar bendingar um það fyrir sitt leyti, til hvers snýst um lin eða hörku í veðri, og mun að því vikið síðar.

Á haustum er veðri oft þannig farið, að austurfjöllin öll eru þakin háum skýjabólstrum, hvítum og skjannabjörtum, mestum þó á Eyjafjallajökli, Þórsmörk og Tindfjallajökli, alla leið norður að Heklu, og skautar hún sér þá með hvítum faldi, háum og þykkum skýjabólstri að austanverðu og fjallsperringi að norðan. Eru þetta nefndar AUSTANTÓRUR, ein hin fegursta og tilkomumesta sýn, er fyrir augun ber, enda stafar þá sólin geislum sínum niður á milli skýjabólstranna á Goðaland og Þórsmörk, svo og Fljótshlíðina og Þríhyrning. Þar er þá þurrt veður, en hreytingsrigning yfir neðanverðu láglendinu vestar. Hér eru þeir tveir að eigast við: Fjallsperringurinn að norðan er þá að glíma við hornriðann að austan og sunnan, en er á daginn líður, hefur hinn fyrrnefndi orðið að láta í minni pokann, því að hinn var harður í horn að taka, sem hans var von og vísa, því að hart er á eftir honum rekið að austanverðu frá Vatnajökli, Torfajökli og Mýrdalsjökli, og dembir hann nú hellirigningu yfir allt Suðurlandsundirlendið vestur á Reykjanesfjallgarðinn, en þar mætir hann gömlum andstæðingi sínum, Norðra gamla, sem segir: Hingað og ekki lengra! Verða þá þeim mun drýgri afköst hornriðans á láglendinu, er hann getur dyngt því öllu, sem hann er með í pokahorninu, niður á litlu svæði, enda hefur þá fjallsperringurinn að norðan hjálpað honum vel til þess að láta ekkert af góðgætinu fara til spillis. Flóinn fær það allt, eins og það leggur sig, og það munar líka um það: Allt flæðir í vatni, ár og lækir vaxa svo í einu vetfangi, að ófærir verða yfirferðar í bili, en hvolfan stendur sjaldan lengur en um eina eyktarstund eða tvær. Þetta er hinn reglulegi hornriði og meðhjálpari hans, fjallsperringurinn, sem oft standa að messugjörðinni saman og útdeila láglendinu sakramentinu á stundum svo ríflega sem áður segir.

Á vetrum fer þetta fram á þá leið, að hornriðinn mokar allt láglendið út í krapa og snjó og atar út Reykjanesfjallgarðinn þegar að haustinu til með sama snjó-áburðinum, svo að hvergi sér í dökkan díl. En hið merkilegasta við þetta er þó það, að sannreynt er, að þetta veit á mildan vetur og góðan, ef hann snjóar fyrri í vesturfjallið en á austurfjöllin.

Fiðurþokan og fjallabláminn

Að áliðnu sumri sést þokan á fjöllunum eins og fiðri sé stráð um þau. Hún er hvítgrá að lit, en sortnar með aldrinum, verður dimmari og drungalegri eftir því sem hún situr lengur og færist neðar, og einkum ef hún helzt lengi við niðri í miðjum fjöllum. Og hún er ávallt undanfari regns og vætu, en að vetri til snjóa. Sama máli er að gegna með blámann á fjöllunum. Því fyrr sem fjöllin blána og verða dökkblárri, þeim mun fyrr mun mega vænta vætutíðar, regns í fyrstu og harðviðra síðar. Liggi hvít þoka á fjöllum langtímum saman, og einkum að vetri til, þótt annars sé gott veður og þurrt á láglendi, sannast heilræðið gamla, að menn skuli eigi trúa vetrarþokunni. Hún getur legið þannig dögum og vikum saman á fjöllum uppi, að eigi sé unnt neitt um það að segja, hvort úr verður þurrviðri eða þrotalaus óþurrkatíð. Hið síðara verður þó oftast reyndin og bregzt sjaldan.

Litróf þetta í fjöllunum er að ýmsu leyti eftirtektarvert, en sjaldan munu menn veita því neina athygli fremur en götunni, sem þeir ganga um. Stundum eru fjöllin björt á brún og brá. Um þau leikur slæða slikju og sléttlendismóðu, en stundum eru þau grá og grufluleg á svip, eins og búi þau yfir einhverjum óvæntum breytingum í veðráttufarinu, einkum þá er blámi þeirra er sem dökkvastur, enda fer tíðarfarið, máske oft löngu síðar, eftir þessu: Þau boða annaðhvort blíðviðri um langan tíma eða votviðri, hret og snjó, ef þokan í þeim liggur lengi síðari hluta dags og snemma að morgni. Henni léttir oft upp um hádegisbilið og miðhluta dagsins, en sjaldan lengur en til miðmunda, og verður hún þá æ hvítari og grárri, sem nær kvöldinu líður. Hið sama er að segja um fjallablámann, að hann verður æ því dekkri og drungalegri, sem nær dregur veðurbreytingunni og hrakviðrunum á haustin.

Skýjaklakkar og stálhellir

Himinháir klakkar við hafsbrúnina og skýstrókarnir við sjóndeildarhringinn voru eins og hvíta þokan og himháu skýjabólstrarnir boðberar regns á sumrum og snjóa á vetrum, enda ávallt illsviti, vetur og sumar. Einstakir klakkar voru og stundum með sérstöku sniði: Þeir voru einir sér, og bar þá við gulgræna heiðríkjuna í suðvestri, eins og væri þeir komnir þangað upp úr eldgígi afarstórum, og hef ég eigi líkara séð en þá og þokumökkinn upp úr Kötlu 12. október 1918. Skýklakkar þessir voru nefndir stálbellir, og sáust þeir sjaldan nema þá, er upp stytti örstutta stund í verstu útsynningunum á vetrum, enda var þá eigi góðs að vænta, heldur áframhaldandi hrakviðra og harðinda, er jafnan fóru í kjölfar þeirra.

Himinhá ský og heljarmyrkur

Himinhá ský, skjannahvít og skínandi fögur, getur oft að líta í austri og norðri og enda víðar. Þau sjást oft í útsynningi og eru þá alls ekki neitt augnagróm. Mann sundlar næstum við að sjá, hversu há þau eru, breið og þykk, og svo björt eru þau, að flestum þeim, er blína á þau til lengdar, syrtir fyrir augum, er af er litið. En þó hafa þau eins og flest annað sínar dökku hliðar: Skuggarnir eru óvenjulega svartir. Þau hanga yfir höfði manna, en þó eigi lóðrétt, heldur til hliðar, og sér því ávallt í heiðan himin í háloftinu, og sólskinið stafar niður á milli þeirra ofan frá og til hliðanna, því að hér er ekki einungis um stóra skýklakka að ræða, heldur afarþykka skýbólstra, sem eigi eyðast með öllu fyrr en eftir marga daga, vikur eða lengri tíma. Þeir eru sem sé – oftast undantekningarlítið – fyrirboðar þess, að á vetrum komi langvarandi illviðri, snjógangur og fannfergi, m. ö. o. molharðindi, en á sumrum slitalaus rosatíð. Á annan veg munu þeir sjaldnast eyðast né ganga til þurrðar. Að ofan eru þeir, og á efstu röndunum, eins og velkembt konuhár, en illtýran í þeim lýsir sér bezt á því, að upp úr þessum kembdu flókum sjást strýjaðar slæður upp úr öllum skýjabingnum, og glyttir þar í heiðan himin milli skýháranna. Er þá einskis góðs af þeim að vænta, því að þótt þeir séu fagrir á að líta og sakleysislegir á svipinn, má vænta þess, að þeir sýni það nokkru síðar, stundum eftir marga daga, að þeir höfðu áður verið á ferðinni. Breyting sú, er þeir taka á sig, er eigi ávallt sú, að illviðrið og úrkoman komi strax í ljós, heldur hitt, að loftið verður biksvart, drungalegt og þykkt, án þess að nokkur dropi komi úr lofti eða hið minnsta haglél. Getur það staðið svo um nokkurra daga skeið og allt að vikutíma. Hér skulu aðeins fá dæmi nefnd:

1. Hinn 29. marz 1883 varð skipskaðinn mikli í Þorlákshöfn. Veðurfarið var áður eins og hér er lýst, og um morguninn var loftið eins og í ketilbotn sæi, þangað til veðrið skall á, gaddbylur og ofsarok, áður en nokkurn varði. Svikahlerið var stutt.

2. Hinn 7. apríl 1906 varð mannskaðinn mikli við Faxaflóa og víðar (Ingvarsstrandið við Viðey, 2 skútur við Mýrar o. m. fl.), en frá 2. til 7. apríl var ýmist logn eða hvassviðri og rofaði þó aldrei fyrir skýjadeilingu allan þann tíma, hvorki nótt né dag. Svikahlerin voru lognstundirnar 2. og 3. apríl, en úr því stórviðrisrok.

3. Hinn 16. september 1936 varð Pour-quoi-passtrandið við Mýrarnar og næstu daga þar áður loftsútlitið allt að einu og það, sem bæði hin skiptin, sérstaklega um morguninn 15. sept., enda man ég eftir því, sem það hefði verið í gær, að ég hafði orð á því þá, að nú væri útlitið ljótt. Svikahlerið þá var stutt stund um nóttina. Svikahlerin eru hættuleg mjög. Menn varast það eigi, að þau eru undirbúningur undir það, sem koma skal. Hvítu skýin eru horfin og svartaþykkni hefur tekið að sér hlutverk þeirra, en það er að eyða þeim með ofsaveðri og illviðrahami síðar.

Það voru þessir og því líkir boðberar veðráttunnar, sem gömlu mennirnir höfðu svo nánar gætur á, að hið fyrsta, sem þeir gerðu, er þeir ráku höfuð sín út úr bæjardyrunum, var að signa sig og líta til loftsins.

4. Loks vil ég benda á því til sönnunar, hversu varasöm þau eru hvítu skýin og svarta þykknið, að 7. janúar 1884 fórst teinæringurinn frá Hliði á Álftanesi, með 11 manna áhöfn, en þá var dimmviðri hið mesta, er þeir sigldu vestur í hákarlalegu sína. Hins vegar má og geta þess, að þá var Ólafur Ingimundarson í Bygggarði einnig á sjó. Af signingunni fara ekki sögur, en hitt er víst, að hann leit til loftsins, fyrirskipaði að draga upp stjórann hið bráðasta og halda til lands, og mátti eigi tæpara standa, að hann og menn hans kæmust af.

Síðar mun ég víkja að ýmsu því, er sjófarendur og aðrir mættu gjarnan veita frekari eftirtekt en þeir gera og þó einkum fuglunum.

Svartaþykkni

Þegar kæla hefur staðið um skeið, en það er hæg norðanátt hér syðra, snjókoma annað veifið, en þó eigi meiri en svo, að refilsþá varð, og síðan hefur „slegið til lins“, má oft sjá biksvart þykkni hér og þar, en einkum þó í austri og suðaustri niður við sjóndeildarhringinn, grunnar ár og lækir með árennsli og kuldinn nálægt frostmarki, þá má búast við hláku, einkum ef þetta verður fyrir sólstöður á vetri, en harðindum og meiri snjó síðari hluta vetrar. Sé hláka í vændum, verður þykkni þetta vegna þess, að þar sem það er að sjá, oftast í fjarska, er komið nærri regni á þeim slóðum, en ef harðindi verða, þá vegna þess, að þar er snjó að kingja niður, og harðnar þá veður upp úr því. Oft gætir þessa í stórstrauma og oftar með nýju tungli en fullu. Hlákumerkinu fylgir brimleysi eftir stilluna, en stórbrim undir harðindin. Breytingin úr ládeyðunni verður oft með snöggum hætti, þannig að úr tjarnsléttum sjó getur brimað svo á einum til tveimur stundarfjórðungum, að sjór verði ófær, einkum fyrst í stað og á meðan norðankælan andar á móti öldunni. En við það hækkar aldan og æsist, að vindurinn, sem á móti blæs, ber að henni smærri og stærri bárur, sem falla inn í hana og auka hana um leið, unz meiri jöfnuður er á kominn og önnur hvor áttin hefur yfirhöndina. Verði það hafáttin, slær á brimið, en ef norðanáttin nær sér betur, lægir brimið hvað af hverju, svo að brimlaust verður að nokkrum dægrum liðnum, naumast þó fyrr en eftir 4-5 dægur.

Bakkar og blikur

Bakki var það nefnt, er lágþoka var á milli Eyjafjallajökuls og Vestmannaeyja, svo og ef hún lá úr hádegisstað upp á Hlíðartá eða að henni. Vissi hún á brim fyrri hluta vetrar, ef hún var austanmegin, en væri hún að vestanverðu síðari hluta vetrar, vissi hún einnig á brim. Því var talað um austurbakka og vesturbakka, og voru því meiri gætur hafðar á um hinn fyrrnefnda á haustin, en á vetrarvertíð var enn meiri varúðar gætt um að fara eigi á sjó, þegar bakkar þessir sáust, enda brimaði þá oft svo skyndilega undan Bakkanum, að eigi vannst tími til að róa þann daginn. (Venjulegir róðrar voru aðeins í 3 stundir). Austurbakkanum fylgdu engar blikur, en oftast vesturbakkanum, því að þá var venjulega rosatíð í vændum, og útsynningurinn færði hann bráðlega nær með hvassviðri og úrkomu. Austurbakkinn stafaði af hvassviðri austan Eyjafjallajökuls, regni eða snjókomu, en stóð sjaldan lengi. Hvassviðri mikið meðfram Austurlandi sunnanverðu, sé það af norðaustri, stefnir á haf út austan Vestmannaeyja, með fallsjóum og freyðandi kviku[note] Harðindakviku, en hún er afarháir og langir brimsjóir á 60-100 faðma dýpi.[/note], en þegar sjóir þessir eru komnir fram hjá Vestmannaeyjum, er vindurinn af norðri og brimlaust við suðurströndina. Í kverk þessari má því segja, að ládauður sær sé og lygn, en þá taka öldurnar, sem að austan koma, krók á leið sína og mynda stórfelldar öldur, er stefna alveg í gagnstæða átt, inn í varið vestan við Vestmannaeyjar. Þar mæta þær norðankulinu eða vindinum, sem ýfir þær og æsir, svo að úr verður eitt hið mesta brim, sem gengur næst harðindakvikubrimi, er síðar verður á minnzt, og er oft illt að varast það sökum þess, hve skjótlega það ber að. En að það sé þó á leiðinni, má sjá af því, að samfelld alda og sjaldan nema ein, lágvaxin mjög, fellur í einu falli yfir alla kverkina milli ánna og til hliða við hana, einkum vestur á við. Að nokkrum mínútum liðnum er komið stórveltubrim, en hversu lengi það varir, fer eftir því, hvort lífseigara verður, austanhvassviðrið eða norðanvindurinn, sem þá er einnig á ferðinni meðfram Vestfjörðum, yfir Faxaflóa og Suðurlandsundirlendinu. Þannig var undirbúningurinn undir brimin miklu 26. marz 1881, 28. maí 1881, 16. marz 1895 og oftar.

Það virðist ótrúlegt, að öldugangar þessir komi hvor á móti öðrum, án þess að þeim lendi saman við það, að þeir myndist af gagnstæðum áttum, en þess ber að gæta, að annar þeirra, suður með landinu að austan, er svo harður, að hann heldur að vísu sína leið á haf út, en er hann kemur í námunda við smásævið, er eins og hann leiti sér þar skjóls, snúi við og myndi nýjar öldur, er mæta norðanvindinum og æsast upp við það, upp í ofsabrim, einkum ef austanáttin hefur yfirhöndina, en þá vex brimið, unz hin áttin að vestanverðu hefur mætt hann svo, að hún verður að láta undan eftir tveggja til þriggja dægra þrautseiga baráttu og friður· er saminn: Hæg norðankæla komin, brimleysi og ládeyða, sem staðið getur um langt skeið.

Friður þessi er þó sjaldan tryggur, því að hafáttin hefur vakað og staðið á varðbergi. Hún hefur séð, hverju fram fór, og beðið tækifæris til að láta til sín taka. Undir eins og norðanvindurinn linar á tökunum, er hún óðara komin með ólátum hinum mestu, argasta útsynnings- og éljagangi á vetrum, sem hún lætur engin lát á verða, fyrr en komin eru molharðindi, og því verri sem hún var lengur í undirbúningi með þau. Á sumrum verður þessi iðja hennar og afleiðingar þær, að rosinn stendur því lengur og rysjuveðrið, sem aðdragandinn var lengri og þrálátari.

Blikurnar eru oft breytilegar mjög, þunnar eða þykkar. Þær verða oft að klósigum, eða þeir úr þeim, og eru þeir mikils verðir mjög um það, hverju viðrar um langan tíma. Klósigarnir geta verið í ýmsum áttum og oftast hvor á móti öðrum, í gagnstæðum áttum. Þeir breytast stundum skyndilega og færast til, en stöðugastir eru þeir í þurrkum og þráviðri. Tíðastir eru þeir andstæðingarnir, landssuðurs- og útsuðrs-klósiginn. Þeir líta út eins og stórfelld tré eða hríslur, rótin er niður við hafflötinn, en hríslurnar breiðast um himinhvolfið. Eru þetta ský, sem myndast þannig af mismunandi vindstöðum, er að þeim standa, og er venjulega talið, að aðalvindstaðan verði síðar meir bráðlega af þeirri átt, sem rótin er í, en nú er rótin í tveim áttum, og úr þeim báðum getur þó vindstaðan eigi staðið samtímis. Hvor áttin – eða rótin – ræður þá meiru? Um það getur styrinn staðið, en þó eigi til lengdar. Séu ræturnar t. d. í landsuðri og útnorðri, ræður hin fyrr nefnda ávallt úrslitunum, því að það var hafáttin, sem myndaði þær, og því eru votviðri í vændum, hlý og úrkomusöm. En séu þær í norðri og suðri, er það vestanáttin og kuldinn, sem henni fylgir, sem boðar þurrviðri og þræsingskulda, einkum á vorin og veturna, en þerritíð að sumrinu til. Hvar sem klósigarnir áttu rætur sínar, boðuðu þeir langviðri, sérstaklega landsuðursklósiginn. Vindurinn stendur þá sólarmegin við hann, sjaldan þó til kvelds, og þokar honum undan sól frá austri til suðurs, unz hann er kominn í áfangastað. Síðari hluta dags ber minna á honum í suðri, en því meir í norðri, unz hann hverfur og áttin hefur náð sér, oftast í landsuðri eða norðri, eftir því hvort veður verður vott eða þurrt.

Þegar þráviðri hafa lengi staðið, kuldi og norðanrok, er klósiginn horfinn að mestu í norðri, en í útsuðri er hann engu minni um sig en áður. Er þá sagt, að hann sé að þræsa í öfugan klósigann. Er þá enn lítið lát á norðanáttinni, en loks dettur hún niður og endar með staðviðri um nokkra daga.

Klósigarótin og hríslur hennar

Sé klósigarótin í landsuðri og mótklósigi í útnorðri, vindurinn úr þeirri átt, sem rótin er, og jafnjaðrabrim í sjóinn, verður oftast úr því hornriðaveðrátta. Sjórinn deyr þá af, jafnframt því sem landsynningurinn nær sér betur, brimið verður hreinna, svo að sundasjór er kominn, klósiginn færist austur á við, skýbólstra dregur upp austan Heklu, og hvítgrá þoka hylur Eyjafjallajökul, sem dökknar því meir sem sunnar og neðar dregur, brimið verður ganghraðara og stærra, og klósiginn kemst norður fyrir Heklu – allt á rúmu dægri-, þá verður úr þessu að lokum langvarandi landnyrðingsþurrkur með smáskúrum fyrst, er ná vestur á Reykjanesfjallgarð, en birta upp síðar. Vindáttin fylgir þá klósigunum eftir, sjór verður skarðalaus, brimið hreint, tígulegt og stórt, helliskúrir með austurfjöllum, mest syðst, blika í fjarska yfir Kerlingarfjöllum og austanrok á Rangárvallasöndum, fjallsperringur bak við Heklu og hornriði meðfram Eyjafjallajökli – þetta eru breytingarnar, sem verða á einu til tveim dægrum undan hinum áðurnefnda landnyrðingi og þurrviðri því, er af honum leiðir.

Hér er að vísu um ýmsar andstæður að ræða, þannig, að svo virðist sem sjór geti eigi dáið af eða brimað, brimað eða dáið af, svo að segja á sömu stundu. Því er nefnilega eins farið með sjóinn, brimið, eins og vindinn, – báðir eru vakrir. Aðra stundina er logn, hina stundina er steytingsvindur. Svo er og með sjóinn, að nú er brimlaust í bili, bráðum, máske að 15 mínútum liðnum, er sjórinn ófær á sundunum, en að 2-3 tímum liðnum sést, að útskot verður, ef sjór er þá í afdáningi, og þessi útskot eru oft notuð. Annars væri eigi um miklar sjósóknir að ræða, sízt svo áhættusamar sem þær eru í svo breytilegri brimveiðistöð, sem Bakkinn er. Um það má segja, að hann sé viðkvæmur mjög fyrir hverjum vindblæ og veðurbreytingum, einkum sökum þess, hve víðfeðmt úthafið er, ströndin skerjótt og fjöllin há, þótt fjarri séu.

Áhrif klósiganna munu einkum vera þessi: Séu þeir frá NV til SA, og nái þeir saman í hálofti, veit það á regn, og eigi síðar en um miðjan dag, eða hinn næsta. – Séu þeir frá SV til NA, er útlit rigningarlegt, hvessir af SA, en regn nær sér eigi nema þá lítils háttar við suðurströndina og meira á Reykjanesskaga, rok í Vestmannaeyjum og rigning nokkur. – Klósigi frá S til N veit á þurrk, en þokist klósiginn til SA og NV verður úr því regn. Þokist klósigi frá SA til S eða NA, léttir upp. Annars boða flestir klósigar regn nema þeir, sem eru frá S til N, eða þó öllu heldur frá SVS til ANA. Þeir boða þurrka og þráviðri og því lengur, sem rótin er víðáttumeiri og greinar klósigans útbreiddari.

Gýll og úlfur

Einhver skyldleiki virðist vera milli klósigans, gýlsins og úlf síns. Gýllinn er oft ýmist einn síns liðs eða með úlfinn í eftirdragi. Máltækið segir: ,,Sjaldan er gýll fyrir góðu, nema úlfur eftir renni“. Fer gýllinn á undan sólu, en úlfurinn eftir. Eru þeir geislabrot frá sólinni, er kasta bjarma sínum á þokuhring þann, er oft sést í kringum sólina í þráviðrum og á vindskýjuðum himni. Gýllinn sést oft miklu lengur en úlfurinn, ef hann annars sést, en þegar þeir eru báðir á lofti, er það nefnt, að þá sjáist þrjár sólir í senn. Þess er getið í ísl. annálum, m. a. 20. apríl 1676, að þá hafi sól verið í hjálmaböndum. Mun þar hafa verið átt við það, að geislar líkir gýli og úlfi hafi sézt bæði fyrir ofan sól og neðan ásamt gýli og úlfi til hvorrar hliðar. Eru þetta nefndir sólarsveinar, og að sólin sé þá í úlfakreppu. Hafa þá verið fimm sólir á lofti, en afar sjaldgæft mun það vera, og bendir annálsfregnin á, að svo sé.

Sömu ættar munu þeir vera morgunroðinn og kveldroðinn. Eru þeir nefndir lágroði og langroði. Þeir eru geislar og skin frá sólunni á ský nærri jörðu og þokubakka eða bólstra. Eru þeir oft fagrir mjög. Sagt er um þá: ,,Morgunroðinn vætir og mígur í hatt, en kvöldroðinn bætir og segir öllum satt“. Þetta mun þó eigi ávallt vera svo, því að hvort sem um morgun- eða kvöldroða er að ræða, munu þeir báðir og hvor um sig boða regn, enda ná þeir oft höndum saman, svo að kvöldroði verður að morgunroða á sumrum, þegar sólargangurinn er lengstur.

Í tunglskini vetrarkveldanna sést oft gráleitur baugur í kring um tunglið eins og baugur sá, er oft sést um sólina á daginn. Er það nefndur rosabaugur, er sést um tunglið, og veit það ávallt á meira veður, enda reynist það oftast svo. A vetrum gerir oft illviðri næsta dag eða fyrr, eftir að rosabaugurinn sést, og verður þá úr því bleytuhríð eða slydda. Stundum er rosabaugurinn bjartur á að líta, eins og geislum stafi á hann frá tunglinu, líkt og gýl og úlf á undan og eftir sólu, og boðar hann þá meiri kulda og snjóa, og er hann ávallt undanfari hvassviðris hér syðra af norðri eða landsuðri.

Gömul vísa um veðrið og útlit þess segir:

,,Þrjár í austri’ ef sólir sjást,
seggi fæsta gleður,
en í vestri aldrei brást
allra bezta veður“.

Það mun sjaldgæft, að gýll og úlfur sjáist að morgni dags, en komi það fyrir, þá veit það á margra vikna ótíð: á sumrum regn og rosa, en á vetrum blota marga, harðindi, frost og snjó. Hins vegar eru gýll og úlfur góðs viti, sjáist þeir síðari hluta dags og að kvöldi til, og bendir vísan á þetta. ,,Sól í hjálmaböndum“, þ. e. fimm sólir á lofti er enn sjaldgæfara fyrirbrigði, og veit það þá á langvarandi þræsing og kuldaþembing, af norðri hér sunnanlands, enda er hafís þá sjaldan langt undan landi fyrir Vestfjörðum og undan Ströndum, en ekki landfastur.

Þegar útsynningurinn er allra veðra verstur hér sunnanlands, er hann ein hin bezta veðrátta á Austurlandi, einkum í Múlasýslum báðum og Norður-Þingeyjarsýslu. Er þar þá mildara loftslag af suðri og vestri, eins og t. d. hæg norðanátt er hér syðra, en austur þar er norðaustanáttin og hafvinda-sveljandinn allra veðra verst vetur og sumar, og Austfjarðaþokan þessa verst, hráslagaleg og köld, enda mjög tíð og ótugtarleg.

Hillingar miklar – séðar frá Stokkseyri – t. d. Vestmannaeyjar, Drangar, Selvogstá, Ölfusá og önnur vötn í fjarlægð, sjást oft hilla uppi, og veit það jafnan á regn og langvarandi rosa.

Um þokubakkana mun vísa þessi hafa verið kveði þar eystra (á Bakkanum):

„Þokubakkinn þegar færist nær
þar að ströndu, er á móti vestri liggur,
þá mun brimið brjótast fram, og sær
bráðlega ærast, fyrr en nokkur hyggur“.

Heiðríkjur og hafgall(i)

Þótt ótrúlegt sé, að nokkurra veðurfregna sé af heiðríkjunum að vænta, þá hafa þær þó oft sína sögu að segja í þeim efnum. Þær eru með ýmsum litum, fagurbláar, gulgrænar og gráar. Bláu heiðríkjurnar eru algengastar og beztar. Hinar eru aftur á móti engir boðberar betri tíðar eða veðráttu, enda tíðastar í rosatíð, bæði sumar (hinar gulgrænu) og vetur (hinar gráhvítu), samlitaðar útsynningsklökkunum háu og stálböllunum, sem oft „taka sig prýðilega út“ á framsviði við þær, þegar hafáttin rýmir svo til, að til þeirra sjáist innan um allan rosann.

Bláu heiðríkjurnar skipta einnig litum, ljósari og dekkri, og benda hinar fyrrnefndu á bjartara veður og stilltara, en hinar á rakasamara loft og að regns megi vænta, þótt enn sé gott og þurrt veður.

Í lok langvarandi votviðris á sumrum og rosarigninga á haustum og vorum má stundum sjá regnbogalitaðan glampa nokkru fyrir sólarlagið niður við hafsbrúnina. Er hann nefndur hafgall, en réttara mun þó vera að nefna hann hafgalla, og veit hann á betra veður og þurrviðrasamara en verið hefur áður, einkum ef ótíðin hefur staðið lengi eða um 3-4 vikna skeið. Aftur á móti er hin svonefnda hafglenna, sem oft sést í rosatíð, rækileg bending um, að enn sé henni eigi lokið með öllu, heldur verði framhald á henni enn um hríð og engu vægari. Hafglennan er skýjarof, breitt og hátt á loft upp, og er heiðríkjan þá gulgræn (ekki grá) niður við hafsbrúnina. Er það sunnanáttin, sem ryður sér þá stundina fram í gegnum skýjaþykknið, enda stendur vindurinn þá – og aðeins í bili – úr þeirri átt, þótt höfuðáttin sé annars til hliðar við þennan aðskotavind, annaðhvort af suðvestri eða vestri.

,,Hreinn fyrir Hlíðina og Múlann“

Þegar sagt var, að hann væri „hreinn fyrir Múlann“, var átt við heiðríkju þá framundan tánni á Eyjafjallajökli, sem náði niður í sjó, án þess að nokkurt skýskaf sæist milli jökulsins og Vestmannaeyja, og var þá regn í vændum. Heiðríkja þessi sást stundum, þótt austurfjöllin öll væru skýjuð niður í miðjar hlíðar, Eyjafjalla og Tindfjallajöklar og Hekla, hákúfuð skýjabólstrum og regnský yfir Þórsmörk og Goðalandi. Hins vegar gat að líta lágan og svartan bakka, sem lá upp að Hlíðartánni og jafnvel upp á Selvogsheiði. Nokkru síðar þykknaði í lofti, einkum síðari hluta dags, og rigningin var skollin yfir.

Annars var veðri þannig farið, áður en hreingerning þessi við Múlann fór fram, að eigi sást, hvernig skýin höguðu sér á austurfjöllunum öðruvísi en áður er tekið fram, en til fjalla þessara sást þó vel að neðanverðu, og kembdi þá fram af þeim, einkum Heklu, og grá ský og grænar blikur námu hæst við himin, en bjart var norður undan Búrfelli, því að þar var fjallsperringurinn á ferðinni alla leið austan af Vatnajökli og öðrum stórjötnum þar eystra. Að þessu sinni var hann þó eigi í neinum illdeilum við hornriðann, heldur viðbúinn því að taka á móti Hlíðartáarbakkanum, sem var að teygja sig og terra í vestri, svo að hann færi eigi lengra en svo, að hann gæti hellt úr sér yfir Flóann, en færi ekki að ónáða þá austanvérana þar efra. Bláfell var þó bjart, Hestfjall dimmblátt og Vörðufell glóbjart af sólskini, unz að syrti nokkuð síðarmeir. Mosfell í Grímsnesi var eins á að líta sem Hestfjall, og Bjarnarfell eins og Vörðufell, og þannig bjuggu þau sig ávallt, þegar regn var í vændum. Grá þokuslæða er þá yfir öllum lægri og fjarlægari fjöllum, t. d. Hlöðufelli, Laugardalsfjöllum, Botnssúlum, Ingólfsfjalli og Hengli, en heiðskírt á Langjökli og Kerlingarfjöllum.

Þannig er þetta og oftast óbrigðult, enda mjög auðvelt að sjá, hvaða veður er þá í vændum næstu tvö dægur, enda segir þá jafnframt annað til: sjórinn, hljóðið, brimið og margt fleira, sem síðar verður að vikið.

Sé skýjafarið þessu líkt á áliðnum slætti eða jafnvel fyrr, og þótt annars sé þurrviðri, hægt og aðgerðalítið, er allvel óhætt að taka saman hey og fisk á sömu stundu sem til þessa undirbúnings sést, því að áður en dagurinn er liðinn, eru áleiðingarnar komnar austan að, rigningin dunin yfir og óþurrkurinn byrjaður, því fyrri og staðfastari sem bakkinn við Hlíðartána náði lengra upp á Heiðina-há, áður en regnið byrjaði úr honum og öllu því, er honum fylgdi af þoku og þykkum sudda [note]Jafnvel úðvaða. [/note] , er legið hafði um kyrrt lengst á hafi úti um mörg dægur að undanförnu.

,,Hrein“ fjöll

Andvari af norðaustri og tandurhrein fjöll alla leið frá Heklu er ófrávíkjanlegur og undantekningarlaus fyrirboði þess, að innan einnar til tveggja eyktastunda – 4-6 klukkutíma-, er á skollið hið mesta fárviðri af suðaustri með stórhríð að vetrarlagi og mikilli rigningu að sumrinu til. Er þá jafnan biksvart þykkni í suðri, austan frá Vestmannaeyjum og að Hlíðartá. Er þá sagt, að undir lyfti um austurloftið allt og norðrið, en að svartur sé hann til hafsins og í háloftið. En hvernig er þá með brimið? Engin arða! En sé það nokkuð, er það í afdáningi, og því er veðrátta þessi varasöm mjög með sjóferðir allar, unz séð er, hvað úr verður.

Suðaustan stórviðri og snjóhríð er ávallt í vændum, þegar áðurnefnd fjöll frá Heklu vestur á Hengli eru heiðskír og hrein. Uppgangurinn er þá svart þykkni af hafi, oftast vestan hádegisstaðar, en vindur norð-austlægur. Þegar svo þykknið er komið það langt yfir háhvolf loftsins og til beggja hliða, að vindstaðan nær því, fer að slíta úr honum, síðan að fenna, og loks að hríða svo með hörkufrosti, að ófært verður á heiðum og fjöllum. Er þá hart að honum, en það fer eftir því, hversu norðanáttin í raun og veru er nærri og hörð. Verði hún löng, fer svo um síðir, að hann fer að blása sig niður eftir svo sem viku tíma, norðankælan helzt og stillur verða um langan tíma, og því lengur sem norðanveðrið hafði staðið lengur og verið að andþæfa á móti uppganginum.

Sjórinn deyr svo af, að hvergi sér örla við stein, engin brimarða og öræfasund öll eru fær sérhverri mús, er á flot fer á mykjuskán sinni. Þá er komið hið eftiræskta sjóveður, sem sjómenn höfðu þráð svo lengi, og nú byrjar skotan. Skotturóðrarmennirnir flykkjast að úr öllum áttum, víkingar hinir mestu, og bera nú frá borði næstum því eins mikinn afla og þeir, er skipráðnir voru, enda var til þess leikurinn gerður, að ráða sig eigi, en fá að hlaupa upp í hjá Pétri eða Páli, sem nú þurfti manna við vegna annríkisins og þess, að einn eða fleiri háseta hans höfðu fengið handarmein af siggi eða öngulstungu í lófa eða fingur. Skotturóðumennirnir voru sannnefndir hjálpar-guðir, sem í skyndi og skjótlega inntu verk sín vel af hendi og trúlega.

Sé uppgangurinn meiri vestan hádegisstaðar en austan hans, er verra veðurs að vænta, en ef hann væri því gagnstæður, frostin meiri og harðindin, enda verður þá norðanáttinni erfiðara um og seinunnara að berja hann niður. Þetta er sennilega sökum þess, að átt þessi, vestanáttin, er skyldari norðanáttinni og nær henni en austanáttin, kaldari og komin frá uppruna hennar, meginlandi Grænlands og ísbreiðunum þar á landi og sjó. Einkum er þetta þó á vetrum, og er þá vestanbakkinn enn varhugaverðari með brim og illtýru alla í sjó en austanbakkinn milli Eyjafjallajökuls og Vestmannaeyja.

Er þessu að nokkru lýst í kaflanum „Bakkar og blikur“. – Verð ég þó – máske með endurtekningum nokkrum – að fara enn fáeinum orðum um þessi áhrifamiklu veðureinkenni :

Sé vesturbakkinn lítill og lágur, er norðanáttin ennþá svo rík, að hún hefur yfirhöndina og er í fullu fjöri út af Breiðafirði og Vestfjörðum. Háir skýja- og vindbólstrar eru uppi yfir Esjunni, og sjást þeir yfir Hellisheiði sunnan Hengils og á Botnssúlum, er sjást yfir Grafningshálsi. Lengra austur nær harðasta norðanáttin þá eigi, en yfir Kerlingarfjöllum, Langjökli og Hofsjökli eru austlæg ský eða þykkni, en norðaustan á Heklu, Eyjafjalla- og Tindfjallajökul setur þykka skýjabólstra, en lægri ský yfir Goðaland og Þórsmörk, skýbreiðu bjarta og hvíta. Er það að vísu norðanáttin, sem heldur þeim þar við og í skefjum, en austanáttin mildar hana þar og dregur úr henni, enda er þá og oft vægara veður austur þar, en því verra sem austar dregur enn meir og út af Austfjörðum. Norðaustanáttin þar er ein hin versta, og það er norðanáttin hér vestar, sem hamlar á móti henni. Austurfjöllin eru því eins konar sáttasemjari milli stórvelda þessara.

Það er í þess konar veðráttufari eigi síður en öðru þess vert, að hafa nánar gætur á hátterni fuglanna, hvítfugla, æðarfugla og anda, einkum fiskianda, hrafnsanda, hrafna og snjótittlinga, svo og taminna fugla, gæsa og annarra húsdýra, og katta, hesta, sauðfjár og hunda. Fénaður þessi og fuglar segja til um það, hver á sína vísu og margir á sömu lund, hverju viðra muni næstu daga og vikur, svo og fiskarnir, brimið, brimhljóðið, maðkarnir og kuðungarnir, já, og hverirnir og margt fleira, leggja oft orð í belg, þegar um þessi efni er að ræða.

Áður fyrr höfðu menn engar veðurfregnir aðrar að styðjast við, en þeir veittu öllu þessu hina nákvæmustu athygli. Það var þeim lífsnauðsyn, og reynsla margra kynslóða kenndi þeim þessi fræði.

Brimhljóð og boðaskellir

Brimhljóðið eða sjávarhljóðið, venjulega aðeins nefnt hljóð, er harla margbreytilegt og góð og örugg bending um væntanlegt veðráttufar þann og þann daginn og oft lengur. Svo niðaþungt og djúpraddað er það oft á tíðum, að því mætti helzt líkja við sub-kontrabassa í orgeli, með tughundruðum tóna, en enginn þeirra hefði þó fleiri tónsveiflur en 16 á mínútu hverri, en það er dýpsti tónninn, sem mannlegt eyra fær greint. Svo sterkur er niður þessi, að hann líkist fremur öskri en hljóði. Þótt hann sé í hundraða metra fjarlægð frá manni, sem liggur í rúmi sínu, finnst honum rúmið titra ofurþægilega, og er eigi unnt að hugsa sér indælla vöggulag til að falla í væran og rólegan svefn en þvílíkan undranið. Sennilega er nafnið á orgel-registri eins og Unda maris af niði þessum dregið, enda þýðir það sjávarbylgja. (Unda= bylgja, mare = sjór). Í orgelinu er það opin pípa með flaututóni. –

Sjávarhljóðsins hef ég saknað mjög, síðan ég kom til Reykjavíkur, og einna mest af öllu þaðan austan að. Víðsýnið þar eystra og vögguljóð þau, er heyra má næstum daglega frá hinum mikla brimgarði, eru heillandi mjög: Víðsýnið í björtu og góðu veðri er alveg óviðjafnanlegt, og sjávarniðurinn þá eigi síður, þótt hans gæti oftast mest, þegar veðrið er drungalegast og verst.Hvorttveggja er svo heillandi, að hver sá, er sér og heyrir, gleymir því aldrei. Að sunnan svella haföldurnar á hálum, brimi sorfnum skerjaklasanum, en í hinar áttir allar getur að líta fjallahringinn fagra, þann er ég hef áður lýst. Ég hef að vísu stöku sinnum heyrt brimhljóð hér í Reykjavík, og þá helzt í hægum útsynningi undir norðanátt að kveldi dags, en það er eins með brimhljóð þetta og brimið hér og eystra, að því er eigi hægt að líkja saman: Eystra er það eins og beljandi fossniður, margra fossa saman, djúpra og hárra, en hér er það eins og sífur í sitrandi lækjarsprænu.

Vildum vér nú reyna að fylgjast með því, á hvern veg og hversu langa leið hljóðið berst og færist til, væri bezt að fylgjast með dagsmörkunum gömlu eða klukkunni og tákna vegalengdina og helztu staði hljóðsins, er það heyrist frá og mest er miðað við. Mætti nefna tölurnar 9 (þ. e. kl. 9 að morgni) og 5 (þ. e. kl. 5 að kveldi), tölurnar 12-2 (þ. e. kl. 12 á hádegi og kl. 2 e. h.), svo og tölurnar 3-5 (þ. e. kl. 3 og 5 e. h.), þá eru áttirnar fengnar. Heyrist hljóðið t. d. frá 9-11 um svonefndan Olnboga og Urðir, en þau sker eru austarlega í brimgarðinum, er hljóðið einn hin áreiðanlegasti og ótvíræðasti fyrirboði þess, að þá er austlæg átt í vændum, enda er þá og jafnan vindstaðan þar í hafáttum og rosatíð. Færist það vestur á 12-2 (þ. e. í hádegis- og miðmundastaði, eða um Músarsund og Tröllalendur (Fress og Læðu), boðar það breytilega átt, en færist það á 3-5 (þ. e. á nóni eða nær miðaftni) eða um Hlaupás og vestar (,,um Sund“, þ. e. Stokkseyrarsund), er það órækur fyrirboði þess, að þá muni bráðlega bregða til hreinnar norðanáttar, gera kælu, þurrviðri og kulda. Lengra vestur á við fer hljóðið sjaldan svo, að þess gæti, enda er þá norðan-andvarinn, sem veldur því, að það heyrist eigi á austurbóginn, í móti vindinum.

Þungi niðarins fer eftir því, hversu stórfellt brimið er, og er hann mestur í dimmviðri og logni.

Stundum er hljóðið hvellt, létt yfir því, hversu stórfellt sem brimið er, og þótt ekkert brimhljóð heyrist frá brimgarðinum, má oft heyra háa hvelli frá einstökum boðum, er þeir falla í hljóðbæru veðri og hægri norðanátt, enda eru þá fáir aðrir boðar uppi og brim í afdáningi. Þetta eru nefndir boðaskellir og skerjaskrölt.

Þá má og nefna sérstakt hljóð, sem nefnt er undirhljóð. Er það óvenjulegt, og heyrist eigi nema neðan frá fjöruborði og helzt um fjöru eða með lágum sjó. Formennirnir gömlu höfðu jafnan góðar gætur á hljóði þessu, og höfðu þann sið, áður en þeir kölluðu menn sína til róðurs eða gengu til skips, að þeir fóru sjálfir niður að flæðarmáli, lögðust þar flatir niður á sandinn, svo að eyra þeirra nam við, gengu síðan heim, ákveðnir í því, hvort þeir færu á sjó eða eigi, áður en birti svo, að til sæist, hvernig sjór var utan brimgarðsins. Þannig sá ég formann minn (Bjarna sáluga, bróður minn) fara að 26. marz 1881. Þegar hann kom til manna sinna, sagði hann við þá á þessa leið: ,,Mér lízt ekki á, að við förum á sjó í dag, a. m. k. eigi áður en birtir af degi: Það er undirhljóð nokkurt. Þó að við heyrum það eigi hingað“.

Flestöll skip fóru þó á sjó þennan dag og við líka, því að mokafli hafði verið næstum alla vikuna, veðrið gott og brimlaus sjór að mestu. En að rúmum klukkutíma liðnum, frá því að róið var, gerði svo mikið útsynningsrok, stórkviku og síðan brim, að næstum ólendandi varð, enda fórst þá bátur einn frá Stokkseyri og drukknuðu 5 menn af 7. Það var kvikuhljóð þetta, sem Bjarni heyrði, undirhljóðið, enda var hann tregur til að róa þá, jafnvel eftir það að sundabjart var orðið.

Undirhljóðið mun hafa heyrzt miklu oftar en svo, að því væri sérstök athygli veitt. Ég man enn fremur sérstaklega eftir því 28. maí 1881 og 16. marz 1895. Báða þessa daga, einkum hinn fyrr nefnda, var blæjalogn, dimmviðri til hafsins og brimlaust með öllu fram að nóni, en á 15-20 mínútum brimaði svo, að ólendandi varð í öllum veiðistöðvunum nema í Þorlákshöfn, enda leituðu flest skip nauðhafnar þar. Bátur einn á Stokkseyri missti þá 2 menn.

Brim

Þá er brimið sjálft eigi síður breytilegt en brimhljóðið. Af briminu má sjá, hvernig veðráttan er, og hvernig hún verður: 1 hafáttum er það líkast hvítfyssandi froðu, eins og oft má sjá undir háum fossum, er falla af bergi fram. Að vísu sjást boðarnir falla hér og þar, en óreglulega mjög, eins og komi þeir sinn úr hverri áttinni af hafi. Eru það ýmist þykkar öldur með stórum kvikuhnyklum í toppinn, og spýtist þá brimið upp í háum strókum hér og þar, sem falla niður í sjálfa sig, beint niður í brimgarðinn, er þá verður eins og afarstór hver eða pottur, sem vatnið er að sjóða upp úr. Brimgarðurinn verður eins og sápufroða, sem sýður og vellur án afláts. Hvergi mótar fyrir því, að brimgarðurinn skarði, neinn áll eða sund sjáist. Hann er samfelldur brimsvaði, rosabrim og spýtingur eða strokkbrim er það nefnt. Venjulegast er það í hafáttarveðráttu. Slær þá stundum á það gulllitum blæ, en sé það snjóhvítt, boðar það hreinni átt og oft þurrviðri.

Norðanáttarbrimið er allt í senn: tignarlegast, reglulegast og stórfelldast. Veðrið er gott, loftið bjart, hægur vindur af norðri og skyggnið ágætt. Haföldurnar koma steðjandi að landi utan af djúpsævi, svo háar sem hlíðar væru eða fjöll. Það hillir undir þær alla leið utan frá sjóndeildarhringnum. Því nær sem dregur landi, hækka þær, setja upp kryppuna og virðast herða ganginn. Þær, sem mestar eru fyrir sér, búast til að skauta hvítum faldi, en falla þó frá því í bili, meðan þær eru enn á 70- 80 metra dýpi. En er þær sjást í næsta skipti, eru þær enn rishærri og brjóstameiri. Þegar þær eru komnar á 30 faðma dýpi, sjást þær við og við skjóta upp hvítum faldi, en á meðan hverfa þær ýmist eða koma í ljós, eins og séu þær að skyggnast um, hvar árennilegast sé að hefja atlöguna. Og loks þola þær ekki mátið lengur:

Himinháir brotsjóir, þrír í röð, ryðjast hver eftir öðrum, hlaupa til, eins og ætli þeir að stökkva yfir gjá eða gljúfur, með því afli og þeim hraða, að ekkert fær á móti staðið, jafnvel eigi stærstu klettar eða ströndin sjálf, – unz þeir falla hver um annan þveran og spýta frá sér löðrinu í allar áttir. Sé brim í vexti, er síðasta aldan mest og tignarlegust. Sé hún minnst, er sjór í afdáningi. Öldur þessar eru réttnefndir langarma sjóir og oftast nefndar því nafni. Lengd þeirra er oft svo, að þeir mundu ná frá Gróttutöngum upp að Kjalarnesi og falla í einu falli á þeirri leið, og þótt lengri væri. Í falli sínu senda ·þeir frá sér himinháa brimstróka, stærri og meiri en Geysir í stærstu gosum sínum, enda verður þá flóð í miðjan sand og stundum bakkaflóð.

Menn hafa aldrei séð hamfarir sjávarins í bakkaflóðum þeim, er flæða upp yfir sjávarbakkann, því að særokið er þá svo mikið, mistrið og sædrifið svo ógurlegt og þétt, að ómögulegt er að njóta augnanna til að sjá annað en boðana, sem falla og brotna við fætur manna á landi, en þeir eru oft ærið stórir og ægilegir. Hversu hávaxnar öldur það eru, sem þvílíku brimróti valda, vita þeir einir, sem þá eru á hafi úti, langt frá landi, en þeir hafa sagt, að þá hafi sjórinn verið holskeflur einar, ófær sjór með öllu, svo að þeir hafi orðið að leggjast í rétt til þess að reyna að verja skipið áföllum. Stóraflóð eða Básendaflóð 9. janúar 1799 er talið einna stærst því líkra sjávarflóða, sem menn vita um á síðari tímum. Þá var og mikið flóð árið 1832. Var móðir mín þá tveggja ára, fædd 16. marz 1830, og mundi hún vel eftir því. Sagði hún mér svo frá:

Við vorum flutt frá Kalastöðum austur að Dvergasteinum, en þeir eru einna hæsta bæjarstæðið austan Stokkseyrar. Man ég vel, að móðir mín, Sesselja Grímsdóttir, hélt á mér með annarri hendi við barm sinn, en með hinni hendinni hélt hún í tauminn á einu kúnni, er foreldrar mínir áttu. Sagði móðir mín mér, að ég hefði grátið mjög og kallað í sífellu: ,,Taktu ekki mömmu eða kúna frá mér!“ Hafði sjórinn þá flætt upp í hvílurúm þau, er í baðstofunni voru, svo að ekki var hægt að hátta þar í bænum fram eftir nóttunni. Var þá sótt þurrt hey úr heygarði til þess að láta í rúmin, því að engar voru sængurnar, heldur aðeins tyrfður grjótbálkurinn með þurru torfi og síðan mýrarhey látið ofan á það til að liggja við. Þannig var um menn búið á flestum þeim bæjum, er ég þekkti til, en aldrei heyrði ég neinn kvarta undan því, eða gera hærri kröfur til sín eða annarra í þeim efnum“.

Venjulegt brim var oft í góðu veðri og allmikið, einkum fyrstu dagana eftir mikla hafhroða og í byrjun hreinnar norðanáttar og góðra gæfta. Það var hreint og reglulegt, öldurnar ýmist háar eða lágar, með nokkurn veginn reglulegum millibilum, stórum ólögum af og til og jafnjaðrabrimi, sem deyr af, eftir því sem að fellur eða í hækkar, unz kominn er sundasjór og brimsundin, eitt eða fleiri, eru fær orðin, en á Stokkseyri eru þau aðallega tvö, Stokkseyrarsund (Vestursund) og Músarsund, og er þá sjaldan beðið boðanna með að róa. Skarðalaust brim er það vitanlega nefnt, þegar hvergi sér neina lægð í brimgarðinum, en um háflæðið og í stórstrauma er sjór að vísu oft bólginn mjög og veður inn yfir öll lón og sker, svo að „leiðin“ er þá litlu betri en sundin sjálf, en þó talin fær og oft notuð, en þá er það sem menn kalla flóðglenning, en hann stendur sjaldan lengi, því að jafnskjótt sem í lækkar, er sjórinn kominn í hið sama kjölfar sitt sem áður. Því er sjávarfar þetta varasamt mjög og fljót tiltök þarf til að nota það, svo að vel sé.

Króköldubrim er það nefnt, er aldan fellur af landsuðri og útsuðri í senn. Er það oft stórfellt mjög og illt að velja góð lög á sundunum, enda er þá og venjulega hvassviðri af austri suður til Vestmannaeyja, en jafnframt er hvassviðri af suðvestri, vestri og norðri út af Snæfellsnesi og Reykjanesi, og er vandséð, hvor áttin muni hafa yfirhöndina. Austanáttin er þar oftast yfirsterkari, nema til norðanáttar dragi, og færist hún þá fljótt í aukana, enda dregur þá brátt úr briminu. Nái austanáttin yfirráðunum dregur einnig úr briminu, jafnskjótt sem hún nær sér, enda verður þá veðrið mildara en verið hafði, ef hún réði. Harðindakvikubrimi er að nokkru lýst hér áður, en það eru stórfallandi sjóir vestur af Vestmannaeyjum, sem falla frá austri til vesturs, en valda hreinu brimi við suðurströndina. Það fer á móti hvössum norðanvindi eins og hornriðabrimið og er enn meira en það.

Straumar og sjávarföll

Sjaldan er svo á sjó farið þar eystra, að eigi verði vart við strauma, strax þegar út fyrir sundin er komið, og valda þeir oft erfiðleikum miklum og töfum. Eru straumar þessir nefndir föll, er liggja meðfram ströndinni, ýmist frá austri, vesturfall, og er það tíðast, eða frá vestri, austurfall, sem er miklu sjaldgæfara, og ber naumast á því nema undir verstu veður, brim og austanrok. Er sjórinn þá allur eins og blóði drífinn, rauðflekkóttur af marglittum, er þá vaða uppi. Aftur á móti er vesturfallið svo venjulegt, að það verður eigi talið með afbrigðum, en oftast er það hart og þungt, einkum nær landinu, t. d. við Hafnarnes og vestur með Hafnarbergi, alla leið vestur í Selvog eða lengra. Af fallinu má oft ráða, til hvaða veðráttu dregur næstu daga, svo og straumum þeim, iðum og froðum, sem eru innan við brimgarðinn og í sundunum. Verður að því vikið síðar.

Stundum beinast straumarnir að landi eða frá því. Eru það nefnd innföll og undanföll. Þegar frönsku skúturnar voru á fiski nærri landi, bar þær stundum svo hratt upp að brimgarðinum, að þær urðu að setja skipsbáta sína á flot til þess að varna skipum sínum frá því að lenda í brimgarðinum, og áttu þeir oft fullt í fangi með að ná þeim út aftur, þótt logn væri.

Vegna fallanna festust lóðir manna oft í hrauni, þótt lagðar væru laust við það í byrjun. Einkum var það vesturfallið, sem bar lóðirnar frá austri til vesturs í hraun, og þótti það ekkert tiltökumál. Hitt var ávallt verra, er austurfallið kom til og keyrði þær í hnút undir hraunsnagana, enda var þá og undanfall um leið. Í Hafnarsjó (Þorlákshafnar) voru föllin oft svo hörð, að sjór var lítt drægur, ef á móti strekkingi var að róa, en þá voru engar vélar til þess að létta róðurinn.

Leave a Reply