Þurrabúðir

Þurrabúðir voru þeir bólstaðir nefndir, sem enginn málnytupeningur fylgdi, og liggur það í orðinu sjálfu, en þurrabúðarmenn voru þeir kallaðir, er þannig bjuggu. Eru þessi orð löghefðuð nú á dögum um þess konar búsetu. Í fornöld voru bólstaðir þessir nefndir búðir og búðsetumenn þeir, er þar bjuggu, en búðseta nefndist búskapur þeirra. Á síðari öldum urðu algeng hér á landi dönsku orðin tómthús og tómthúsmaður, sem oft var stytt í húsmaður. Í samræmi við það var búðsetan kölluð húsmennska.

Þegar á þjóðveldistímanum, eftir að land var fullbyggt orðið, að talið er, tók þörfin á nýjum bjargræðisvegum að gera vart við sig. Þeir, sem vegna fátæktar eða af öðrum ástæðum gátu ekki komizt á jörð og gerzt bændur, áttu um fátt annað að velja en gerast annarra þjónar. En frelsisþrá hefir frá alda öðli verið ríkur þáttur í eðli manna. Margir ungir menn kusu því heldur frelsi með áhættu en ánauð með öryggi. Þeir leituðu þangað, sem lífvænlegast var, einkum til sjávarins, stofnuðu sitt eigið heimili og gerðust búðsetumenn, stunduðu sjó á vertíðum, en kaupavinnu á sumrum eða annað, sem bauðst. Aðrir voru einhleypir og seldu vinnu sína tíma og tíma í senn án þess að festa sig í vistum. Þeir voru nefndir lausamenn. Í þeim hópi voru oft menn, sem kunnu einhverja iðn eða höfðu sérhæft sig til ákveðinna verka, og er slíkra manna getið við og við í fornsögum vorum.

Afkoma búðsetumanna var jafnan ótrygg. Hún var háð árferði og aflabrögðum, eftirspurn eftir vinnu á hverjum tíma og margs konar sérstökum ástæðum, svo sem heilsufari, framfærsluþunga o. s. frv. Ef hart var í ári og illa fór, beið þessa fólks ekki annað en hreppurinn. Frá sjónarmiði hins íslenzka bændaþjóðfélags var þetta meira en nóg til þess að líta búðsetuna illu auga og reisa skorður við henni. En þar við bættist svo hitt, að eftir því sem búðsela og lausamennska jókst, óx einnig skortur á ódýru vinnuafli hjá bændum, sem verið hefir hyrningarsteinninn undir búskap landsmanna allt fram á þessa öld. Þetta tvennt, ótti við sveitarþyngsli og vinnufólkseklu hjá hændum, gerði það að verkum, að efnastéttir landsins börðust á móti búðsetu af fremsta megni bæði með löggjöf og á annan hátt. Sú barátta var ekkert dægurfyrirbrigði í sögu þjóðarinnar, því að hún stóð með litlum hvíldum fram á síðustu áratugi 19. aldar.

Hin elztu fyrirmæli um þetta efni eru í hinum fornu þjóðveldislögum, og eru þau á þessa leið: ,,Búðsetumenn skulu engir vera, þeir er búfjárlaust búi, nema hreppsmenn lofi. En ef hreppsmenn lofa búðsetuna, þá eru þeir skyldir at annast hann eða færa til framfærslu, ef hann má eigi sjálfr bjargast. En ef hann biði eigi leyfis eða sitr hann, þótt honum sé eigi lofat, ok varðar fjörbaugsgarð (þ. e. þriggja ára útlegð) ok svá varðar þeim, er við honum tekr, ok ræðr hann sér einum á hendr afhrapa (þ. e. ómegð) hans“ (Grágás II, 145-46). Í Jónsbók, sem lögtekin var á alþingi 1281, er lagt bann við því, ,,at nokkurr reisi sá búnað sinn, er minna fé á en til 5 hundraða tíundar virt, svá ókvángaðr sem kvángaðr, en sá bóndi, er þeim byggir jörð sína, er minna fé á, sekist hálfri mörk við konung.“ Ástæða þessa fyrirmælis er talin sú, að stundum beri það við, ,,at bændr fái eigi vinnumenn, ef ært er vel, því at allir nær vilja þá búa fara“ (Jónsbók, Khöfn 1904, bls. 234). Ákvæði þetta var fellt úr gildi með réttarbót Eiríks konungs Magnússonar árið 1294 (Jónsbók, bls. 283, 14. gr.). Um þær mundir mun skipting jarða í hjáleigur og búskapur með leigukúgildi vera í uppsiglingu. Var sú skipan bændum og jarðeigendum mjög hagkvæm, og hafa þeir af þeim sökum heilt sér fyrir afnámi þessa lagafyrirmælis.

Á 14. öld og allt fram á síðasta hluta 15. aldar virðast búðsetumenn hafa verið óáreittir að mestu af löggjöf og valdhöfum. Þá voru hjáleigur sem óðast að byggjast, og tóku þær við allmiklum hluta hins efnalausa eða efnalitla fólks. Mikinn hluta þessa tímabils var gott árferði til sjávarins og skreið í háu verði. Búðsetumenn hafa því bjargazt allvel og orðið bændum lítt til þyngsla. Á 15. öld ráku þýzkir og enskir kaupmenn miklar fiskiveiðar hér við land. Réðu þeir til sín margt innlendra manna, er settist að í búðsetu í verstöðvunum og reri á útvegi þeirra. Sést þetta greinilega á kvörtunarbréfi 24 sýslumanna og lögréttumanna norðan og vestan á Íslandi til Kristjáns konungs fyrsta 4. júlí 1480, þar sem þeir kvarta „um þann mikla ósið, er hér væri í landið um þá vetursetu, er útlenzkir menn hefði hér, hvað oss leizt og öllum almúganum út í frá vera stór skaði fyrir landið, sakir þess að þeir halda hér hús og garða við sjóinn og lokka svo til sín þjónustufólkið, að bændurnir fá ekki sína garða upp unnið eða neina útvegu haft, þá er þeim eða landinu mega til nytta verða“ ( Ísl. fornbrs. VI, 283). Af bréfi þessu má marka, að búðsetumenn hafa um þessar mundir verið allfjölmennir og einkum á vegum útlendra kaupmanna.

En nú hefst fyrir alvöru baráttan gegn búðsetumönnunum, sem eigi linnti síðan öldum saman. Árið 1481 bannaði konungur útlendingum vetursetu hér á landi í tilefni af áðurnefndu kvörtunarbréfi Íslendinga, og var það bann einnig reitt að höfði búðsetumannanna, sem verið höfðu á vegum kaupmanna. Það mun þó hafa borið lítinn árangur, enda auðvelt að fara í kringum það. Því var hinn 1. júlí 1490 gerð víðtæk alþingissamþykkt um þessi mál að tilhlutun hirðstjórans Diðriks Pinings af báðum lögmönnunum og öllum lögréttumönnum. Það er hinn nafnkunni Píningsdómur, sem svo var nefndur og gilti sem lög í þessu efni um margar aldir. Þar er útlendum mönnum algerlega bönnuð veturseta hér á landi, nema óviðráðanlegar orsakir komi til, og mælt svo fyrir, að þeir skuli engan íslenzkan mann halda sér til þjónustu og geri hvorki skip né menn til sjós. Um búðsetumennina segir svo sérstaklega: .,Svo og höfum vér dæmt og samþykkt af allri lögréttunni, að engir búðsetumenn skulu vera í landinu, þeir sem eigi hafa búfé til að fæða sig við, svo þó, að þeir eigi ekki minna en 3 hundruð, svo karlar sem konur, og skyldir til vinnu hjá bændum allir þeir, sem minna fé eigu en nú er sagt, konur og karlar“ (Ísl. fornbrs. VI. 704; Lovsaml. for. lsland 1. 42. – Sjá enn fremur um þetta efni rit dr. Þorkels Jóhannessonar prófessors: Die Stellung der Ireien Arbeiter in Island o. s. frv .. bls. 192-203).

Píningsdómur var staðfestur eða löggiltur aftur og aftur á næstu öldum bæði á alþingi og í ýmsum héruðum landsins, og nægir að vitna um það til Íslenzks fornbréfasafns og Alþingisbóka. Í konungsbréfi 21. júlí 1808 er mælt svo fyrir. að enginn megi setjast að framvegis sem þurrabúðarmaður, nema hann sanni, að hann geti fengið jarðarblett, sem fóðra megi af eina kú eða 6 kindur, að tilgreindum fleiri skilyrðum (Lovsaml. for Island VII, 208). Enn frekari skorður eru þó settar við búðsetunni í reglugerð um fátækramálefni 8. jan. 1834, en þar er sýslumönnum boðið að vaka yfir því, að fleiri þurrabúðarmenn „en samsvari réttri tiltölu bjargræðisveganna og þeirra vanalega afla við sjávarsíðuna ekki nái þar bólfestu. Og má hér eftir enginn án sýslumannsins leyfis verða tómthúsmaður að við lögðum fjárútlátum eftir sýslumannsins ákvörðun, frá l til 5 rbdl. silfurs til byggðarlagsins fátækraféhirzlu. Sá húsbóndi, sem hefir tekið á móti slíkum tómthúsmanni án yfirvaldsins leyfis, á þar fyrir að gjalda til sömu féhirzlu frá 2 til 8 rbdl. silfurs fyrsta sinn, hverjar bætur tvöfaldast skulu fyrir hvert skipti, er nokkur ítrekar slíka yfirsjón“ (Lovsaml. for lsland X, 434).

íslenskanÞað var ekki fyrr en 1888, sem ný lög voru sett á alþingi um þetta efni, er segja má, að bindi enda á hina aldagömlu baráttu löggjafarvalds og yfirvalda við búðsetumenn landsins. Skilyrði til búðsetu voru þar rýmkuð til mikilla muna, bundin þó að vísu við nokkra fjárhæð, 400 króna skuldlausa eign, sem leyfilegt var þó að undanþægja, en einkum var réttur þurrabúðarmanna tryggður á ýmsan hátt frá því, sem áður hafði verið (lög nr. 1, 12. jan. 1888, um þurrabúðarmenn). Lög þessi voru numin úr gildi með lögum um lausamenn, húsmenn og þurrabúðarmenn frá 22. nóv. 1907, og gilda þau enn í dag.

Þrátt fyrir baráttuna gegn búðsetumönnunum mun þó aldrei hafa tekizt að afmá þá stétt með öllu. En hún náði aldrei að vaxa og eflast til þeirra muna, að hún gæti látið verulega til sín taka í þjóðfélaginu. Baráttan gegn henni varð þess valdandi, að aldrei gátu vaxið upp þorp eða borgir hér á landi á liðnum öldum, eins og annars staðar varð, þar sem eigi var jafnmarkvíst unnið að því að hefta sjálfsbjargarviðleitni fólksins og eðlilega þróun þjóðfélagsins til fjölbreyttari atvinnuhátta.

Eftir þetta stutta yfirlit yfir langa sögu mun það ekki koma á óvart, þótt þurrabúðarmanna gæti lítið í Stokkseyrarhreppi á fyrri tímum. Þar sem annars staðar áttu þeir ekki upp á pallborðið hjá sýsluvöldum og sveitarstjórn. Til áréttingar því, sem áður er sagt um það efni almennt, skal birt hér samþykkt, er gerð var á manntalsþingi á Stokkseyri 18. maí 1765, þar sem glöggt má sjá, hvers álits þurrabúðarmenn nutu hjá efnaðra fólki í þá daga. Samþykktin er á þessa leið: ,,Verkfærum karlmönnum og kvenfólki, sem getur unnið sér fyrir fæði, forsorgun, fatnaði og öðrum venjulegum skyldum og kaupi í Stokkseyrarhreppi, tilsegist að vista sig hjá bændum í sveitinni, sem í fyrirsvari eru, en fyrirbýðst hér með að vera lausum eður setja sig niður í húsmennsku sveitinni til þyngsla, en öngvum til gagns, hvar þeir sem landeyðarar venjast til leti og ómennsku. Í sama máta fyrirbýðst bændum að byggja þeim eður leyfa sér hús að byggja á þeirra ábýlisjarða lóð fyrir utan hreppstjóranna vitund og samþykki, svo lengi sem þeir fá viðunanlega vist í sveitinni. Að auk þessa bannast húsmönnum (hér er átt við hjáleigumenn), sem sjálfir eru verkfærir og ekki hafa fleiri ómaga fram að færa en tvo eður meir en 2 eður 3 kýr á búi, að draga vinnumenn í vist til sín frá bændum, sem þeirra þénustu með þurfa“ (Þingb. Árn.).

Það er samkvæmt þessu mjög að vonum, að þurrabúðir í Stokkseyrarhreppi eru bæði fáar og strjálar, allt frá því er þeirra er fyrst getið skömmu eftir aldamótin 1700 og fram yfir 1880. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns 1708 er getið um 4 þurrabúðir í Stokkseyrarhverfi: Beinateig, Hvíld, Hviðu og Töpp, sem eru þá allar í eyði, en í manntali 1703 eru auk þess nefndar þurrabúðirnar Þóruhús og Hólahjáleiga svokölluð, þar sem Guðmundur gamli Ormsson bjó, en þær voru báðar komnar í eyði 1708. Alla 18. öldina á enda eru aðeins nefndar tvær þurrabúðir, er hvor um sig hefir verið í byggð örfá ár: Keldnakotshjáleiga og Móakot. Á fyrri hluta 19. aldar er getið um þurrabúðirnar Tíðabarg, Söndu, Móakot (þá byggt aftur), Hrauk og Kumbaravogskot, er voru allar komnar í eyði fyrir miðja öldina. Á næstu þremur áratugum bætast við þurrabúðirnar Litla-Ranakot (fór aftur í eyði á þessu tímabili), Árnatóft, Móakot (byggt þá í þriðja sinn), Stokkseyrarselskot, Útgarðar, Heiði og Hraukur (þá byggður aftur). Í þurrabúðum þessum bjuggu undantekningarlaust innansveitarmenn, ýmist uppgjafa hjáleigubændur, ekkjur þeirra eða venzlamenn. Um innflutning fólks í hreppinn til búðsetu var því alls ekki að ræða. Hin þrálátu bönn yfirvalda báru því fullan árangur, enda stóð fólksfjöldinn næstum því í stað öldum saman, eins og eftirfarandi tölur sýna:

1703: 330
1801: 285
1818: 323
1840: 314
1850: 311
1860: 386
1870: 416
1880: 500

Á áratugnum milli 1880 og 1890 má sjá merki þess, að nýir tímar séu í vændum. Árið 1884 verður Stokkseyri löggiltur verzlunarstaður og 1889 er fyrsta verzlunin stofnuð þar. Sjávarútvegur færist mjög í aukana, og margs konar félagsstarfsemi er hafin, er til menningar horfði og framfara. Árið 1888 eru sett ný lög um þurrabúðarmenn, frjálslegri en áður. Nokkrar þurrabúðir eru byggðar á þessum árum, og fólksfjölgunin heldur áfram svipað og á næstu áratugum á undan.

Eftir 1890 færist nýtt líf í atvinnu og framkvæmdir í byggðarlaginu. Útgerð opinna róðrarskipa nær hámarki sínu, verzlanir og verzlunarfélög rísa upp hvert af öðru, og atvinna skapast við ýmsar framkvæmdir, fólk streymir að úr sveitunum, og byggðin vex með furðulegum hraða. Stokkseyrarhreppur verður sérstakt hreppsfélag 1897, og um aldamót er komið þar upp allfjölmennt kauptún með fjörugu athafna- og viðskiptalífi. Stóð svo með litlum breytingum fram um 1920. Á því þriggja áratuga blómaskeiði, sem nú var nefnt, byggðust flestar þurrabúðir í Stokkseyrarhreppi. Á þriðja tug þessarar aldar tók verulega að draga úr vexti þorpsins, verzlunin dróst saman og fluttist annað, og fólkið leitaði á aðra staði. Nokkur stöðvun varð þó á þessu eftir 1930, og fólki fjölgaði aftur um hríð, en á síðasta áratug hefir fækkuninni haldið áfram, enda hafa margar þurrabúðir, hjáleigur og jafnvel lögbýli lagzt í eyði. Eftirfarandi tölur um fólksfjöldann sýna þróunina bezt:

1890: 561
1901: 943
1910: 897
1920: 886
1930: 678

Þær sveiflur, sem verða á íbúatölu hreppsins, hvort sem er til fjölgunar eða fækkunar, lenda að miklu leyti á þurrabúðunum, en þess ber þó að geta, að fólksfækkunin, einkum á síðasta áratug, stafar einnig að verulegum hluta af því, að jarðir hafa farið í eyði. En þurrabúðirnar voru lengstum lausari fyrir. Annað veifið byggðust þær ört, hina stundina lögðust þær af, eftir því hvar atvinna var mest og afkomuvon bezt á hverjum tíma. Nú á dögum hafa þó þurrabúðarmenn í Stokkseyrarhreppi fengið aðgang að ræktunarlandi og hafa flestir túnbletti og matjurtagarða. Er þar því raunar öllu heldur um hjáleigubúskap að ræða en búðsetu í gömlum skilningi.

Hér á eftir verða taldar allar þurrabúðir, sem vér höfum fundið nafngreindar í Stokkseyrarhreppi fyrr og síðar. Er skýrt frá því, hvenær þær byggðust og hverjir byggðu þær, að svo miklu leyti sem kunnugt er um, einnig, hvenær þær fóru í eyði, sem eigi eru enn byggðar. Enn fremur er getið nokkurra húsa, sem höfðu sérstök nöfn, þótt eigi væru íbúðarhús. Auk opinberra heimilda um þetta efni er stuðzt mjög við frásagnir kunnugra manna.

Leave a Reply