Eins og áður er tekið fram, skyldi vera prestur heimilisfastur á Stokkseyri í kaþólskri tíð, sennilega frá því er kirkja var þar sett og fram undir lok 15. aldar. Á því skeiði hafa verið þar svonefndir kirkjuprestar, sem voru á fyrstu öldum kristninnar litlu betur settir en þrælar. Voru þeir mjög háðir kirkjueiganda og lifðu í kosti hans, svo sem í nokkurs konar vinnumennsku, og nutu að vonum heldur lítillar virðingar af embætti sínu. Síðar á öldum batnaði þó nokkuð hagur þessara presta, er kirkjunni í landinu tók að vaxa fiskur um hrygg. En sökum hins lága sess, er þeir skipuðu í þjóðfélaginu, voru þeir lítt til mála kvaddir og koma því óvíða við sögu. Þannig verður það skiljanlegt, að ekki er kunnugt um neinn prest á Stokkseyri, þann er nafngreindur verði, á öllu þessu tímabili.
Frá því seint á 15. öld, að því er ætla má, og allt fram yfir miðja 19. öld var Stokkseyri þjónað af Gaulverjabæjarprestum. Nefna prestatöl 20 presta í Gaulverjabæ á því tímabili, og virðist þar ekki í vanta, enda er kunnugt um embættisár þeirra allra frá því nokkru fyrir siðaskipti. Það yrði of langt mál að geta hér allra þessara presta, eru og upplýsingar um þá tiltækar á öðrum stöðum.[note]Sjá m. a. Prestatal og prófasta eftir Svein Níelsson. 2. Útg., 75-76; P. E. Ólason, Íslenzkar æviskrár á víð og dreif; Sighvatur Gr. Borgfirðingur, Prestaævir (í Lbs.) [/note] Aðeins nokkrir skulu þó nefndir.
Um siðaskiptin var prestur í Bæ Oddur Halldórsson hins ríka í Tungufelli Brynjólfssonar, merkisklerkur; hann dó 1565. Á árunum 1575- 1605 var þar prestur Guðmundur Gíslason sýslumanns í Miðfelli Sveinssonar, tengdafaðir Bjarna lögréttumanns Sigurðssonar á Stokkseyri. Eftirmaður Guðmundar var Oddur Stefánsson (1606-1641), sonarsonur Gísla biskups Jónssonar. Oddur hafði verið kennari við Skálholtsskóla og var talinn manna lærðastur á sinni tíð; hann var einnig prófastur um skeið. Meðal kunnustu Bæjarpresta má telja Torfa Jónsson (1650-1689), bróðurson Brynjólfs biskups Sveinssonar og svila hans. Torfi hafði stundað nám erlendis í 4 ár, var lærður vel og kennimaður góður og lengi prófastur í Árnesþingi. Hann hefir ritað ævisögu Brynjólfs biskups. Á árunum 1706-1734 var Þorkell Oddsson prestur í Bæ. Hann átti í deilum við Guðmund Jasonarson West á Stokkseyri um prestskyldu og síðar við Þórdísi Markúsdóttur (Stokkseyrar-Dísu) um messuskrúða og lykil að Stokkseyrarkirkju. Þorkell átti fyrir seinni konu dóttur Jóhanns Þórðarsonar prests í Laugardælum, sem talinn var efnaður og aðsjáll, og var þetta haft eftir síra Þorkeli: ,,Því skal ómildur Keli eyða, sem sínkur Jóhann saman dregur.” Eftirmaður hans í Gaulverjabæ var Ingimundur Gunnarsson (l 735 -1755) ; var hann góður kennimaður, söngmaður og hagmæltur og fær heldur góðan vitnisburð í skýrslum Harboes.
Þrír síðustu prestarnir í Bæ, sem þjónuðu Stokkseyri, voru hver öðrum merkari klerkar. Jón Teitsson, síðast biskup á Hólum, var prestur í Bæ 1755- 1780 og prófastur í nokkur ár. Hann lagði mikla rækt við uppfræðslu barna í lestri og kristindómi í sóknum sínum og varð vel ágengt í þeim efnum. Sama er að segja um eftirmann hans, mag. Bjarna Jónsson 1781-1799. Hann hafði verið skólameistari í Skálholti í 28 ár, lengur en nokkur annar, og var manna lærðastur og ágætur kennari. Síðastur Bæjarpresta, sem þjónuðu Stokkseyri, var Jakob Árnason, er gegndi prestsembætti í þessum sóknum lengst allra, sem sögur fara af, eða í 56 ár samfleytt, 1799-1855. Seinni árin eða frá 1839 hafði hann aðstoðarprest, sem þjónaði einkum á annexíunni Stokkseyri, og var það Páll Ingimundarson, er varð eftirmaður síra Jakobs í brauðinu. Jakob Árnason var lærður vel, hafði verið kennari við Hólavallarskóla og tvívegis settur rektor þar, og einnig hafði hann stundað nám í læknisfræði um skeið. Hann var mikilhæfur maður, búhöldur góður og áhugasamur fræðari, vel metinn af sóknarbörnum sínum. Prófastur var hann í þrjá áratugi (1818-1848). Grafskrift og erfiljóð um hann eftir síra Guðmund Torfason eru Gaulverjabæjarkirkju.
Þegar um kirkjulega þjónustu er að ræða, má ekki láta þeirra leikmanna ógetið, sem eru fyrir sitt leyti jafnnauðsynlegir við hverja messugerð og presturinn sjálfur, og á eg þar auðvitað við forsöngvara og meðhjálpara. Um hina fyrrnefndu verður rætt sérstaklega hér á eftir, en nú skal getið um meðhjálpara við Stokkseyrarkirkju síðustu tvær aldirnar.
Fyrsti meðhjálparinn, sem kunnugt er um á Stokkseyri, var Snorri Jónsson bóndi á Háeyri. Hann lét af því starfi árið 1756, en við því tók Felix Klemenzson bóndi í Einarshöfn.[note]Saga Eyrarbakka I, 107. [/note]Hann var enn á lífi 1777, en óvíst er, hvort hann hefir gegnt starfinu svo lengi. Hitt ei aftur á móti víst, að einmitt það ár varð Árni Gamalíelsson bóndi í Dvergasteinum meðhjálpari.[note]Sama rit I, 215, sbr. Bólstaðir o. s. frv., 213. [/note] Hann fluttist að Háeyri 1782, og er sennilegt, að Jón Ingimundarson, sem fór að búa á Stokkseyri sama ár, hafi tekið við af Árna, og víst er, að Jón var lengi meðhjálpari og gegndi því starfi enn árið 1818.[note]Manntal á Íslandi 1816, bls. 301; Bólstaðir o. s. frv., 140. [/note] Jón Ingimundarson dó árið 1825, og tók Jón Gamalíelsson bóndi á Stokkseyri þá eða ef til vill fyrr við af honum. Var hann síðan meðhjálpari allt til þess að hann fluttist austur að Loftsstöðum til Jóns, sonar síns, árið 1844.[note]Sjá sóknarmannatal í Stokkseyrarsókn 1829 og 1843 og almenn manntöl 1835 og 1840. [/note] Seinustu árin, sem Jón Gamalíelsson var meðhjálpari, var Gísli Þorgilsson bóndi á Kalastöðum með honum, en hann var meðhjálpari frá 1842 til dauðadags 1858 eða í 16 ár.[note]Þjóðólfur XI, 71. [/note] Samtímis Gísla, eftir að Jón fór, var Jóhann Bergsson bóndi á Stokkseyri meðhjálpari frá 1844 til dauðadags 1852.[note]Sjá sóknarmannatal 1845, 1846 og 1850; Saga Eyrarbakka I, 219; Bólstaðir o. s. frv., 149. [/note] Eftir Gísla Þorgilsson var Brynjólfur Björnsson á Skúmsstöðum, síðar bóndi í Borg í Hraunshverfi, meðhjálpari óslitið frá 1859 til dauðadags 1872,[note]Sjá sóknarmannatal 1859-1862 (Skúmsstaðir) og 1865 (Borg). [/note] en samtímis þessum síðastnefndu mun Þórður Jónsson bóndi á Stokkseyri hafa verið meðhjálpari í viðlögum.[note]Sbr. Bólstaðir o. s. frv., 141.[/note]
Eftir fráfall Brynjólfs í Borg varð Páll Jónsson bóndi á Syðra-Seli meðhjálpari ásamt nafna sínum og svila Páli Eyjólfssyni bónda í Eystra-Íragerði.[note]Sjá sóknarmannatal 1875 (Syðra-Sel) og Austantórur III, 135. [/note] Þeir munu hafa verið meðhjálparar 1872-1882 eða í 10 ár, en þá tóku við þeir Sigurður Grímsson bóndi í Borg (frá 1883) og Gísli Gíslason bóndi á Stóra-Hrauni og síðar á Ásgautsstöðum. Hvenær meðhjálparaskipti urðu, ræð eg af því, að Gísli er talinn vera orðinn meðhjálpari 1882.[note]Sögn Bjarna Júníussonar á Syðra-Seli. [/note] Sigurður Grímsson var meðhjálpari til dauðadags 1891,[note]Sjá prestsþjónustubók (dánarbálk). [/note] en Gísli gegndi starfinu síðan einn fram til 1908 eða þar um bil. Þá tók við Jón Þorsteinsson smiður á Brávöllum og var meðhjálpari fram undir það, að hann dó árið 1916. Eftir hann var Sigurður Einarsson verzlunarmaður á Stokkseyri meðhjálpari í nokkur ár, þá Guðmundur Guðmundsson frá Brautartungu í röskvan áratug og síðan Ingibjörg Þórðardóttir ljósmóðir í Deild (d. 1958) í rúm 20 ár. Að nokkru samtímis Ingibjörgu og eftir að hún dó, hefir Ey/Jór Eiríksson verzlunarmaður verið meðhjálpari á Stokkseyri.