Stokkseyrarkirkja stendur austan við hið forna Stokkseyrarhlað með’ stórum grafreit umhverfis, sem nær fram að sjógarði og nýtur skjóls af honum. Jarðvegurinn er sendinn sjávarbakki, þurr og mjög hreinlegur, og viðir fúna þar undra seint. Kirkjugarðurinn hefir verið færður út tvívegis á þessari öld, rétt eftir 1920 og aftur 1938 og er nú að verða of lítill. Hann er snyrtilega hlaðinn úr grjóti og vel um genginn, járngrindur stórar fyrir sáluhliði. Er þar nú öðruvísi um að lítast en fyrir tveimur öldum, er staðnum er lýst svo, að kirkjan standi, ,,hvar bæði sjór og sandur svo mjög að ganga, að auðsjáanlegt er, að garðurinn héldist ekki við, þótt með stórri fyrirhöfn og kostnaði upphlaðinn væri.“ [note]Kirkjustóll Stokkseyrarkirkju í Þjóðskj.safni árið 1749, sbr. einnig 1762. [/note]Nú prýða garðinn margir legsteinar og minnisvarðar, sem flestum er vel við haldið, en mesta eftirtekt vekur bautasteinn hins mikla sjómanns, Jóns hafnsögumanns Sturlaugssonar frá Vinaminni, með brjóstmynd hans, sem höggin er úr granít frá Borgundarhólmi af Sigurjóni myndhöggvara Ólafssyni.
Þegar Matthías Þórðarson kom í skrásetningarferð til Stokkseyrar sumarið 1909, voru þrír gamlir legsteinar úti fyrir kirkjudyrum, allir úr útlendu líparíti, stórir mjög, og höfðu verið fallegir, en voru þá svo gengnir orðnir og eyðilagðir, að á þá varð ekki lesið nema orð og orð á stangli. Lagði Matthías svo fyrir, að þeir skyldu fluttir inn undir kirkjugólfið og geymdir þar. Þangað voru þeir fluttir árið eftir og eru nú allir þrír undir miðju kirkjugólfinu. Samdi Matthías nákvæma lýsingu á steinunum og las áletranir þeirra, eftir því sem kostur er á, og fylgir sú skýrsla lýsingu hans á gripum Stokkseyrarkirkju, sem áður er getið.
Innst undir gólfinu er legsteinn þess göfuga, vel lærða höfðingsmanns Markúsar Bjarnasonar á Stokkseyri (d. 1687) og hans göfugu kvinnu Guðrúnar Torfadóttur, foreldra Stokkseyrar-Dísu. Mikið af áletruninni er eyðilagt, og ekkert ártal verður lesið; hún er á íslenzku og virðist hafa verið 20 línur. Í hornum steinsins eru upphleyptar, kringlóttar myndir af guðspjallamönnunum, og á miðju neðst er enn upphleypt mynd með hauskúpu á leggjum og stundaglas á vængjum. – Næst er legsteinn hins heiðarlega, háttvirta og reynda sjómanns, nú sæla Fróða(?) Péturssonar, sem fæddist hér á Íslandi í september 1656, fluttist til hins konunglega aðsetursstaðar Kaupmannahafnar árið 16 .. sem stýrimaður, varð þvínæst skipstjóri árið 1683, sigldi til merkra verzlunarstaða við Eystrasalt og Norðursjó og andaðist á Eyrarbakkahöfn 17. ágúst 17 .. ; og lét hans kæra eftirlifandi ekkja, Margrét Behrensdóttir, setja þennan stein til minningar um hennar sæla, látna eiginmann. Áletrunin er bezt varðveitt á þessum steini; hún er á dönsku og hefir verið 20 línur alls. Mjög neðarlega á steininum hefir verið allstór, lágt upphleypt mynd, sporöskjulöguð, af stóru seglskipi, en í hornunum hafa og verið kringlóttar myndir, upphleyptar; hefir verið áttaviti í vinstra horni efst, en í hægra horni stýri, í vinstra horni neðst stundaglas, en hægra hornið er molnað. – Fremstur þessara þriggja steina undir kirkjugólfinu er legsteinn hins sæla Lorens (?) Terkelsens, fyrrum virðulegs og vel forstöndugs borgara og skipstjóra í þeim konunglega aðsetursstað Kaupmannahöfn, er látizt hefir í siglingu á Eyrarbakka. Áletrunin er mjög skemmd, og ekkert ártal verður lesið; hún er á dönsku og hefir verið að minnsta kosti 15 línur. Á hornum steinsins eru upphleyptar blómamyndir. Auðsætt er, að steinninn er frá líkum tíma sem hinir tveir.
Afdrif þessara fallegu og vönduðu legsteina, sem gerðir hafa verið af miklu ræktarþeli við minningu látinna ástvina og með drjúgum tilkostnaði, eru raunalegt vitni um fallvaltleik hins tímanlega. Hér eiga sannarlega við orð skáldsins:
,,Legsteinninn springur og letur hans máist í vindum,
losnar og raknar sá hnútur, sem traustast vér bindum.“