Nú skal hverfa að því efni að skýra nokkuð frá kirkjubyggingum á Stokkseyri, eftir því sem kunnugt er um. Engar heimildir eru til um það efni frá hinum fyrri öldum sögu vorrar. En ef geta ætti sér til um það, hversu oft kirkjan hafi verið endurbyggð á 9 öldum tilveru sinnar, má í fyrsta lagi miða við þá staðreynd, að hún hefir verið byggð upp 7 sinnum á síðastliðnum 290 árum. Svarar það til þess, að hún hafi alls verið endurbyggð um það bil 22 sinnum. Í öðru lagi má miða við það, að á 18. og 19. öld var kirkjan byggð upp þrisvar sinnum á hvorri öld. Það mun þó fullhátt reiknað að taka þær tölur sem meðaltal fyrir allar aldirnar. Hitt mundi sönnu nær að gera ráð fyrir 2-3 kirkjum á öld að jafnaði, og kæmi þá einnig út því sem næst sama talan sem í fyrra dæminu eða 22-23. Það mun því nokkurn veginn óhætt að fullyrða, að Stokkseyrarkirkja hafi frá upphafi til þessa dags verið endurbyggð ekki sjaldnar en 22 sinnum, jafnvel aðeins oftar.
Fyrsta endurbygging kirkjunnar á Stokkseyri, sem ársett verður, fór fram árið 1668 á kostnað og að fyrirlagi síra Þorláks Bjarnasonar. Kirkja þessi var 6 stafgólf að lengd, þiljuð að innan, með súðþaki og timburgólfi. Hálfþil með pílárum var á milli kórs og kirkju, altari með útskurði og prédikunarstóll með sams konar verki, sem síra Þorlákur lét gera. Glergluggi var yfir altari, setustólar tveir með pílárum og bekkir í hornum báðum megin og í framkirkjunni að sunnanverðu. Fyrir kirkjunni var hurð á hjörum með skrá og koparhring.[note]Sbr. Vigf. Guðm., Saga Eyrarbakka II, 221-222. [/note] Eins og þessi elzta kirkjulýsing frá Stokkseyri ber með sér, hefir kirkja þessi verið allvandað hús og vel viðað, en útveggir hafa verið úr torfi og grjóti. Auðsætt er, að ætlazt hefir verið til, að þorri safnaðarins hlýddi á messu standandi, enda mun það hafa verið venja fyrr á tímum. Hins vegar hafði fyrirfólk sveitarinnar jafnan föst og ákveðin sæti í kirkjunni, og var mjög sótzt eftir þeim, er þau losnuðu vegna fráfalls eða brottflutnings eiganda. Þessi mismunun guðs barna tíðkaðist alls staðar í kirkjum landsins og hélzt langt fram á síðustu öld og jafnvel allt fram á þessa.
Kirkja síra Þorláks varð ekki gömul. Árið 1705 var hún rifin og endurbyggð á kostnað Guðmundar Wests og Þórdísar Markúsdóttur á Stokkseyri.[note] Ártalið er eftir Kirkjustól Stokkseyrarkirkju 1748-1819, bls. 10.[/note] Hin nýja kirkja var nokkru stærri en hin eða 7 stafgólf, en að öðru leyti gerð upp á líkan hátt, torfkirkja, þiljuð að innan. Árið 1740 voru gerðar á henni miklar endurbætur, svo að nálgaðist endurbyggingu, og er henni lýst þannig í aðaldráttum nokkrum árum síðar: Standþil var á framstafni og bjórþil á gafli, en veggir úr torfi og grjóti og torfþak yfir, en þó var kirkjan alþiljuð innan og með gólfi úr eik. Gluggi með 6 rúðum var yfir altari, annar með 4 rúðum á framþili, en á suðurþaki 6 rúður litlar uppi yfir prédikunarstóli. Þil með pílárum var á milli kórs og kirkju, prédikunarstóll útlendur, málaður. Stúka var innan við kirkjudyr að sunnanverðu. Hjálmar tveir voru frammi í kirkjunni með 9 kertapípum hvor.[note]Sbr. Vigf. Guðm., Saga Eyrarbakka II, 224.[/note] Þessi kirkja Stokkseyrar-Dísu var síðasta torfkirkjan, sem reist hefir verið á Stokkseyri.
Árið 1752 lét Brynjólfur sýslumaður Sigurðsson, sem þá var einn orðinn eigandi kirkjunnar, rífa gömlu kirkjuna og byggja í staðinn fyrstu timburkirkjuna á Stokkseyri. Er henni lýst svo í skoðunargerð Jóns prófasts Þórðarsonar tveimur árum síðar: ,,Hún er með kórnum undir sama formi, 7 stafgólfum, öll undir súð, alþiljuð til beggja hliða, einninn tak og fyrir, niður og upp í gegn. Hún er af einu saman timbri uppbyggð, án torfþaks og -veggja. Hún er með sínum tilhlýðilegum 8 bitum og svo mörgum sperrum og skammbitum, 16 stólpum undir langsyllum og svo mörgum stötter í[note] Stetter, hdr.[/note] útbrotum. Hálffóðraðir bekkir eru umhverfis kórinn, tvísettir. Þeir innri eru innan þeirra innri stólpa, hinir í útbrotunum, sem endast með bríkum við kórdyrnar og með eins móti í framkirkjunni sunnan fram. Langbekkur er ófóðraður norðan fram útbrota nú allt í kring, en fyrir innan þá innri stólpa eru 10 fastir kirkjustólar með bríkum, bakslám og sessfjölum. Bak við þá innri bekki er standþil, þó ei upp úr gegn, kring allt húsið. Venjulegur dyraumbúningur á milli kórs og kirkju með pílárum norðan fram, hverjum heldur standþil undir þverslá, og hjá prédikunarstól þiljað beggja vegna með 2ur pílárum og útskornum fjölum[note] fibl., hdr.[/note] yfir kórdyrum. Framan fyrir tilhlýðilegur dyraumbúnaður með vænni hurð á járnum samt skrá og lykli, vindskeiðar bæði bak og fyrir. Timburveggirnir samt súðin tvöföld og sú ytri súð ásamt standþiljunum bak og fyrir alls staðar upp og niður. Þetta hús er 1752 uppbyggt af nýjum viðum, sterklega og prýðilega, allt utan bikað að öllu og að öllu vel um gengið.“[note] Kirkjustóll Stokkseyrarkirkju í Þjóðskjalasafni.[/note] Því miður var þessari ágætu kirkju ekki nógu vel við haldið. Árið 1780 var hún orðin mjög hrörleg og „ekki messufær nema í góðu veðri, bæði vegna snjófoks á vetrum og stórleka í rigningum.” Einnig telur prestur, að „ljósum á altari sé hartnær ómögulegt lifandi að halda, þegar vindur sé.” Þess má geta, að árið 1775 rituðu 22 sóknarmenn undir bænarskjal þess efnis, að kirkjan yrði stækkuð. Var því að vísu vel tekið, en ekkert varð úr framkvæmdum í þá átt.
Árið 1788 var kirkjan orðin svo úr sér gengin, að ekki var lengur við hlítandi. Var hún þá rifin og ný kirkja byggð á kostnað kirkjueigandans Einars Brynjólfssonar yngra. Yfirsmiður kirkjunnar um alla trésmíði var Ámundi Jónsson í Syðra-Langholti, hinn listhagi smiður, en járnsmíði annaðist Brandur Magnússon í Roðgúl. Meðal annars gekk hann frá klukknaumbúnaði, og einnig smíðaði hann rammgerva læsingu, hvolfskrá, fyrir kirkjuna, og vó lykillinn 2 merkur. Hurðajárnin voru þrísett, og kostaði efnið til þessa 13 álnir, vinnulaun 12 álnir og skráin sjálf 20 álnir.[note] Sbr. Austantórur I, 13. Ártalið 1770 er þar áreiðanlega rangt; hlýtur frásögnin að eiga við kirkjubygginguna 1788.[/note] Grunnurinn undir kirkjunni var hækkaður upp, en að öðru leyti var hún „aldeilis undir sama formi og hún áður var, nema nú er fjalargólf komið í alla framkirkjuna fyrir utan útbrotin.” Þessi kirkja entist illa, og bar snemma á fúa í henni. Eftir 7 ár er hún talin ,,gagnskemmd og fúin, lekur í hverju smáregni og bitahöfuð farin að skemmast, svo húsið kann langt frá ei í góðu standi að álítast.” Með viðgerðum var hún þó látin duga til 1832, enda var hún þá komin að falli af fúa í öllum viðum.
Kirkja þessi var síðasta útbrotakirkja á Stokkseyri, en svo nefndust kirkjur með sérstöku byggingarlagi, sem tíðkaðist fyrrum hér á landi. Þar voru eins konar eftirlíking af hinum fornu kirkjum kristninnar með miðskipi og hliðarskipum. Voru þær byggðar þannig, að grind kirkjunnar var mjó, en með báðum hliðum grindarinnar myndaðist 1-2 álna breitt skot meðfram báðum veggjum. Skot þessi voru kölluð útbrot, og er þeirra hvað eftir annað getið í lýsingum 18. aldar kirknanna á Stokkseyri, t. d. kirknanna frá 1752 og 1788. Má í því sambandi minna á ummæli forsöngvarans Bergs hreppstjóra í Brattsholti: ,,Meðan eg var í útbrotunum, sá eg allt, heyrða eg allt, og vissa eg allt, en síðan eg kom í kórinn, sé eg ekkert, heyri eg ekkert, og veit eg ekkert.” Þess skal getið, að síðasta útbrotakirkja hér á landi var Stóra-Núpskirkja, er rifin var árið 1876 og var þá orðin meira en hundrað ára gömul.[note] Árb. forni. 1897; 25-28; Íslenzkir þjóðhættir, 351-358 (með myndum); Samtíð og saga VI, 60–66 (Magnús Már Lárusson) o. fl. heimildir.[/note]
Á 19. öld var Stokkseyrarkirkja þrisvar endurbyggð, og voru þær allar timburkirkjur. Entust tvær hinar fyrri í aðeins 54 ár samtals, en hin þriðja stendur enn í dag og er nú 75 ára gömul. Fyrsta kirkjan var reist árið 1832, og var kostnaðarmaður hennar Pétur Guðmundsson í Engey og meðeigendur hans að austurparti Stokkseyrar, en umsjón með verkinu mun hafa haft Jón Gamalíelsson kirkjuhaldari og bóndi á Stokkseyri. Stærð kirkjunnar var 18X9 álnir að innanmáli. Veggir allir og þil voru tvöföld nema framþilið. Timburgólf var í kirkjunni og loft með setubekkjum yfir tveimur utustu stafgólfunum. Á austurstafni voru tveir stórir gluggar með 6 rúðum hvor sinn hvorum megin altaris, en þrír gluggar minni á norðurhlið og tveir á suðurhlið, en lítill 4 rúðna gluggi á þakinu yfir prédikunarstóli og annar yfir loftinu á dyraþilinu. Hálfþil var milli kórs og kirkju með máluðum pílárum. Í framkirkju voru 9 setubekkir að norðanverðu og 8 að sunnanverðu, en í kórnum voru lausir bekkir og afgirtur skriftastóll sunnan megin altaris. Y zt í kór norðan megin var „stúka þeirra dönsku” með föstum bekkjum og málaðri hurð á járnum. Einnig var í kórnum laus bekkur með bríkum og bakslá. Prédikunarstóll og altari var úr gömlu kirkjunni. Vængjabrík var yfir altari, gyllt og máluð með gylltu letri, kristalshjálmur í kór með 6 messingspípum. Skrúði var mikill, og naut kirkjan þar að höfðinglegrar gjafar Hartmanns kaupmanns á Eyrarbakka ( d. 1782), er gefið hafði kirkjunni mjög vandaðan prestaskrúða og altarisbrík. Nokkrum árum seinna var loftið í kirkjunni stækkað, svo að það náði yfir þrjú stafgólf. Voru þar þá 6 fastir bekkir hvorum megin og grindverk sett á loftsbrúnina.
Sumarið 1857 réðst Adólf Petersen óðalsbóndi á Stokkseyri í nýja kirkjubyggingu. Lét hann þá rífa gömlu kirkjuna, enda þótt hún væri ekki nema 25 ára gömul og allvel stæðileg, og reisa í staðinn stærri kirkju og veglegri að öllu leyti. Stærð hennar var 21Xl3 álnir að utanmáli. Hún var þiljuð listaþili að innan, líka á sperrur og skammbita að endilöngu. Setuloft var yfir tveimur utustu stafgólfum með 30 pílárum á loftbrún og fóðraður stigi til lofts. Gólf var plægt í allri kirkjunni. Í kórnum voru þrír bekkir á hvora hlið, tveir fastir og einn laus og án bríka til endanna. Stuttir bekkir voru út frá kórdyrum og altari. Þil var milli kórs og kirkju 1 ¾ alin á hæð. Í framkirkju var 21 stóll með bríkum og bakslám, en á loftinu 6 bekkir fastir og einn laus. Vængjahurðir voru bæði fyrir kirkjunni sjálfri og fordyrinu, sem var 3X4½ alin að stærð. Þar var rennisúð, en á kirkjunni var helluþak og turn með krossi. Þrír stórir gluggar voru á hvorri hlið með hlerum fyrir og tveir á stafni yfir lofti. Máluð var kirkjan öll að innan og að utanverðu turn, dyraumbúnaður, gluggar og hlerar, en að öðru leyti var hún tjörguð. Í kór var nýtt skápaltari með hillu og gráðan með pílárum, rauðmáluð. Sumt var málað tvisvar, en sumt þrisvar. Nýr prédikunarstóll var í kirkjunni, hinn prýðilegasti gripur með hurð á járnum, en framan við hann var fótur fyrir skírnarfat. Á öllu var ágætur frágangur.
Þar eð kirkjueigandinn, Adólf Petersen, var næstum orðinn blindur um þessar mundir, fekk hann Guðmund verzlunarstjóra Thorgrímsen til þess að líta eftir smíði kirkjunnar og útvega nýja gripi til hennar. Leitað var samskota í sókninni til kaupa á kirkjugripum, og safnaðist á fjórða hundrað ríkisdala í því skyni. Útvegaði Guðmundur ágæta gripi til kirkjunnar frá Danmörku, svo sem glerhjálma tvo, er taldir voru 50 rd. virði, skírnarskál, kaleik og patínu, er voru endursmíðuð, hökul og altarisklæði, hvort tveggja vandað að gerð. En dýrasti gripurinn var altaristafla sú, sem enn er í Stokkseyrarkirkju og kostaði 140 rd. Hún er olíumáluð í gylltri umgerð og sýnir uppstigninguna með myndum engla og postulanna og prýðisvel máluð.
Ekki verður annað ráðið af skoðunargerð prófasts eða úttekt hinnar nýju kirkju en altaristaflan hafi verið ný. En Þórður Jónsson frá Stokkseyri hafði þá sögu að segja, að í kirkjunni hafi verið til gömul, máluð altaristafla, sem eldra fólk hefði talið gamla konungsgjöf; hefði hún verið orðin svo máð, að eigi þótti lengur nothæf. Þessa fornu altaristöflu hefði Guðmundur Thorgrímsen sent utan og látið mála hana upp, svo að hún hefði verið sem ný, er hún kom upp árið eftir. Bar Þórður Gísla Gíslason á Ásgautsstöðum fyrir sögu þessari, en Gísli var kominn undir tvítugt, þegar kirkjan var reist, og var síðar forsöngvari í mörg ár, svo heimildin er í sjálfu sér góð. En þrátt fyrir það hlýtur hér að vera um missögn að ræða, hvernig sem á henni stendur. Altaristaflan úr næstu kirkju á undan var seld á uppboði með öðrum gömlum munum, er eigi þóttu nothæfir í nýju kirkjuna, og um enn eldri altaristöflu, sem
þá hafi verið til í kirkjunni, er ekki kunnugt. Hitt er vitað, að Guðmundur Thorgrímsen sendi kaleik og patínu gömlu kirkjunnar til Danmerkur og lét smíða upp og stækka. Kannske, að þeim gripum hafi verið blandað saman við altaristöfluna og af því sé misskilningurinn sprottinn.
Yfirsmiður kirkjunnar var Sigfús Guðmundsson trésmiður á Eyrarbakka, kunnur smiður á sinni tíð, þar á meðal margra sunnlenzkra kirkna. Þegar lokið var við að reisa Stokkseyrarkirkju, kvað Sigfús vísu þessa:
Mikið er eg minni en guð,
máske það geri syndin.
Á átta dögum alsköpu
er nú kirkjugrindin.Síðast smíðaði Sigfús brúðarbekk í kirkjuna og kvað þá þessa alkunnu vísu, sem sumir telja, að orðið hafi að áhrínsorðum:
Brúðhjónin, sem byggja fyrst
bekkinn þann eg laga,
óska eg, að akneytist
alla sína daga.
Sonur Sigfúsar var síra Eggert á Vogsósum, nafnkunnur fyrir einkennilegt hátterni.[note] Sbr. Ísl. sagnaþ.iog þjóðs. X, 44–51; Saga Hraunshverfis á Eyrarbakka, 74. Um tvær síðastnefndar kirkjur sbr. einkum Vigf. Guðm., Saga Eyrarbakka II, 227-231.[/note]
Það má með tíðindum telja í sögu þessarar kirkju, að í hana var keypt fyrsta harmoníum, sem kom til Stokkseyrar 1876, fyrir samskot sóknarmanna að mestu leyti. Er nánara frá því sagt í öðru sambandi.
Kirkja sú, er nú var frá sagt, varð ekki gömul, frekar en sú, er næst var á undan. Árið 1886, sama ár sem söfnuðurinn tók við kirkjunni, var hún rifin og önnur byggð í staðinn, að mestu úr nýjum viðum. Fyrir byggingunni stóð Einar Jónsson borgari á Eyrarbakka fyrir safnaðarins hönd, en yfirsmiður var Jón Þór hallason trésmiður á Eyrarbakka, er fór til Ameríku árið eftir. Meðal þeirra, sem að smíðinni unnu með Jóni, voru tveir nemendur hans, Símon Jónsson á Selfossi og Jón Gestsson í Villingaholti, báðir ágætir hagleiksmenn, sem voru að ljúka námi. Leystu þeir báðir af hendi prófsmíð sína, er þeir unnu að kirkjunni, en hún var sú, að þeir smíðuðu hvor sína stigahurð að kirkjuloftinu. Hin nýja kirkja var 20Xl2 álnir að stærð og kórinn 6X6 álnir, loft til beggja hliða yfir framkirkjunni, 14 álnir að lengd með þremur sætaröðum, en 4 stoðir undir lofti á hvorri hlið, grindverk á loftsbrúnum. Niðri í kirkjunni voru 12 bekkir á hvora hlið auk nokkurra lausabekkja, gráða stór með flauelsklæddu knéfalli umhverfis altari, en prédikunarstóll prýddur gylltum rósum og hvítum englamyndum. Þetta er sú kirkja, sem stendur enn í dag á Stokkseyri og er nú orðin svo aldri orpin, að fæstir kunna frá öðru guðshúsi þar að segja.
Margar endurbætur og viðgerðir hafa farið fram á kirkjunni á þeim rúmum sjö áratugum, sem hún hefir staðið. Upphaflega var hún klædd timbri að utan nema þakið, austurgaflinn og turninn, en fyrir og eftir síðustu aldamót var hún öll járnklædd. Um aldamót var og farið að ræða um að hita upp kirkjuna, en var þá talið óþarft, með því að oftast væri húsfyllir við embætti. Um eða litlu fyrir 1910 var settur í hana stór ofn, en 1953 rafmagnshitun. Árið 1918 var hún raflýst og þá máluð að innan. Breyttust þá ljósastæðin allmikið nema á altarinu og á hjálmunum. Árið 1946 fór fram allmikil viðgerð á kirkjunni að utan, og var þá m. a. sett litað gler í gluggana.
Í sambandi við sjósóknina á Stokkseyri var sérstök þjóðtrú bundin við kirkjuna. Brynjúlfur frá Minna-Núpi segir svo 1861: ,,Það er gömul trú á Stokkseyrarkirkju, að hún skal alltaf standa opin, þegar skip eru á sjó, því þar farist ekkert skip á réttu sundi, þegar hún er opin, enda er sagt það hafi viljað svo til, þegar skip hafi farizt á Stokkseyrarsundi, að kirkjan hafi af ógáti verið aftur.”[note] Tillag til alþýðlegra fornfræða, Rvík 1953, bls. 92.[/note] Páll Bjarnason þekkir þennan sið með nokkrum viðauka. Hann segir, að það hafi verið gamalla manna mál, að skip mundi ekki farast á réttu sundi, ef rekatré væri í sundmerkinu og kirkjan stæði opin. Telur hann, að kirkjan muni hafa verið opnuð í síðasta sinn í þessu skyni brimdaginn mikla 16. marz 1895.[note] Óðinn X (1914), bls. 47.[/note] Sú ætlun hans er þó ekki rétt, því að vitað er með vissu, að Kristbjörg Jónsdóttir á Stokkseyri (d. 1947, 88 ára), kona Sigurðar Einarssonar kirkjuumsjónarmanns, hafði jafnan þann sið að opna kirkjuna, þegar bátar voru á sjó í misjöfnu veðri. Kristbjörg var fastheldin á fornar trúarvenjur og hafði þær í heiðri, þar á meðal hina gömlu trú á Stokkseyrarkirkju.