114-Hreppurinn og heilbrigðismál

Um langt árabil hefir Stokkseyrarhreppur varið nokkru fé til heilbrigðismála, þótt ekki nemi að jafnaði háum upphæðum, og eru ýmis útgjöld vegna þeirra mála bundin með lögum. Má þar nefna gjöld til sjúkrasamlags, læknisskoðun skólabarna, berklaskoðun, hundahreinsun o. fl. Mikinn kostnað hefir hreppurinn lengi haft af sjúkrahúsvist styrkþega, sem hafa þurft að dveljast á sjúkrahúsum annars staðar um lengri eða skemmri tíma, og er sá kostnaður talinn til framfærslumála. Ýmsar framkvæmdir, svo sem sorphreinsun, skolpræsi og vatnsveita, stuðla að auknu hreinlæti og bættum heilbrigðisháttum meðal þorpsbúa. Eru þær framkvæmdir mismunandi langt á veg komnar, og hefir nokkuð verið á þær rninnzt í kaflanum um hreppsmál. Hér skal til viðbótar minnzt á fáein atriði.

Nokkurt fé hefir hreppurinn lagt af mörkum til stofnana, er miða að aukinni heilbrigðisþjónustu innan sveitar og utan. Á árunum 1918-1921 veitti hann samtals kr. 800 til spítalabyggingar á Eyrarbakka, sem þá var mikill áhugi á að koma upp. Byggingin komst undir þak, en því miður hamlaði fjárskortur frekari framkvæmdum um sinn, og nokkrum árum síðar var húsið tekið til annarra opinberra nota, eins og alkunnugt er. Árið 1943 var til umræðu í hreppsnefndinni að stofna heimili fyrir gamalmenni í hreppnum, og leitaði nefndin fyrir sér um kaup eða leigu á húsinu Vinaminni í. því skyni. Af því varð þó ekki, en 1948 lagði hreppurinn fram kr. 10.000 til gamalmennahælis, sem Árnessýsla hugðist að byggja og reist var síðan í Hveragerði. Til læknisbústaðar á Eyrarbakka lagði Stokkseyrarhreppur kr. 40.000 á árunum 1945-1946 samkvæmt lögum um læknisbústaði, og árið 1949 samþykkti hreppsnefndin að greiða kr. 1000 á ári úr hreppssjóði í Styrktarsjóð verkamanna, sem þá var verið að stofna og hefir það markmið að styrkja þá fjárhagslega, er veikindi bera að höndum, að því leyti sem sjúkrasamlag hrekkur ekki til. Árið 1957 hækkaði hreppurinn þetta tillag sitt upp í kr. 10.000 á ári, og hefir svo verið síðan.

Leave a Reply