Því var eins farið um störf ljósmæðra og lækna fyrr á öldum, að þau voru öll unnin af ólærðu alþýðufólki, sem til þeirra valdist sökum áhuga og hæfileika, er einum var lagið framar öðrum, og fyrir nauðsynja sakir. Það var ekki fyrr en eftir að landlæknisembættið var stofnað árið 1760, sem kennsla í yfirsetufræði hófst hér á landi. Í erindisbréfi Bjarna landlæknis Pálssonar er það talið meðal margra skyldustarfa hans „að kenna einni eða fleiri dándiskonum yfirsetufræði, til þess að hinir kæru þegnar konungs á Íslandi mættu fá góðar yfirsetukonur.“ [note] Lovsaml. for lsland III, 415.[/note]Átt mun við það, að landlæknir skyldi kenna að minnsta kosti einni konu á ári. Dró slíkt vitanlega skammt og eins það, þótt hinum fáu héraðslæknum á landinu væri síðar falið að hafa einnig ljósmæðrakennslu á hendi. Um 1845 er talið, að aðeins hafi verið 25-30 „yfirheyrðar“ ljósmæður á öllu landinu. Var það sízt hvatning fyrir konur að læra ljósmóðurfræði, að þær bjuggu við einhver hin fáránlegustu launakjör, sem sögur fara af. En þau voru með þeim hætti, að veitt var ákveðin upphæð á ári, 100 ríkisdalir fram til 1873, síðan 200 krónur, til þess að launa allar ljósmæður á landinu utan Reykjavíkur. Þetta þýddi, að eftir því sem ljósmæðrunum fjölgaði, eftir því minnkuðu launin, sem hver fekk í sinn hlut. Árið 1874 var tala þessara ljósmæðra 65, og var hlutur hverrar um sig þá innan við kr. 3.10 á ári, en 1875 voru þær 71 að tölu og voru þá komnar niður í kr. 2.81 hver. Það er í rauninni mesta furða, að nokkur kona skyldi fást til að verja tíma og fé til að læra við slík kjör, og sýnir það meira en lítinn áhuga og fórnfýsi. Þessu ófremdarástandi fekkst ekki breytt, fyrr en alþingi fekk fjárforræði, en þá voru kjör ljósmæðra bætt til muna.
Á fyrsta löggjafarþinginu 1875 voru þegar sett ný lög um ljósmæðraskipan, sem mörkuðu tímamót á þessu sviði. Voru ljósmæðrum þá ákveðin föst laun, sem voru að vísu mjög lág, 40 kr. í sveitaumdæmum og 20 kr. að auki eftir 10 ár. Amtsráðum var falið að ákveða ljósmæðraumdæmi að fengnum tillögum sýslunefnda. Samkvæmt því var ákveðið, að Stokkseyrarsókn og Kaldaðarnessókn skyldu vera eitt ljósmóðurumdæmi, og nefndist það Stokkseyrarhreppsumdæmi. Með ákvörðun amtsráðs 1896 var umdæminu skipt í tvennt, og skyldi Stokkseyrarsókn hin forna og Kaldaðarnessókn hvor um sig vera sérstakt umdæmi. Árið 1902 var Eyrarbakkahreppsumdæmi stofnsett eftir skipti hins forna Stokkseyrarhrepps, og sama ár var Kaldaðarnessókn skipt milli Eyrarbakkasóknar og Stokkseyrarsóknar, sem segir á öðrum stað, og ljósmóðurþjónustu þar eftir því. En samkvæmt bréfi amtmanns 1907 var hin gamla Kaldaðarnessókn aftur gerð að sérstöku ljósmóðurumdæmi. Samkvæmt auglýsingu sýslumannsins í Árnessýslu 24. apríl 1915 eru ljósmóðurumdæmin á þessum slóðum ekki miðuð við sóknir, heldur hreppa, þannig að Stokkseyrarhreppur og Eyrarbakkahreppur eru hvor um sig sérstök umdæmi, og hefir svo verið síðan.[note] Sjá Stjórnartíðindi 1877, B, 102-103; 1896, B, 69; 1907, B, 139, og 1915, B, 89.[/note]
Óvíða hér á landi mun hafa verið kostur lærðra ljósmæðra jafnlengi og í Stokkseyrarhreppi eða allt frá því í byrjun 19. aldar, enda var þess þar mikil þörf vegna fólksfjölda. Fyrsta lærða ljósmóðirin í Stokkseyrarhreppi var Hlaðgerður Jónsdóttir frá Gamla-Hrauni, seinni kona Hannesar Guðmundssonar í Neistakoti á Eyrarbakka. Hún var fædd 1762 og lærði ljósmóðurfræði hjá Sveini lækni Pálssyni. Tók hún ljósmæðrapróf á Eyrarbakka 25. marz 1813 í viðurvist prófasts og hreppstjóra, en hafði þá fengizt við ljósmóðurstörf í mörg ár, líklega frá því fyrir aldamót, og gegndi þeim til 1834 eða lengur. Hún fluttist til Keflavíkur 1839 til sonar síns, er var búsettur þar, og þar andaðist hún 13. júní 1840, 78 ára að aldri.[note] Sbr. Saga Hraunshverfis á Eyrarbakka, 54-55, 350 og víðar.[/note]
Samtímis Hlaðgerði stundaði Sigríður Hannesdóttir frá Kaldaðarnesi, sem lengi bjó í Eystri-Móhúsum, einnig ljósmóðurstörf, en gekk síðan undir próf til þess að öðlast full réttindi. ,,Hún kom til náms til landlæknis 8. júlí 1834, og þar sem hún hafði óprófuð stundað mörg ár ljósmóðurstörf af mikilli kostgæfni, lauk hún námi á 8 dögum og var útskrifuð þann 16. júlí s. á., og var hún um leið skipuð ljósmóðir í Stokkseyrarhreppi.“ Því starfi gegndi Sigríður með sóma og skörungsskap, til þess er hún fluttist frá Móhúsum að Eyði-Sandvík árið 1844. Þar bjó hún síðan í nokkur ár, en átti síðast heima hjá Hannesi, bróður sínum, á Hvoli í Ölfusi og lézt þar 18. nóv. 1856, 77 ára gömul, jafnan talin merkiskona og mikils metin fyrir störf sín.Síðan hafa eftirtaldar konur verið skipaðar ljósmæður í Stokkseyrarhreppsumdæmi:
Ragnheiður Benediktsdóttir prests í Hraungerði Sveinssonar, kona Gísla Jónssonar bónda í Einarshöfn, stundaði ljósmóðurstörf óprófuð í allmörg ár samtímis Sigríði Hannesdóttur og einkum eftir burtför hennar. Síðan gekk hún undir próf og var skipuð ljósmóðir 20. júní 1848. Gegndi hún því starfi í 30 ár, unz hún fekk lausn 30. des. 1878. Ragnheiður var mikilhæf kona, eins og hún átti kyn til, og farnaðist vel í starfi sínu.[note] Bréfab. landlæknis 1834; Bólstaðir o. s. Irv., 227-228.[/note]
Kristín Gísladóttir frá Býjaskerjum Jónssonar, fyrri kona Gizurar Bjarnasonar söðlasmiðs á Litla-Hrauni, var skipuð ljósmóðir 15. marz 1879, og gegndi hún starfinu til dauðadags, en hún dó úr hinum mannskæðu mislingum 25. júlí 1882. Var hún vinsæl og mikils metin og mörgum harmdauði, þótt starfsævi hennar yrði ekki lengri.[note]Sbr. Br. J., Ísl. sagnaþ. I-II, Rvík 1957, 65-67.[/note]
Þórdís Símonardóttir frá Kvígsstöðum í Andakíl Sigurðssonar, kona Bergsteins Jónssonar söðlasmiðs á Eyrarbakka, var skipuð ljósmóðir 24. júlí 1883. Hún gegndi starfinu í Stokkseyrarhreppsumdæmi til 18. júní 1902, en þá var hún skipuð í hið nýstofnaða Eyrarbakkahreppsumdæmi og þjónaði síðan því ásamt Sandvíkurhreppsumdæmi, unz hún fekk lausn 30. maí 1926 eftir 43 ára ljósmóðurstörf. Þórdís var merk kona og mikilhæf, hafði margvísleg afskipti af félagsmálum og tók jafnan málstað lítilmagnans gagnvart yfirgangi og óréttlæti í mannfélaginu. Áttu margir fátækir traust, þar sem hún var.Sigríður Magnúsdóttir frá Votamýri Sigurðssonar, kona Guðna Árnasonar á Strönd, var skipuð ljósmóðir í Stokkseyrarhreppsumdæmi hinu nýja 18. júní 1902. Hún gegndi ljósmóðurstörfum, unz hún fekk lausn 30. maí 1915, er þau hjón fluttust til Reykjavíkur.
Ingibjörg Þórðardóttir frá Sumarliðabæ, kona Magnúsar Jónssonar í Deild, var skipuð ljósmóðir 1. júní 1915, en fekk lausn frá starfi 30. ágúst 1943 eftir 28 ára þjónustu. Hún var einnig meðhjálpari í Stokkseyrarkirkju í rúma tvo áratugi og lézt árið 1958.
Sigríður Eiríksdóttir frá Sandhaugum í Bárðardal, kona Sigurðar 1. Sigurðssonar í Dvergasteinum, starfaði sem ljósmóðir frá 1938 og var sett til að gegna stöðunni 1. sept. 1943, þegar Ingibjörg Þórðardóttir hætti, en skipuð ljósmóðir 1. júní, 1944. Gegndi hún ljósmóðurstörfum til dánardægurs, en hún lézt af slysförum 6. febr. 1954, hreppsbúum mjög harmdauði. Konur á Stokkseyri stofnuðu sjóð til minningar um hana, og er þess nánar getið á öðrum stað.[note] Minningarorð um Sigríði eru í Suðurlandi 27. febr. 1954 eftir Braga Ólafsson héraðslækni. – Um framantaldar ljósmæður hefir Haraldur Pétursson Safnahúsvörður góðfúslega látið mér í té ýmsar upplýsingar, einkum um starfstíma þeirra, eftir óprentuðu riti, Ljósmæðratali á Íslandi, er hann hefir samið.[/note]
Eftir fráfall Sigríðar Eiríksdóttur var Þórlaug Árnadóttir ljósmóðir á Eyrarbakka sett til þess að gegna ljósmóðurstörfum í Stokkseyrarhreppsumdæmi, þar eð engin önnur fekkst þá í stöðuna. En 1957 lauk Magnúsína Þórðardóttir á Hólmi á Stokkseyri námi í ljósmóðurfræði. Var henni þá veitt umdæmið, og hefir hún þjónað því síðan.
Áður en lærðar ljósmæður komu til sögunnar og einnig eftir það, gegndu nærfærnar konur ljósmóðurstörfum, þótt ólærðar væru. En þær höfðu lært af reynslunni, og um annað var lítt að ræða fyrr á tímum. Nöfn þeirra flestra eru löngu gleymd, en þó er kunnugt um allmargar slíkar konur frá síðastliðinni öld, og þær vil eg nefna hér.
Fyrsta yfirsetukonan í Stokkseyrarhreppi, sem eg veit um með vissu, var Sigríður Þorsteinsdóttir (1700-1779), kona Magnúsar Bjarnasonar hreppstjóra á Skúmsstöðum. Voru þau hjón bæði vel metin og Sigríður ein af þeim fyrirkonum sveitarinnar, sem fast sæti höfðu í Stokkseyrarkirkju.[note] Ísl. sagnaþ. og þjóðs. VI, 29.[/note] Tvær konur nokkru yngri ber og að nefna hér. Önnur var Helga Eyjólfsdóttir sterka á Litla-Hrauni (1736-á lífi 1810), kona Bjarna Jónssonar í Gegnishólaparti og síðar Þorvarðs Vernharðssonar í Hólum og víðar. Hin var Elín Eiríksdóttir ( 1768-184 7), kona Jakobs prófasts Árnasonar í Gaulverjabæ. Þó að Helga væri lengst af og Elín alltaf búsett í Gaulverjabæjarhreppi, þá er víst, að þær voru einnig sóttar út í Stokkseyrarhrepp, að minnsta kosti í austurhluta hreppsins. Um Elínu er það sagt, að það hafi verið venja hennar að taka ljósbörn sín heim með sér og annast þau, meðan móðirin var veik.[note] Kambránssaga I; 17. kap.[/note] Þennan góða sið höfðu margar yfirsetukonur fyrrum, þær sem aðstöðu höfðu til þess, og kom það sér harla vel, meðan fátækt var almenn og erfitt um aðhjúkrun móður og barns á heimilum.[note] Sbr. t. d. Ísl. sagnaþ, og þjóðs. IV, 31-32.[/note]
Fram yfir síðustu aldamót voru allar hinar lærðu ljósmæður í Stokkseyrarhreppi nema Sigríður Hannesdóttir búsettar á Eyrarbakka. Þó voru þar einnig ólærðar yfirsetukonur, sem tóku á móti mörgum börnum, eins og þær merku ágætiskonur Guðrún Jónsdóttir (1822-1884), kona Hannesar Sigurðssonar á Litlu-Háeyri, og Guðný Jónsdóttir (1842-1915), kona Gísla Einarssonar á Skúmsstöðum. Einnig tók Jónína Magnúsdóttir (1861-1940), kona Jóns Hannessonar á Litlu-Háeyri, á móti börnum, og svo mun hafa verið um fleiri konur.
Á Stokkseyri og þar í grennd, þar sem lengra var að vitja ljósmóðurinnar á Eyrarbakka, voru aftur á móti margar ólærðar yfirsetukonur á öldinni, sem leið, og auk þess var ljósmóðirin í Gaulverjabæjarhreppi, Ingibjörg Guðmundsdóttir á Eystri-Loftsstöðum (1825-1894), sem var lærð og naut mikils álits, oft sótt út í Stokkseyrarhrepp. Þær yfirsetukonur ólærðar, sem eg veit um með vissu þar í hreppi, eru þessar:
Guðrún Jónsdóttir (1796-1866), kona Þórðar Jónssonar á Syðra-Seli og síðar Gísla Magnússonar í Vestri-Móhúsum, hún tók á móti mörgum börnum.
Helga Gunnlaugsdóttir (1797-1876), kona Snorra Hólmsteinssonar á Grjótlæk og síðar Þórðar Bjarnasonar á Efra-Seli „var ólærð yfirsetukona, tók á móti fjölda barna og heppnaðist það svo vel, að engin kona og ekkert barn misstist hjá henni.[note] Bólstaðir o. s. frv., 58.[/note]
Ólöf Magnúsdóttir {1799- 1845), kona Jóns Sturlaugssonar á Syðsta-Kekki, tók á móti mörgum börnum, og sama er að segja um þær Hallgrímu Hallgrímsdóttur {1800-1881), konu Magnúsar Gíslasonar á Kotleysu og síðar Sveins Sveinssonar sama staðar, Ásdísi Ormsdóttur (1821-1899), konu Sveins Jónssonar í Kakkarhjáleigu, og Guðrúnu Magnúsdóttur {1828-1910), konu Þórðar hreppstjóra Pálssonar í Brattsholti.
Margrét Gísladóttir (1830-1914), kona Páls hreppstjóra Jónssonar á Syðra-Seli, ,,var ólærð yfirsetukona og tók þó á móti mörgum hundruðum barna, sem allt heppnaðist vel.“[note] Austantórur III, 134 (sögn Jóns Pálssonar).[/note]
Að lokum má nefna Ástu Einarsdóttur ( 1834-1903), konu Gísla Ólafssonar í Borgarholti, og Ólöfu Símonardóttur (1857-1932), konu Jóns Jónssonar í Eystri-Móhúsum, en systur Þórdísar ljósmóður á Eyrarbakka. Mun Ólöf hafa verið einhver síðust þar í sveit, sem annaðist ljósmóðurstörf í viðlögum.
Við bar, að karlmenn tækju að sér ljósmóðurstörf, en fremur var það fátítt, og ekki er mér kunnugt nema um einn mann í Stokkseyrarhreppi, er það gerði. Það var Aron Guðmundsson í Kakkarhjáleigu (1831-1890). ,,Hann tók sjálfur á móti öllum börnum sínum, 16 að tölu, og fórst það vel úr hendi.“[note] Bólstaðir o.s.frv, 62.[/note] Margar hinar ólærðu ljósmæður voru mjög farsælar í starfi sínu og ófáar áttu því láni að fagna, að ekkert barn misstist hjá þeim eða konur, sem þær stunduðu. En þó er ólíku saman að jafna um öryggið fyrrum og svo nú á dögum undir handarjaðri lærðra ljósmæðra og við þær aðstæður, að unnt er að ná til læknis fyrirvaralítið, er sérstakan vanda ber að höndum.