Enginn skyldi þó ætla, að menn hafi svo sem staðið uppi ráðalausir gagnvart sjúkdómum í gamla daga. Ekki vantaði það, að alþýða manna kynni ráð við flestum kvillum, og það stórum margbreytilegri en menn kunna nú. En gallinn var aðeins sá, að þessi svokölluðu læknisráð voru að öllum jafni hinar fáránlegustu kerlingabækur og hindurvitni, – þegar bezt lét ef til vill meinlaus, en miklu ofar skaðleg og jafnvel stórhættuleg heilsu manna, ef fylgt hefði verið. Hér eru til gamans fáein sýnishorn af slíkum læknisráðum: ,,Við tannpínu á að brjóta tönn úr mús og stanga með henni við tönnina; leggja við tönnina saur úr ársgömlu barni; mylja hundstennur og taka inn duftið; leggja við tönn úr dauðum manni. – Við blóðnösum eru mörg ráð, t. d. brenna blóðið á hellu til ösku og taka öskuna í nefið, eða brenna horn og taka öskuna í nefið; drekka þrjá dropa af blóðinu í vínediki; binda klút vættan í köldu vatni um háls og enni; gera kalt bað milli fóta sér; leggja kalt brýni milli herðanna; binda fast spotta um baugfingur eða litlafingur; halda á hjartarfa í hendi sér, þangað til hann volgnar; anda að sér reyk af kálfa- eða hrossataði; taka mold úr kirkjugarði í nefið; skrifa með nasablóðinu á enni þess, er blæðir, þessi orð: mais, pais, tais, og lesa faðirvor á meðan.“[note] Jónas Jónasson, Íslenzkir þjóðhættir, 329.[/note] Annars voru nokkrar allsherjar lækningar, sem duga áttu við flestum sjúkdómum, en það voru einkum blóðtökur, gefa mönnum svitameðöl, láta menn laxera, leggja á plástra. Geta má nærri um árangurinn af öllu þessu. Dánartalan var mjög há, enda stóð mannfjöldi í landinu næstum því í stað um langan aldur. Barnadauði var afskaplegur. Mörg hjón, sem áttu 12-15 börn saman, áttu ekki nema 3-4 á lífi, og það var tiltölulega fátítt, að foreldrar héldu miklu meira er helmingnum af börnum sínum. Á öldinni frá því um 1750 og fram undir 1850 dóu um 300 af hverjum 1000 börnum á fyrsta ári, og var lítið áraskipti að því, nema þegar stórsóttir gengu.[note] Jónas Jónasson, Íslenzkir þjóðhættir, 311. [/note] Þrátt fyrir allt þetta ber því eigi að neita, að í flestum sveitum landsins voru lengst af til menn, sem sköruðu fram úr öðrum í lækningum og létu heilbrigða skynsemi og reynslu ráða gerðum sínum í stað hjátrúar og hindurvitna. Ýmsir náðu í góðar lækningabækur, erlendar eða innlendar, og lærðu af þeim, eins og kostur var. Reyndust slíkir menn oft bjargvættir margra, er skortur var á lærðum læknum. Þannig fara sögur af nokkrum mönnum á seinni tímum, sem lögðu stund á lækningar í Stokkseyrarhreppi, oft með góðum árangri. Skal þeirra getið hér stuttlega.
Fyrstur þessara manna, sem nú er kunnugt um, var Jón Jónsson frá Hólum í Öxnadal, sem fluttist með konu sinni og dóttur suður í Stokkseyrarhrepp á síðasta tug 18. aldar og dó suður í Mosfellssveit veturinn 1805-1806.[note] Bréfabók Árnessýslu, 25. maí 1806.[/note] Hann var kallaður Jón læknir, ,,enda hjálpaði hann mörgum með læknisaðgerðum sínum, þótt harðla væru þær einkennilegar sumar og óvenjulegar. Meðal þeirra var sú ein, að hann hankaði menn við ýmsum kvillum, þar á meðal Brand í Roðgúl við sjónleysi hans. Hjálpaði það mjög um alllangt skeið, 8-9 ár, en er það kom eigi lengur að haldi, vildi Brandur láta Jón lækni hanka sig framan á hálsinum, en áður hafði Jón hankað hann í hnakkann eða uppi undir hársrótum þar. Aftók Jón læknir það með öllu og kvaðst enga ábyrgð á því taka, ef gert væri og mein yrði að. Þá læknaði Jón þessi einnig Gunnlaug Loftsson í Götu með því að skera í burtu vararmein hans, og varð hann fjörgamall maður. Unga stúlku eina læknaði Jón af hörundskvilla í höfði, og mjög margt annað læknaði hann ýmist með blóðtökum eða meðölum alls konar, er gerð voru úr íslenzkum grösum.“[note] Austantórur I, 23-24 (heimildarmaður Jón Gíslason í Austur-Meðalholtum).[/note]
Á fyrra hluta 19. aldar var síra Jakob Árnason í Gaulverjabæ ein helzta hjálparhella manna um lækningar á þessum slóðum. Hafði hann það fram yfir flesta aðra, sem við lækningar fengust um þær mundir, að hann var talsvert lærður í þeirri grein, hafði stundað nám hjá Jóni Sveinssyni landlækni í tvö ár og verið síðan lyfjasveinn í Nesi í önnur tvö ár. Síra Jakob var talinn góður læknir, og ósjaldan bar það við, að hann tæki sjúklinga á heimili sitt til læknismeðferðar í lengri eða skemmri tíma. Svo vart. d. um Þorstein Jörundsson í Brúnavallakoti, sem Gottsvin Gottsvínsson særði í ölæði með ljá þvert yfir úlnliðinn svo að í beini stóð. Var Þorsteinn skömmu síðar fluttur á kviktrjám að Gaulverjabæ, og tókst síra Jakobi að græða sárið.[note] Kambránssaga IV, 15. kap.[/note] Það kom sér og vel, að kona hans, frú Elín Eiríksdóttir, var yfirsetukona og sem margar slíkar lagin að hjúkra sjúkum.
Þegar Hafliði Kolbeinsson dvaldist í hegningarhúsinu ytra fyrir þátttöku í Kambsráninu, er mælt, að læknir hegningarhússins hafi veitt því athygli, hve mikla lipurð Hafliði hafði til að bera og gerði hann því að aðstoðarmanni sínum. Fór honum það vel úr hendi og fekk við það talsverða þekkingu á lækningum. Þegar Hafliði kom heim úr fangavistinni 1844, tók hann að fást við lækningar, og þótti mönnum hann koma í góðar þarfir.[note] Sama rit III, 41. kap og IV, 9. kap.[/note] Því miður naut Hafliða skammt við eftir heimkomuna, – hann drukknaði í fiskiróðri frá Eyrarbakka tæpum tveim árum síðar.
Enn má nefna þá Gísla Ólafsson í Borgarholti og Jón Adólfsson í Grímsfjósum, sem voru lagnir blóðtökumenn,[note] Bólstaðir o. s. frv., 193-194; Ísl. sagnaþ. og þjó’ðs. X, 32-33. [/note] og Bjarna Pálsson í Götu, sem fekkst nokkuð við lækningar. Náði hann sér í bækur um þau efni og kynnti sér þær af sínum alkunna dugnaði og áhuga þann skamma tíma, sem hans naut við.
Síðastur þessara læknisfróðu alþýðumanna þar um slóðir var Ísólfur Pálsson tónskáld. Hann aflaði sér góðra bóka um læknisfræðileg efni og varð fróður um þau, en var að eðlisfari eftirtektarsamur og rýninn. Heima á Stokkseyri fekk hann orð fyrir að vera heppinn læknir, en eftir að hann fluttist til Reykjavíkur 1912, fór þó enn meira orð af honum, og leituðu til hans fjölda margir um langt skeið. Hann stundaði marga sjúklinga í spönsku veikinni 1918, og lézt enginn þeirra úr henni. Mörgum árum síðar gekk vondur kíghóstafaraldur í Reykjavík, og stundaði Ísólfur þá um 900 börn að sögn Jóns, bróður hans, og það með svo góðum árangri, að jafnvel lærðir læknar vísuðu sjúklingum til hans. Kalsár og fúasár læknaði hann á ótrúlega stuttum tíma með aðferð, sem hann hafði fundið upp. ,,Það er ekki annað,“ sagði hann, ,,en að hella anica-tinctur í sárið, en anican þarf að vera rétt blönduð, því að sé hún of sterk, brennir hún, en sé hún of veik, heldur sárið áfram að fúna. Sé hún því rétt blönduð, gerir hún engan skaða. Síðan er sorfinn alabastursteinn látinn í sárið, og þá mun það gróa, fyrr en nokkurn varir.“[note] Jón Pálsson, Mannlýsingar (í hdr.).[/note] Mest notaði Ísólfur meðöl til lækninga, m. a. seyði af íslenzkum grösum, er hann blandaði sjálfur, eftir því sem þekking hans og reynsla kenndi honum.
Hér að framan hefir ekki verið minnzt á þátt kvenna í lækningum og hjúkrun, enda fara ekki sögur af neinni konu í Stokkseyrarhreppi, er lagt hafi slíkt sérstaklega fyrir sig. Víst má þó telja, að margar konur hafi lagt þar fram mikið og gott starf, og á það ekki sízt við ljósmæðurnar fyrr og síðar. Verður nú vikið að þeirra þætti.