Nú á dögum mundi mönnum þykja ömurlegt til þess að hugsa, ef hvergi væri kostur að ná til læknis eða hjúkrunar, þegar sjúkdóma eða slys ber að höndum. Við slíkt ástand urðu menn þó að búa fyrr á tímum á flestum stöðum á landinu langt fram á síðastliðna öld. En í þessu efni hafa orðið stórkostlegar breytingar til batnaðar, því að fremur má nú telja til undantekninga, ef eigi næst tiltölulega fljótt í læknishjálp, hvar á landinu sem er. Ef til vill eru framfarir síðari tíma hvergi jafnaugljósar sem á sviði heilbrigðismálanna, og sem dæmi þess skal nú rifjað hér upp í stuttu máli, hver verið hefir aðstaða Stokkseyrarhrepps til læknishjálpar síðustu tvær aldirnar eða frá því er stofnað var til opinberrar læknaþjónustu hér á landi.
Eins og kunnugt er, var Bjarni Pálsson skipaður fyrsti landlæknir á Íslandi árið 1760. Hann var þá eini lærði læknirinn á landinu og umdæmi hans allt landið. Árið 1766 var það minnkað niður í Sunnlendingafjórðung og Austfirðingafjórðung, en 1772 í Sunnlendingafjórðung einan, og stóð svo til 1799. Bjarni Pálsson og eftirmaður hans, Jón Sveinsson, er voru landlæknar á þessu tímabili, sátu báðir í Nesi við Seltjörn. Þangað lá því leiðin, ef læknis þurfti að vitja. Var það langur læknisvegur austan úr Stokkseyrarhreppi, eins og samgöngum var þá háttað, hvað þá austan úr Rangárþingi og Skaftafellssýslu. Má geta því nærri, að menn hafa trauðlega lagt í að sækja lækni þessa löngu leið nema ef til vill í brýnni lífsnauðsyn og helzt ekki nema um farsóttir eða þess háttar væri að ræða.
Eina sögu hefi eg þó heyrt af ferðum Bjarna Pálssonar í Stokkseyrarhreppi, og leysti hann þá af hendi fyrsta læknisverkið, sem sögur fara af þar í sveit. Árið 1770 var hann eitt sinn staddur á Eyrarbakka í rannsóknarferð út af illkynjaðri veiki, sem talið var, að gengi þar. Þá stóð svo á, að húsfreyjan á Rekstokki, Guðlaug Jónsdóttir, skyldi verða léttari, en kom mjög hart niður, og þótti örvænt um, að hún gæti alið barnið. Var Bjarna þá vitjað, og greiddi hann fæðinguna, en móður og barni heilsaðist vel. Lét Bjarni þess getið, að óvíst væri, hvernig færi, ef konan yrði aftur barnshafandi, því að ekki væri til þess að hugsa, að hann yrði þá til staðar, þó að svona vel hefði til tekizt í þetta skipti. Þess skal getið, að Guðlaug átti ekki fleiri börn, en barnið, sem Bjarni landlæknir bjargaði þarna til lífsins, var Jón hreppstjóri hinn ríki í Móhúsum.[note] Ísl. sagnaþ. og þjóðs. XI, 7-B.[/note] Samkvæmt konungsúrskurði árið 1799 var skipaður sérstakur læknir í austurhluta Sunnlendingafjórðungs, og náði umdæmi hans yfir Vestur-Skaftafellssýslu, Vestmannaeyjar, Rangárvallasýslu og Árnessýslu. Sú breyting var gerð á þessu víðlenda læknishéraði árið 1827, að Vestmannaeyjar voru gerðar að sérstöku héraði vegna hins þráláta ginklofafaraldurs, sem lá þar í landi um skeið. Að öðru leyti var læknishéraðið óbreytt allt til 1876. Héraðslæknarnir á þessu tímabili sátu á ýmsum stöðum, en aldrei í Árnessýslu: Sveinn Pálsson fyrstu 10 árin í Kotmúla í Fljótshlíð og síðan í 24 ár í Vík í Mýrdal, Skúli Thorarensen. alla sína læknistíð í 35 ár á Móeiðarhvoli, en þeir Þorgrímur Johnsen og Tómas Hallgrímsson samtals 7 ár í Odda. Má af þessu sjá, að það voru engin heimatök fyrir Stokkseyringa að ná til læknis á þessum tímum, stundum jafnvel ennþá torveldara en á dögum hinna fyrstu landlækna.
Með nýjum lögum um læknaskipun landsins, sem sett voru á fyrsta löggjafarþinginu 1875 og gengu í gildi í ársbyrjun 1876, var stórt framfaraspor stigið í heilbrigðismálum þjóðarinnar, með því að læknishéruðum var þá m. a. 1fjölgað úr 8 upp í 20. Þá fyrst varð Árnessýsla sérstakt læknishérað. Störfuðu þar fyrst settir héraðslæknar á annað ár. Meðal þeirra var A. P. C. Tegner, norskur skipslæknir, sem dvaldist hér á landi í nokkur ár. Hann þjónaði héraðinu fyrra helming ársins 1877 og sat á Eyrarbakka. Er hann fyrsti læknir, sem búsettur hefir verið í Árnessýslu. Sumarið 1877 var Guðmundur Guðmundsson settur héraðslæknir í Árnessýslu og skipaður árið eftir, og gegndi hann því embætti til 1895, er hann fekk lausn sökum heilsubrests. Fyrstu 4 árin sat hann á Eyrarbakka, en eftir það í Laugardælum í Flóa. Guðmundur læknir var síðan embættislaus í nokkur ár og var þá m. a. búsettur á Stokkseyri um þriggja ára skeið ( 1898-1901), eini læknirinn, sem þar hefir átt heima. Eftir það var Guðmundur lengi héraðslæknir í Stykkishólmi, en á gamals aldri fluttist hann til dóttur sinnar í Trinidad í Vestur-Indium og andaðist þar sumarið 1946, 93 ára að aldri. Frá því í júlí 1894 og þangað til í júní 1896 þjónaði Skúli læknir Árnason héraðinu, fyrst sem staðgöngumaður Guðmundar læknis og svo sem settur héraðslæknir, og sat í Hraungerði. En frá 1. júlí 1896 fekk Ásgeir læknir Blöndal héraðið, og settist hann að á Eyrarbakka. Frá sama tíma var tekið að launa sérstakan lækni fyrir uppsveitir sýslunnar, enda var þess skammt að bíða, að Árnessýslu yrði með lögum skipt í tvö læknishéruð. Íbúar Stokkseyrarhrepps stóðu nú ólíku betur að vígi um læknishjálp en áður hafði verið og einkum eftir að héraðslæknirinn hafði setzt að í hreppnum.
Og enn hélt þróunin áfram. Með lögum 24. marz 1944 var Eyrarbakkahéraði skipt í tvö læknishéruð. Heitir annað Eyrarbakkahérað sem áður og tekur yfir Stokkseyrarhrepp og Eyrarbakkahrepp með læknissetri á Eyrarbakka. Hitt nefnist Selfosshérað með læknissetri á Selfossi og náði yfir alla hina hreppana.[note]Með lögum 30. des. 1949 var Selfosshéraði enn skipt í tvö læknishéruð: Selfosshérað hið nýja og Hveragerðishérað með læknissetri í Hveragerði. [/note] Þegar skiptingin fór fram, var jafnframt ákveðið, að þáverandi héraðslæknir, Lúðvík Norðdal Davíðsson, mætti velja um, hvort hinna nýju héraða hann vildi heldur, og kaus hann Selfosshérað. Varð Bragi Ólafsson þá héraðslæknir í hinu nýja Eyrarbakkahéraði frá ársbyrjun 1945, og hefir hann gegnt því embætti síðan. Eins og lög gera ráð fyrir, er hann búsettur á Eyrarbakka, en hefir viðtalstíma á Stokkseyri 4 virka daga í viku.
Af þessu yfirliti má ljóst marka aðstöðumun Stokkseyringa til læknishjálpar og heilsugæzlu fyrr og nú. Fyrir tveimur öldum var einn læknir á öllu landinu. Nú er Stokkseyrarhreppur hinn forni sérstakt læknishérað. Fyrrum var ekki lækni að fá nær en suður á Seltjarnarnesi eða austur í Rangárvallasýslu eða jafnvel austur í Vík í Mýrdal. Nú er lengsta læknisferðin í héraðinu frá Eyrarbakka austur að Hólum í Stokkeyrarhreppi. Hér við bætist, að nú er bílfært heim að hverjum bæ og sömuleiðis sími til flýtisauka. Heilsufar skólabarna er rannsakað á hverjum vetri, ljósböð almenningi til afnota og sjúkrasamlög í báðum hreppum. Um hinar stórkostlegu framfarir í læknislistinni sjálfri og almennri heilsuvernd þarf ekki að tala.