Iðnaður í ýmsum myndum er jafngamall þjóðinni. Það er gamalt mál, að húsmóðirin þyrfti að kunna að breyta ull í fat og mjólk í mat og bóndinn að vera búhagur, ef vel átti að fara. Í þessu eru einmitt fólgnar aðalgreinar íslenzks heimilisiðnaðar frá fornu fari, tóvinna, matargerð og ýmiss konar smíði. Margar fleiri iðnir höfðu menn auðvitað með höndum, í fornöld til dæmis járnvinnslu, saltgerð og ölgerð og allt fram á síðustu tíma klæðalitun og kolabrennslu, svo að nokkuð sé nefnt. En allt var þetta unnið af einstaklingum með tiltölulega litlum kostnaði, enda raunar ekki annað en greinar af heimilisiðnaði landsmanna. Getið er þó í fornöld um sérstaka iðnaðarmenn hér á landi, sem ferðuðust milli bænda og seldu vinnu sína við hærra verði en venjulegt verkafólk. Ástæða er og til að minna á hina miklu bókagerð Íslendinga fyrr á tímum, sem krafði æfðra handiðnamanna, svo sem við verkun skinna, bókband og fleira. Margir þeirra, sem fengust við ritun skinnbóka, höfðu það starf fyrir atvinnu, og var það þeirra iðn.
Mikilvægasti heimilisiðnaður hér á landi var lengi vel tóvinnan. Öll ull var unnin í landinu sjálfu þar til á 18. öld, að byrjað var að flytja út ullina óunna. Sá útflutningur var þó í smáum stíl framan af, en náði hámarki á seinni hluta 19. aldar, og olli því hvort tveggja vaxandi sauðfjáreign landsmanna og minnkandi heimilisiðnaður. Fyrst er getið um ullarútflutning frá Eyrarbakka árið 1791, og voru það aðeins 886 kg. Réttri öld síðar 1891 voru flutt út frá Eyrarbakka 109048½ kg. ullar og auk þess 5401 ½ kg. frá Stokkseyri og Þorlákshöfn. Læt eg þessar tölur tala sínu máli.
Fyrr á öldum unnu menn ullina til margs konar heimilisþarfa, í vaðmál og annan vefnað, svo sem ábreiður hvers konar, tjöld til húsaprýði og til ferðalaga, enn fremur í reiðskap, reipi og bönd og jafnvel í færi. Af öllu þessu var vaðmálið mikilvægast. Það var eigi aðeins notað til klæða yzt sem innst, jafnt af körlum sem konum, heldur var það aðalútflutningsvara landsmanna fram á miðja 14. öld, enda notað sem almennur verðmælir. Það gekk í öll gjöld bæði út á við og manna á milli, og önnur vara var miðuð við það. Þó að fiskútflutningur hæfist í fyrirrúm upp úr miðri 14. öld og prjónlesið tæki að ryðja sér til rúms í lok 16. aldar, hélzt útflutningur vaðmáls í allstórum mæli fram um miðja 18. öld og hvarf ekki úr sögunni fyrr en undir lok síðustu aldar. Frá Eyrarbakka verður vaðmálaútflutnings þó naumast vart á 18. öld eða síðar.
Á síðara hluta 16. aldar, líklega um 1560-1570, gerðist stórmerkileg nýjung í ullariðnaðinum hér á landi. Þá lærðu Íslendingar að prjóna. Það munu þeir hafa lært af enskum eða þýzkum kaupmönnum, en prjónakunnátta var þá að ryðja sér til rúms hér í álfu og breiddist skjótt út. Á tiltölulega skömmum tíma varð íslenzkt prjónles, sokkar, vettlingar og peysur, mikil útflutningsvara ásamt vaðmálinu og notað sem gjaldmiðill ásamt því, en að sama skapi dró úr vaðmálsframleiðslunni. Í meira en tvær aldir eða frá því um 1620 til 1840 og þó lengur stóð útflutningur prjónless með miklum blóma. Hvarf hann þó fyrr úr sögunni á Suðurlandi en víða annars staðar. Síðast er prjónles flutt út frá Eyrarbakka 1830, aðeins 405 pör af vettlingum.
Margt mundi fyrri tíðar mönnum undarlegt þykja, ef þeir mættu líta upp úr gröf sinni og virða fyrir sér þjóðlíf niðja sinna í dag. En líkt mundi nútíðarmönnum fara, ef þeir væri komnir þó ekki væri nema 1-2 aldir aftur í tímann. Margt mundi vekja undrun þeirra og koma þeim ókunnuglega fyrir sjónir. Meðal annars mundi mönnum bregða kynjum við að sjá gjaldmiðilinn, vörur í stað peninga. Konan, sem þurfti að bregða sér í kaupstaðinn, dró ekki upp pyngju sína, er þangað var komið, heldur borgaði úttekt sína með vaðmáli, prjónlesi, smjöri, tólg eða öðrum búsafurðum, og bóndinn, sem þurfti að svara út skatti og öðrum þinggjöldum, fór að á sama hátt, en sýslumaður lagði aftur vörur þær, er hann tók á móti upp í gjöldin, inn í verzlunina. Sem dæmi slíkra viðskipta skal þess getið, að árið 1750 voru þinggjöldin í Stokkseyrarhreppi goldin með 306 pörum sokka, 62 pörum vettlinga, 10 pörum sjóvettlinga, 7 álnum vaðmáls og 3 lambsskinnum. Það mundi og þykja undrum sæta, hversu þjóðin gat afkastað um tóvinnuna fyrr á öldum með sínum frumstæðu verkfærum: allt band spunnið og tvinnað á snældu og allur vefnaður ofinn í gamla íslenzka vefstólnum með kljásteinunum, sem þurfti að leysa og hnýta aftur við hverja færu. Það var ekki fyrr en 1785 sem spunarokkar með tilheyrandi hesputrjám voru fluttir inn í landið og vefstólar, eins og þeir tíðkuðust á 19. öld, um sama leyti. Þessi áhöld voru stórkostleg framför í ullariðnaðinum. Hér fengu smiðir og hagleiksmenn nýtt verkefni, rokkasmíði og vefstóla, er þessi ágætu verkfæri breiddust út um landið.
Nú heyrast ekki framar reglubundin slög vefstólsins á íslenzkum sveitabæjum, rokkarnir eru þagnaðir og jafnvel prjónarnir eru hættir að tifa. Verkaskipting er komin á í þjóðfélaginu. Stórar verksmiðjur vinna dúka og klæði úr ullinni, þar sem ein vél afkastar verki þúsund handa og skilar þó jafnbetri vinnu. En samt megum vér ekki gleyma afrekum fyrri kynslóða, einkum kvennanna, sem sátu við það drungalega vetrardaga og langar kvöldvökur að breyta ull í fat, það er að klæða þjóðina og afla henni gjaldmiðils. Það mikla nytsemdarverk var unnið iðnum höndum, því að ekki voru vélarnar til þess að létta starfið. Saumavélar fóru ekki að flytjast hingað til lands fyrr en nokkru eflir miðja 19. öld, enda voru þær þá tiltölulega ný uppfinning, og prjónavélar komu enn síðar, hinar fyrstu um 1875, og urðu aldrei almennings eign, er svo mætti kalla. Annað merkilegt hlutverk íslenzkra kvenna á liðnum öldum var sú tegund matargerðar, sem kallað var að breyta mjólk í mat, þ. e. smjörgerð, ostagerð og skyrgerð. Þetta verk var eins og tóvinnan unnið á hverju heimili allt fram yfir síðustu aldamót. Þegar rjómabúin komu til sögunnar í byrjun aldarinnar, færðist þetta hlutverk yfir á þau að miklu leyti, en nú á dögum er það í höndum stórra mjólkurbúa með margháttuðum vélakosti. Um mjólkuriðnað í venjulegum skilningi var fyrst að ræða í Stokkseyrarhreppi eftir að Baugsstaðarjómabú tók til starfa árið 1905, og er um það ritað hér að framan. Nú er öll mjólk úr hreppnum, sem er ekki notuð til heimilisþarfa, flutt í Mjólkurbú Flóamanna að Selfossi og ýmist seld þaðan til neytenda eða unnin þar.
Smíðar hafa verið stundaðar af ýmsu tagi í öllum sveitum landsins frá því er land byggðist, enda hafa Íslendingar lengst um verið sjálfum sér nógir í því efni. Margt góðra smiða hefir verið í Stokkseyrarhreppi fyrr og síðar, og hefi eg áður ritað um skipasmiði, sem kunnugt er um í hreppnum. Margir þeirra munu einnig hafa fengizt við aðra smíði, enda oft jafnvígir á tré og járn, eins og t. d. Brandur í Roðgúl, Þorkell Jónsson á Gamla-Hrauni og fleiri. Getið skal hér um nokkra smiði, sem mér er kunnugt um, auk þeirra, sem nefndir eru í þættinum um skipasmiði; eru þeir flestir frá síðustu tímum.
Af fyrri mönnum skal hér fyrst nefndur Jón Jónsson á Gamla-Hrauni (1716 – um 1783), er síðar var kallaður Jón í Folaldinu. Hann er nefndur smiður í manntalsbók 1755 og í ættartölubókum Steingríms biskups. Seinni tíma sagnir benda til þess, að Jón hafi verið þjóðhagi, einkum á járn og málmsmíði, og jafnvel smíðað peninga svo haglega, að erfitt var að greina þá frá réttri myntsláttu.[note]Saga Hraunshverfis á Eyrarbakka, 54-55, 347-348. [/note] Annar kunnur smiður á sinni tíð var Jón Pálsson á Gamla-Hrauni, sonur Páls Björnssonar bónda þar. Jón var skipaður til þess árið 1790 að gera upp lögréttuhúsið við Öxará, en tveim árum síðar fekk hann vegabréf til Kaupmannahafnar og hefir sennilega ílenzt ytra.[note]Sama rit, 55-56. [/note] Nokkru yngri voru þeir Brynjólfur Andrésson í Roðgúl (1775-1838) og Ormur Helgason á Skúmsstöðum ( 1783-1865). Þeir voru báðir járnsmiðir. Voru þeir fengnir til að bera járnteina Jóns Geirmundssonar saman við teininn, sem fannst í Kambi og þá alla saman við steðja Jóns eftir Kambsrán. [note]Sagan af Þuríði formanni o. s. frv. Ill, 12. kap. [/note]
Þess má geta, að Brynjólfur eignaðist smíðatól Brands í Roðgúl eftir hann látinn. Eiríkur Þórðarson í Eystri-Móhúsum (1805-1873) var og dugandi járnsmiður.[note]Bólstaðir, 229.[/note] Þá má og nefna þá bræður Símon Þorkelsson á Gamla-Hrauni (1800-1881), sem fekkst einkum við trésmíði, og Jón Þorkelsson halta (1817-1889), sem lagði fyrir sig alls konar járnsmíði. Smíðaði hann hnífa, ljái, reizlur, hestajárn, skipasaum, skrár, lykla, lamir og margt fleira, sem til bús þurfti á þeim tímum, og var á því öllu prýðisvinna.[note]Saga Hraunshverfis á Eyrarbakka, 175, 179. [/note] Fyrir og eftir aldamótin áttu og heima á Gamla-Hrauni tveir duglegir og eftirsóttir trésmiðir, þeir Páll Jónsson og Guðmundur Jensson. Fóru þeir víða að smíðum.
Frá því fyrir síðustu aldamót hafa margir ágætir smiðir, margir lærðir í iðn sinni, átt heima á Stokkseyri. Skulu þeir aðeins nefndir hér.
Járnsmiðir: Guðmundur Jónsson á Baugsstöðum, Jón Þorsteinsson í Garðbæ, Gunnar Gunnarsson á Vegamótum, Björgvin Kr. Grímsson á Strönd, sem fekkst einnig við vélsmíði, Páll Jónsson í Aðalsteini, Gísli Gíslason í Brattsholtshjáleigu, Kristmann Gíslason í Móakoti og Guðni Guðnason í Kjartanshúsi. Um Hallgrím Jóhannesson á Kalastöðum er áður getið í sambandi við skipasmíðar, en hann var einnig járnsmiður, vart. d. talinn bezti skautasmiður á sinni tíð.
Steinsmiðir: Sæmundur Steindórsson í Götuhúsum, sem fekkst einnig við járnsmíði, og Kristján Hreinsson múrari í Símonarhúsum.
Rafvirkjar: Þorkell Guðjónsson stöðvarstjóri í Pálmarshúsi og Þórarinn Guðmundsson í Sandprýði.
Rokkasmiðir: Jón Gíslason í Austur-Meðalholtum, sem áður er nefndur meðal skipasmiða og fekkst einnig við járn- og koparsmíði, Gísli Stefánsson í Hólsbæ og Guðbrandur Þorsteinsson í Stíghúsi.
Beykjar: Þorsteinn Teitsson á Sæbóli og Olgeir Jónsson í Grímsfjósum. Silfursmiður: Þórður Pálsson í Brattsholti.
Þess má og geta, að á seinni árum Ísólfs Pálssonar á Stokkseyri tók hann að sér að gera við orgel-harmonium, breyta hljóðunum í þeim, stilla píanó og því um líkt. Hafði hann mikið að gera við þess háttar störf, eftir að hann fluttist til Reykjavíkur.[note]Sbr. Suðurland 6. okt. 1910. [/note]
Nokkrir ljósmyndarar hafa starfað á Stokkseyri. Fyrsti ljósmyndarinn þar var frú Margrét Árnason. Þá var þar og um skeið fyrir aldamót Ingimundur Eyjólfsson og eru m. a. eftir hann flestar skipshafnamyndir frá þeim tíma. Síðar nokkru fekkst Kjartan Guðmundsson frá Hörgsholti við ljósmyndaiðn á Stokkseyri og víðar.
Fáein iðnfyrirtæki hafa starfað á Stokkseyri eða eru starfandi þar nú, öll í smáum stíl að vísu og miðuð við getu og þarfir byggðarlagsins. Skal nánar skýrt frá þeim hér á eftir, en fyrst ætla eg til gamans að segja frá fyrirtæki, sem ráðgert var að koma á fót í Stokkseyrarhreppi fyrir rúmri öld, þótt það kæmist aldrei lengra en á undirbúningsstigið.
Árið 1852 gerðu þeir Jón Hjaltalín, síðar landlæknir, og Guðmundur Thorgrímsen verzlunarstjóri á Eyrarbakka félag með sér í því skyni að koma upp þangbrennslu á Íslandi. Hugðust þeir reisa verksmiðju í Stokkseyrarhreppi til þess að vinna ýmsar efnivörur úr þangi, þara og öðrum sjávarjurtum. Til þess að tryggja sér hráefni gerðu þeir skriflegan samning við eigendur allra sjávarjarða frá og með Stóru-Háeyri til Baugsstaða. Þar segir svo: ,,Við undirskrifaðir eigendur af þessum jörðum: Stóru-Háeyri með hjáleigum, Stóra-Hrauni með öllum hjáleigum, Stokkseyri með öllum hjáleigum, Traðarholtstorfunni, Skipum, Litla-Hrauni, Baugsstöðum og Gamla-Hrauni með hjáleigum lofum hérmeð og tilsegjum hr. Dr. medicinæ J. Hjaltalín og herra factor Thorgrímsen á Eyrarbakka, að við viljum ekki leyfa ábúendum vorum á ofannefndum jörðum með hjáleigum að selja nokkrum öðrum iðnaðarmönnum (fabrikanter) eða verzlunarmönnum (kiöbmænd) nokkuð af þeim þang-, þara- eða sölvategundum (fucusarter), sem vaxa á fjörum ofannefndra jarða vorra, og eigi heldur sjálfir að selja þær öðrum en þeim ofannefndum Dr. Hjaltalín og factor Thorgrímsen.
Sömuleiðis lofum vér og skuldbindum oss til ekki að selja eða afhenda neinum manni ofannefndar jarðir vorar nema með þeim skilmála, að ofangreint loforð og skuldbinding vor sé fullbindandi fyrir hina nýju eigendur að þessum ofannefndu jörðum.
Aftur borgum við, Dr. Hjaltalín og factor Thorgrímsen, að svo miklu leyti er vér getum keypt og notað, hvern hest með tíu fjórðunga böggum af vel þurrkuðum og á þann hátt, er vér óskum, meðhöndluðum þara og þangi með tveimur ríkisbankamörkum eður 32 skildingum og hverja vætt af sölvum á líkan hátt vel þurrkuðum með einum ríkisbankadali þrjátíu og tveimur skildingum (1 rd. 32 sk.). Kostnaður sá, sem leiðir af lestri og bókun þessa samnings á þingi, hvílir á okkur Thorgrímsen og Hjaltalín. Eyrarbakka, 13. maí 1852.“ Síðan koma undirskriftir þeirra Thorgrímsens og Hjaltalíns og 17 jarðeigenda á umræddu svæði.[note]Veðmálabók Árnessýslu.[/note] Tveimur árum síðar, hinn 18. maí 1854, var auglýst einkaleyfi Guðmundar Thorgrímsens til 10 ára til þess að brenna þang á Íslandi.
Þrátt fyrir þennan og annan undirbúning þeirra félaga til þessa nýstárlega og merkilega iðnrekstar komst ráðagerð þeirra aldrei í framkvæmd, sem varla var við að búast á þeim tíma. Vafalaust var staður fyrir þangbrennsluna heppilega valinn með tilliti til hráefnisins, sem naumast mun til vera í jafnríkum mæli annars staðar hér á landi. Skortur á fjármagni og ef til vill tæknigetu þeirra tíma hefir meðal annars orðið þessum fyrirætlunum að fótakefli.
Eftir þennan útúrdúr víkur nú sögunni að iðnfyrirtækjum þeim, sem starfað hafa á Stokkseyri eða eru nú starfandi þar. Hér verður þó ekki rætt um Hraðfrystihús Stokkseyrar og fiskiðnað á vegum þess eða lifrarbræðslu Böðvars Tómassonar, þar sem á það hvort tveggja hefir verið minnzt í kaflanum um sjávarútveginn hér að framan.
Þó að kornmylnan á Baugsstöðum væri ekki stórt fyrirtæki, vil eg ekki láta hennar ógetið hér. Nokkrum árum eftir að rjómabúið var stofnað á Baugsstöðum, reisti Guðmundur Jónsson bóndi þar ásamt sonum sínum mylnu við hliðina á rjómabúinu. Var það laglegt hús með einni kvörn, fyrst járnkvörn sem gafst illa, en síðan steinkvörn. Kvörnin malaði eina tunnu á dag, og kostaði það 2 krónur. Margir þeirra, sem skiptu við búið, komu með korn sitt, um leið og þeir fluttu rjómann, fengu það malað og tóku það síðan eftir ástæðum. Var mönnum hagræði að þessu, því að aukaferðir kostaði það ekki, og mjölið þótti betri og drýgri matur þannig malað en hið útlenda mjöl. Vatnsafl var notað til að snúa kvörninni.[note]Sbr. Suðurland, 23. júní 1910.[/note]
Pípu- og steinagerð Stokkseyrar h.f. var stofnuð til þess að framleiða vikurstein, einangrunarplötur, pípur til holræsa og fleira, sem slík verksmiðja getur framleitt. Löngu fyrr hafði komið til umræðu að stofna slíka verksmiðju á Stokkseyri, þótt ekki yrði úr framkvæmdum. Á hreppsfundi 11. febr. 1922 var t. d. allmikið rætt um að koma upp holsteinagerð á vegum hreppsins til þess að auka atvinnu í þorpinu, og var þar samþykkt tillaga frá Sigurði Heiðdal þess efnis að skora á hreppsnefndina að komast að sem beztum samningum við landeigendur um land til holsteypugerðar, ef slíkt fyrirtæki kæmist þar á. En málið komst ekki lengra að því sinni. Á aðalfundi Búnaðarfélags Stokkseyrarhrepps 14. febr. 1943 vakti Árni Tómasson hreppstjóri málið upp að nýju og ræddi um, hverjar færur væru á því að kaupa tæki til holsteinagerðar. Var mikill áhugi á máli þessu á fundinum og þriggja manna nefnd kosin til undirbúnings og forgöngu, þeir Sigurður Grímsson, Björgvin Sigurðsson og Helgi Sigurðsson. Söfnuðu þeir fé til vélakaupa, og lögðu 30 menn fram 100 krónur hver. Var síðan keypt vél og steypumót, en enn vantaði herzlumuninn, og framkvæmdir strönduðu við svo búið. Þegar Pípu- og steinagerð Stokkseyrar komst svo á fót, keypti það félag meðal annars þessi verkfæri.
Pípu- og steinagerðin var stofnuð 29. ágúst 1948, og var aðalforgöngumaður-að stofnun hennar Ólafur Jóhannesson kaupmaður í Reykjavík. Hafði hann keypt vélar í því skyni að koma slíkri verksmiðju á fót sjálfur, svo sem hrærivél og pípumót, en með því að hann vissi um áhuga ýmissa Stokkseyringa á þess háttar fyrirtæki, bauð hann þeim að ganga í félag við sig um framkvæmdir. Var síðan myndað hlutafélag nokkurra manna á Stokkseyri og í Reykjavík, en Stokkseyrarhreppur, sem vildi gjarnan styðja að þessum atvinnurekstri, keypti hlutabréf fyrir 5000 krónur. Tók verksmiðjan til starfa sama ár.
Verksmiðjan byrjaði framleiðslu sína í skúr við húsið Brávelli, eign Ólafs Jóhannessonar, og starfaði þar í 5 ár. En 1953 var reist nýtt og rúmgott verksmiðjuhús fram við sjógarðinn vestur hjá Grímsfjósum, og hefir starfsemin verið þar síðan. Einnig voru þá keyptar nýjar og betri vélar og steypumót. Aðalhráefnið í steinana er Hekluvikur, sóttur austur í Fljótshlíð, og enn fremur vikur frá Eyrarbakka og Ragnheiðarstöðum. Í pípurnar er notað venjulegt steypuefni, sandur, möl og sement, og er sandurinn tekinn í Baugsstaðakampi. f verksmiðjunni er stöðug atvinna árið um kring utan vertíðar fyrir 4–5 menn, síðan starfsemin fluttist í nýja húsið. Framleiðslan hefir fengið gott orð á sig og eftirspurn jafnan verið mikil.
Formaður félagsstjórnarinnar er Haraldur B. Bjarnason múrarameistari í Reykjavík, en framkvæmdastjóri Óskar Sveinbjörnsson í Korkiðjunni í Reykjavík. Verkstjóri er Haraldur Júlíusson í Sjólyst.
Bifreiðaver lestæði kaupfélagsins á Stokkseyri tók til starfa 12. febrúar 1953 og er rekið sem útbú frá aðalverkstæði Kaupfélags Árnesinga á Selfossi. Eru þar framkvæmdar allar venjulegar bílaviðgerðir og einnig viðgerðir á landbúnaðarvélum. Þar vinna að öllum jafni 3 menn. Hefir Jón Jónsson frá Loftsstoðum, nú í Söndu á Stokkseyri, veitt verkstæðinu forstöðu frá upphafi.
Trésmíðaverkstæði setti Sigurður Sigurðsson í Sunnutúni á stofn í Götuhúsum í nóvember 1956, en hann hafði áður unnið í mörg ár í smíðaverkstæði Kaupfélags Árnesinga á Selfossi. Sigurður hefir tekið að sér hvers konar smíði vegna húsabygginga, svo sem hurðir, glugga, skápa í eldhús, uppslátt móta og fleira. Með honum vinnur á verkstæðinu Jón, bróðir hans.
Iðnaðarmannafélag hefir aldrei til verið á Stokkseyri, enda naumast grundvöllur fyrir slíkt félag sökum fámennis lærðra iðnaðarmanna á hverjum tíma. Á almennum hreppsfundi 11. febrúar 1922 var samþykkt einum rómi tillaga um að stofna Iðnfélag Stokkseyrar og þrír menn kosnir til þess að vinna að undirbúningi þess. Það félag virðist þó ekki hafa verið hugsað sem samtök iðnlærðra manna eingöngu, heldur til þess að koma á laggirnar ýmiss konar smáiðnaði, er þorpsbúar gætu haft nokkra hagsbót af, einkum á þeim tímum árs, er minnst var um atvinnu. Úr þessari félagsstofnun varð ekki neitt, þegar á átti að herða.