096-Verzlun Magnúsar Gunnarssonar

Í júnímánuði 1913 opnaði Magnús Gunnarsson, áður bóndi í Brú, nýja verzlun á Stokkseyri. Þótti sumum það djarft í ráðizt af bónda, en honum farnaðist vel. Búðin var í húsi, sem Magnús keypti af Jóni Adólfssyni og innréttaði fyrir verzlun, en húsið Ísólfsskála keypti hann til íbúðar. Bjó Magnús þar til 1917, en þá reisti hann húsið Skálavík og bjó þar til dauðadags. Einnig keypti Magnús gamla Adólfshúsið af kaupfélaginu Ingólfi og hafði fyrir vörugeymslu. Magnús verzlaði með alls konar vörur, matvörur, vefnaðarvörur, búsáhöld og byggingarvörur. Fram til 1926 fekk hann árlega vöruskip og timburskip við og við, og gat verzlunin tekið á móti allt að 200 smálestum af vörum í einu. Magnús hafði mikla sveitaverzlun um skeið, keypti ull og kjöt og sláturfé á haustin, er hann lét slátra og seldi heima fyrir á veturna. Meðal viðskiptamanna hans voru sérstaklega Þykkbæingar, og Grímsnesingar skiptu við hann alveg að manntali í nokkur ár. Komu þeir haust og vor. Þegar bílflutningarnir komu til sögunnar, smáminnkaði sveitaverzlunin, unz hún þvarr með öllu. Dró þá auðvitað mjög úr verzlun Magnúsar Gunnarssonar, en þó var hún eina verzlunin á Stokkseyri, sem lifði þær breytingar af. Magnús andaðist 22. ágúst 1929, á 74. aldursári.[note]Bólstaðir o. s. frv., bls. 207.[/note] Hann var greindur maður og vinsæll og traustur og áreiðanlegur í öllum viðskiptum.

Eftir lát Magnúsar tók sonur hans, Jón Magnússon kaupmaður, að fullu við verzlun föður síns og rak hana áfram undir sama nafni, en áður hafði hann starfað lengi við verzlunina og verið önnur hönd föður síns um rekstur hennar. Voru nú breyttir tímar og viðskipti eingöngu við heimamenn og því minna umleikis en fyrr hafði verið. Rak Jón þó jafnan verzlun sína með forsjálni og fyrirhyggju sem faðir hans. Árið 1940 byggði Jón nýja búð við austurendann á gamla vörugeymsluhúsinu (Adólfshúsi) og hafði þar verzlun sína eftir það, og 1944 keypti hann húsið Sæhvol af Páli Guðjónssyni og fluttist þangað. Árið 1955 seldi Jón verzlun sína og húseignir á Stokkseyri hlutafélaginu „Alla“, sem síðar verður getið, og fluttist til Reykjavíkur, þar sem hann rak verzlun um skeið. Jón Magnússon var fæddur í Brú 9. sept. 1891, og voru foreldrar hans Magnús Gunnarsson bóndi þar, síðar kaupmaður, og kona hans Ástríður Eiríksdóttir. Hann gerðist verzlunarmaður hjá föður sínum og síðar kaupmaður sem áður segir. Auk verzlunarinnar rak hann í þrjá áratugi mikla vélbátaútgerð á Stokkseyri. Gerði hann sér far um að vanda sem bezt til útgerðarinnar og lagði oft í mikinn kostnað við það. Veitti Jón mörgum atvinnu á þeim árum. Jón gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir sveitunga sína, var í hreppsnefnd og skólanefnd og safnaðarfulltrúi síðustu árin; hafði hann öll þessi störf á hendi, unz hann fór suður. Kona hans er Halldóra Sigurðardóttir frá Vegamótum á Seltjarnarnesi Guðmundssonar. Áttu þau sex börn, og eru fjögur þeirra á lífi.

Leave a Reply