You are currently viewing 093-Verzlun jóns Jónssonar
Hús Jóns Jónssonar. Myndin tekin 19. júní.

093-Verzlun jóns Jónssonar

Þegar Edinborgarverzlun hætti starfsemi sinni á Stokkseyri árið 1903, stofnaði Jón Jónasson, sem verið hafði verzlunarstjóri bæði hjá Jóni Þórðarsyni og Edinborg, verzlun fyrir eigin reikning. Keypti hann hús Guðmundar læknis, innréttaði það fyrir verzlun og hafði einnig fyrir íbúðarhús. Fjögur fyrstu árin eða til 1907 var Sigurður Einarsson frá Eyvík í félagi með Jóni, en eftir það var Jón einn um verzlunina og rak hana til 1924, en þá hætti hann, og verzlunin lagðist niður. Jón hélt ýmsum af viðskiptavinum Edinborgarverzlunar og hafði mikla sveitaverzlun fram eftir árum, m. a. við Holtamenn. Vörur fekk hann sjóleiðis úr Reykjavík eða hann gerði út lestaferðir þangað suður yfir fjall að sækja vörur. Eftir að bílflutningar komu til sögunnar, dró úr verzlun Jóns sem annarra þar um slóðir, með því að sveitamenn tóku þá að skipta beint við Reykjavík. Verzlun Jóns líkaði vel, og var hann hjálpsamur og greiðvikinn við viðskiptamenn sína. Jón var hreppstjóri í Stokkseyrarhreppi í 33 ár og verzlunarstjóri og kaupmaður í samtals 28 ár. Árið 1929 brann hús Jóns á Stokkseyri, og varð hann þar fyrir tilfinnanlegu tjóni. Hann fluttist til Reykjavíkur árið eftir og lézt þar 11. nóv. 1945, 84 ára gamall.[note]Bólstaðir o. s. frv., bls. 152-153.[/note]

Við verzlun Jóns Jónassonar var lengi starfsmaður Ingvar Jónsson, sonur Jóns Grímssonar hafnsögumanns á Stokkseyri. Ingvar var greindur maður, athugull, reglusamur og húsbóndahollur. Hvíldi mjög á hans herðum allur rekstur verzlunarinnar. Eftir að Kaupfélag Árnesinga var stofnað á Selfossi, réðst Ingvar til þess sem gjaldkeri og gegndi því starfi til dauðadags.

Leave a Reply