019-Frá ægi til öræfa

Þegar félag hefir starfað í tug ára, er oft staldrað við og litið yfir farinn veg. Því er ástæða að láta hugann reika aftur og fram í tímann, við þau merku tímamót, þegar U.M.F.S. heldur upp á 50 ára afmæli sitt. Þau eru mörg málefnin og verkefnin sem U.M.F.S. hefir fengist við í hálfa öld, og ósk mín er að félagið eigi eftir að starfa í Sigursælli baráttu til hagsbóta æskunni og Stokkseyri um ókomin ár. Þegar skrifað er um starfsemi félagsins, er af svo miklu að taka, að of langt mál yrði að gera því nokkur skil í stuttri grein. Ég mun því aðeins drepa á eina starfsgrein félagsins, sem ég hefi kynnzt nokkuð á síðustu árum, og ég tel einna helzta af því sem félagið hefur unnið að. Hér á ég við landkynningarstarfssemi félagsins, skemmtiferðirnar. Ég er ekki svo kunnur sögu félagsins, að ég geti skýrt frá hvenær það fór að beita sér fyrir því, að unga fólkið að ferðast um og kynnast landi og þjóð. Ég hefi orðið var við að einna skemmtilegustu endurminningarnar eldri félaga, eru þegar þeir minnast á skemmtiferðir, sem þeir hafa farið á vegum félagsins. Þær myndir, sem teknar hafa verið á ferðalögunum, eru vandlega geymdar og aðeins dregnar upp úr skrínum þegar rifja skal upp löngu liðna atburði á fögrum stað og minningarnar um góðan félaga.

Forráðamönnum félagsins hafa þótt ferðalögin einna markverðasta starfsemin, því þótt starf félagsins hafi verið í öldudal sum árin, hefur félagið farið í sína árlegu skemmtiferð á sumrin. Þær ferðir, sem ég hefi verið í, hafa heppnast vel, verið það ódýrar, að allir hafa getað farið sem annríki ekki hamlaði, og fjölmennar, svo foreldrar hafa skilið hversu holl og góð áhrif það hefur á unglingana að kynnast fósturjörðinni. Mér finnst ekki úr vegi að geta þess hér, hvað ungmennafélagið hefur afrekað undanfarið að kynna okkur landið, sem er furðu mikið, þar sem orðið hefur að ljúka flestum ferðum á hálfum öðrum degi. Ef ungmennafélagið efndi ekki til ferðalaga, væru þeir miklu færri Stokkseyringarnir, sem hefðu séð Vík í Mýrdal, Hjörleifshöfða, farið yfir Mýrdalssand þar sem jöklar gnæfa við himin í norðri, og ógnvaldur héraðsins og ferðamanna, Kötlugjá, er tilbúin þegar minnst varir að bræða jökulinn og steypa yfir leið ferðamannsins hafsjó af vatni. Eldhraunið hefur komið okkur í skilning um, hversu hamfarir náttúrunnar geta verið ægilegar og eyðileggingin mikil, er við sjáum til samanhurðar, gróður Síðunnar. – Í fjarska sáum við hið sérkennilega fjall, Lómagnúp, og austast hæsta fjall landsins, Öræfajökul. Leið okkar hefur legið um öræfi og afrétti, í Landmannalaugar og inn í Hveravelli. Í Landmannalaugum gistum við í sæluhúsi, sem er á grasvaxinni flöt undir hraunjaðri, en jökulár belja hinum megin. Þar sagði Hallgrímur Jónsson fararstjóri, öllum magnaða draugasögu, áður en sofnað var. Þar reyndum við þau undur, sem áttavillan er; þegar vaknaði fyrir sól, fannst okkur hún vera í norðri og jöklar í vestri. Á leiðinni til Hveravalla, skoðuðum við Hagavatn, Hvítárvatn, þar sem Langjökull brotnar í vatnið, og Kerlingarfjöllin, sem talin eru fegurstu fjöll landsins, og einna mesta hverasvæðið sem á landinu er. Um nóttina var gist í sæluhúsi ferðafélagsins, en ekki varð öllum svefnsamt, því svipum liðinna alda hafa þótt ómaksins vert að kynnast okkur, sem þeystum um öræfin á nokkrum klukkutímum, sem áður voru nokkrar dagleiðir.

Á Hveravöllum var efst í huga okkar, að hér hafði Fjalla-Ey.vindur átt bú, og liðið bezt í sinni löngu útlegð. Stór og góð voru fjallagrösin sem við tíndum þar. Í sólskini höfum við ekið fagran Borgarfjörð, um Mýrar og Kerlingaskarð til Stykkishólms. Eftir Skógarströndinni höfum við mjakast áfram og virt fyrir okkur óteljandi Breiðafjarðareyjar, og á heimleið farið um Dalasýsluna.

Í sumar efndi ungmennafélagíð til lengstu ferðarinnar, til Akureyrar og í Vaglaskóg. Farið var að Grund í Eyjafirði og kirkjan skoðuð, og ekið heim að Hólum. Nóttina sem gista átti á Sauðárkróki, freistaði miðnætursólin margra okkar, sem virtist þá fljóta á sjónum, svo við leigðum okkur bát, og siglt var út fjörðinn, út í Drangey. Þótt ólga og súgur væri við eyna, komumst við á land, hér voru sægarpar á ferð, og klifum upp brattar skriður og stiga, unz allar torfærur voru sigraðar og við stóðum á Drangey. Gott vígi hefur Drangey verið hjá Gretti, og nóg er björgin þar til matar. Illa leizt okkur á veiðiaðferðina sem notuð er við að veiða fuglinn, sem hímdi snaraður á flekanum, veltandi í öldunum. Það glumdu líka við fagnaðaróp, þegar einn og einn gat losað sig úr snörunni og flogið frjáls í björg Drangeyjar á ný.

Ég hefi stiklað á stóru að lýsa því hvað ungmennafélagið hefur ferðast seinni ár, svo þið getið gert ykkur grein fyrir hvað æskan hefur orðið víðsýnni og fróðari fyrir þessa starfsgrein félagsins. Unglingarnir hafa einnig lært að með því að hjálpa hvert öðru, leysast verkefnin bezt og fljótlegast. Stúlkan hjálpar piltinum að reisa tjaldíð, hann nær í vatnið í pottinn og snýzt í kringum hana meðan hún annast matreiðsluna. Er hér ekki byrjunin á samstarfi þeirra, sem þeim líkar svo vel að það endist þeim það sem eftir er ævinnar. Við minnumst fararstjóranna á þessum ferðalögum, sem verið hafa dugmiklir að ráða fram úr þeim vandamálum, sem leysa þurfti í ferðunum, Óskar Magnússon um Skaptafellssýslu, Jóni Guðmundssonar, þegar spurt var um fjöll og staði á Snæfellsnesinu og Skógarströnd. Á Kili hafði Baldur Teitsson verið við vörzlu, svo ekki var þar komið að tómum kofanum, þegar við þurftum upplýsinga með. Guðmann Geirsson var leiðsögumaður á leiðinni til Akureyrar. Hann þekkti allt á þeirri leið, ár, fjöll og dali. Það sem mesta undrun vakti hjá okkur, var að Guðmann þekkti hvern bæ á allri leiðinni frá Stokkseyri til Akureyrar. Ég varð var við að kortin voru athuguð, hvort Guðmann myndi rétt, en það varð aðeins til að staðfesta hans upplýsingar, svo því var stungið niður og hafnaði hjá óþarfa varningi sem flækst hafði með í ferðina.

Ég læt hér staðar numið að minnast hugstæðra atvika úr skemmtiferðum U.M.F.S. síðustu árin, þar sem þátttakendur hafa verið samhentir um að ferðirnar gengju eftir áætlun, og yrðu öllum til ánægju og félaginu til sóma. Mér virðist aldrei ríkja meiri áhugi fyrir ferðalögum en nú, þar sem stungið hefur verið upp á því að flugvélin verði fararskjóti okkar næsta sumar, svo við getum séð Austurlandið. Eg efa ekki að þeir sem eiga eftir að stjórna U.M.F.S. á næstu árum munu verða við óskum félaganna og framfylgja stefnu ungmennafélagsins, að kynnast landi og þjóð og ekki verði staðar numið fyrr en ungmennafélagar hafa ferðast um og skoðað Ísland allt.

Bjarnþór Bjarnason

Leave a Reply