016-Hollt félagslíf

Fyrstu tvö ár mín í félaginu, átti félagið við óhagstætt húsnæði að búa, þar sem ekki var í annað hús að venda með félagsstarfið en barnaskólahúsið, sem var ófullnægjandi fyrir félagsstarfið. En þrátt fyrir á ég þaðan beztu minningar um góða félagsfundi og dansskemmtanir. Þau ár var stórt áform í félaginu, það var ákveðið að byggia stórt og vandað samkomuhús fyrir byggðarlagið, og þá jafnframt fyrir félagsstarfið, og áhugi og samstilling félaganna svo með eindæmum að manni hlýnar alltaf þegar hugsað er um það. Þá minnist ég kvöldsins er hinn ágæti foringi, Þórður Jónsson, kallaði liðið saman og stakk fyrstu skóflu til að grafa fyrir grunni hússins. Sandinum var ekið á hestvögnum í uppfyllingu í Þingdalinn. Vagnarnir voru dregnir af sveinum og meyjum, svo mörgum sem að komust, og var helsta óánægjan að félagar fengu ekki að starfa eins mirkið og hugurinn stóð til. Húsið skyldi upp, og það undir eins, enda voru hendur látnar standa fram úr ermum, því húsið var tilbúið og vígt til notkunar 12. nóvember 1921, eða hálfu ári eftir að byrjað var að grafa fyrir grunni þess. Þættu snör handtök í dag með þeirri tækni, sem nú er.

Er húsið var komið upp stóð ekki á starfsfúsum félögum til að styðja að húsinu svo það gæti borið sig, ýmist með því að gerast skemmtikraftar, eða með því að sækja þær skemmtanir er þar voru haldnar, húsinu til styrktar. Á þessum árum var leiklíf með blóma á Stokkseyri, leikin þar mörg stór og smá leikrit oft með ágætum. Þar komu margir nýgræðin þar fram, sem sumir urðu snilldar leikarar.

Þá verða manni minnisstæðir félagsfundirnir, er venjulega byrjuðu með söng með undirleik á fiðlu. Síðar kappræður um eitthvert mál er fyrir var tekið og urðu oft fjörugar umræður, þá voru líka oft lesnar upp góðar greinar og kvæði úr skrifuðu blaði félagsins, Þór. Íþróttir voru töluvert stundaðar í félaginu, sérstaklega íslenaka glíman og oft kom fyrir að félagið ætti skjaldarhafann í glímu á Þjórsármótinu.

Ég tel að unglingar hafi haft mjög gott af að gerast ungmennafélagar. Þar hafi þeir fengið veganesti, sem vel hafi enzt þeim í lífinu. Ég fyrir mitt leiti er mjög þakklátur fyrir þann lærdóm, er ég hef fengið þau ár, er ég var í, og starfaði í Ungmennafélagi Stokkseyrar.

Með beztu félagskveðju til eldri og yngri félagssystkina.

Jónas Jónsson

Leave a Reply