014-Kvöld í Flóanum

Syngur á fleti sólgyðjustef í logni.
Seiðmjúka hafaldan smáfætur ungmeyja kyssir.
Úti í fjöru er einstöku bjalla í hrogni,
en ástfanginn rauðmagi búið í þaranum missir.

Angan af grösum ómælisdjúpa leggur
utan af skerjum, vítt yfir lón og sanda.
Í skoru og viki skrautlega búinn steggur
skínandi vængjum blakar til feiminna anda.

Lóur í heiði lagvini sína gleðja.
Lyngormur hvílist, samofinn grænu blaði.
– Frá sofandi býli er síðbúinn gestur að kveðja.
Í sunnlenzkri kyrrð fylgir dóttirin honum úr hlaði.

Úr vermandi augum vorenglar síkátir brosa.
Valllendið kitlar með puntstrái húmbláa fjólu.
Við kyrrlátan rima, kældan í döggvotum mosa,
kyssast tvö börn undir draumhimni hniginnar sólu.

Fiskur í djúpi, fugl, er sefur á steini,
faslipur smámey, piltungur glaður og hraustur,
finna til hulinna kennda, og fagna í leyni
faðmheitu vorkvöldi í júní á Stokkseyri austur.

Hinrik Bjarnason

Leave a Reply