Árið 1917, réðst Þorgeir sem vinnumaður til Skúla Thorarensen, sem þá bjó í Gaulverjabæ. Á þeim tíma, svo sem jafnan síðar, var stórbúskapur í Gaulverjabæ. Þorgeir hafði sjálfur sagt mér eitt og annað því til sanninda þó að þess verði ekki getið hér. En í Gaulverjabæ kynntist hann Elínu Kolbeinsdóttur sem þá var heimasæta á Vestri-Loftstöðum. Þau gengu í hjónaband 14. maí 1918, og hófu búskap það ár í Keldnakoti í Stokkseyrarhreppi. Jörðin er ekki landstór og ungu hjónin ekki auðug af öðru en bjartsýni og trú á samstarf sitt og hamingju. Efnahagsleg afkoma bóndans og heimilis hans byggðist þá, eins og nú og ætíð, á því að afla vetrarfóðurs fyrir búfénaðinn, en þetta ár var ekki sérlega hagstætt í þeim efnum og var raunar grasleysi algjört eftir hinn harða vetur og það svo, að þrátt fyrir mikla elju og harðfylgi reyndist erfitt um öflun heyfengs. í Keldnakoti bjuggu þau í þrjú ár, en fluttu þaðan að Hæringsstöðum í sömu sveit hvar Þorgeir hafði síðan búforráð í 59 ár. Enginn hefir annar búið lengur samfleytt á Hæringsstöðum. Aðeins er vitað um einn er hafði þar búforráð jafnlengi.