009-Á morgni aldarinnar

Upp úr aldamótunum síðustu barst ungmennafélagshreyfingin hingað til lands frá Noregi. Þegar minnst er á þessa hreyfingu koma mér fyrst í hug 2 menn, þeir Helgi Valtýsson og Guðmundur Hjaltason. Guðmundur ferðaðist um landið og hélt fyrirlestra um þennan félagsskap með eldlegum áhuga og bjartsýni á framtíðina. Unga fólkið hlustaði á Guðmund með miklum áhuga. Þessi hreyfing bjó um sig í hugum unga fólksins og festi rætur þannig, að félög voru stofnuð víðsvegar um landið.

Það er tímans tákn fyrir ungmennafélögin, að bjarminn kom úr austri á morgni aldarinnar. Það birti í lofti, og hugsjónin fæddist, hugsjónin sem átti eftir að verða að veruleika, þegar fram liðu stundir og þjóðinni öx ásmegin fjárhagslega við batnandi skilyrði.

Það hefir verið og verður aldrei með tölum talið, hversu mikið andlegt gróðurmagn hefur flutzt inn í landið með ungmennafélagshreyfingunni. Áhrifin frá þessum félagssamtökum hafa alltaf verið að verka og eru að verka enn þann dag í dag.

Þegar saga ungmennafélaganna verður skráð, þá verða þetta merkileg tímamót í sögu íslenzku þjóðarinnar vegna þess, að unga kynslóðin, sem átti að erfa landið, varð þarna fyrir hollum og víðtækum áhrifum. Sjóndeildarhringurinn útvíkkaði og unga fólkið sá ýmis konar sýnir í hillingum, sem það hafði ekki séð áður.

Ég mun, hafa komið til Stokkseyrar haustið 1910 norðan úr Eyjafirði. Frétti þá, að á staðnum væri starfandi ungmannafélag, sem ég gekk fljótlega í.

Ég get ekki minnst á ungmennafélag Stokkseyrar án þess að nefna 2 menn í því sambandi, þó ég viti hinsvegar að þeirra verði getið af öðrum, en ég hefi þá sérstöðu að ég kom þarna sem gestur úr öðrum landsfjórðungi, og hafði lítilsháttar kynnzt tveimur ungmennafél. áður, í Hafnarfirði og fyrir norðan.

Páll Bjarnason skólastjóri var formaður félagsins, þegar ég kom til Stokkseyrar. Páll var ágætur leiðtogi, góður drengur og bráðvel gefinn eins og hann átti kyn til. Ég gjöri ráð fyrir, að hann hafi lagt hornsteininn að félagsstarfseminni, en hans naut ekki lengi við hér vegna þess, að hann fluttist í annað byggðarlag og tók þar við störfum, sem hann hafði menntun til. Við brottför Páls tók við formannsstöðunni Þórður Jónsson verzlunarmaður.

Það kom brátt í ljós að félagsmenn höfðu verið glöggskyggnir á valið í formannsstöðuna, því að Þórður reyndist hinn ágætasti ungmennaleiðtogi frjálslyndur og hugmyndaríkur, hafði sérlega gott lag á að hafa fundina fjölbreytta og skemmtilega. Það var venjan í fundarlokin, að viðhafa eitthvað til skemmtunar s.s. söng, þjóðdansa o.fl. Íþróttalífið var stundað af kappi, sérstaklega glíman, enda gátu Stokkseyringar sér góðs orðstírs á íþróttamótum, hlutu verðlaun bæði fyrir kappglímu og fegurðarglímu. Um skemmtanalífið er það að segja, að skemmtanir voru haldnar innan félagsins, jafnvel vikulega þegar minnst var að starfa að vetrinum. Sumu af eldra fólkinu þótti nóg um allar þessar samkomur og töldu að við eyddum peningum í þennan mikla gleðskap, en það var alger misskilningur, því að við höfðum lag á því að skemmta okkur án þess að eyða í það peningum, enda engir peningar að eyða. Þegar haldnar voru söluskemmtanir sem kallaðar voru, þá mun inngangseyrir hafa verið 25 til 30 aurar.

Þá vil ég minnast á bindindisheitið, sem var ofarlega á stefnuskrá félagsins. Það heit var vel haldið án þess að það væri um neinn strangleika að ræða. Þessi ár sem ég var í tengslum við félagið kom það aldrei fyrir að ölvaður maður kæmi inn á skemmtanir hjá ungmennafélaginu, enda hefði það þótt mjög óviðeigandi í þá daga.

Þess skal að síðustu getið, að þegar ég kom í Ungmennafélag Stokkseyrar þá var mér tekið með þeim ágætum að ég bý að því enn þann dag í dag, því eins og gefur að skilja, er það ómetanlegt fyrir ungling, sem kemur úr fjarlægu héraði og öllum ókunnugur að fá slíka viðtöku. En því miður slitnaði ég úr tengslum við félagið þegar ég flutti burt úr héraðinu um nokkurra ára bil. Þegar fram liðu stundir var öðrum störfum að gegna, skyldustörfin, sem urðu að sitja í fyrirrúmi. En þess er ég fullviss, að hefði ég haft ástæður til að starfa í félaginu áfram, þá hefði ég orðið maður að meiri.

Þorgeir Bjarnason

Leave a Reply