005-Tileinkað UMFS 50 ára

Morgun á veraldar vegi vaknar

og tendrar sitt bál,

logar frá lýsandi degi

ljóma í æskunnar sál.

 

Iðandi af orku og móði

Íslandi syngur hún ljóð,

geymir í brennandi blóði

betri og fegurri þjóð.

 

Rís hennar djörfung og dugur,

draumþunga veltir hún sterk

samstilltar hendur og hugur

hefja sín máttugu verk.

 

Leiðir, sem lokuðust áður

leggur hún greiðar svo vítt,

óplægður akur er sáður,

alstaðar fegrað og prýtt.

 

Hugur, sem leitar að ljósi

lyftist og vængina knýr.

Streymir frá æskunnar ósi

andvari sterkur en hlýr.

 

Dögun í lýðfrjálsu landi

lífsgleði æskunni fær

meðan hinn íslenzki andi

ennþá í hjörtunum grær.

Ragnar Ágústsson

Leave a Reply