You are currently viewing 010-Landnám
Uppdráttur Páls Sigurðssonar læknis af landnámi Hásteins austanverðu.

010-Landnám

Í Íslendingabók Ara prests hins fróða Þorgilssonar, sem rituð er á árunum 1122-1133, er varðveitt hin elzta frásögn af byggingu Íslands, og er hún á þessa leið: ,,Ísland byggðist fyrst úr Norvegi á dögum Haralds ins hárfagra Hálfdanarsonar ins svarta í þann tíð, – – er Ívar Ragnarssonur loðbrókar lét drepa Eaðmund in helga Englakonung, en það var 870 vetra eftir burð Krists, að því er ritið er í sögu hans. Ingólfur hét maður norrænn, er sannlega er sagt, að færi fyrst þaðan til Íslands, þá er Haraldur inn hárfagri var 16 vetra gamall, en í annað sinn fám vetrum síðar. Hann byggði suður í Reykjarvík.“ Í Sturlubók Landnámu segir fullum fetum, að sumar það, er þeir Ingólfur og Leifur, fóstbróðir hans, fóru að byggja Ísland, hafi verið liðin frá holdgan drottins vors 874 ár.[note]Íslendinga sögur i, 2, 20. [/note] Ýmsar athugasemdir hafa verið gerðar við tímatalsákvörðun þessa, en naumast verður henni hnekkt til muna með gildum rökum.

Hér er sérstök ástæða til þess að minna á frásögn Ara fróða um Ingólf Arnarson, því að saga þeirra Ingólfs og Leifs, fóstbróður hans, er með eftirminnilegum hætti ofin saman við sögu fyrsta landnámsmannsins í Stokkseyrarhreppi hinum forna, Hásteins Atlasonar, og bræðra hans. Gerðust þeir atburðir, meðan þeir voru ungir menn heima í átthögum sínum í Noregi. Sagan af þeim viðskiptum er í sinni elztu gerð í Sturlubók Landnámu, og greinir hún svo frá málsefnum: „Þeir Ingólfur og Leifur fóstbræður fóru í hernað með sonum Atla jarls ins mjóva af Gaulum, þeim Hásteini og Hersteini og Hólmsteini. Með þeim fóru öll skipti vel. Og er þeir komu heim, mæltu þeir til samfara með sér annað sumar. En um veturinn gerðu þeir fóstbræður veizlu sonum jarlsins. Að þeirri veizlu strengdi Hólmsteinn heit, að hann skyldi eiga Helgu Arnardóttur (systur Ingólfs), eða enga konu ella. Um þessa heitstrenging fannst mönnum fátt, en Leifur roðnaði á að sjá, og varð fátt um með þeim Hólmsteini, er þeir skildu þar að boðinu.

Um vorið eftir bjuggust þeir fóstbræður að fara í hernað og ætluðu til móts við sonu Atla jarls. Þeir fundust við Hísargafl, og lögðu þeir Hólmsteinn 1 bræður þegar til orrustu við þá Leif. En er þeir höfðu barizt um hríð, kom að’ þeim Ölmóður inn gamli, sonur Hörða-Kára, frændi Leifs, og veitti þeim Ingólfi. Í þeirri orrustu féll Hólmsteinn, en Hersteinn flýði. Þá fóru þeir Leifur í hernað. En um veturinn eftir fór Hersteinn að þeim Leifi og vildi drepa þá. En þeir fengu njósn af för hans og gerðu mót þeim. Varð þá enn orrusta mikil, og féll þar Hersteinn. Eftir það dreif að þeim fóstbræðrum vinir þeirra úr Firðafylki. Voru þá menn sendir á fund Atla jarls og Hásteins að bjóða sættir, og sættust þeir að því, að þeir Leifur guldu eignir sínar þeim feðgum.“[note] Íslendinga sögur I, 28. [/note] Þessar deilur um konu urðu næsta örlagaríkar. Þær kostuðu líf tveggja hinna tignu jarlssona og eignir og staðfestu fóstbræðranna. Þeir Ingólfur sneru nú huga sínum til Íslands, sem þá var nýfundið’ af norrænum mönnum, og fóru þangað byggðum.

Það átti einnig fyrir Hásteini Atlasyni að liggja að fara til Íslands fyrir ófriði í Noregi, þótt af öðrum rótum væri runninn. Haraldur gullskeggur hét konungur í Sogni, er kvæntur var systur Atla jarls hins mjóva. Dóttir þeirra var Þóra, er átti Hálfdan svarti Upplendingakonungur, og var þeirra sonur Haraldur ungi. Honum gaf Haraldur konungur gullskeggur nafn sitt og ríki. Haraldur konungur andaðist fyrstur þeirra, þá Þóra, en Haraldur ungi síðast, og bar þá ríkið’ undir Hálfdan svarta, en hann setti yfir það Atla jarl hinn mjóva. Síðan fekk Hálfdan konungur Ragnhildar, dóttur Sigurðar hjartar, og var þeirra sonur Haraldur hinn hárfagri.[note]Íslendinga sögur I, 218-219. [/note]

Þegar Haraldur hinn hárfagri var að brjóta undir sig Noreg og hann mægðist við Hákon jarl Grjótgarðsson, fekk hann Hákoni jarli í hendur yfirstjórn Sygnafylkis. Hins vegar vildi Atli jarl ekki sleppa fylkisstjórninni, fyrr en hann fyndi Harald konung sjálfan að máli. Jarlarnir þreyttu þetta með kappi og drógu báðir her saman. Þeir fundust í Stafanesvogi á Fjölum og börðust. Þeir féll Hákon jarl, en Atli varð sár til ólífis. Hann var fluttur í Atley og dó þar úr sárum. Eftir þetta hélt Hásteinn Atlason ríki föður síns, þar til er Haraldur konungur dró her að honum. Stökk Hásteinn þá undan og brá til Íslandsferðar. Hann var þá löngu kvæntur maður. Kona hans er nefnd Þóra Ölvisdóttir, og voru synir þeirra Ölvir og Atli.

Eina dóttur átti Atli jarl hinn mjóvi, þá er um er getið. Það var Solveig hin fagra, sem segir frá í Egils sögu í sambandi við Ölvi skáld hnúfu. ,,Það var á einu hausti, að fjölmennt var á Gaulum að haustblóti. Þá sá Ölvir hnúfa Solveigu og gerði sér um títt. Síðan bað hann hennar, en jarlinum þótti manna munur og vildi eigi gifta hana. Síðan orti Ölvir mörg mansöngskvæði um hana. Svo mikið gerði Ölvir sér um Solveigu, að hann lét af herförum.“ Nokkru síðar veittu Atlasynir heimför að Ölvi og ætluðu að drepa hann, – vafalaust fyrir kveðskapinn, en Ölvir komst með hlaupi undan og fór á fund Haralds konungs og gerðist hirðskáld hans.[note] Sama rit II, 3, 6-7. [/note] Ekki herma sögur, hver fekk Solveigar hinnar fögru, en enginn er líklegri til en Hallsteinn á Framnesi. Hann er nefndur mágur Hásteins og kom af sömu slóðum í Noregi hingað til lands. Svo vandabundnir eru þeir mágar, að Hásteinn gefur honum sem svarar öllum Eyrarbakkahreppi af landnámi sínu. Eg vil því hafa það fyrir satt, að Solveig hin fagra hafi aukið kyn sitt í Stokkseyrarhreppi hinum forna og þess hafi mátt sjá merki með niðjum hennar í kvenlegg allt fram á mína daga.

Víkingaskip

Tímatal í sögu Noregs er allmjög á reiki á þessum tímum, og er því ekki unnt að segja um það með öruggri vissu, hvenær þeir atburðir gerðust, sem nú var frá sagt. Skal eg láta nægja að vísa til ummæla Guðbrands Vigfússonar um það efni, en hann kemst m. a. svo að orði: ,,Setjum vér nú svo, að hið næsta sumar eftir aðförina við Ölvi hafi þeir allir farið í víking fóstbræður, þá verður fall Hersteins 870, en fall Hólmsteins 871, og mun þetta láta nærri.[note]Landnáma atelur Hólmstein falla fyrr, en Guðbrandur fer eftir Flóamannasögu.[/note] En um Atla jarl og Hástein er það að segja, að jarlinn féll löngu síðar, um 900. Fór Hásteinn þá til Íslands, og hefir hann þá verið um fimmtugt. Þeir bræður allir munu vera fæddir um 850, en þeir Hersteinn og Hólmsteinn hafa fallið mjög ungir.“[note]Safn I, 205. [/note]

Þá er Hásteinn Atlason kom til Íslands, skaut hann setstokkum sínum fyrir borð í hafi að fornum sið, og komu þeir á Stálfjöru fyrir Stokkseyri, en Hásteinn kom í Hásteinssund fyrir austan Stokkseyri og braut þar skip sitt. Setstokkar voru stokkar framan á setum og svöruðu til rúmstokka á rúmum, því að setin voru meðfram veggjum í skála, og var setið þar á daginn, en sofið um nætur. Setstokkarnir voru í miklum metum og munu hafa verið útskornir, stundum með guðamyndum. Fyrir því hafa menn lagt sérstaka helgi á þá, líkt og öndvegissúlurnar. Eru dæmi þess, að menn börðust um setstokka.[note]Íslendinga sögur I, 78, 327, 363; III, 55.[/note] Hásteinn varpar setstokkunum fyrir borð í því skyni að láta guðina með þeim hætti vísa sér til landa á sama veg sem Ingólfur Arnarson og fleiri landnámsmenn gerðu.[note] Sama rit I, 30, 73-74, 192 og víðar. [/note] Af stokkum Hásteins fekk Stokkseyri nafn sitt. Stálfjara er framundan Vestra-Íragerði, og er nafnið kunnugt enn í dag. Hins vegar er örnefnið Hásteinssund löngu gleymt. Hyggja menn, að það sé brimsund það, sem nú heitir Stjörnusteinasund austan við Langarif, spölkorn fyrir vestan Skipa.[note]Bólstaðir, 127.[/note]Frá landnámi Hásteins segir svo í tveimur elztu gerðum Landnámabókar.[note] Landnámabók, Khöfn 1900, 115, 224. [/note]

STURLUBÓK:

Hásteinn nam land milli Rauðár og Ölvisár upp til Fyllarlækjar og Breiðamýri alla upp að Holtum og bjó á Stjörnusteinum og svo Ölvir, son hans, eftir hann; þar heita nú Ölvisstaðir. Ölvir hafði landnám allt fyrir utan Grímsá, Stokkseyri og Ásgautsstaði, en Atli átti allt milli Grímsár og Rauðár; hann bjó í Traðarholti. Ölvir andaðist barnlaus. Atli tók eftir hann lönd og lausafé. Hans leysingi var Brattur í Brattsholti og Leiðólfur á Leiðólfsstöðum. Atli var faðir Þórðar dofna, föður Þorgils örrabeinsstjúps.

HAUKS BÓK:

Hann nam land millim Rauðár og Ölfusár upp til Fúlalækjar og Breiðamýri alla upp að Holtum. Hann bjó á Stokkseyri og Atli, son hans, eftir hann, áður hann færði sig í Traðarholt. Ölvir hét annar son Hásteins. Hann bjó að Stjörnusteinum; hann andaðist barnlaus, en Atli tók eftir hann arf allan. Leysingi Ölvis var Brattur, er bjó í Brattsholti, og Leiðólfur á Leiðólfsstöðum. Atli var faðir Þórðar dofna, föður Þorgils örrabeinsstjúps. [Hér á eftir kemur ættartala frá Þorgilsi til Hauks lögmanns Erlendssonar, d. 1334].

Frásögnum þessum ber allvel saman um flest, sem máli skiptir, svo sem um landnám Hásteins og takmörk þess. Um sumt ber á milli, svo sem um bústað Hásteins. Loks hefir önnur heimildin atriði fram yfir hina, t. d. um skiptingu landsins milli Atla og Ölvis. Skal nú farið um þessi atriði nokkrum orðum.

1) Landnám Hásteins er tilgreint eins í báðum heimildunum, og eru takmörk þess fullskýr á þrjá vegu. Að austan eru mörkin um Rauðá, sem nú heitir Baugsstaðasíki, en þar fyrir austan tók við landnám Lofts hins gamla í Gaulverjabæ. Á þessi, sem raunar mætti frekar lækur kallast, kemur upp í Merkurhrauni á Skeiðum og fellur á mörkum hreppa og jarða niður miðjan Flóa og til sjávar skammt fyrir austan Baugsstaði. Bar hún til forna ýmis nöfn, hét Hraunslækur ofan til, þá Hróarslækur og loks Rauðá næst sjó. Enn í dag heitir hún ýmsum og þó öðrum nöfnum en til forna, mun nú oftast kennd við bæi þá, er á leið hennar verða. Að sunnan ræður haf mörkum, en að vestan Ölfusá.Þess má þó geta, að aðalútfall Ölfusár var þá nokkru vestar en nú, þ. e. fyrir utan svonefnda Miðöldu. Um takmörk landnámsins upp á við segir, að Hásteinn hafi numið upp til Fyllarlækjar (eða Fúlalækjar, sem mun miður rétt) og Breiðamýri alla upp að Holtum. Hér eru mörkin óglögg, enda er landslagi svo háttað, að fátt er um kennileiti ‘og örnefnin auk þess týnd eða óviss. Fyllarlækur þekkist nú ekki, en ef að líkum lætur, hefir hann runnið út í Ölfusá fyrir neðan Flóagaflshverfi nálægt eða í mörkum milli Sandvíkurhrepps og núveranda Eyrarbakkahrepps. Ekki er heldur fullljóst, hvað átt er við með orðunum „upp að Holtum“. En þegar þess er gætt, að Ásarnir í Villingaholtshreppi eru nefndir í Landnámu Holt eða Holtalönd, virðist naumast önnur skýring koma til greina en átt sé við þau. Fremsti bær á Ásunum vestanverðum er Súluholt, og við það mun einkum miðað. Það kemur því í ljós, þá er að er gáð, að landnám Hásteins svarar nokkurn veginn nákvæmlega til Stokkseyrarhrepps hins forna. Ein undantekning er þó frá því, en það er jörðin Hólar. Allmikið af landareign hennar og þar með bærinn sjálfur er fyrir austan Baugsstaðasíki og því í landnámi Lofts hins gamla. Ætti bærinn því fremur að teljast til Gaulverjabæjarhrepps, en hefir frá ómunatíð fylgt Stokkseyrarhreppi. Vera má, að á þessu finnist eðlileg skýring, og verður seinna vikið að því.

2) Heimildunum ber ekki saman um bústað Hásteins. Sturlubók telur, að hann hafi búið á Stjörnusteinum og Ölvir, sonur hans, eftir hann og heiti þar síðan Ölvisstaðir. Flóamannasaga kallar það Ölvístóftir, og sýnir það, að jörðin hefir verið komin í eyði, er sagan var rituð ( um 1300 eða litlu fyrr). Engar leifar sjást nú þessa bæjar, en örnefni benda til, að hann hafi staðið á sjávarbakkanum vestur frá Skipum upp af Langarifi.[note]Bólstaðir, 114-115.[/note] Hauksbók og yngri Landnámugerðir segja hins vegar, að Hásteinn hafi búið á Stokkseyri og Atli, sonur hans, eftir hann, áður en hann færði sig í Traðarholt, eins og tekið er til orða. Úr þessum ágreiningi er erfitt að skera, en vitnisburður Hauksbókar er þungur á metunum, þar sem vitað er, að Haukur lögmaður hafði auk Sturlubókar fyrir sér aðra eldri Landnámugerð, Styrmisbók, sem rituð var eftir frumgerð Landnámu á fyrstu áratugum 13. aldar. Eru og mestar líkur til þess, að Stokkseyri sé landnámsbærinn. Hún varð mjög snemma höfuðstaður landnámsins, eins og sjá má af því, að hreppurinn er við hana kenndur; þar varð og þingstaður hans og kirkjustaður.

3) Sturlubók ein greinir frá skiptingu landnámsins milli sona Hásteins. Ölvir hafði landnám allt fyrir utan Grímsá, Stokkseyri og Ásgautsstaði, en Atli allt milli Grímsár og Rauðár. Hér hefir Grímsá valdið nokkrum erfiðleikum hjá seinni tíma mönnum, því að hún er löngu þornuð upp og horfin. Um hana og fornan farveg hennar er ritað hér að framan, og hefir hún verið fullglögg landamerki á sinni tíð. Kemur frásögn Sturlubókar vel heim við staðhætti, eins og þeir hafa þá verið.[note]Auk greinar Páls Sigurðssonar, sem fyrr var vitnað til, sjá enn fremur Kålund I, 173-181; Einar Arnórsson, Árnesþing á landnáms- og söguöld, 42-55; Haraldur Matthíasson, Landnám milli Þjórsár og Hvítarár í Skírni 1950, 120-124. [/note]

Landnám Hásteins svaraði að víðáttu því sem næst til Stokkseyrarhrepps hins forna, eins og áður er tekið fram. En eigi nytjaði hann eða synir hans allt það land sjálfir. Í Landnámu segir svo: ,,Hallsteinn hét maður, er fór úr Sogni til Íslands, mágur Hásteins. Honum gaf hann ytra hlut Eyrarbakka; hann bjó á Framnesi. Hans sonur var Þorsteinn, faðir Arngríms, er veginn var að fauskagrefti; hans sonur var Þorbjörn á Framnesi.“[note]Íslendinga sögur I, 220.[/note] Kona Hallsteins mun hafa verið Solveig hin fagra, systir Hásteins, og skýrir það þessa stórmannlegu landgjöf. Hér sem ella í fornum ritum merkir Eyrarbakki ströndina alla milli Þjórsár og Ölfusár, svo sem áður er nánar rakið. Ytri hlutur Eyrarbakka er sá hluti, sem liggur vestan landamerkja Stokkseyrar, eða m. ö. o. núverandi Eyrarbakkahreppur. Fyrsta landnámsjörðin þar var því Framnes, er seinna var flutt hærra frá sjó og nefndist þá Hraun. Stóð bærinn fram á 17. öld þar, sem nú er Gamla-Hraun. Úr landi Framness byggðust síðan aðrar jarðir á þessu svæði: Háeyri, Skúmsstaðir, Einarshöfn, Drepstokkur og Nes. Munu þær allar hafa byggzt snemma á tímum, og tvær þeirra, Einarshöfn og Drepstokkur eru nefndar í fornum ritum.[note]Saga Hraunshverfis á Eyrarbakka, 9.[/note] Land það, sem Hásteinn átti sjálfur, synir hans og venzlalið, náði samkvæmt þessu einungis yfir núveranda Stokkseyrarhrepp. Það hefir og byggzt skjótt, því að Landnámabók getur þar um 8 jarðir á landnáms- og söguöld, en þær voru Stokkseyri, Stjörnusteinar, Traðarholt, Baugsstaðir, Brattsholt, Leiðólfsstaðir, Ásgautsstaðir og Hæringsstaðir. Sagt er, að Baugsstaðir séu kenndir við Baug, fóstbróður Ketils hængs, er hafi haft þar vetursetu, er hann kom til Íslands, og var það alllöngu fyrr en Hásteinn kæmi til landsins. En engar líkur eru til þess, að byggð hafi verið á Baugsstöðum, er Hásteinn nam land, þar eð þeir eru taldir með í landnámi hans. Verður annars ekki farið nánara út í sögu einstakra jarða á þessum slóðum hér, þar eð eg hefi ritað allrækilega um þær annars staðar.[note]Bólstaðir og búendur í Stokkseyrarhreppi, Rvík 1952.[/note]

Hásteinn Atlason var meðal ættgöfgustu landnámsmanna á Íslandi, og enginn var honum betur ættaður í Árnesþingi. Í Landnámabók er hann talinn meðal göfgustu landnámsmanna í Sunnlendingafjórðungi. Var því að honum mikill höfuðburður í héraði. Eigi fara þó neinar sögur af honum, eftir að hann settist að hér á landi, og eigi heldur af fyrstu húsfreyjunni í Stokkseyrarhreppi, Þóru Ölvisdóttur. Eins og áður er að vikið, hefir Hásteinn verið orðinn roskinn maður, er hann fór til Íslands. Talið er, að hann hafi andazt um 915 eða hálfum öðrum áratug áður en allsherjarríki var stofnað hér á landi. Hann var heygður að fornum sið í Hásteinshaugi niður frá Traðarholti.

Leave a Reply