009-Landið og fólkið

Af því, sem nú hefir verið sagt, vona eg, að ljóst megi verða, að samskipti fólks og lands og um leið saga byggðarlagsins sé að ýmsu leyti ofin öðrum þráðum í Stokkseyrarhreppi hinum forna en í nágrannasveitunum, þótt margt sé líka sameiginlegt með þeim. Í Stokkseyrarhreppi voru frá alda öðli samanslungnir tveir aðalatvinnuvegir þjóðarinnar, landbúnaður og fiskiveiðar. Þar var bóndinn sjómaður og sjómaðurinn bóndi. Landbúnaðurinn var rekinn þar með svipuðum hætti sem annars staðar, en hins vegar voru fiskveiðarnar stundaðar við svo erfiðar aðstæður, að fáum var hent við að etja nema heimamönnum, og raunar engum nema þeim að hafa þar á hendi stjórn og forsjá. Slík sjósókn heimtaði oft dýrar fórnir, en hún ól upp þrekmikla menn, djarfa og gætna í senn. Flestir dugandi menn urðu formenn einhvern tíma ævinnar, aðrir skipasmiðir, sumir saumuðu skinnklæði af list, hver hafði til síns ágætis nokkuð. Þessir sérstöku búskaparhættir, er beindust nokkurn veginn jafnt að gagni lands og sjávar, gerðu það að verkum, að lífsskilyrði voru betri og fjölbreyttari í Stokkseyrarhreppi en almennt gerðist annars staðar, meðan þjóðin bjó að fornum sið. Það var betra að bjarga sér þar, úrkostirnir fleiri. Ef búsultur ætlaði að verða, var björgin sótt út á miðin. Stundum þurfti jafnvel ekki að fara lengra en fram í fjöruna. Þar var mörg matarholan bæði frammi í Rauðmagalóni, úti á Selaflúð, niðri í Sölvalág og ef til vill í einhverju rekaviki. Ekki er þó svo að skilja, að menn hafi hér þurft minna fyrir lífinu að hafa en aðrir eða það hafi verið tekið með sitjandi sældinni. Vissulega urðu menn að bera sig eftir björginni, og þrátt fyrir marga fangstaði lá fátæktin í landi hér sem annars staðar. En engar sögur fara af því, að í Stokkseyrarhreppi hafi nokkurn tíma orðið mannfellir af hallærum og ekki heldur í nálægum sveitum. Auk atvinnuháttanna má nefna annað, sem gaf Stokkseyrarhreppi sérstöðu.

Þar var öldum saman eini verzlunarstaðurinn á Suðurlandsundirlendinu og stærsta verzlun landsins. Þangað streymdu menn hvaðanæfa í viðskiptaerindum. Þjóðvegur lá með sjónum eftir endilöngum hreppnum. Hér varð því miðstöð fjölbreytts þjóðlífs, menningarstrauma og viðskipta. Hér brotnaði bylgja erlendra áhrifa á tímum einokunarverzlunar og danskrar selstöðuverzlunar, en þau áhrif ristu ekki dýpra en svo, að Eggert Ólafsson heldur því fram í Ferðabók sinni, að í engri sveit á Íslandi, sem liggur jafnnærri kaupstað og Flóinn, sé málið talað jafnhreint og óbjagað og þar. Og þó að margt misjafnt megi segja um verzlunina fyrr á tímum, þá er því ekki að neita, að sumpart í skjóli hennar og á hinu leitinu í andstöðu við hana urðu Eyrarbakki og Stokkseyri á síðara hluta 19. aldar og framan af þessari öld miðstöðvar mikils menningar- og athafnalífs.

Þetta er sjónarsvið þeirra söguþátta, sem hér fara á eftir, landið, sem jarlssonurinn af Gaulum nam og byggði sér og niðjum sínum til handa í dögun íslenzkrar sögu.

Leave a Reply