004-Þjórsárhraun

004-Þjórsárhraun

Úti fyrir ströndinni liggur breitt skerjabelti um 4-7 hundruð metra út frá landi, yfir að líta sem úfið hraun, er fær mildaðan svip af brúnu þangi og þara. Þar skiptast á óteljandi sker og flúðir, rif og grandar, rásir, lón og pollar í endalausri fjölbreytni. Þetta er fjaran, iðandi af lífi, þar sem síkvik sæalda rís og fellur án afláts, vettvangur hinna stórfenglegu átaka lands og sjávar, hraunhrynjaðrar strandar og æðandi brimróts. Hingað sendu rammar landvættir endur fyrir löngu megintraustan útvörð fram á fertugt djúp, Þjórsárhraunið mikla, sem breytti svipmóti landsins og staðháttum á stórum svæðum og einnig hér. Því skal staldra lítið eitt við sögu þess.

Þjórsárhraun er talið hafa komið upp úr mörgum eldvörpum eða gígaröð, sem lá yfir Tungnaá langt inni á Landmannaafrétti. Þá var Suðurlandsundirlendið risið úr sæ til svipaðrar hæðar og það hefir nú, en jarðvegur lítt myndaður og gróður skammt á veg kominn. Hraunið rann niður með Tungnaá og síðan farvegi Þjórsár. Kvísl úr því brauzt ofan í Þjórsárdal. Það breiddist yfir mestan hluta Landssveitar, sneið af Gnúpverjahreppi og mikinn hluta Skeiða. Því næst flæddi það yfir allan Flóa, að undanskildum ásum Villingaholtshrepps og einstökum holtum hér og hvar, og rann loks í sjó fram nokkru lengra en nú eru yztu sker á allri ströndinni austan frá Loftsstöðum og út að Ölfusárósi. Þetta hraunflóð er hið mesta, sem menn þekkja til í víðri veröld, og hefir allt komið upp í einu gosi. Sést það glöggt á því, að einkenni þess eru alls staðar hin sömu: basalthraun með stórum, hvítum feldspatdílum og litlum og strjálum ólívínkristöllum, gulum að lit. Mér eru minnisstæðir þessir hvítu dílar á grjótinu í hrauninu fyrir framan túnið á Leirubakka á Landi, þar sem eg hlóð hús og borgir í æsku. Sömu einkenni á grjótinu í Stokkseyrarfjöru sýna, að hvorttveggja er sömu ættar. Hér sannast það bókstaflega, að steinarnir sjálfir tala. Fornmenn kölluðu þetta stjörnusteina.

Hvenær rann Þjórsárhraun? Þeirri spurningu hefir fyrir skömmu verið svarað með nokkurn veginn öruggri vissu. Á stöku stað má sjá undirlag hraunsins, þar sem Þjórsá og Ytri-Rangá hafa brotið af jöðrum þess. f gljúfrunum fast neðan við Þjórsárbrú fann Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur mólag undir hrauninu, þar sem það hafði runnið yfir mýrarblett. Tók hann sýnishorn efst úr mólaginu og sendi jarðfræðistofnuninni Geological Survey í Washington í Bandaríkjunum það til aldursákvörðunar. Aldur mósins reyndist vera 8065 + 400 ár. Þar eð mórinn getur ekki verið nema nokkrum áratugum eldri en hraunið, hlýtur Þjórsárhraun að hafa runnið fyrir hér um bil 8000 árum.[note] Guðmundur Kjartansson: Jarðmyndanir í Holtum og nágrenni í Ritum Landbúnaðardeildar háskólans nr. 11, 1958, 18-19. Um þjórsárhraun hefir samið höfundur ritað rækilega í Árnesingasögu;I 217-225 (Náttúrulýsing Árnessýslu). [/note] Löngu fyrir landnámstíð hefir það verið þakið þykkum jarðvegi og gróðri, mýrlendi og skógi.

Þannig hefir Þjórsárhraun myndað hinn mikla brimbrjót fyrir Eyrum og fjöruna með allri sinni fjölbreytni. Tiltölulega skammt fyrir utan yztu boða dýpkar sjórinn snögglega, og liggur 50 metra dýptarlínan aðeins l½ km. undan landi hjá Stokkseyri. Þar hefir hraunið staðnað í sjó á rennsli sínu, og heitir það Hraunbrún. Inn í hana skerast vik eða víkur neðansjávar, sem sjómenn þekktu nákvæmlega. Voru þær nefndar holur, og var þar oft fiskisælt.[note] Saga Hraunshverfis á Eyrarbakka, 408. [/note] Dýpstu skörðin eða lægðirnar, sem verða í skerjagarðinn, heita sund. Um þau lá leiðin út á fiskimiðin, vandfarin og hættuleg, ef út af bar.

Leave a Reply

Close Menu