You are currently viewing Erindi flutt við vígslu orgelsins í Stokkseyrarkirkju 1942

Erindi flutt við vígslu orgelsins í Stokkseyrarkirkju 1942

Erindi Jóns Pálssonar.

Nú eru 66 ár síðan fyrsta hljóðfærið kom til notkunar í Stokkseyrarkirkju; það var harmoníum er sóknarnefnd kirkjunnar, með hinum kunna héraðshöfðingja og framfarafrömuði, Guðmundi Thorgrímsen í broddi fylkingar kom til leiðar að fengið væri fyrir atbeina I.R.B. Lefolis stórkaupmanns sumarið 1875 og stóð það næsta vetur í Húsinu á Eyrarbakka, en var vígt á Hvítasunnudag 4. júní 1876. Það kostaði kr. 400. – Til þess að sýna hversu nákvæmlega var áætlunin um innheimtu andvirðisins má geta þess, að inn söfnuðust 399,98 aurar og vantaði þá aðeins 2 – tvo – aura til þess að það fengist alt, sem sjá má af samskotalistum þeim, er sóknarnefndin ritaði safnaðarmönnum 27. janúar 1876 og sem ég á í fórum mínum. Sóknarnefndina skipuðu þá þeir Guðmundur Thorgrímsen, Þorleifur Kolbeinsson á Stóru Háeyri, Grímur Gíslason í Óseyrarnesi, Páll Eyjóflsson í Íragerði og Páll Jónsson á Syðra-Seli, og eru nöfn þeirra allra undir tilmælabréfi þeirra um samskotin. Er mér óhætt að fullyrða, að þetta var fyrsti samskotalistinn, sem ég sá og heyrði um getið, en það fyrirkomulag var á fjársöfnun þessari haft, að hvert einasta mannsbarn í sókninni, ungt sem aldrað gæti átt kost á því að leggja hér sinn skerf til þessa málefnis og nýmælis , lágmarkið var 1 – eitt – mark, eða 33 aurar og þaðan af meira; hámarkið var 20 krónur og skrifuðu þeir sig fyrir þeirri upphæð sem mestan áhugann höfðu. Vegna gjaldeyrisskorts og peningaeklu greiddu margir tillög sín með innskrift við Lefoliverslun í stað peninga, sem segja mátti að eigi sæjust í viðskiftum mann á meðal, en að svo hafi verið, má sjá af því, að gefandinn hafi ritað númer þau er þeir áttu í verslunarviðskiftareikningi sínum við verslunina, svo og nöfn sín og upphæð þá er hver og einn lét af hendi rakna, enda gáfu flestir þeirra fyrir sig og heimilisfólk sitt alt, ungt og gamalt. Mátti um þetta segja að “margt smátt gerir eitt stórt”., enda var áhuginn fyrir þessu almennur mjög og mikill. Hins vegar mætti nýmæli þetta nokkrum mótþróa og misskilningi, fárra manna þó, er þá nýlega höfðu flust inn í sóknina. Erjur þeirra út af þessu urðu þó til þess, að halda varð sérstakan fund til umræðu um málið að messu lokinni, nokkurskonar “borgarafund” – eflaust hinn fyrsta austur þar um langan tíma áður og eftir – og urðu umræður svo heitar, að skírskota varð til þess að lokum, hvað ritningin sjálf sagði um það að hljóðfæri mætti yfir höfðu nota til guðsþjónustu í kirkjum sanntrúaðra manna og varð það því síðasta versið í Davíssálmum, sem tók af allan efa um það, hvort hæfilegt þætti, en það hljóðar svo:

Lofið Guð í helgidómi hans, lofið hann í hans voldugu festingu
Lofið hann fyrir máttarverk hans, lofið hann eftir mikilleik hátignar hans
Lofið hann með lúðurhljómi, lofið hann með hörpu og gígju
Lofið /hann með bumbum og gleðidansi, lofið hann með strengleik og hjarðpípum
Lofið hann með hljómandi skálabumbum, lofið hann með hvellandi skálabumbum
alt sem andardrátt hefir, lofið drottinn! Hallelúja.

Andstöðuraddirnar þögnuðu og þeir, sem háværasti höfðu áður verið og héldu sér einhvern voða búinn, trúarlífi sínu og sinna, urðu nú með í samskotunum sem aðrir.

Til sannindamerkis um það hver áhrif það hafði þegar á næsta hausti, að orgelið var komið í kirkjuna, söngurinn orðinn fegurri og fjölbreytilegri, má geta þess, að fjöldi manna í sókninni, sem lifað höfðu um mörg ár án hjónabands, og virtust afhuga því fyrir löngu, að gifta sig, tóku sin nú til og giftu sig í snatri. Segja mátti, að haustið alt, 1876 var ein samfelld brúðkaupsvígsla og veisla: hjónaleysi mörg, sem komin voru um sextugsaldur eða þar yfir, urðu nú svo hrifin af nýbreytni þessari, að þá fyrst, eftir að orgeli kom, virtist tilhugalíf þeirra vera endurvakið og vildu þau nú endurnýja öll sín heit hvort við annað með hátíðlegri athöfn í kirkjunni, undir söng með strengleik og hljómandi gígju og hvellandi bumbum!

Stokkseyringar áttu jafnan bæði áður en kirkjan á Eyrarbakka var vígð, 14. des 1890 og eftir það, ágætis prestum á að skipa, en þeir voru þessir um 80 ára skeið: Séra Björn Jónsson var þar 1862, og áður en hann varð veikur mjög skyndilega þá er hann var að flytja stólræðu sína í kirkjunni 1865 og andaðist í ársbyrjun 1866. Var séra Páli Ingimundarsyni í Gaulverjabæ þá falið að gegna prestþjónustu allri unz séra Páll Jónsson Matthiasen var veitt brauðið og gegndi hann því til ársins 1873, en þá fékk séra Gísli Thorarensen frá Felli í Mýrdal veitingu fyrir því, en varð brákvaddur á jóladaginn sama árið, 1874, þegar hann bjóst til kirkjugöngu úr Stokkseyrarstofu þann dag.

Tólf ára tímabil þetta var því tilbreytingasamt mjög um prestsþjónustu skipaðra presta þar í kallinu og gegndi sér Páll Ingimundarson störfum þeirra þegar á milli var, en svo fékk séra Jón Björnsson veitingu fyrir brauðinu 14. ágúst 1875, en kom þangað eigi fyrr á fardögum 1876. Hann var því sá er vígði orgelið 4. júní þá um sumarið, sem áður er getið og þjónaði hann brauðinu uns hann féll frá með soglegum og skyndilegum hætti 2. maí 1892. Síðan voru þeir prestarnir: Séra Ólafur Helgason og séra Gísli Skúlason þar hver eftir annan og hinn síðarnefndi er hér enn. Stokkseyrarprestakall hefur jafnan verið talið meðal bestu prestakalla landsins, eigi aðeins vegna teknanna, heldur og engu síður vegna þess, hversu merkir klerkar þar hafa jafnan verið, áður fyrri stjórnskipaðir en í seinni tíð kjörnir af söfnuðinum sjálfum; Þeir hafa allir verið , það ég veit, áhugasamir um málefni kirkju og kristindóms, ræðuskörungar og valmenni. Sönglíf safnaðarins og hefir því jafnan verð ómetanlegur styrkur að starfi þeirra og þeir stutt það með ráðum og dáð. Þetta eru margra ára kynni mín af þeim og því vildi ég eigi að þeim væri gleymt í sambandi við þetta mál.

Það er engin nýjung nú á tímum þótt gott og vandað orgel sé fengið í kirkjur en það var áreiðanlega nýjung þá fyrir 66 árum, að nokkrum kæmi það til hugar.. Það var og nýung að fram kæmi tilboð um það að veita 18 ára pilti, Bjarna Pálssyni ókeypis kennslu einnar mikilfengustu konu hér á landi, ungfrú Sylvíu Thorgrímsen (síðar frú Ljunge)

Þar sem orgelið var geymt í “Húsinu” á Eyrarbakka veturinn 1875-76 varð Bjarni að fara þangað úteftir og ávalt gangandi tvisvar og þrisvar í viku, hverri til æfinga og yfirheyrslu, því ekkert hljóðfæri var þar til þessa né annars og taldi hann það eigi eftir sér.

Ég var á 10. árinu, þegar Bjarni bauð mér „út á Bakka” til þess, 14. október 1875, að hlusta á æfingar hans þar þann dag. Ég sat sem steini lostinn við hlið hans allan daginn og mátti segja að ég vissi ekkert í þennan heim né annan. Svo hrifinn var ég og gagntekinn af hinum undirfögru tónum þótt aðeins um einföldustu æfingar væri að ræða, fingrasetningar og tónstigar upp og ofan, en engin kóralverk, Synfóníur eða passacaglíur og er kvöld leið, og við ætluðum að hefja heimgönguna sungu þær Thorgrímsensystur fyrir okur mörg lög með undirleik ungfrú Ástu Thorgrímsen á Fortepiano og að lokum tóku þær fram spiladós sína, en leikin voru á 6 undurfögur lög. Var þetta spiladós sú er Magnús gamli smiður í Garðbæ gerði svo vel við að allir undruðust nákvæmni hans, en hann sjálfur hafði eigi hugmynd um hvað var en hélt að það væri saumavél, sem hann hafði verið að gera við og sagði því: Saumar hún annars ekki nógu vel, sú arna?

Veturinn 1878-79 var Einar Einarsson frá Laxárdal í Hrunamannahreppi með lítið harmóníum heima hjá okkur á Syðra Seli (Einar var faðir Sigurðar Hlíðar alþingismanns og lengi organisti í Hafnarfirði) og lærði ég þá að þekkja nóturnar á því hljóðfæri, enda vaknaði þá hjá mér löngun til að læra meira. Fór því móðir mín á fjörurnar fyrir mig við föður minn og Bjarna um það, að ég fengi að fara fram í Stokkseyrarkirkju „milli gegninga” einu sinni eða tvisvar í viku og var það mál auðsótt því Bjarni sagði, að sín gæti mist við, og þá væri enginn til, sem með orgelið kynni að fara. En að lýsa kuldanum sem í kirkjunni var um þessar mundir má best sýna með því, að mér finnst enn ég finni kulinn í fingrunum, enda varð ég oft að standa upp frá hljóðfærinu í miðri æfingu og berja mér með höndunum um búk allan uns kuldinn hvar í bili, en byrja svo þar sem frá var horfið með hinn hluta æfingarinnar. Námið sótti því seint en að hætt við það kom mér aldrei til hugar.

Það varð því eigi fyrr en 5. júlí 1822, að mér var falið að aðstoða Bjarna bróður minn eða koma í hans stað meðan hann var til altaris þann dag og fór sú árás mín á hljóðfærið eftir áætlun. Síðan var mér falin aðstoð þessi , þegar þess þurfti við á ári hverju, eins ég varð að taka þetta straff að mér 27. febrúar 1887, en þá var Bjarni fallin frá fyrir þrem dögum, með óvætum hætti og sorglegum mjög, bæði fyrir mig og aðra.

Árið 1890, hinn 14. desember var k vígð, eins og áður er sagt. Eftir það tók ég við organistastarfinu þar, en Ísólfur bróðir minn á Stokkseyri þangað til hann fluttist hingað suður 1910, en síðan Gísli bróðir okkar, sem enn gegnir því starfi, þótt aldraður sé. Hvort Páll Ísólfsson hafi aðstoðað föður sinn í þessu starfi við og við veit ég ekki, en þegar hann var kominn hingað var hann í ýmsum stöðum við verslun og var byrjaður á að læra prentiðn hjá David Östlund, uns hann hóf ferð sína, 13. september 1913, með togara áleiðis til Leipzig til þess “að læra á orgel” þá tæplega tvítugur að aldri. Kennari hans var nú annars hinn heimsfrægi orgelsnillingur Karl Straube. Að hvaða liði sú kennsla varð honum, er mörgum kunn. En 6. júní 1926 tók hann við organistastarfinu í Fríkirkjunni. Hætti ég þá öllum tökum á því og sá þá og reyndar löngu áður – hve langt ég stóð og hafði staðið að baki flestra annarra í þeim efnum.

Það sem ég hefi nú um þetta sagt, er vitanlega aðeins ágrip af því sem um það mætti segja, enda hefi ég ítarlega á það minnst í sambandi við ýms málefni önnur er Bakkann varða, Stokkseyri og Eyrarbakka, en áður en lýk við athugasemdir þessar vildi ég benda á fáein atriði til athugunar og hugsunar.

Þegar orgelið í Stokkseyrarkirkju var vígt, 4. júní 1876, fór sú athöfn þannig fram:

Sóknarnefndin sté upp á pallinn fram undan grátunum og hafði faðir minn, Páll Jónsson á Syðra seli orð fyrir henni; lýsti hann með fáum orðum fyrir söfnuðinum, að nú væri orgelið fengið og yrði það tekið til notkunar í fyrsta sinni við guðsþjónustu þá, er fram ætti að fara þá rétt á eftir. Hann þakkað Thorgrímsen og dætrum hans fyrir frumkvæði þeirra og framkvæmd á þessu máli, safnaðarfólki öllu fyrir það og ýmsum utansóknarmönnum, hve vel þeim hafi farist í fjársöfnunni og óskaði þeim allra heilla. Hinir 4 samnefndarmenn hans stóðu við hlið hans á meðan, 2 til hvorrar handar. Síðan sté sóknarpresturinn, sér Jón Björnsson fram innan við gráturnar eftir að sungið var 1. versið í sálminum nr. 56 í Viðbæti sálmabókarinnar: Göfga þú, sönglist glöð og há, guðs miskunsemd og náð. Að lokinni stuttri ræðu prestsins, en andríkri mjög og áhrifamikilli mjög var þjóðsöngurinn sunginn (fyrsta versið) og að lokum versið Son guðs ertu með sanni og stóðu allir úr sætum sínum á meðan. Stólræða prestsins fjallaði og mjög um þetta efni og var messuuphafssálmurinn sunginn “Vér allir trúum á einn Guð”. Kirkjugestir allir stóðu upp úr sætum sínum á meðan og einnig meðan stólversið “Gef, þú, að móðurmálið mitt” var sungið. Var það Thorgrímsen og dætur hans, sem ráð höfðu fyrirkomulagi þessi í samráði við organistann, Bjarna Pálsson. Hátíð þessi, þó stutt væri, hefir sennilega lengi verið í minni hinna mörgu kirkjugesta, enda var hún þrungin eldmóði miklum og alvöru.

Það var eins og nýtt fjör og líf færðist í félagslíf allt hér um slóðir eftir þetta.: Söngfélögin voru stofnuð, 2 á hvorum stað. Á Stokkseyri var annað þeirra fyrir blandaðar raddir, en hitt fyrir börn; stofnaði Bjarni þau bæði og hélt vel við líði meðan hans naut við og síðan Ísólfur með sama hætti. Á Eyrarbakka var stofnað söngfélagið Bára, en Guðmundur skáld Guðmundsson orkti kvæðið til: Lát söng þinn svella Bára, og syng þú vel og lengi” Var það með blönduðum röddum og hélt það opinbera samsöngva oft á ári. Var Sigfús Einarsson meðal annarra meðlima þess áður en hann fór í skóla, og Geir Sæmundsson frá Hraungerði var þar einsöngvari oft á tíðum, svo og Steingrímur Johnsen frá Reykjavík tvívegis, sem ég man eftir. Engum söngvara, hvorki einsöngvurum né öðrum var borgaður einn eyrir, enda var inngangseyrinn aldrei hærri en 35 aurar, hvorki við samsöngva né aðrar skemmtanir og ávalt var það, sem inn kom látið ganga til einhverrar líknarstarfsemi eða þjóðlífsfyrirtækis, t.d. til sjóðstofnana eða styrktar þeim. Hitt félagið var karlakórssöngfélag með rúmlega 20 söngvurum, sem báru af flestum þeim innlendu mönnum að fegurð radda og styrkleika; einkum voru það bassarnir sem voru ágætastir t.d.á Stokkseyri, Jón í Íragerði og Einar bróðir hans í Aldarminni, en á Eyrarbakka, Sigurður Eiríksson regluboði og Guðmundur Oddgeirsson. Meðal kvenna voru þar og ágætar raddir, þeirra frú Eugenin Nielsen, Guðmunda dóttur hennar, Elínar Sigurðardóttur, Ástu Guðmundsdóttur og Halldóru systur hennar, frú Kristínar Blöndal o.fl. Kirkjulega tímaritið „Verði ljós” lét þess getið eitt sinn að Hátíðarsöngvar Sér Bjarna Þorsteinssonar muni hafa heyrst sungnir hér eystra tveim árum áður en annarsstaðar á landinu, meira að segja hér í Reykjavík, enda voru þeir æfðir og sungnir svo, að þeir voru notaðir þegar á fyrsta ári á öllum hátíðum ársins.

Frá opinberum samsöngvum hér eystra hafa varðveist söngskrár nokkrar er sýna, að allmikið var í ráðist með sönglagaval, oft með undirleik á Píanó eða harmóníum. Fyrsta veturinn eftir að orgelið kom í Stokkseyrarkirkju, 1876-77 og síðan fram um aldamóti voru kveldsöngvar haldnir og skólabænin tónuð og vil ég geta þess hér til gamans, að svo mikil áhersa var á lögð um það, að engin nóta úr því sem syngja átti við kvöldsöngva þessa, varð ég að hlaupa í skarðið bæði hér á Stokkseyri (á aðfangadagskvöld 1895) og á Eyrarbakka (á gamlaárskvöld sama vetur) og tóna skólabænina í stað prestsins, séra Ólafs Helgasonar, sem þá var, eins og hann komst að orði, „þegjandi hás”.

Til þess ennfremur að sýna hversu mikill áhuginn var á þessum efnum vil ég geta annars smáatriðis einnig til gamans; það var á Eyrarbakka veturinn 1892: Ég fór út í Þorlákshöfn á laugardagskvöldi, en hafði boðað til söngæfingar daginn eftir, á sunnudaginn kl. 2. Við vorum 3 saman. og allir í söngfélaginu Bára, en svo illa tókst til, að við komumst ekki fyrir ána á Óseyrarnesi fyrr en 1/2 tíma eftir að áætlað var. Þegar af ánni kom, mættum við söngfélaginu öllu þar austur á sandinum og lét það ófriðlega mjög að okkur fyrir það að hafa boðið til æfingarinnar á tilteknum tíma, en eigi hirt um að mæta sjálfir. Þvílíks áhuga hefi ég oft sakanað síðan og býst við, að fleiri hafi hið sama að segja.

Þá var þar og stofnað Lúðrafélag, leikrit mörg og megingóð leikin þar oft á hverjum vetri við mikla aðsókn. Félagslífið hér eystra var fjölbreytt mjög um þessar mundir, mörg félög stofnuð og sjóðir, sem eigi vor til áður, en allt miðaði að framförum og félagssamheldni hinni bestu svo sem:

Lestrarfélag Árnessýslu, sparisjóður Stokkseyra, Sjómannasjóð Árnessýslu, Skipaábyrgðasjóður, Kvenhjúkrunarfélag Eyrarbakka, Sjómannaskóli Árnessýslu o.fl. Framhald stofnana þessara er ég ókunnugur svo, að ég geti eða vilji á þær minnast frekar, og bið afsökunar á þessum útúrdúr.

Með skírskotun til þessa, er ég hefi nú í fáum orðum sagt, vil ég vekja upp þá spurningu mína, sem oft hefir í huga minn komið nú hin síðari ár, hvort þetta – einmitt orgelkaupin til Stokkseyrarkirkju 1876 – hafi eigi verið brautryðjandi til ýmissa þeirra félagsstofnana og framkvæmda þess er ég nú hefir nefnt og ýmislegs annars góðs. Hvort það hafi eigi verið eitt hið fyrsta frækorn, er sáð var á mestu harðindaárum 19. aldarinnar – andleg séð, en síðan varð vorgróður 20. aldarinnar fengi að njóta ávaxtanna af, frækorn sem síðar fluttist héðan til allra áttir, víðsvegar um landið. Hver veit? Eða hvar var félagslífið þroskaðra og framkvæmdirnar meiri, en einmitt á þessum stöðum um þær mundir? Getu nokkur maður bent mér á annað?

Hér á Stokkseyri var það sérstaklega ungur maður einn, fullur áhuga fyrir hvers kyns framförum, hugljúfi hvers manns og hrókur alls fagnaðar, en fyrir annarra atbeina og aðstoð góðra manna, átti mestan þátt í því að glæða áhuga ungra manna og einnig margra hinna eldri, fyrir flestum þeim málum er ég hefi þegar minnst á, en hans naut aðeins um 10 ára skeið, og er ég þess fullviss að hefði hans lengur notið við, væri hér ýmsu öðruvísi háttað, en etv. er. [Hér talar Jón um Bjarna Pálsson bróður sinn; innskot, Bjarki]

Hinsvegar var svo “Húsið” á Eyrarbakka og þeim sem þar réðu húsum, er einu og öllu voru frumherjar alls góðs og hvetjendur til allra dáða, síst á sviði sönglistarinnar, góðs félagslífis og framkvæmda þeirra mála, eða því hnigu að fegra og bæta mannlífið. Þar brann arineldur sá, er margir ungir menn og aldraðir sátum lengstum við, vermandi hugi sína og hjörtu við háleitar hugsanir og hjartfólin hugðarefni. Þar skein jafnan við skæra ljós fegurðar og friðlegrar iðkana á mörgum sviðum, enda varð hún þar fyrst til hugmyndin um stofnun barnaskóla hér eystra og framkvæmd þess máls, árið 1852, aðeins 5 árum eftir að hin merku og megingóðu Thorgrímsenshjón fluttust hingað suður.

– Já sjáið þér, kæru Stokkseyringar, sveitungar mínir, gamlir og nýir, að fá, fyrir atbeina nokkurra vina yður og héraðs þessa, gott og vandað orgel í kirkju yðar. Þetta eru etv. engin stórtíðindi eða státaralegur viðburður, síst svo, að neinn þeirra, er að því hafa staðið vilji láta sýnast svo; tilgangurinn er annar og áreiðanlega mikilsverðari og þýðingarmeiri, sem sé sá, að hvetja yður til starfs og dáða í því, að fegra og glæða kirkjusöng yðar, vekja áhuga yðar og annarra fyrir sönnum kristindómi og til enn meiri kirkjurækni. Þegar þér því lítið í anda til hins litla vísis, sem lagður var með almennum áhuga fyrir því að keypt væri orgel í kirkjuna fyrir 66 árum og sjáið meið þann er að þeim vísi hefir sprottið, er ég viss um að þér fagnið því nú, að fengið er gott og vandað hljóðfæri í kirkju yðar.

Megi svo hinir björtu og mildu tónar þess fylla hvelfingu húss þessa samhljómi fagurra óma söngsins, lyfta hugum og hjörtum safnaðarins um ókomin ár aldir til hæða, öllum óbornum hans til blessunar og trúarstyrkingar.

Reykjavík 27. júní 1942,
Jón Pálsson

(Að lokum lesið kvæði Guðmundar Guðmundssonar skálds til Söngfélagsins Bára á Eyrarbakka frá 1892.)

Leave a Reply