Andrés Ásgrímsson verslunarmaður á Eyrarbakka bjó í Frambæjarhúsi, er svo var nefnt, og enn stendur á Litluháeyri. Hann var aðalforstjóri utanbúðar við Lefoliiveerslun og yfirmaður „erfiðisfólksins“, en það var margt. Þótt hann væri vínhneigður nokkuð, sá það ekki á vinnubrögðum hans eða stjórnsemi. Húsbændur hans höfðu hann í hávegum fyrir reglusemi hans við störfin, erfiðismennirnir dáð hann fyrir drengskap hans og hjálpsemi og viðskiftamennirnir trúðu honum vel til þess að meta vöru þeirra rétt og vigta hana. Andrés var meðalmaður að vexti, rjóðleitur í andliti, með jarpt skegg á vöngum. Kona hans var ágætis kona, Málfríður Þorleifsdóttir sem áður segir, en síðar átti hún Jón Sveinbjarnarson frá Kluptum í Hrunamannahreppi og bjuggu þau lengi stórbúi miklu að Bíldsfelli. Þau voru foreldrar Sveinbjarnar Jónssonar hæstaréttarmálflutningsmanns, en börn þeirra Andrés og Málfríðar þessi:Þorleifur pípugerðarmaður, Ingveldur kona Helga Skúlasonar er lengi bjuggu að Herríðarhóli og Andrea, er átti Gunnar Þórðarson frá Hala í Holtum. Hún andaðist 2. ágúst 1920. Dóttir Jóns Sveinbjarnarsonar og Málfríðar er einnig Málfríður kona Kolbeins Högnasonar í Kollafirði og Herdís, Kona Sigurður Oddssonar leiðsögumanns er einnig dóttir Jóns.