Hann var kvæntur Evlalíu, systur Hannesar á Skipum. Þau Aron og Evlalía eignuðust 16 börn, og dóu 8 þeirra á barnsaldri. Fátæktin hjá honum var eigi minni en hjá Friðriki bróður hans og jafn treglega gekk það fyrir þeim báðum með formennskuna og aflabrögðin. Heimili þeirra, svo og heimili Jóhannesar á Miðkekki (nú Svanavatn) Jónssonar, bróður Þorsteins „Eyjalækni“ voru hin allra sárfátækustu í hreppnum; þau nutu einvers sveitastyrks, en ekki mun hann teljast mikill nú á tímum. Er því alveg undravert hversu börn þau er þessir menn eignuðust komu sér áfram síðar og mönnuðust vel, enda voru þau vanin við vinnu og voru vitanlega kjarninn sá eftirlifði. Hin börnin dóu þó ekki úr hor, heldur ýmis konar veikindum, einkum hinni svokölluðu ensku sýki og mislingum (1845-1846)(þetta nær vitanlega ekki til baran Arons tímans vegna) svo og úr bólunni, en vitanlega þó skorturinn hafi veikt mótstöðuaflið móti þvílíkum faröldrum, enda engan lækni að hafa nær en austur á Móeiðarhvoli.
Aron var sjálfur „ljósa“ flestra barna sinna; annars var það móðir mín sem „tók við“ börnum á heimilum þessum og mörgum öðrum og fór heim til sín með þau til þess að halda þau „sængurvikuna“ og sennilega vitanlega án nokkurrar borgunar. „Lærð“ yfirsetukona var þar engin í þessum þrem sýslum, nema Ingibjörg gamla Guðmundsdóttir á eystri Loftstöðum og læknir enginn, nema Skúli á Móeiðarhvoli.
Það hefði áreiðanlega verið velgerningur gagnvart konum þessara manna þriggja að vana þá svo sem 5-6 árum eftir að þeir kvonguðust og e.t.v. gagnvart börnunum líka.
Aron var líkur Friðrik bróður sínum, en alls ekki vínhneigður sem hann. Aron og Friðriks er vitanl. getið í Bergsætt. Aron f. 16. des 1831, d. 30. júlí 1890, en Friðrik 22. nóv. 1835, d. 1. okt. 1908, 73 ára að aldri.