57-Kennslustundin

Eins og kunnugt er, þykir innsigling stórskipa á Eyrarbakkahöfn bæði erfið og hættuleg og eigi fær öðrum en seglskipum, er þó mega eigi vera stærri en 3-4 hundruð smálestir. Þau voru eigi svo stór, skipin sem sigldu þangað, nú fyrir 40-50 árum, en samt sem áður urðu þau að bíða byrjar, jafnvel allt að þrem vikum, utan skerjagarðsins, án þess að viðlit væri að sigla þeim inn á höfnina, en því hamlaði brimið, sem hvergi annars staðar við strendur landsins er meira og ægilegra en þær, sé annars um hafnir að ræða. Sá var og enn meiri annmarki á þessu, að menn urðu bæði að sæta sjávarföllum og hagstæðri vindstöðu. Skip komast hvorki inn né út nema í háflæði, og eigi skipið að sigla inn á höfnina, verður vindur að standa af vestlægu hafi, en standa af landi, þ. e. vera norðanátt, ef út á að sigla.

Nú stóð oft svo á, að þá er skip var komið nærri landi og vildi sigla inn, að sjór var ládauður að mestu, en norðanátt var á, varð það því oft og einatt að bíða þess, að vindur snerist til suðvesturs og það varð oft svo í sólfarsvindi, að útrænu gerði um miðjan daginn og kom þá leiði fyrir skipið inn höfnina. En þó gat stundum borið svo við, að lágsjávað var meðan útræna stóð yfir, en það var ekki lengur en um eina eyktarstund eða tæplega það.

Til þess að ráða bót á þessum vandkvæðum, var eimbátur fenginn til þess að draga skipin inn og út, og gerði þá ekki svo mikið til um vindstöðuna, heldur það, hvort sjór var brimlaus og leiðin þá fær.

Fyrir báti þessum réði hafnsögumaðurinn í fyrstu með aðstoð vélstjóra, sem venjulega var danskur maður. En brátt þótti bátur þessi of lítill, og var þá fenginn annar stærri, ígildings eimskip eigi allstórt. Hét það Oddur og mun hafa verið 30-40 smálesta. skip að stærð. Varð nú áhöfn skips þessa dönsk, að minnsta kosti allir yfirmenn, svo sem skipstjóri, stýrimaður og vélstjóri. Hinn síðastnefndi hét Feldtmose, maður um þrítugsaldur, allra mesta sakleysiskind, einfaldur nokkuð og trúgjarn, eða eins og margir Danir fá orð fyrir að vera. Vitanlega kunni Feldtmose ekki eitt einasta orð í íslenzku til að byrja með, en hann var vélstjóri á eimbátnum Oddi og var því, þegar fram í sótti, farinn að skilja einstök íslenzk orð, þótt tornæmur væri hann nú á þau. En eftir því sem lengra leið, fékk hann mikla löngun til þess að læra íslenzkuna og fór því að reyna að verða sér úti um góðan íslenzkan kennara. Þótt fjöldi Eyrbekkinga þættist kunna dönsku, – því „auðlærð er ill danska“, – þá urðu þeir ekki margir, sem vildu taka að sér að kenna Feldtmose íslenzkuna, sögðu sem var, að þótt þeir gæti Ileytt sér í dönskunni, kynnu þeir ekki sitt eigið, móðurmál svo, sízt málfræðilega, að þeir treystu sér til þess að taka að sér þvílíka tungumálakennslu, sem hér væri um að ræða, hvað þá aðra og vandasamari. Aðrir báru fyrir sig tímaleysi og enn aðrir beinlínis því, að þeir nenntu því ekki.

En Feldtmose hafði hugsað: sér og jafnvel ákveðið, að hann skyldi læra íslenzkuna, hvað sem tautaði. Hún væri svo undurfögur og það gæti hugsazt, að hann hefði eitthvert verulegt gagn af því síðar meir, ef hann lærði hana vel. Að vísu hafði hann heyrt, að hún væri alls ekkert lamb að leika sér við. Hún væri meira að segja mjög þung og erfið! En þetta dró ekkert úr áhuga hans. Hann sótti því fastar á og taldi sjálfum sér trú um, að menn væri að hafa sig ofan af þessu af því einu, að þeir nenntu því ekki. Hann gekk því á milli manna og bað þá og særði um að reyna, þótt ekki væri nema nokkrir tímar á mánuði, að vita, hvað þeir kæmust langt með: sig í þessu, Ekki skyldi standa á honum, því að hann hefði brennandi áhuga fyrir lærdómnum, væri sæmilega greindur, næmur og skilningsgóður. Þetta væri naumast erfiðara fyrir sig en öll vélfræðin, sem hann hafði pælt í gegn um og tekið próf í með aðdáun! Íslenzkan væri allra mála auðlærðust, sagði hann. En hann fékk engan kennara, hvernig sem hann leitaði.

Loks kom Feldtmose til mín og sárbændi mig um að kenna sér íslenzkuna. Ég var ekki betri en aðrir og þverneitaði, bar fyrir mig hið sama og þeir, að ég kynni ekki íslenzkuna svo vel sem með þyrfti, því ég hefði aldrei í skóla gengið. Auk þess hefði ég aðra tímafreka kennslu á hendi, barnaskólann og orgelkennsluna. En ég sagði honum, að ég skyldi útvega honum ágætan kennara, sprenglærðan Möðruvelling, Guðmund Ögmundsson, sem þá var eins og ég starfandi við Lefoliisverzlun.

Guðmundur Ögmundsson var allra mesti æringi, góður drengur og vel að sér, og tók hann máli mínu hið bezta og sagðist ekki skyldi vera lengi að því að kenna Feldtmose íslenzkuna. Hann lét þess getið við mig, svona í trúnaði, að Feldtmose mundi verða fyrri til að segja sér upp en hann honum og hætta við námið eftir skamma stund. Hitt vildi Guðmundur ekkert um segja, hversu langt kennslunni yrði komið, þá er Feldtmose þættist hafa lært svo mikið, að nú væri nóg komið og óhætt væri fyrir sig að hætta náminu.

Nú var stund og staður ákveðinn, þá er Feldtmose skyldi mæta í kennslustund hjá Guðmundi Ögmundssyni, og varð ég til þess að leiða hesta þeirra saman í fyrstu og kynna kennarann fyrir lærlingnum og þá hvorn fyrir öðrum, og aldrei hef ég séð meiri ánægju og eftirvæntingarsvip skína af andliti nokkurs manns hvorki fyrr né síðar en af andliti og úr augum Feldtmose, þá er hann sá hinn íturvaxna og öldurmannlega kennara sinn tilvonandi, þótt ungur væri og alls ekki neitt sérlega alvarlegur á svipinn til að byrja með, en það breyttist nú bráðlega.

Guðmundur Ögmundsson bauð okkur Feldtmose sæti við borð eitt og lét hann sitja gagnvart sér, en mig á hægri hönd Og nú setti hann allt í einu upp þann alvörusvip, að Feldtmose hrökk við, en Guðmundur bað hann sitja rólegan, því að hér væri engin hætta á ferðum Síðan sneri Guðmundur sér að mér og spurði mig, hvort ég ætlaði að vera viðstaddur, meðan fyrsta kennslustundin færi fram, og kvað ég já við því. Síðan spurði hann Feldtmose, hvort hann væri því samþykkur, og sagði hann svo vera. Eitthvað ókyrrðist samt Feldtmose við þessa spurningu, og virtist mér hann eigi taka henni betur en svo sem Guðmundur hefði spurt hann um það, hvort hann væri því samþykkur, að ég væri viðstaddur, meðan aftakan færi fram! Guðmundur Ögmundsson varð þess var, að Feldtmose ókyrrðist, gekk til hans, lagði hægri hönd sína á vinstri öxl hans og sagði:

„Rólegur, karl minn! Þetta er ekki svo ógurlegt sem þér ef til vill haldið. Við byrjum nú bráðum, og þetta hlýtur að ganga fljótt og vel, því að ég hef hugsað mér að byrja á því allra auðveldasta, aðeins einu orði eða svo, máske stuttri setningu eða málsgrein, sem hvert barnið: skilur, en þér eruð nú ekkert barn! Að vísu geri ég ráð fyrir, að þér kunnið ekki. mikið í má:linu – eða er ekki svo?“

,,Ja, en Det forstaar jeg, men ikke det besværligste!“

„Já, vissi ég ekki. Þá er bezt að byrja á því auðveldasta, því að í raun og veru er íslenzkan alls ekki þung, ef maður byrjar á því allra einfaldasta – er það ekki?“

,,Jo, det er rigtignok, med Tilladelse …..“.

„Já, geymið þér nú yðar vizku þangað til síðar! Við höfum sjálfsagt not af henni þá! Lofið mér aðeins að hafa orðið, Feldtmose minn! Eitt orð til að byrja með, – auðvelt orð – afskaplega létt – er það ekki?“

,,Jo, og – og ….. “

,,Nú, nú, lofið mér að tala! Æ, og þar gleymdi ég orðinu! Látum okkur sjá! Auðvelt -, létt orð, já, þarna kom það! Nú ætla ég að byrja á því að biðja yður, Feldtmose minn, að bera fram eitt orð, afskaplega létt. Það er varla til nokkurt orð í íslenzku eins létt, – og takið nú vel eftir! Já, það er annars rétt, – það er einn staður í því, sem Danir eiga erfitt með að bera fram, svo rétt sé eða við Íslendingar getum verið ánægðir með. Það er stafurinn „err“! Hvernig berið þér hann fram?“

Foldtmose lízt ekki á blikuna og svarar engu.

„Það var errið! Reynið þér nú að bera það fram! Segið þér „err!“

,,E – e-g, e-g … !“

„Nei, þetta er bandvitlaust! Reynið þér aftur! Err! Sigið þér

err“

,,Já, eg-g!“

,,Vitlaust! Sjóðandi vitlaust! Lofið mér að sjá tunguna í yður!

Er hún ekki í lagi? Ég meina, er nokkur rifa upp í hana eða gat á henni?“

Feldtmose réttir út úr sér tunguna! Guðmundur skoðar hana

og segir:

,,Allt í lagi! Í stakasta lagi! Og segið nú err!“ ,,E – g – g!“

„Hvað er þetta maður?! Ég sagði ekki egg, heldur err! En látum okkur sjá! Komið þér með tunguna snöggvast aftur. Ég ætla að sýna yður, hvernig þér eigið að beita tungunni, þegar  þér segið err. Sko! Þér eigið að láta tungubroddinn eða tungubleðilinn nema við tennurnar í efri góminum, en ekki láta hana vera að flækjast niðri í koki, eins og þér ætlið að gleypa hana! Svona! Reynið nú að segja err! Gott og skýrt err!“

,,E – gð – E – ðg!“

„Nei, nú er nóg komið! Við hættum við þetta, en það getur skeð, að það batni, þegar við tökum orðið allt, jafnvel þótt þessi leiðinlegi stafur sé í því, en við því verður ekki gert. Og nú kemur allt orðið! Hvernig berið þér fram orðið „Rosmhvalaneshreppur“ ?“

,,Ha? – Ogosmvalaness?“

,,Grunaði mig ekki! Sjóðbullandi og bandvitlaust! Ég sagði:

Rosmhvalaneshreppur! !“

,,Já, – O-g-osm-valaness!“

,,Aftur! Það var reyndar jafnvitlaust sem hitt og engu betra.

Reynið aftur!“ ,,E-og-osm-valaness-egeppög!“

„Mikil skelfing er að heyra þetta! Hvert í veinandi! Heyrið þér! Það: á að vera h – fyrir framan vaffið! Við skulum sleppa þessu Rosm, en hafið nú háið á réttum stað og segir: ,,hvalanes“! Há fyrir framan vaffið! Hvalanes!“

,,Já, Ogsmvalaness – Ogsmvalanessreppög!“

,,Nei, vitlaust! Alltaf að versna! Munið eftir háinu!“ ,,Ja, nu kan jeg nok: Ogsmvalaness-reppög-há!“

„Þarna kom það! Nei, góði Feldtmose minn: Framburðinn Í íslenzku getið þér ekki lært! Það sé ég! Eða finnið þér það ekki sjálfur? Við skulum þá hætta við framburðinn alveg í þetta sinn og taka annað miklu auðveldara fyrir. Ég ætla nú að láta yður þýða stutta, íslenzka setningu á danska tungu. Haldið þér ekki, að þér getið það? Bara fáein orð, létt og skiljanleg. – Þér eigið að þýða þau á dönsku, yðar eigið móðurmál!“

„Ja, jeg tror jeg kan nok finde ud af det! Jeg kan jo en hel Del!“

„Finna út?! Haldið þér, að þér þurfið að leita einhverra ráða með það og megið þýða þau á hvern hátt, sem yður sýnist? Nei, vinur minn. Svo auðveld og óbrotin er íslenzkan okkar, að að er ekki hægt að þýða hana nema á einn veg. En sjáið nú til! Setningin, sem þér eigið að þýða, er svona: ,,Hann ætlar að þræsa í öfugan klósigann með kvöldinu!“

,,Hva beharr! Rejse? – Hvorhen? – I Aften?!“

„Nej, vi rejser ikke nogetstedshen. Ég sagði: Hann ætlar að þræsa í öfugan klósigann með kvöldinu! Þetta hljótið þér að: skilja? Er það ekki?“

„Nej, maaske ikke fuldstændig rigtig. – Men nu skal De have Tak for Undervisningen ….. og ….. “

„Nei, nei bíðum við, því….“

,,Nej! – Nu ikke en Döjt mere! Tak og – Farvel! – Farvel, mine Herrer!“

Kennslunni var lokið!

Leave a Reply