41-Sveitablöð

Það var í sambandi við bindindisstarfsemina og stúkulífið: á Eyrarbakka, að árið 1890 var stofnað handskrifað sveitablað, tvær ritaðar síður í arkarbroti, og sent um alla sýsluna til lesturs.

Blað þetta hét ýmsum nöfnum, svo sem Gangleri, Kveldúlfur og Bergmálið. En því voru nöfnin svo breytileg og mörg, að ritstjóri þeirra – sá, er þetta ritar – var eigi ánægður með nöfn þessi og breytti þeim því eftir ástæðum, enda var blöðunum skipt niður í ýmsar sveitir sýslunnar. Eitt þeirra var aðeins fyrir Eyrarbakka og Stokkseyri, annað fyrir Biskupstungur og Hreppa, Ölfus og Grímsnes og hið þriðja handa „Flóafíflunum”.

Blöðin komu út fram á árið 1902, en þá fór ritstjóri þeirra þaðan að austan. Þau ræddu um ýmislegt það, er þá var til framkvæmda eða síðar varð, m. a. um sjávarútvegsmál, bjargráð, leiðbeiningar um sjóferðir, vegagerðir frá Eyrarbakka og Stokkseyri upp að Ölfusárbrú, jarðakaup Eyrarbakkahrepps á Óseyrarness- og Flóagaflsjörðum og ýmislegt fleira, en þó einkum bindindismálið.

Þeir, sem í blöð þessi skrifuðu, voru auk ritstjórans séra Jón Steingrímsson í Gaulverjabæ, séra Valdemar Briem, séra Steindór Briem í Hruna, séra Magnús Helgason á Torfastöðum, Brynjólfur Jónsson frá Minna-Núpi, Bergsteinn Jónsson söðlasmiður, Pétur Guðmundsson kennari, Guðmundur Guðmundsson bóksali, Helgi Jónsson frá Bráðræði, þá í Þorlákshöfn, og margir aðrir, meðal þeirra Kristján Jóhannesson, Sigfús Einarsson tónskáld og fleiri.

Blöð þessi voru öllum ókeypis. Komu þau út á hálfsmánaðarfresti um vetrartímann og voru nær eingöngu með hendi ritstjórans. Eru þau nú flest týnd og glötuð, því fæst þeirra komu aftur úr ferðalögum sínum um sveitirnar.

Leave a Reply